3. júlí 2010

Sameiginlegt svekkelsi Afríkubúa

Er hægt að upplifa meiri spennu? Átta liða úrslit í heimsmeistarakeppni, leikar standa jafnir, lokamínúta framlengingar og vítaspyrna dæmd. Að vítapunktinum gengur Gyan, ganverska hetjan úr leiknum við Bandaríkin, og býr sig undir að taka spyrnuna. Tekur tilhlaup og þrumar knettinum í þverslána og yfir. Um alla Afríku hrópuðu menn „Neiiiiii“ á öllum þeim óteljandi tungumálum sem í álfunni finnast.

Undraði mig ekki ef jarðskálftamælar hefðu tekið kipp við þetta sameiginlega svekkelsi íbúa Afríku.

Afríka er næststærsta álfa heims. Í henni eru 53 lönd, ef mig misminnir ekki. Í hverju landi er aragrúi ættbálka og ekki óalgengt að margir tugir tungumála séu við lýði. Borgarastyrjaldir eru vel þekktar í álfunni og óöld á mörgum stöðum.

Engu að síður held ég að í engri annarri álfu heims sé jafnmikla samkennd að finna yfir uppruna sínum. Allir eru Afríkubúar. Og eru stoltir af því. Lýsir þetta sér líklega hvað best í íþróttum. Á yfirstandandi heimsmeistaramóti þá halda bókstaflega allir Afríkubúar með öllum Afríkuliðunum. Allir vildu sjá Nígeríu, Gana, Fílabeinsströndina, Kamerún, S-Afríku og Alsír ná upp úr riðlakeppninni. Engu máli skiptir hvaða liði þú heldur með - Afríkuliðin áttu að komast upp.

Uppskeran var hins vegar rýr, því aðeins Gana náði að komast áfram. Mikið skúffelsi var yfir slöku gengi hinna liðanna. Hafa ýmsir spekingar rætt þetta fram og til baka og benda á ýmis afrísk vandamál sem þurfi að leysa til að álfuliðin standi sig betur næst. Ekki vandamál bundin við Nígeríu eða Fílabeinsströndina o.s.frv. Nei, afrísk vandamál.

Mér er sem ég sæi Hollendinga verða fúla ef Þýskaland dytti snemma úr leik. Ekki mjög líklegt. Ætli Bretar almennt hafi grátið mikið þegar Frakkar urðu sér til háborinnar skammar á HM? Varla.

Nei, við Evrópubúar höldum ekki sjálfkrafa með liði af því að það er evrópskt. Ég held að sömu sögu megi segja um aðrar heimsálfur.

Í Afríkunni, hins vegar, þá er haldið með Afríku.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...