Ég er Makkamaður.
Svo mikill að það nálgast trúarbrögð. Einu sinni var mér sagt að ef ég yrði atvinnulaus hagfræðingur, þá gæti ég alltaf farið að selja Makka. Og myndi standa mig ofurvel, því ég tryði á söluvöruna.
Því miður man ég nú ekki nákvæma dagsetningu. En í október 1990 settist ég í fyrsta sinn fyrir framan Makka. Um leið og ég fattaði muninn á einföldum og tvöföldum músarsmelli, þá varð ég forfallinn aðdáandi. Munið, á þeim tíma voru „ekki Makkar“ músarlausir.
Mér hefur í gegnum tíðina tekist að sannfæra eitthvað af fólki að Makkinn það eina sanna. Ekki veit ég til þess að það hafi valdið neinum vinslitum, nema síður sé.
En, og alltaf skal þurfa að vera undantekning..., hún Tinna Rut, elskuleg dóttir mín, hefur hins vegar þurft að ergja karl föður sinn þegar kemur að tölvumálum.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tók hún ástfóstri við Windows tölvur. Windows af öllum hlutum.
Úff, ég fæ tár í augun við að skrifa þetta... Liggur við að maður fari hreinlega að halla sér að flöskunni...
Nema hvað, maður reynir jú að vísa börnunum sínum á rétta veginn, en auðvitað styður maður við bakið á þeim þótt maður sé ekki endilega sammála. Í fyrra fékk Tinna Rut því „ekki Macintosh“ fartölvu.
Þetta var nokkuð góð tölva, a.m.k. voru „spekkurnar“ fínar, eins og nördarnir myndu sjálfsagt segja. „Acer TravelMate“ heitir gripurinn og svo eitthvað númer sem ég man ekki. Það hefði mátt kaupa fína Makka fartölvu fyrir verð þessarar.
Svo fyrr í vikunni, 18 mánuðum eftir framleiðsludag tölvunnar, koma þau skemmtilegu skilaboð á skjáinn að „harði diskurinn er alveg að gefa sig, vinsamlegast taktu afrit af gögnunum þínum!“
Það var og.
Ég mæli ekki með „Acer TravelMate“ nó-sör-í.
Sjúkdómsgreiningin var síðan staðfest af tölvusérfræðingi fyrr í dag. Harði diskurinn ónýtur. Þar liggur fjörutíuþúsund kall í valnum.
Ekki nema.
En þvílíkt og annað eins endingarleysi. Tölvur eru ekki gefins. Og að skuli þurfa meiriháttar viðgerð einu og hálfu ári eftir framleiðsludag, það er nú alveg ótrúlega skítt.
Það versta er að engum finnst þetta neitt skrýtið. „Svona eru bara tölvur,“ er svarið sem gefið er ef maður álpast til að rífast yfir svona hlutum. „Já, mjög algengt að fá 15-18 mánaða gamlar tölvur með ónýta diska.“ Hvað getur maður sagt við svona löguðu? Hvers konar rusl er eiginlega verið að selja manni?!
Tölvan sem ég skrifa þetta dagbókarbrot á var keypt 2001. Síðla árs, minnir mig. Makki auðvitað, iMac hálfkúla. Hún virkar vel, enn þann dag í dag. Níu ára gömul. Er reyndar hægvirk í myndvinnslu, en annars bara ágæt. Hélt reyndar um daginn að hún væri að gefa sig, en er núna að hallast að því að sökudólgurinn sé utanáliggjandi harður diskur, ekki Makkinn sjálfur. Ég keypti þessa tölvu eftir að hella óvart hvítvíni yfir lyklaborðið á fartölvunni minni - líka Makki - og sú var úrskurðuð ónýt. Hafði keypt hana 1998 og vitiði hvað? Hún virkar enn í dag. Já, þurfti bara nokkura mánaða hvíld inni í skáp, rétt á meðan hvítvínið var að gufa upp, og fór svo í gang á nýjan leik.
Töggur í Makkanum.
Nei, ég mun ekki kaupa annað en Makka héðan í frá.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
ég var PC kona og frelsaðist og elska fallegu skjannahvítu makkatölvuna mína.... Takk Villi minn fyrir að leiða mig í rétta átt að ljósinu fyrr á þessu ári....
Skrifa ummæli