24. júlí 2010

Hátíðarkvöldverður með stæl

Í gærkvöldi fór ég á hátíðarkvöldverð sem samtök maka diplómata héldu. Þarna var um að ræða fjáröflunarkvöldverð, en samtökin styðja við ýmis verðug málefni, sér í lagi sem tengjast konum og börnum.

Eins og kannski einhverjir dagbókarlesendur muna, þá er Gulla hvorki meira né minna en forseti þessara samtaka. Það er því búið að vera nóg að gera hjá henni undanfarnar vikur í undirbúningi. Ekki er ofsögum sagt að í mörg horn þurfi að líta þegar undirbúinn er 150 manna kvöldverður.

Skemmst er frá að segja að kvöldið var geysilega vel heppnað. Dagskráin rann í gegn sem margæfð væri og er varla hægt að benda á nokkuð sem betur hefði mátt fara. Mín heitelskaða hélt þessa líka mergjuðu ræðu sem kallaði fram tár í hvörmum eiginmannsins. Var ég svo bergnuminn að ég tók ekki mynd af frúnni í ræðustólnum... en held þó í þá von að mynd muni fást annars staðar frá.

Þarna var ýmislegt sér til gamans gert, annað en að hlusta á Gullu halda ræðu og borða fíneríis mat. Þarna var haldið uppboð á nokkrum fínum hlutum og svo var tombóla. Var ég svo heppinn að vinna mat fyrir tvo á einu af veitingahúsum bæjarins. Keypti reyndar slatta af tombólumiðum, því eitthvað átti að vinna! Kom víst út á sléttu. Lagði út 200 Namibíudali en það var einmitt verðmæti vinningsins.

Svo voru skemmtiatriði. Tróð upp indónesískur tónlistarhópur, sem söng nýmóðins lög, en undirspilið var á hefðbundin indónesísk hljóðfæri. Virkilega flott og skemmtilegt.


Skipuleggjendur svona hátíðarkvöldverðar þurfa í mörg horn að líta. Hér eru Gulla og Marikka, finnskur meðlimur samtakanna, að finna lausn á vandamáli sem upp kom. Lausnin var auðvitað bráðsnjöll og tók enginn eftir að vandamál hefði skotið upp kollinum, nema stöllurnar tvær.


Ekki voru bara indónesísk skemmtiatriði. Þjóðdansahópur, namibískur, tróð einnig upp og vakti mikla gleði hátíðargesta. Er alltaf svo mikil gleði og kátína í fasi namibískra þjóðdansahópa að ekki er hægt annað er hrífast með.


Eins og ég sagði áðan, þá hefur undirbúningurinn verið strembinn. Til að öllu sé nú haldið til haga, þá stóð Gulla engan veginn ein í þessu. Skemmtinefndin samanstóð af sjö kjarnakonum og var ég svo heppinn á ná þeim öllum saman á mynd undir lok kvöldsins. Þreyttar voru þær, en virkilega ánægðar með afraksturinn.


Kvöldinu lauk með dansi. Þriggja manna hljómsveit sá um að halda uppi fjöri og gerði það svikalaust. Ekki man ég hvenær við Gulla dönsuðum síðast jafnmikið og við gerðum í gær. Mikið var það skemmtilegt. Ekki er laust við að þreytu hafi gætt í mannskapnum í morgun. Og einnig voru tær forsetans eitthvað eftir sig eftir háhæluðu skóna.

En kvöldi var skemmtilegt og eftirminnilegt. Þungu fargi var af skemmtinefndinni létt, því auðvitað er fólk alltaf með í maganum þegar svona atburður er skipulagður.

Ég er stoltur af eiginkonunni.

1 ummæli:

davíð sagði...

Og mér sýnist þú mega vera það.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...