20. nóvember 2011

Ung sál og Rocky 4

Undanfarið hefur ein sjónvarpsstöð hér farið í gegnum Rocky-myndirnar. Sá ég um daginn fyrstu myndina og skemmti mér vel yfir henni. Ekki er ég frá því að hún sé besta myndin, ekki síst vegna endisins. Í gær rákum við augun í að sýna átti fjórðu myndina, þessa þar sem Dolph Lundgren leikur sovéska boxmaskínu sem enginn mannlegur máttur getur stöðvað. Ákváðum við að gera fjölskyldukvöld úr þessu: bíómynd og popp og kósí fílingur í sófanum. Rúnar Atli hefur aldrei séð Rocky mynd áður og þótti spennandi tilhugsun að sjá mynd um hnefaleika.

Svo byrjaði myndin og frekar snemma deyr einn vinur Rockys í hringnum eftir þung högg frá þeim sovétska. Vitum við ekki fyrr en Rúnar Atli rekur upp þetta skaðræðisóp og fer að hágráta. Drengur var bara óhuggandi. Við skildum ekki neitt í neinu og reyndum að fá uppúr honum hvort, og þá hvar, hann væri slasaður.

Loks nær hann að stynja upp: ,,Þetta er svo sorgleg mynd!''

Það var nefnilega það. Saklausri og ungri sál ofbauð óréttlætið sem hún varð þarna vitni að.

En gráturinn rénaði að lokum og myndin var tekin í sátt.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...