30. nóvember 2011

Eintómt vesen

Æ, það ríður ekki við einteyming hér í Malaví.

Í næstu viku verð ég í Namibíu. Þarf að skoða það allra síðasta sem íslenskir skattgreiðendur aðstoða Namibíumenn við. Síðustu sex vatnsveiturnar hjá Himbaættbálkinum í norður-Namibíu.

Þetta verður örugglega skemmtileg ferð. Ég hef jú eytt níu árum ævi minnar í Namibíu og mér finnst ég alltaf vera að koma heim þegar ég lendi á flugvellinum í Windhoek. Áreiðanlega fæ ég þá tilfinningu líka í þetta sinn.

Ég átti að fara héðan á sunnudaginn kemur, flug með Air Malaví klukkan níu að morgni, millilenda í Jóhannesarborg, bíða þar í smátíma og svo flug áfram til Windhoek.

En nú er komið babb í bátinn.

Air Malaví á eina flugvél fyrir millilandaflug. Er reyndar leiguvél að ég held. Sú er búin að sitja á jörðu niðri í rúma viku. Ekki er alveg á hreinu hvers vegna, einhver viðhaldsspurning að mér skilst. En, á morgun, 1. desember, átti hún að fara af stað aftur. Fyrr í dag fékk ég hins vegar símtal frá ferðaskrifstofunni minni þar sem mér var tjáð að vélin yrði ekki komin aftur í gagnið á sunnudag.

Því þarf ég núna að vakna eldsnemma á laugardaginn og fljúga klukkan sjö að morgni til Blantyre, sem er hin stóra borgin í Malaví. Fimmtíu mínútna flug, eða svo. Síðan þarf ég að hanga á þeim flugvelli, sem er víst ekkert mjög heimsborgarlegur, í nálega sex klukkutíma og fljúga síðan til Jóhannesarborgar með Flugleiðum Suður-Afríkumanna. Treðst inn á hótel, á kostnað Air Malaví vel að merkja, og þarf að vera þar eitthvað fram yfir hádegi á sunnudag.

Ekki mjög spennandi að þurfa að bæta degi við ferðalagið. Ef ég kæmist alla leið til Windhoek væri mér sama, en að hanga í Jóhannesarborg þykir mér ekki skemmtileg tilhugsun.

Einhvern vegist virðist óhamingju Malaví verða allt að vopni um þessar mundir.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...