21. nóvember 2013

Ég 1.0.1 og smágrobb

Jæja, ætli sé ekki tími til að leyfa óþreyjufullum lesendum að frétta af vélbúnaðaruppfærslunni.

Í stuttu máli gekk aðgerðin, og endurhæfing það sem af er, eins og í sögu. Ja, eiginlega eins og í lygasögu, ef trúa á mér vitrari mönnum. Ég þýt eins og skopparakringla út um allt. Bara fyrr í dag, sem dæmi, rölti ég úr efra Breiðholti, niður í það neðra. Í Mjóddina, nánar tiltekið. Fékk mér kaffibolla í Bakarameistaranum og rölti svo aftur til baka. Ákvað að taka smákrók og kíkja í Þína verslun (eða á ég að segja Mína verslun?) á Seljabrautinni og kaupa fisk í kvöldmatinn. Krydduð blálanga. Mjög góð.

En, fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á endurhæfingarsögum þá er hér listi af helstu afrekum á leiðinni. Þeim sem finnst svona útlistun vera grobb - ja, þeir geta bara hætt að lesa hér.

Aðgerðin átti sér stað 21. október, klukkan 11 að morgni. Eitthvað gekk illa að mænudeyfa mig og var ég því svæfður. Vaknaði um tvöleytið, minnir mig. Fór í fyrsta göngutúrinn þá um kvöldið. Mjög stuttur var hann og ég hálfhékk í göngugrindinni. Spítalavistin er nú ekkert sérstaklega í frásögur færandi. Ég get ekkert kvartað yfir atlæti. Starfsmenn bæklunardeildar, B-5, í Fossvoginum reyndust mér allir mjög vel.

En nú að upptalningu:
 • 3. dagur eftir aðgerð: Fór heim uppúr hádegi. Dagmar Ýr sótti mig. Gekk þolanlega að komast inn í bílinn. Byrjaði í apótekinu að kaupa töflur og blóðþynnandi lyf. Mikið var gott að komast út undir ferskt loft.
 • 4. dagur: Fór í strætó niður í Mjódd. Keypti kaffibolla á Bakarameistaranum og kíkti í Eymundsson. Jóhanna systir, hjúkka með meiru, kom í Æsufellið á meðan ég var í strætó. Hún tapaði sér alveg. Leitaði að mér út um allt hús, meira að segja milli rúmstokks og glugga. Hljóp upp og niður stigaganginn, ef ske kynni að ég væri að æfa mig í stigamennsku. Henni fannst EKKI sniðugt að fara í strætó á hækjum fjórum dögum eftir mjaðmaskiptiaðgerð.
 • 5. dagur: Skrapp með Dagmar Ýr í Smáralind. Fékk mér ís - sjá mynd hér til hægri. Og líka kaffi.
 • 6. dagur: Lengri göngutúr. Kringlan að þessu sinni.
 • 8. dagur: Gekk niður Skólavörðustíg og til baka. Stór dagur því önnur hækjan var skilin eftir heima. Enda ómögulegt að kaupa sér kaffi í götumáli á tveimur hækjum. Maður þarf jú að geta haldið á kaffibollanum og gengið um leið.
 • 9. dagur: Tók strætó niður á Hlemm. Það var morgunkaffi í vinnunni og mér fannst ómögulegt að missa af því. Gekk svo niður Laugaveg að Friðriki V og hitti Dagmar Ýr og Jóhönnu þar. Fengum okkur hádegismat. Þetta var líka merkilegur dagur, því ég tók engar verkjatöflur. Var búinn að smáminnka dópið frá 5. degi. Hættur á lyfjum frá og með þessum degi.
 • 11. dagur: Lengsti göngutúr það sem af er. Fór á bókasafnið í Gerðubergi og tók mér tvær bækur að láni. Þetta ferðalag tók klukkutíma og 20 mínútur. Um kvöldið fórum við Dagmar Ýr á miðbæjarvöku og löbbuðum hring um miðbæinn. Komst að því að það er óþægilegt að nota hækjur í roki.
 • 12. dagur: Fór í bíó! Gravity í Egilshöll.
 • 14. dagur - tvær vikur: Gekk út á heilsugæslustöð í Gerðubergi. Þar voru hefti fjarlægð úr skurðinum, og var mér sagt að hann væri vel gróinn. Og, að ég mætti fara í sund frá og með morgundegi.
 • 15. dagur: Sat á jafnréttisnámskeiði í vinnunni frá níu til fimm. Maður er svo vel kynjaður. Strætó báðar leiðir.
 • 16. dagur: Gekk í Þína (mína?) verslun á Seljabraut og keypti í kvöldmatinn. Fór svo í sund. Synti 200 metra skriðsund. Lagði ekki í bringusund. Hvíldi eftir hverja 25 metra. Fótatökin voru ekki mjög öflug. En þetta gekk. Svo sest í pottinn. Þvílík tilfinning!
 • 17. dagur: Göngutúr í vinnuna hennar Dagmarar Ýrar. Synti 200 metra og endaði daginn á göngutúr og kaffi í Kringlunni.
 • 18. dagur: Hóf daginn á strætóferð til Háskóla Íslands. Átti þar erindi. Planið var að labba niður á Lækjartorg og taka strætó til baka þaðan. Veðrið var hins vegar svo gott að ég gekk upp Laugaveginn og tók strætó frá Hlemmi. Tók svo 250 metra sundsprett - ja, kannski ekki sprett. Þar af voru 25 metrar bringusund.
 • 19. dagur: 300 metrar í sundlauginni, þar af 75 metrar bringusund. Fór svo á Slippbarinn um kvöldið... segi ekki meir...
 • 21. dagur: Átti fund í Háskóla Íslands. Fór án hækju. Hef ekki notað hækjur síðan.
 • 27. dagur: Fór upp og niður tvær hæðir í stigaganginum án þess að styðast við handrið.
 • 28. dagur: 500 bringusund í striklotu.
 • 29. dagur: Ók bíl í fyrsta skipti eftir aðgerð. Gekk vel, en smátilfæringar að komast inn í bílinn.
Í dag er 31. dagur frá aðgerð. Allir verkir löngu farnir, einnig þeir sem hafa angrað mig meira og minna síðustu árin.

Ég lít því bjartsýnn fram á veginn.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...