25. febrúar 2012

Aðeins á eftir áætlun

Mér reiknast til að bolludagurinn síðasta mánudag hafi verið okkar átjándi í útlöndum.

Og, ef minnið bregst mér ekki, sá fyrsti sem við klikkum á að búa til rjómabollur!

Einhvern veginn mundum við ekki eftir þessum degi fyrr en hann var runninn upp. Kannski vegna þess að ég var í Líberíu í síðustu viku, en þar var ekki gott netsamband. Ég var því ekki að eltast við íslenska netmiðla. Hverju sem olli - við klikkuðum.

Nú í dag er ég að reyna að bæta þetta upp. Við Rúnar Atli erum núna í morgunsárið sveittir í eldhúsinu að baka bollur. Fyrsta holl var að koma úr ofninum og lítur vel út. Mér sýnist við fáum 22 bollur. Fínt fyrir þrjár manneskjur...

Bolla, bolla!

19. febrúar 2012

Á leið heim

Sit og skrifa þessi orð í flugvél á leið heim frá Monróvíu. Næturflug að þesu sinni. Lendi í Næróbí eldsnemma morguns og bíð þar í 3 tíma áður en ég kemst í vélina til Lílongve. Eins og á hinni leiðinni tek ég Sambíukrók. Ekkert gengur að sofna. Lenti í miðjusæti að þessu sinni. Það hjálpar ekki upp á svefn.

En ég er sem sagt búinn að vera í eina viku í Líberíu. Margt merkilegt að sjá þar. Gríðarleg fátækt verður að segjast. Auðvitað ekki skrýtið eftir langa og nöturlega borgarastyrjöld. Mig minnir hún hafi varað í 15 ár. Fimmtán ár. Reynið að ímynda ykkur hvernig er að lifa við svoleiðis aðstæður. Eyðilegging sést þarna út um allt. Hálfkláruð og hálfhrunin hús eru algeng sjón. Inn á milli eru bárujárnskofar. 

Kannski er það ógnvænlegasta við þessa borgarastyrjöld að menntafólk var skipulega leitað uppi og það myrt. Allir áttu að vera jafnir og því gekk ekki að sumir væru menntaðir, en aðrir ekki. Bækur og sköl voru eyðilögð og brennd. Sjávarútvegsdeild landbúnaðarráðuneytisins hefur t.d. engar upplýsingar um veiðar og hafrannsóknir frá árum áður. Öll þeirra gögn voru eyðilögð. Eyðilögð með vilja.

Vatn er af skornum skammti. Ég var í göngutúr og sá tankbíl og fullt af fólki í kring. Mér þótti þetta undarlegt, því ég hélt að þetta væri olíubíll. Svo kom ég nær og áttaði mig á að þetta var vatnsbíll. Í kringum hann var mergð kvenna með allskonar ílát að sækja sér vatn. Sorgleg sjón. Ekki síst í ljósi þess að mér var sagt að Líbería sé þriðja mesta úrkomuland heims. Margar ár og stöðuvötn eru í landinu. Samt vantar sárlega vatn.

Landsframleiðsla á mann er 400 dalir á ári, í kringum 48 þúsund krónur. Þar situr landið í 223ja sæti heimsins. Það er svona eins nálægt botninum og hægt er að komast.

En landið er fallegt. Skógi vaxið og mjög fallegar baðstrendur. Reyndar ekkert af fólki á þeim og engin aðstaða sem ég sá. En fallegar eru strendurnar samt. Bogadregnar með gulllituðum sandi. Þær minntu mig á Copacabana ströndina í Ríó de Janeró, en þangað hef ég einu sinni komið. Þarna væri hægt að koma ferðamannaiðnaði á laggirnar.

Þarna var tæplega 30 gráðu hiti og ekki nema nokkura gráðu munur á degi og nóttu. Mér er sagt að á sumrin sé erfitt að vera þarna, kæfandi hiti og mikill raki.

Eins og í Næróbí er umferðin allsvakaleg. Endalaus flaut, sem ég held að hafi engin áhrif því allir eru alltaf að flauta. Allt fullt af vélhjólum sem sikksakka milli bíla. Hjálmur? Hvað er nú það?

Þetta var skemmtileg ferð og gaman að hafa komist til Líberíu.

13. febrúar 2012

Menntun í Afríku

Í flugvélinni frá Lúsöku til Næróbí fyrir nokkrum dögum var sessunautur minn kenísk kona. Kona á framabraut mætti líklega kalla hana. Hún lét sig engu skipta öll mín litlu skilaboð um að fá að vera í friði. Ruddist yfir minn ipod og heyrnartól þangað til ég sá að mér, tók heyrnartækin úr eyrunum og slökkti á tónlistinni. Þetta var hin skemmtilegasta kona og ræddum við allskonar hluti á leiðinni. Kom í ljós að hún hefur alla tíð verið mjög flughrædd, en flýgur oft vegna vinnunnar, og er því skipulega að reyna að yfirvinna hræðsluna. Eitt skref í því er að spjalla við sessunautana. Í þetta sinn var það ég.

Eitt umræðuefni voru börnin okkar, sér í lagi menntun þeirra. Ég hef kynnst mörgun Afríkubúum í hennar sporum. Einhvers staðar á milli þrítugs og fertugs, með góða menntun, iðulega meistara- eða doktorsgráðu, og oftar en ekki í ágætis starfi hjá hinu opinbera í heimalandinu. Millistjórnendur af einhverju tagi. Væru skilgreind í millistétt í vestrænum löndum. Að mörgu leyti eins og hinn dæmigerði Íslendingur, hafa það gott en þurfa að hafa fyrir því.

Eitt á þetta afríska millistéttarfólk yfirleitt alltaf sameiginlegt. Að vilja ekki senda börnin sín í almenna skólakerfið í sínu landi, heldur leggur góðan hluta af sínum tekjum í skólagjöld í einkaskólum. Þetta ræddum við. Almennir skólar eiga við mörg vandamál að etja. T.d. eru kennarar oft illa menntaðir. Svo samanstendur hver bekkur af 60 til 180 börnum. Ímyndið ykkur að hafa stjórn á 120 átta ára krökkum í skólastofu sem kannski er hönnuð fyrir 40 til 50. Er hægt að fylgjast með árangri einstaks nemenda? Auðvitað ekki. Það segir sig sjálft. Svo eru skólagögn af skornum skammti. Einfaldir hlutir eins og blýantar og stílabækur eru oft ekki til staðar nema í mjög takmörkuðum mæli. Ekki að tala um kennslubækur.

Ég veit af eigin reynslu að þetta eru engar ýkjur. Ég hef komið í fjölda skóla í Namibíu, Malaví, Úgöndu og Mósambík, og sagan er alls staðar sú sama. Almennu skólarnir eru langt frá því að vera í standi til að veita skikkanlega menntun. Á meðan þetta er svona þá er nær ómögulegt að rífa þessi lönd upp úr fátækt. Skelfilegt en satt. Ég get í raun ekki nefnt eitt einasta Afríkuland sunnan Sahara sem ástandið er ekki svona. Þekki ekki til í Arabaríkjunum í norður-Afríku til að geta dæmt um ástandið þar.
Því greiða þeir foreldrar sem tök hafa á 30-40% af ráðstöfunartekjunum í skólagjöld og önnur tengd útgjöld. Þannig fjölgar sem betur fer menntuðu fólki.

En framgangurinn er hægur.

Alltof hægur.

Davíð sigrar Golíat

Rétt í þessu var að ljúka Afríkukeppninni í knattspyrnu. Þvert á allar spár stóð Sambía uppi sem sigurvegari keppninnar. Chipolopolo er gælunafn liðsins, en það útleggst sem koparkúlurnar. Sambía sigraði Fílabeinsströndina í úrslitaleiknum. Þurfti vítaspyrnukeppni til, og sú endaði 8-7. Mikill spenna.

Merkilegt þó að Fílabeinsströndin fékk ekki á sig mark alla keppnina í venjulegum leiktíma. Unnu samt ekki...

Malavar héldu mikið með koparkúlunum, en Sambíumenn eru nágrannaland Malaví og nánir skyldleikar á milli þjóðanna. Það kom mér á óvart að á hótelbarnum hér í Monróvíu hélt meirihlutinn með Sambíu. Fílabeinsströndin er grannþjóð Líberíu, þ.a. ég hefði haldið að hún ætti meiri stuðning. En barliðið var auðvitað ekki þverskurður af Líberíu.

Fyrir tæpum tuttugu árum, 1993, þá fórst allt sambíska fótboltalandsliðið í flugslysi, en liðið var á leið heim frá Afríkukeppninni það árið. Slysið átti sér stað rétt utan við borgina Libreville (Frelsisborgin) í Gabón. Vildi þannig til að úrslitaleikurinn í ár fór einmitt fram í þessari borg. Var þetta því tilfinningaþrungin keppni hjá Sambíumönnum. Þeir vildu virkilega vinna til að heiðra látnar hetjur sínar.

Þeim tókst það.

Til hamingju Sambía!

11. febrúar 2012

Mættur til Líberíu

Þá er ég kominn til Líberíu. Sit núna úti á svölum á hótelinu mínu og hrofi út á Atlantshafið. Hef ekki séð það lengi. Er kominn í sama tímabelti og Ísland. Á götunni fyrir framan hótelið eru nokkrir sölubásar. Sýnist þar vera hægt að kaupa útskorna muni og eitthvað annað glingur. Svo á ströndinni eru tveir fótboltaleikir í gangi. Litlir strákar að spila í öðrum, en stálpaðir táningar í hinum. Alls staðar er fótbolti spilaður. Enda þarf ekki mikinn búnað. Í Malaví hef ég séð fótbolta útbúinn úr saman vöðluðum búðarpokum. Kappið er ekkert minna með svoleiðis bolta. En hér eru piltarnir með alvörubolta.

Ferðalagið gekk vel. En flugstöðin í Líberíu var svolítið ævintýri. Reyndar það fyrsta sem ég tók eftir þegar við lentum voru græjur frá Sameinuðu þjóðunum. Ein stór farþegaflugvél og svo hvorki meira né minna en ellefu þyrlur. Svona stórar herþyrlur, sumar til mannflutninga og aðrar til vöruflutninga. Ég man bara ekki eftir að hafa séð svona margar þyrlur samankomnar á einum stað, hvort sem þær væru frá S.þ. eða einhverjum öðrum. En S.þ. eru stórt batterí í Líberíu. Bílstjórinn minn benti mér á höfuðstöðvar þeirra. Margra hæða risabygging.

Hver skyldi hafa kostað byggingu hennar?

Nei, ekki Kínverjar...

Enginn annar en hann Gaddafi sjálfur! Fyrrum Líbíuforseti. Þeir hafa varla hátt um það í dag forsvarsmenn S.þ. hér. Enda glotti bílstjórinn þegar hann sagði mér þetta.

En, aftur að flugstöðinni.

Á mér skall hitamolla þegar ég kom út úr vélinni. Tæplega 30 gráður og mikill raki, en honum er ég óvanur. Við farþegarnir fórum svo í rútu þá 50 metra sem voru að komusalnum. Þá kom smábabb í bátinn. Það var nefnilega nýlent breiðþota frá bandaríska Delta flugfélaginu og röðin þeirra í innflytjendaeftirlitið náði út úr byggingunni. Því mátti ekki hleypa okkur út úr rútunni og þurftum við að hanga inni í henni í ríflega korter. Svo fengum við að fara út og þá náði okkar röð út úr byggingunni. Svo sniglaðist maður áfram, en loksins kom röðin að mér. Ekkert vandamál, enda með alla pappíra í lagi.

Síðan gekk ég inn í næsta sal. Það var töskufæribandið. Smáfæriband. Eitt talsins. Í Namibíu eru þau þó tvö. Þarna var þvílíkur handagangur í öskjunni að ég hef varla séð annað eins. Hróp og köll. Einhverjir starfsmenn voru að reyna að hafa stjórn á hlutunum en það gekk ekki vel. Svo ef einhver náði töskunni sinni, þá var tekið stórt skref afturábak og svo stökk til að koma töskunni af. Þar með var hentust þrjár raðir af fólki, sem var að troðast, afturábak og einhverjar tær örugglega mörðust. Sumir skelltu ferðatöskunum upp á höfuð sér og fikruðu sig þannig í gegnum mannþröngina.

Svona leit kaosið út. Töskur flæddu um gólfin og töluverður æsingur.

Taska á höfði. Takið eftir áletruninni til hægri: Velkomin til Líberíu!
Mér tókst að lokum að koma auga á töskuna mína og náði að kalla í einn starfsmann sem kom henni til mín. Þetta var ævintýri, svo mikið er víst.

Svo í gegnum tollinn og þá kominn út. Mættur til Líberíu.

Meira síðar.

10. febrúar 2012

Enn ein paradís

 Einstaka sinnum í þessum dagbókarbrotum mínum hef ég nefnt að hafa fundið staði sem gætu vel verið paradís. Þessir staðir eiga allir samnefnt að vera í Afríku. Ætli ég verði ekki að bæta Keníu við á þennan paradísarlista minn.

Núna sit ég úti í garði á hótelinu, Rauða torgið nefnist það, nýbúinn að snæða kvöldverð. Veðrið er akkúrat eins og ég vil hafa það, rúmlega 20 gráður og smágola. Gin og tónik í glasi, havð annað? Síðan óma tónar frá sönglagatríói, sem er hér í garðinum að spila og syngja. Mærin frá Mexíkó held ég, svei mér þá. Mér dettur helst í hug Ríó tríó þegar ég hlusta á þessa drengi. Flytja fína blöndu af afrískri tónlist og vestrænum lögum flestum frá áttunda áratugnum. Einn spilar á kassagítar, annar á rafmagnsgítar og sá þriðji slær trépinna á pínulítill trékassa, sem rúmast í lófa, og heldur þannig taktinum að mér virðist.

Paradís á jörðu?

Sú gæti í það minnsta litið einhvern veginn svona út.

Verst að ég sé einn á flækingi hérna, skemmtilegra væri ef Gulla væri með.

Á vit ævintýra

 Alltaf finnst mér gaman að koma á nýja staði. Sjá eitthvað nýtt. Nú er ég lagður af stað í svoleiðis ferðalag. Í því sem ég byrja að skrifa þetta sit ég í flugvél frá Loftleiðum Keníu, rétt kominn á loft frá Kamuzu flugvellinum fyrir utan Lílongve. Gömul flugvél verður að viðurkenna. Boeing 767-300, fyrir þá sem hafa áhuga á svoleiðis. En ég var svosum viðbúinn og hef mína eigin afþreyingu í farteskinu. Svo er viðmót starfsmanna kenísku Loftleiðanna mjög gott. Alveg til fyrimyndar, svo aldur flugvélarinnar skiptir nú litlu. Enda kallar flugfélagið sig stolt Afríku, hvorki meira né minna. Eitt fannst mér reyndar mjög flott. Í öryggismyndinni sem sýnd er fyrir brottför þá er táknmálstúlkur í einu horninu sem túlkar það sem sagt er. Gott framtak.

Ég er núna á leið til Lúsöku í Sambíu, en þar verða pikkaðir upp farþegar fyrir áframhaldandi flug til Næróbí, höfuðborgar Keníu. Þar gisti ég í nótt og held síðan ferðalaginu áfram. Liggur þá leið til Akkra - kannski væri réttara að segja Ökkru - höfuðborgar Gönu. Þar er aftur smástans til að hleypa farþegum út og inn áður en ég held áfram til míns áfangastaðar, Monróvíu í Líberíu.

Í Monróvíu verð ég í eina viku að spjalla um stefnumál í fiskveiðum og eitthvað í þeim dúr. Á laugardag eftir viku stíg ég aftur upp í flugvél og þræði sömu leið til baka.

Að Lúsöku undanskilinni hef ég aldrei á þessa staði komið og er því spenntur fyrir ferðalaginu. Sé þó ekki mikið af Gönu þar sem ég sit ábyggilega bara út í vél. Kem þangað bara einhvern tímann seinna.

Jæja, búinn að gera stans á Kenneth Kaunda flugvellinum í Sambíu. Þar fóru flestir farþegarnir út, en nýir komu í staðinn. Mér hlýnaði aðeins um hjartaræturnar þegar vélin var að taxa að flugvallarbyggingunni. Ég sá nefnilega namibíska áætlunarflugvél þar fyrir utan. Já, ég skaut víst svolitlum rótum í Namibíu. Ég get ekki afneitað því.

En núna ætla ég rétt að vona að bráðum komi matur því ég er glorsoltinn.

Þá er ég kominn til Næróbí og sestur inn á hótel ekki of langt frá flugvellinum. Hef séð of lítið af staðnum til að mynda mér einhverja heildarskoðun. Get þó sagt að umferðin hér er ekki fyrir hjartveika. Sat í bíl áðan á miðjuakrein af þremur. Annar bíll skellti sér fram fyrir okkur, fullnálægt að mati bílstjórans míns. Hann skellti sér því yfir á akreinina lengst til hægri, fór framúr og skellti sér svo fram fyrir hinn. Þarna var 50 km hámarkshraði, en mínir menn voru farnir að nálgast 90. Það sem ég komst síðan að augnabliki síðar var að það var komin fjórða akreinin vinstra megin. Frárein fyrir þá sem þurfa að beygja til vinstri. (munið, vinstri umferð í Keníu). 

Við þurftum að beygja til vinstri...

Þ.a. þegar við þurfum að beygja til vinstri, þá skellum við okkur fyrst til hægri, gefum í til að komast framúr, og skellum okkur síðan eldsnöggt þrjár akreinar til vinstri - svínuðum þar með fyrir sökudólginn og líklega einhverja aðra í leiðinni - tókum svo krappa beygju inn á hliðargötu og framúr tveimur ministrætóum sem voru á einu akreininni sem þarna var og bílar á móti.

Þetta reddaðist.

Ferðalagið gengur sem sagt vel það sem af er.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...