19. febrúar 2012

Á leið heim

Sit og skrifa þessi orð í flugvél á leið heim frá Monróvíu. Næturflug að þesu sinni. Lendi í Næróbí eldsnemma morguns og bíð þar í 3 tíma áður en ég kemst í vélina til Lílongve. Eins og á hinni leiðinni tek ég Sambíukrók. Ekkert gengur að sofna. Lenti í miðjusæti að þessu sinni. Það hjálpar ekki upp á svefn.

En ég er sem sagt búinn að vera í eina viku í Líberíu. Margt merkilegt að sjá þar. Gríðarleg fátækt verður að segjast. Auðvitað ekki skrýtið eftir langa og nöturlega borgarastyrjöld. Mig minnir hún hafi varað í 15 ár. Fimmtán ár. Reynið að ímynda ykkur hvernig er að lifa við svoleiðis aðstæður. Eyðilegging sést þarna út um allt. Hálfkláruð og hálfhrunin hús eru algeng sjón. Inn á milli eru bárujárnskofar. 

Kannski er það ógnvænlegasta við þessa borgarastyrjöld að menntafólk var skipulega leitað uppi og það myrt. Allir áttu að vera jafnir og því gekk ekki að sumir væru menntaðir, en aðrir ekki. Bækur og sköl voru eyðilögð og brennd. Sjávarútvegsdeild landbúnaðarráðuneytisins hefur t.d. engar upplýsingar um veiðar og hafrannsóknir frá árum áður. Öll þeirra gögn voru eyðilögð. Eyðilögð með vilja.

Vatn er af skornum skammti. Ég var í göngutúr og sá tankbíl og fullt af fólki í kring. Mér þótti þetta undarlegt, því ég hélt að þetta væri olíubíll. Svo kom ég nær og áttaði mig á að þetta var vatnsbíll. Í kringum hann var mergð kvenna með allskonar ílát að sækja sér vatn. Sorgleg sjón. Ekki síst í ljósi þess að mér var sagt að Líbería sé þriðja mesta úrkomuland heims. Margar ár og stöðuvötn eru í landinu. Samt vantar sárlega vatn.

Landsframleiðsla á mann er 400 dalir á ári, í kringum 48 þúsund krónur. Þar situr landið í 223ja sæti heimsins. Það er svona eins nálægt botninum og hægt er að komast.

En landið er fallegt. Skógi vaxið og mjög fallegar baðstrendur. Reyndar ekkert af fólki á þeim og engin aðstaða sem ég sá. En fallegar eru strendurnar samt. Bogadregnar með gulllituðum sandi. Þær minntu mig á Copacabana ströndina í Ríó de Janeró, en þangað hef ég einu sinni komið. Þarna væri hægt að koma ferðamannaiðnaði á laggirnar.

Þarna var tæplega 30 gráðu hiti og ekki nema nokkura gráðu munur á degi og nóttu. Mér er sagt að á sumrin sé erfitt að vera þarna, kæfandi hiti og mikill raki.

Eins og í Næróbí er umferðin allsvakaleg. Endalaus flaut, sem ég held að hafi engin áhrif því allir eru alltaf að flauta. Allt fullt af vélhjólum sem sikksakka milli bíla. Hjálmur? Hvað er nú það?

Þetta var skemmtileg ferð og gaman að hafa komist til Líberíu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...