20. október 2013

Viðhald

Þá er komið að því að ræða viðhaldið.

Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu.

Ja, a.m.k. veit ég ekki betur.

Viðhaldið sem um ræðir verður sjálfsagt einhvern tímann kallað uppfærsla vélbúnaðar. Míns eigin vélbúnaðar.

Komið er að fyrstu uppfærslu á honum Vilhjálmi. Útskiptingu á mjaðmarlið, hvorki meira né minna. Þá hætti ég að vera Vilhjálmur 1.0 og verð Vilhjálmur 1.0.1.

Ég hef átt í vandræðum með mjöðmina á mér í mörg ár. Hélt í upphafi að þetta væri einhver tognun í nára. Svona tognun sem hreinlega næði ekki að batna. Svo á miðju ári 2009 fórum við í heljarinnar ferðalag. Ókum til Simbabve ásamt Dodda. Mjög skemmtilegt ferðalag. Eitt af því sem við gerðum þar var að fara á fílsbak. Hér má lesa um þessa fílsreið. Ræði ég þar um miklar kvalir sem ég rakti á þeim tíma til stuttra lærvöðva. Ég man ennþá vel eftir kvalræðinu sem þessi reiðtúr olli mér.

Stuttu eftir þessa för fór ég að ræða við hnykkjarann minn um þetta. Sá sendi mig beint í röntgenmyndatöku og þá uppgötvaði ég í fyrsta sinn að hægri mjöðmin í mér væri í klessu. Ja, ef ekki í klessu, þá stefndi hún hraðbyri þangað.

Namibískir læknar sem skoðuðu þetta á þessum tíma vildu ólmir senda mig í mjaðmaskipti. „Í næstu viku,“ sögðu þeir.

Þeir áttuðu sig auðvitað ekki á íslenskum sjúkratryggingum, sem taka ekki vel í að maður sé að flækjast út um allar koppagrundir í aðgerðir af þessu tagi. Verðmiðinn þá var um ein og hálf milljón króna, minnir mig.

En, sem sagt, ég hef vitað af þessu í rúm fjögur ár. Smátt og smátt hefur mér versnað og síðasta ár hefur mér farið mikið aftur. Hlífi mér við alls konar hlutum og margt er ég hreinlega hættur að gera. Margt af því sem ég geri fylgir sársauki. Svo hreyfi ég mig eins og gamall maður. Synd og skömm.

En nú horfir allt til betri vegar. Þegar ég var á Íslandi í janúar var ákveðið að stefna að aðgerð í lok október. Það er allt að ganga upp. Á morgun - já, á morgun, mánudag - rennur stóri dagurinn upp. Mæting á Landspítalann í Fossvogi klukkan hálfátta í fyrramálið. Aðgerð skömmu síðar þann daginn.

Þá verður gömlu ónýtu kúlunni kippt úr og ný sett í staðinn. Ég fann mynd á netinu sem mér sýnist sýna þetta eins og mér hefur verið sagt.

Kúla og fleygur úr einhverju voðalega fínu efni. Svo grær fleygurinn við beinið á einhverjum tíma. Er mér sagt.

Ég hlakka ekkert sérstaklega til aðgerðarinnar. Og ekki heldur til endurhæfingarinnar. Hugsa reyndar lítið um þá hluti. Hugsa frekar til næsta árs og hlakka til þess. Þá verður nú gaman að lifa...

En, vegna þessa, verð ég á Íslandi eitthvað fram yfir áramót. Gulla og Rúnar Atli verða í Malaví til nóvemberloka, en þá koma þau í jólaferð. Ekki þótti okkur stætt á því að kippa drengnum úr skóla í tvo til þrjá mánuði út af þessu. Honum finnst alltof gaman þar sem hann er og gengur líka vel.

En, nú fæ ég að prófa íslenska heilbrigðiskerfið, beint í æð. Ég hef nú samanburð frá Malaví og þykir því það sem ég hef séð hingað til alveg meiri háttar fínt.

Meira síðar.

15. október 2013

Iðnó og Pisa

Ég hugsa að fæstir flokki mig sem listaspíru. Í gegnum tíðina hef ég lítinn áhuga sýnt á listum.

Ég hef líka tekið eftir að það sem mér finnst fallegt, t.d. í myndlist, þykir yfirleitt ekki mjög fínt hjá þeim sem vit hafa á.

Ég hef reyndar alltaf haft gaman af því að fara í leikhús. Alveg frá því ég var strákur.

En, þar er ég frekar í almúgaflokknum, þykir gaman að försum og grínleikritum. Í fyrra sá ég Macbeth í Þjóðleikhúsinu og það var eitthvað það versta sem ég hef lent í. Mér þótti það leikrit hræðilegt og það var kvöl og pína að sitja til enda.

Tónleikar finnast mér líka skemmtilegir. En þá þegar leikin er dægurtónlist. Vinsæl og sígild íslensk lög. Þau finnast mér skemmtileg. Helgi Björns er eitt dæmi um söngvara sem mér finnst gaman að sjá. Jólatónleikar Baggalúts voru líka skemmtilegir í fyrra. En sinfóníur og óperur... eiginlega ekki minn stíll.

En þrátt fyrir að vera engin listaspíra og hafa frekar dapran smekk, þá verður að segjast að eitt sem ég sakna, þegar ég er í Lílongve, er að komast á menningarviðburði.

Því reyni ég eftir fremsta megni, þegar ég er á Fróni, að sækja menningaratburði.

Í gær fórum við Dagmar Ýr á leiksýninguna Tenórinn, sem sýnd er í Iðnó. Guðmundur Ólafsson leikur brottfluttan tenór, sem undir lok ferils síns kemur til Íslands og heldur tónleika. Leikritið gerist í búningsherberginu, þar sem tenórinn og undirleikarinn ættu að vera að hita upp. Þeir hins vegar spjalla um alls konar hluti - ja, eiginlega er þetta nú mest eintal - svo við fræðumst um líf tenórsins og mörg vandamála hans.

Þetta var alveg bráðskemmtilegt leikrit. Guðmundur er flottur í rullunni og ég sá hann alveg sem frægan tenór. Sum atriðin voru drepfyndin svo ekki sé meira sagt. T.d. lýsti hann því listavel hvernig ríflega eitthundrað kílóa sópransöngkonur deyja alltaf í lok ópera og alltaf í fangi tenórsins. Og því ekki nema von að þeir séu bakveikir... Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hann sagði hneykslaður frá sópransöngkonu í óperu í Síngapúr sem var svo íturvaxinn að hún flæddi yfir hann og endaði hann pikkfastur á gólfinu undir henni, nær dauða en lífi.

Já, þetta er leikrit þess virði að horfa á.

Svo tók kallinn söngspretti inn á milli. Meira að segja rappaði hann eins og hann hefði aldrei annað gert.

Tilfinningin að vera í Iðnó var sérstök. Ég man eftir því sem strákur, kannski 10 ára, að fara á Fló á skinni í Iðnó. Salurinn hlýtur að vera sá sami, en í minningunni er hann miklu, miklu stærri. Ætli þetta sé ekki sama parketgólfið og ég missti einu sinni fullan perubrjóstsykurspoka niður á. Brjóstsykursmolarnir skullu með þvílíkum hávaða á gólfið að ég varð alveg miður mín. Ekki síst fyrir að hafa tapað namminu.

Fyrir sýninguna fórum við Dagmar Ýr og fengum okkur kvöldverð á ítölskum veitingastað sem heitir Pisa. Líklega eftir borginni sem skakki turninn er í. (Maður er þvílíkur Skerjalákur...). Þetta er notalegur staður, skemmtilega innréttaður og maturinn var fínn. Ég fékk mér spaghettí með sjávarfangi, sem smakkaðist vel. Rækjur, hörpudiskur og líklega kræklingur. Svo var þjónustan til fyrirmyndar.

Svo enduðum við á því að aka eftir Sæbrautinni og virða fyrir okkur friðarsúluna.

Kvöldið var gott.

6. október 2013

Ferðafár

Þessi orð eru skrifuð um borð í flugvél Loftleiða þeirra Suður-Afríkumanna. Flug SA 9234. Flugnúmerið var SA 234, en tölustafurinn 9 táknar að þetta er flug sem hefur seinkað. Ekki nóg með það, heldur hefur seinkunin teygt sig yfir á næsta dag og til að rugla ekki saman við flug 234 þess dags, er níunni skellt fyrir framan.

Forsagan er sú að ég er á leið til Íslands. Átti að yfirgefa Jóhannesarborg skömmu eftir klukkan átta að kvöldlagi. Á laugardagkvöldi. Meiningin var síðan að lenda á Heathrow flugvellinum í Lundúnum ríflega sex næsta morgun. Sunnudag. Drepa síðan tímann í sjö klukkustundir eða svo áður en ég tæki á loft með Flugleiðum. Lending heima klukkan þrjú á sunnudagseftirmiðdegi. Svo á mánudagsmorgni að mæta til vinnu á heimaskrifstofu, eins og við sem vinnum í útlöndum segjum.

Flott plan,ekki satt?

Jú, jú, nema það klikkaði.

Allt leit ósköp vel út í gærkvöldi. Ég kom út að hliði þremur korterum fyrir brottför og svo tíndust allir farþegarnir um borð. Meira og minna á réttum tíma tók vélin á loft. Sem hún hækkar flugið smátt og smátt, og yfirflugfreyjan var að segja okkur fyrirkomulag veitinga, þá greip flugstjórinn af henni orðið. Smávandamál með lendingarbúnaðinn, og hann þurfi að prófa eitthvað sem muni framkalla hávaða. ,,En ekkert til að hafa áhyggjur af," sagði hann.

Einhver hávaði heyrðist og einhverjum mínútum síðar tilkynnir flugstjórinn að fréttirnar séu slæmar. Lendingarbúnurinn standi á sér og lokist ekki. Því þurfi að snúa við og lenda aftur í Jóhannesaborg. Ekkert þurfi að óttast lendinguna því hjólin séu föst niðri og því bara venjuleg lending. Þó fylgdi sá böggull skammrifi að vélin sé of þung til að lenda henni og því þurfi fyrst að eyða bensíni með hringsóli.

Hringsólið varð klukkustundar langt og svo var lent. Flugstjórinn hafði rétt fyrir sér. Lendingin var eins og hver önnur.

Auðvitað er ég feginn að vandamálið var ekki alvarlegra. T.d. ef lendingarbúnaðurinn hefði fests uppi. Hvernig hefði þá verið lent?

Svo þurfti að bíða meðan flugvirkjar skoðuðu hvað væri bilað. Kannski væri hægt að gera við það, einn, tveir og þrír og fljúgja svo aftur af stað.

En, ekki var það svo gott. Sex til átta tíma viðgerð. Því var öllum skipað út úr vélinni, sagt að sækja töskur og síðan yrði gistingu reddað. Brottför ætti síðan að reyna klukkan níu, næsta morgun. Þegar þarna var komið sögu var klukkan farin að ganga ellefu um kvöldið.

Fyrst þurfti auðvitað að fara í gegnum vegabréfsskoðun. Við jú að fara aftur inn í landið. Svo finna töskur. Síðan að arka út að almenningssamgangasvæði flugvallarins, er þar komu litlar bílaskutlur til að koma okkur öllum á hótelið.

Já, það fannst sem sagt hótel, eitt stykki, sem gat tekið á móti heilum flugvélarfarmi af fólki. Hlýtur að hafa þurft 200 herbergi til þess arna.

Ég var heppinn. Taskan mín kom frekar hratt og ég var í skutlu númer tvö. Fékk strax herbergi og gat komið mér fyrir. Klukkan var farin að nálgast miðnætti þarna. Ég settist þá niður með tölvuna og fór að skoða flugáætlanir. Reiknaði út að ef brottför yrði ekki mikið seinna en 9, þá myndum við lenda skömmu fyrir sjö á sunnudagskvöldinu. Kvöldvél Flugleiða fer rúmlega níu, þannig að mögulega gæti þetta gengið.

Ég sendi einhverja tölvupósta, og elsku Gulla fékk það hlutverk að ganga í málið, þegar Flugleiðafólkið mætir til mætir til vinnu. Öllu þarf hún að redda blessunin.

Þegar ég fór inn á herbergi um hálfeitt, voru farþegar enn að koma frá flugvellinum. Búnir að standa í biðröð í lengri tíma að bíða eftir fari. Enda var ekki létt á þeim brúnin.

Morgunmatur klukkan fimm og fyrstu rútur áttu að leggja af stað hálfsex út á völl.

Ég náði að sofa í svona þrjá og hálfan tíma. Sturta og mætti svo með töskur og alles í morgunmatinn. Fullt af fólki mætt. Svo gekk nú ekki sérlega vel að koma okkur skipulega í bílana. Grunnt á því góða hjá sumum. Ég fékk á tilfinninguna að ekki þyrfti mikið útaf að bera til að sumir myndu missa stjórn á sér.

En ég komst á flugvöllinn. Þar tók við heljarinnar biðröð til að fá brottfaraspjald og koma töskunni af sér. Þetta hafðist nú. Einn farþeginn ætlaði hreinlega að hjóla í eina konu sem vinnur hjá flugfélaginu. Sú sagði eitthvað út af þyngd töskunnar, held ég. Kveikiþráðurinn var örstuttur hjá þessum. En hann sá nú að sér að lokum. En mikið var hann reiður.

Svo gat ég loksins slakað á og fengið mér kaffibolla. Vafrað á netinu og svoleiðis.

Svo hófst bið við hliðið. Loksins þegar klukkuna vantaði 25 mínútur í níu var hleypt um borð. Það gekk vel. Allir sestir inn þegar tilkynnt var að enn væri verið að setja matinn okkar um borð. Það virðist klárast, en samt leið og beið. Þá var tilkynnt að mat vantaði og verið væri að sækja viðbót.

Og alltaf leið klukkan. Maður stoppar hana jú ekkert.

Á endanum var ekki lagt af stað fyrr en klukkan farin að nálgast hálf ellefu.

Öll von, held ég, er úti um að ná kvöldvélinni. Áætlaður komutími 20:30. Allt útaf einhverju klúðri með matinn. Næstum því heill fótboltaleikur fór í hann.

Er von að maður sé fúll?

Þvílíkt getuleysi að geta ekki skipulagt svona nokkuð. Ekki er eins og flugfélög taki aldrei mat um borð... eða hvað?

Ég sé því fram á nótt í Lundúnum og heimför á mánudagseftirmiðdag.

Þar til annað kemur í ljós.

5. október 2013

Musteri Mammons

Fyrir nokkrum dögum las ég um hárgreiðslumeistara heima á Fróni sem voru í óða önn að safna gömlum skærum. Gera á þau upp og senda síðan til S-Afríku og gefa götubörnum sem kenna á hárgreiðslu.

Alls ekki slæm hugmynd.

Reyndar skal ég viðurkenna að það fyrsta sem í hugann kom var að kannski væri ekki sniðugt að gefa götubörnum eggvopn... en þetta var ljót hugsun.

Hvað um það, nú er ég staddur í Jóhannesarborg. Rúmlega sólarhringsstans á ferðalagi frá Malaví til Íslands. Eins og sumir vita er frekar fátt um fína drætti í Malaví þegar kaupa á föt. Því ákvað ég að fórna einum degi í Jóhannesarborg til að rölta milli verslana.

Ja, kannski er þetta ekki mikil fórn...

Ég get nú ekki sagst vera kunnugur í Jóhannesarborg, og ekki heldur í S-Afríku. En, þó hef ég farið nokkrum sinnum að helstu verslanamiðstöð borgarinnar, en í hraðlest er 15 mínútna ferðalag þangað frá alþjóðaflugvellinum. Ég gisti á hóteli sem er steinsnar frá verslanamiðstöðinni og get rölt á milli án vandkvæða eins oft og hugurinn girnist.

Þarf að fara yfir ein stór gatnamót sem mikil umferð liggur um. Ég þarf svona að selflytja sjálfan mig yfir gatnamótin til að komast á áfangastað. Ég dunda mér því við að horfa á bílaflotann á meðan á selflutningnum stendur.

Og sá er ekkert slor.

Audi-ar, Bensar, Porchar, Lexusar, BMWar, Range Roverar, Hummerar og ég veit ekki hvað og hvað. Endalaust bruna svona flottir bílar yfir gatnamótin. Ég sá spaugilega sjón í gærkvöldi. Þá var beygjuljós og splunkunýr Bens svínar fyrir blæju-Porche 911. Gaurinn á Porchinum - miðaldra maður - varð alveg hoppandi illur, öskraði ókvæðisorð (sem heyrðust vel því blæjan var niðri), og þandi svo kaggann í botn til að ná framúr Bensanum, með þvílíkum hávaða og gauragangi, og skella sér fram fyrir hann.

Æ, við karlmenn erum góðir...

Svo er ævintýri að koma inn í verslamiðstöðina. Endalausar búðir. Í gær eyddi ég ríflega klukkutíma þarna og rétt komst hálfan hring. Sem þýðir í raun bara einn fjórða úr hring, því það eru tvær hæðir. Svimandi hátt til lofts og engu til sparað að allt sé sem flottast.

Að koma á svona stað eftir að hafa eytt stórum hluta ársins í Malaví er svolítið súrrealískt. Óraunverulegt.

Musteri Mammons var það sem mér datt í hug.

Og þá komu mér hárskeraskærin í hug. S-Afríka er ótrúlegt samfélag. Þar er þvílík auðlegð og á sama tíma þvílík fátækt. Og allt þar á milli.

En þrátt fyrir þessar vandlætingarhugsanir, þá tilbað ég Mammon í þessari ferð.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...