5. október 2013

Musteri Mammons

Fyrir nokkrum dögum las ég um hárgreiðslumeistara heima á Fróni sem voru í óða önn að safna gömlum skærum. Gera á þau upp og senda síðan til S-Afríku og gefa götubörnum sem kenna á hárgreiðslu.

Alls ekki slæm hugmynd.

Reyndar skal ég viðurkenna að það fyrsta sem í hugann kom var að kannski væri ekki sniðugt að gefa götubörnum eggvopn... en þetta var ljót hugsun.

Hvað um það, nú er ég staddur í Jóhannesarborg. Rúmlega sólarhringsstans á ferðalagi frá Malaví til Íslands. Eins og sumir vita er frekar fátt um fína drætti í Malaví þegar kaupa á föt. Því ákvað ég að fórna einum degi í Jóhannesarborg til að rölta milli verslana.

Ja, kannski er þetta ekki mikil fórn...

Ég get nú ekki sagst vera kunnugur í Jóhannesarborg, og ekki heldur í S-Afríku. En, þó hef ég farið nokkrum sinnum að helstu verslanamiðstöð borgarinnar, en í hraðlest er 15 mínútna ferðalag þangað frá alþjóðaflugvellinum. Ég gisti á hóteli sem er steinsnar frá verslanamiðstöðinni og get rölt á milli án vandkvæða eins oft og hugurinn girnist.

Þarf að fara yfir ein stór gatnamót sem mikil umferð liggur um. Ég þarf svona að selflytja sjálfan mig yfir gatnamótin til að komast á áfangastað. Ég dunda mér því við að horfa á bílaflotann á meðan á selflutningnum stendur.

Og sá er ekkert slor.

Audi-ar, Bensar, Porchar, Lexusar, BMWar, Range Roverar, Hummerar og ég veit ekki hvað og hvað. Endalaust bruna svona flottir bílar yfir gatnamótin. Ég sá spaugilega sjón í gærkvöldi. Þá var beygjuljós og splunkunýr Bens svínar fyrir blæju-Porche 911. Gaurinn á Porchinum - miðaldra maður - varð alveg hoppandi illur, öskraði ókvæðisorð (sem heyrðust vel því blæjan var niðri), og þandi svo kaggann í botn til að ná framúr Bensanum, með þvílíkum hávaða og gauragangi, og skella sér fram fyrir hann.

Æ, við karlmenn erum góðir...

Svo er ævintýri að koma inn í verslamiðstöðina. Endalausar búðir. Í gær eyddi ég ríflega klukkutíma þarna og rétt komst hálfan hring. Sem þýðir í raun bara einn fjórða úr hring, því það eru tvær hæðir. Svimandi hátt til lofts og engu til sparað að allt sé sem flottast.

Að koma á svona stað eftir að hafa eytt stórum hluta ársins í Malaví er svolítið súrrealískt. Óraunverulegt.

Musteri Mammons var það sem mér datt í hug.

Og þá komu mér hárskeraskærin í hug. S-Afríka er ótrúlegt samfélag. Þar er þvílík auðlegð og á sama tíma þvílík fátækt. Og allt þar á milli.

En þrátt fyrir þessar vandlætingarhugsanir, þá tilbað ég Mammon í þessari ferð.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...