Ég hugsa að fæstir flokki mig sem listaspíru. Í gegnum tíðina hef ég lítinn áhuga sýnt á listum.
Ég hef líka tekið eftir að það sem mér finnst fallegt, t.d. í myndlist, þykir yfirleitt ekki mjög fínt hjá þeim sem vit hafa á.
Ég hef reyndar alltaf haft gaman af því að fara í leikhús. Alveg frá því ég var strákur.
En, þar er ég frekar í almúgaflokknum, þykir gaman að försum og grínleikritum. Í fyrra sá ég Macbeth í Þjóðleikhúsinu og það var eitthvað það versta sem ég hef lent í. Mér þótti það leikrit hræðilegt og það var kvöl og pína að sitja til enda.
Tónleikar finnast mér líka skemmtilegir. En þá þegar leikin er dægurtónlist. Vinsæl og sígild íslensk lög. Þau finnast mér skemmtileg. Helgi Björns er eitt dæmi um söngvara sem mér finnst gaman að sjá. Jólatónleikar Baggalúts voru líka skemmtilegir í fyrra. En sinfóníur og óperur... eiginlega ekki minn stíll.
En þrátt fyrir að vera engin listaspíra og hafa frekar dapran smekk, þá verður að segjast að eitt sem ég sakna, þegar ég er í Lílongve, er að komast á menningarviðburði.
Því reyni ég eftir fremsta megni, þegar ég er á Fróni, að sækja menningaratburði.
Í gær fórum við Dagmar Ýr á leiksýninguna Tenórinn, sem sýnd er í Iðnó. Guðmundur Ólafsson leikur brottfluttan tenór, sem undir lok ferils síns kemur til Íslands og heldur tónleika. Leikritið gerist í búningsherberginu, þar sem tenórinn og undirleikarinn ættu að vera að hita upp. Þeir hins vegar spjalla um alls konar hluti - ja, eiginlega er þetta nú mest eintal - svo við fræðumst um líf tenórsins og mörg vandamála hans.
Þetta var alveg bráðskemmtilegt leikrit. Guðmundur er flottur í rullunni og ég sá hann alveg sem frægan tenór. Sum atriðin voru drepfyndin svo ekki sé meira sagt. T.d. lýsti hann því listavel hvernig ríflega eitthundrað kílóa sópransöngkonur deyja alltaf í lok ópera og alltaf í fangi tenórsins. Og því ekki nema von að þeir séu bakveikir... Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hann sagði hneykslaður frá sópransöngkonu í óperu í Síngapúr sem var svo íturvaxinn að hún flæddi yfir hann og endaði hann pikkfastur á gólfinu undir henni, nær dauða en lífi.
Já, þetta er leikrit þess virði að horfa á.
Svo tók kallinn söngspretti inn á milli. Meira að segja rappaði hann eins og hann hefði aldrei annað gert.
Tilfinningin að vera í Iðnó var sérstök. Ég man eftir því sem strákur, kannski 10 ára, að fara á Fló á skinni í Iðnó. Salurinn hlýtur að vera sá sami, en í minningunni er hann miklu, miklu stærri. Ætli þetta sé ekki sama parketgólfið og ég missti einu sinni fullan perubrjóstsykurspoka niður á. Brjóstsykursmolarnir skullu með þvílíkum hávaða á gólfið að ég varð alveg miður mín. Ekki síst fyrir að hafa tapað namminu.
Fyrir sýninguna fórum við Dagmar Ýr og fengum okkur kvöldverð á ítölskum veitingastað sem heitir Pisa. Líklega eftir borginni sem skakki turninn er í. (Maður er þvílíkur Skerjalákur...). Þetta er notalegur staður, skemmtilega innréttaður og maturinn var fínn. Ég fékk mér spaghettí með sjávarfangi, sem smakkaðist vel. Rækjur, hörpudiskur og líklega kræklingur. Svo var þjónustan til fyrirmyndar.
Svo enduðum við á því að aka eftir Sæbrautinni og virða fyrir okkur friðarsúluna.
Kvöldið var gott.
15. október 2013
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli