31. desember 2010

Góður árangur og ánægjulegur

Stundum þarf að monta sig aðeins af eigin árangri.

Í morgun þegar ég steig á vigtina þá sýndi hún 21 kg minna en hún gerði í ársbyrjun.

21 kíló!

Ég er ánægður yfir þessu. Og reyndar rígmontinn, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.

Í ársbyrjun var ákveðið að nú þyrfti að taka sig á.

„...annars verðurðu dauður eftir ekki alltof mörg ár...“ sagði einn læknir mér.

Ekki alveg það sem maður vill heyra.

En, ég var heppinn. Mér tókst að lagfæra lífsstílinn og árangurinn lét ekki standa á sér. Kílóin hreinlega hrundu af mér. Bara það að hætta að drekka gos og borða sælgæti hafði greinilega mikil áhrif. Enda þegar maður drekkur um og yfir tvo lítra af Pepsíi á hverjum einasta degi, þá innbyrðir maður slatta af sykurmolum.

Sykur tók ég útúr mínu mataræði eftir því sem hægt er og síðan var regla að fá sér aldrei oftar en einu sinni á diskinn.

Næringarfræðingur sagði mér að borða sex máltíðir á dag og mér hefur tekist að fylgja því nokkuð vel. Þá verður maður aldrei mjög svangur og gúffar því ekki matnum í sig með látum.

Síðan hef ég stundað leikfimi af miklum móð. Undir leiðsögn hámenntaðs þjálfara. Kellingaleikfimi hef ég stundum kallað þetta í gríni. Ligg á bakinu og lyfti mjöðmum og fótum. Er síðan að velta mér yfir stærðarinnar bolta og geri allskonar æfingar sem ég hefði aldrei hugmyndaflug til að láta mér detta í hug.

Aftur, árangurinn er ljós. Nú er ég miklu léttari, en ekki bara það. Einnig er ég miklu hraustari en áður.

Og hvað gerði ég í tilefni dagsins og árangursins?

Jú, byrjaði daginn á 500 metrum í sundlauginni. Fór síðan heim, bakaði vöfflur og borðaði tvær með sultu og rjóma. Því maður má ekki fara út í öfgar. Lífstíllinn er langtímamarkmið og í góðu lagi að gera vel við sjálfan sig inn á milli.

Gleðilegt nýtt ár og gangi öllum vel að ná sínum markmiðum á næsta ári.

29. desember 2010

Jólaös? Verð ekki var við hana

Vakið hefur athygli mína hvað allt er rólegt þessi jólin.

Finnst mér mikill munur frá síðustu jólum. Þá var t.d. varla hægt að fá stæði í Mjóddinni rétt fyrir jólin. Núna var hægt að velja úr stæðum á Þorláksmessu. Og reyndar var það svipað tvo dagana á undan.

Smáralindin var með rólegra móti. Fengum við stæði tveimur dögum fyrir jól rétt við innganginn. Og engan veginn örtröð inni.

Fjarðarkaup. Jú, þar var töluvert af fólki 22. desember, en á sama tíma í fyrra var ekki þverfótað í búðinni fyrir viðskiptavinum. Þá var vandkvæðum bundið að snúa við ef eitthvað gleymdist að setja í kerruna. Ekkert mál að snúa við þessi jólin.

Byko í Breiddinni. Varla kjaftur þar inni.

Garðheimar í Mjóddinni og Blómaval í Skútuvoginum. Ekkert um að vera.

Í gær fór ég í IKEA. Útsala hófst þann sama dag. Ekki var mikið af fólki. Engan veginn. Teljandi á fingrum sér.

Hverju veldur?

Í fréttunum heyrir maður að kuldinn sé orsökin. Ég man ekki betur en hafi verið nístingskuldi í fyrra. Nærri 10 stiga gaddur.

Fór fólk fyrr af stað að versla?

Kannski.

En kannski er samdrátturinn núna fyrst að hafa áhrif á fólk.

Veit það ekki, en er handviss um að fólk verslar töluvert minna núna en þá.

28. desember 2010

Þegar ég verð stór...

... þá vil ég verða lögga


Við komum nefnilega í hús hjá löggumanni í gær og guttinn fékk að máta húfuna. Vakti þetta mikla gleði hjá þeim stutta.

26. desember 2010

Tuttuguogfjögur hvað?

Við hjónin vorum aðskilin á brúðkaupsdaginn okkar fyrr í mánuðinum. Tuttuguogfjögur ár í hjónabandi. Geri aðrir betur.

Tinna Rut smellti af okkur þessari fínu mynd á aðfangadagskvöld. Ekki skyldi manni detta í hug að þessi árafjöldi sé að baki.

25. desember 2010

Jólin 2010

Aðfangadagur kom og fór eins og aðrir dagar.

Maður er víst orðinn svo gamall að helsta gleðin er að fylgjast með börnunum sínum. Og skemmtilegast að fylgjast með yngsta fjölskyldumeðlimnum.

Lundúnaævintýrið olli því að jólatréskaup áttu sér stað töluvert seinna en vant er. Tré fannst þó, en okkur hjónunum þótti tréið hálf-kreppulegt. Líklega minnsta tré frá því að við hófum að kaupa alvörutré, en það gerðum við fyrst 1991 í Vancouver.

Eins og siður hefur verið undanfarin ár, þá fékk sonurinn að setja toppinn á. Honum leist þannig á að geta þetta hjálparlaust, en þrátt fyrir að tréið væri minna en venjulega, þá var drengur of stuttur í annan endann. Faðirinn kom því til hjálpar og var ánægður með.


Ekki var neitt vikið frá vana þegar kom að kvöldmat á aðfangadag. Hamborgarhryggur frá Fjarðarkaupum. Sá bráðnaði í munni eftir snilldareldun eiginkonunnar.

Hér er Rúnar Atli ásamt ömmu sinni við matarborðið. Hryggurinn í forgrunni.


Undir tréinu var mikið af pökkum þetta árið eins og fyrri ár. Hér sést Rúnar Atli halda á stærsta pakkanum sem hann fékk í þetta sinn. Núna, á jóladagsmorgni, situr sá stutti og dundar sér við samsetningu.


Að lokum óskum við öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Fjársjóðurinn, þessi eini sanni

Dagmar Ýr, Rúnar Atli og Tinna Rut.

20. desember 2010

Beðið aðeins lengur

Sit núna úti í flugvél og bíð eftir því að hún leggi af stað. Líklega góður hálftími síðan vélinni var lokað. Flugmaðurinn gaf reyndar til kynna að við þyrftum að sitja a.m.k. 40 mín. í vélinni áður lagt yrði af stað. Svo þarf að taxa í 20 mín. Bara ein flugbraut í gangi.

En þetta styttist.

Enn styttist

Er kominn út að hliði. Mætti út á völl um hálfsjö, en vélin var sett kl. 9. Ekkert bólaði á starfsfólki. Leist mér ekkert sérstaklega á þetta, því önnur flugfélög á nálægum borð voru að tékka inn í óðaönn. Ekkert hins vegar hjá okkur.

Loks um 8 birtist starfsfólk. Skipulagið var ekkert sérstakt því ekkert hreyfðist lengi.

En svo loksins, loksins fór eitthvað að gerast. Ég fékk brottfararspjald, flaug í gegnum öryggiseftirlitið og fékk mér langþráðan morgunmat.

Svo kemur í ljós hvort taskan er með.

Styttist...

Sit núna á Heathrow flugvelli. Kominn með brottfararspjald í hendur og bíð bara eftir tilkynningu um númerið á brottfararhliðinu. Sem betur fer virðist glytta í lok ferðalagsins.

Meira síðar, nú var að koma tilkynning

19. desember 2010

Óveður og fréttaflutningur

Almannatengslafulltrúi Heathrow flugvallar er mikið í sjónvarpinu hér í Bretalandi. Þetta er krullhærður stráklingur, líklega 25-27 ára.

Hann segir að veðrið í gær sé það versta sem menn hafi upplifað í 20 ár.

Örfárra sentimetra snjór.

Og reyndar má ekki gleyma ,,djúpfrystingunni.''

Big freeze!

2-5 gráðu gaddur. Ekki er það nú mikið.

Þetta éta sjónvarpsstöðvarnar upp, en engum dettur í hug að spurja veðurstofuna hvernig þetta veður sé í sögulegu samhengi.

Almannatengslafulltrúinn stýrir umræðunni.

Lundúnavist

Skrapp í strætóferð í dag. Aðalástæðan var að kaupa yfirhöfn af einhverju tagi. Það gengur varla að storka örlögunum mikið lengur með því að flækjast út um allt á stuttermaskyrtu.

Ég fór sem sagt í strætó. Spurði konu á stoppustöðinni ráða, því ég var ekki alveg viss hvaða vagn ætti að taka. Hún sá greinilega aumur á mér, því hún lagði mér lífsreglur og sá til þess að ég kæmist klakklaust á Laugaveg þessa hverfis sem ég er í. Kona þessi er líklega frá einhverri eyju úr karabíska hafinu ef dæma má af hreimi hennar.

Á leiðinni í strætó velti ég því fyrir mér hvernig væri að búa í Lundúnum. Komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri ekki eftirsóknarvert. Mér finnst einfaldlega ekkert við Lundúnir aðlaðandi. Það bara ekki flóknara en það.

En mér tókst þó að finna yfirhöfn sem ég er ánægður með. Svo er bara að sjá hvernig Gullu líkar við ,,töffarajakkann.''

Ég rölti svo um bæinn í smástund, fylgdist með mannlífinu og keypti jólagjöf eða tvær. Það verður að segjast að fjölbreytni mannlífsins hér er forvitnileg. Ekki veit ég hversu mörg tungumál ég heyrði á þessum stutta miðbæjarrúnti, en mörg voru þau. Síðan fór mér að kólna á tánum og þar með fór ég að sakna veðurlagsins í Windhoek. Þá var tími að finna strætóinn til baka.

Ég náði sambandi við Icelandair skrifstofuna heima. Stefnt er á að fljúgja héðan klukkan níu í fyrramálið. Mikið vona ég að það gangi eftir, því mér hundleiðist að hanga hérna einn rétt fyrir jólin. Allt sem krossleggja er hægt er því krosslagt með þá von í huga að skömmu eftir hádegi heyri maður fleygu orðin:

,,Kæru farþegar, velkomin heim.''

Bretaklúður og hvar er Icelandair starfsfólkið?

Sit núna á hóteli nokkur hundruð metra frá Heathrow flugvellinum í Lundúnum. Hef það alveg ágætt, þó auðvitað vildi ég miklu frekar vera í faðmi fjölskyldunnar í Æsufellinu.

En klúður gærdagsins heldur áfram. Þá gátu flugvallaryfirvöld ekki tekist á við 2-3 sm snjólag. Vélin frá Keflavík var síðasta vélin sem lenti áður en vellinum var lokað. Þá var klukkan 12:15. Eftir það snjóaði ekkert. Sex klukkutímum seinna er ég kominn út í vél og allt klárt fyrir brottför. Klukkutíma síðar tilkynnti flugstjórinn okkur að flugvöllurinn yrði ekki opnaður þann daginn. Allir farþegarnir þurftu því að fara frá borði.

Ekki nög með það, heldur var okkur líka sagt að öll hótel væru full og við þyrftum því að sjá um okkur sjálf. Og svo þyrftum við að finna töskurnar okkar.

Ýmsir þjóðþekktir Íslendingar og útrásarvíkingar eru í sama bobba og ég. Má nefna Eggert Magg, fyrrum West Ham stjóra, Steina í Kók og frú og Jón stórforstjóra Sigurðsson.

Í töskusalnum ríkti algjör ringulreið. Þar voru hundruðir taska út um allt og ekkert skipulag. Ég spurð einn starfsmann hvar töskurnar úr mínu flugi kæmu. Sá ranghvolfdi í sér augunum og sagði: ,,Þú verður bara að leita.''

Já, sæll!

Eftir klukkutíma bið hafði slatti af mínum ferðafélögum fengið sínar töskur, en ekkert bólaði á minni. Fór ég að spyrjast fyrir. Eftirgrennslan leiddi í ljós að þar sem mín taska kom úr tengiflugi þá var hún tekin til hliðar einhvers staðar og yrði sett beint í vélina sem ég færi í. Ágætt hefði verið ef maður hefði fengið að vita þetta.

Á meðan ég beið eftir töskunni sem aldrei kom áskotnaðist mér símanúmer hjá Hotels.com og tókst mér með þeirra aðstoð að fá herbergi á einhverju litlu hóteli guð-má-vita-hvar.

Svo var að koma sér þangað.

Leigubíll.

Ég fer út úr flugstöðinni og sé heljarinnar biðröð eftir leigubílum. Mér leist ekki vel á þessa röð því ég var ekki klæddur fyrir mikla útivist í tveggja stiga frosti eða svo. Ég var bara á stuttermaskyrtu og gallabuxum. Hafði beðið Gullu að koma með úlpu út á völl í Keflavík, en ég átti ekki von á því að fara út á meðan á ferðalaginu stóð.

En ég þurfti leigubíl og rölti mér þvî að endanum á röðinni. En þá lá við að mér væri öllum lokið. Þar sem ég hélt að röðin endaði fór hún fyrir horn og var margfalt lengri en ég hélt. Varlega áætlað, ég endurtek varlega, voru ekki undir 500 manns í þessari röð. Án gríns.

Þarna stóð ég í meira en klukkutíma í röð. Í stuttermaskyrtu og undir frostmarki. Ég var reyndar með bol í handtöskunni og fór líka í hann. Sem betur fer er ég heitfengur, en síðustu mínúturnar í röðinni var ég farinn ad fá ósjálfráðan skjálfta öðru hverju. Óþægileg tilfinning, megið þið trúa.

En á endanum komst ég á hótelið. Svaf ég vel til morguns, þótt eitthvað af gormum í dýnunni væru full uppstæðir.

Starfsfólk Icelandair sagði okkur að brottför yrði í kringum 8 næsta morgun. Mætti ég því út á völl rétt eftir sex.

Þá var kominn lögregluvörður við allar aðkeyrslur að Heathrow. Völlur var lokaður var mér sagt. Tókst mér þó að komast gangandi inn í innritunarsalinn. Þar voru þúsundir manna, sem flestir höfðu eytt nóttinni á vellinum. Öðru hverju var lesin upp tilkynning þar sem sagt var að völlurinn væri lokaður og að allir ættu að yfirgefa hann.

Ekki bólaði á starfsfólki Icelandair. Símanúmerið sem upp var gefið var símsvari sem sagði að skrifstofa opni á mánudag kl. 9.

Ekki þótti mér þessi þjónusta til fyrirmyndar. Ég sá t.d. srafsmenn Swiss Air þarna sem leitðu uppi sína viðskiptavini, fræddu þá um stöðu mála og gáfu þeim skriflegar leiðbeiningar og símanúmer. Svipað virtist í gangi hjá Lufthansa.

En engar upplýsingar frá Icelandair.

Eftir smátíma virtist mér einsýnt að ekkert myndi gerast næstu klukkutímana. Hringdi ég því aftur í vini mína hjá Hotels.com og redduðu þeir mér hótelherberginu sem ég er í núna. Ég er einn af þeim heppnu því fullt af fólki finnur ekki hótelherbergi.

Gulla náði sambandi við Icelandair heina, en þeir vissu ekkert. Ekki nema að þar sem ég átti flug í gær, þá væri ég ekki í forgangi í dag.

Eru menn ekki að grínast?

11. desember 2010

Þrautaganga í Tsumeb

Var að skoða gemsann mínn - jú, jú, ég hef lítið að gera á kvöldin, svona aleinn - og þá rakst ég á þessa hreyfimynd. Hún er tekinn í júlí sl. í Tsumeb. Rúnar Atli kom með mér í vettvangsferð á leikskóla og þurftum við að gista eina nótt á fínum gististað. Þar var fín leikaðstaða og Rúnar Atli vildi auðvitað prófa.

Rigning í Windhoek

Fyrr í kvöld kom þessi svakalega úrhellisrigning hér í Windhoek. Sem er fínt, því þá dregur aðeins úr hitanum sem er hér annars. Ég prófaði að taka smámynd á símann minn út um stofugluggann og hér kemur hún. Vonandi gefur hún ykkur hugmynd um hvernig rignir hérna.

Alvöru listaverk

Ýmislegt kemur í ljós þegar staðið er í flutningum. T.d. gat ég ekki annað en tekið mynd af þessu listaverki sonar míns. Pasta er til margra hluta nytsamlegt.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...