30. janúar 2007

Lestrarhestur

Rúnar Atli er smátt og smátt að uppgötva töfraheim bókanna. Hann les og les bækurnar sínar, afturábak og áfram.

Skemmtilegu smábarnabækurnar eru það sem blífar hjá honum. Stubbur er uppáhaldið núna. Ótrúlegt hversu bók sem fyrst var útgefin á Íslandi 1947 er vinsæl hjá börnum heilum 60 árum síðar. Einnig er Hjá afa og ömmu ofarlega á vinsældalistanum.

Eins og sést er hann kominn með taktíkina á hreint - ekki fara að sofa fyrr en búið er að lesa bók, helst tvær.

Alveg er nauðsynlegt að gera eins og pabbi og nota bara aðra hendi til að halda á bókinni...

Svo eru sumir frasar í bókunum sem hann lifir fyrir að fá að heyra. Þegar Óli og Pétur þurfa að fá dropa vegna þess að þeir fengu illt í magann, en Stubbur þarf ekki að fá dropa, þá er Stubbur fjarska glaður.

Fjarska glaður.

Þetta orðalag finnst Rúnari Atla mjög flott. Hann segir alltaf: „Aggli fjarska glaður þegar mamma koma fluglelinna.“

Pabbinn verður líka fjarska glaður þá.

28. janúar 2007

Hreinlæti

Um helgar bregðum við feðgarnir okkur oft saman undir sturtuna.

Jú, jú, við þvoum okkur líka á virkum dögum...

Ein góð mynd af syninum eftir sturtuferðina í morgun:

19. janúar 2007

Sumarfrí

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Við hér erum farin að undarbúa
sumarfríið. Auðvitað er sumar hér núna, en við stefnum á íslenskt
sumar. Ja, vor í það minnsta. Keyptum flugmiða í dag með BA frá
London til Keflavíkur og til baka. Eigum líka miða með Air Namibía
milli Windhoek og London. Heim verður komið 6. maí og farið til baka
30. sama mánaðar. Í þetta fer rétt rúmur helmingurinn af
orlofsdögunum mínum.

Mér skilst það sé eitthvað merkilegt við 26. maí þetta árið.

Sjáumst.

17. janúar 2007

Í skólanum, í skólanum...


Jæja, þá byrjuðu börnin í skólanum í dag. Leikskólinn byrjaði reyndar í gær, en við Rúnar Atli nenntum engan veginn að standa í myndatökum þá. Tinna Rut hins vegar byrjaði í tíunda bekk í dag og þótti okkur við hæfi að festa börnin á filmu við upphaf dagsins.

Skólinn var í lagi, sagði hún. Gaf lítið meira út á það. En skóladagar þýða að ég þarf að vakna þremur korterum fyrr en þegar enginn skóli er.

Bömmer.

12. janúar 2007

Mér finnst rigningin góð, la-la-la-la-la

Sungu ekki Grafík og Helgi Björns þetta um árið? Mikið er ég sammála
þeim. Áðan kom nefnilega þessi líka meiriháttar þrumuskúr. Á innan
við klukkutíma féll hitinn úr 35 gráðum niður í 19. Alveg stórkostlegt.

Allt í einu fékk maður áhuga á að gera eitthvað annað en bara liggja
fyrir framan viftur og loftkælingar.

Meiriiii-hááátttttar.

11. janúar 2007

Styttist í skólann


Nú styttist í 10. bekkinn hjá henni Tinnu Rut. Á miðvikudag í næstu viku er sumarfríið búið og gellan komin í þennan margþráða 10. bekk.

Í dag mátti sækja skólabækurnar milli 14:00 og 16:30. Klukkan 14:00:05 vorum við mætt á staðinn. Bókastaflinn er þónokkur eins og sést. Ekki sést betur en Tinna brosi út að eyrum. Í næstu viku þýðir hins vegar ekki að vera með beran magann og á háhæluðum skóm. Neibb, þá er tími á gráa pilsið, bláu skyrtuna og bindið. Kannski fer hún í jakkann á fyrsta degi, kemur í ljós.

10. janúar 2007

Heitt...

Úff, hitinn hér í Windhoek liggur nálægt fjörutíu stigum þessa
dagana. Enda er alveg vonlaust að ætla að vera eitthvað úti við.
Maður bara lamast út af hita. Eina ráðið er að leggjast fyrir framan
viftur og loftkælingar, og svo stinga tánum í sundlaugina. Allir
vonast eftir rigningu, en hún ætlar að láta bíða eftir sér.

Heitt...

3. janúar 2007

Sorglegar staðreyndir

Á Íslandi er mikið rætt um umferðarmál í kjölfar 30 dauðsfalla í
umferðinni á síðasta ári. En ekki eru mál betri í útlandinu. Núna um
hátíðarnar hafa a.m.k. 68 manns látið hér lífið í umferðarslysum. Ef
notuð er hin margfræga höfðatala, þá jafngildir þetta að níu manns
hefðu látist í umferðinni á Fróni. Slysin eru kannski ekki mjög mörg,
en í hverju látast margir því pakkað er í bílana hér. Einn bíll sem
lenti í árekstri var með 17 manns innanborðs. Hér erum við að tala um
fimm manna bíl með palli - pickup jeppa. Allir héldu þó lífi í þeim
bíl, en fimm létust í hinum bílnum. Átta manns létust síðan í öðru
slysi.

Hræðilegt.

Duglegur strákur

Farið var að versla í dag. Ekkert kannski stórmerkilegt við það, nema að í þessari búð eru innkaupakörfur fyrir börn. Og eins og sést var einn lítill gutti alveg til í að keyra. Gekk merkilega vel. Rásaði svolítið, en ók ekki á neinn sem ekki er í fjölskyldunni. Síðan þegar komið var að kassanum, þá tíndi hann allt upp á afgreiðsluborðið.

Duglegur strákur.

2. janúar 2007

Fátt í kotinu, og þó...

Þá er nýtt ár runnið í hlað. Í Morgunblaðinu les ég að aldrei hafi verið sprengt jafnmikið um áramót á Íslandi og um þessi. Hmm. Hér var frekar lítið um flugelda. Ég heyrði í tveimur, en tókst ekki að sjá þá. Mikið fjör. Ég sat einn fyrir framan sjónvarpið og horfði á niðurtalningu til áramóta, sem fram fór á íþróttavelli hér í bæ, en þar voru miklir áramótatónleikar. Gulla og mamma sváfu af sér áramótin, og Rúnar Atli auðvitað líka, en Dagmar Ýr og Tinna Rut fóru í heljarinnar partí sem haldið var af namibísku Bylgjunni - RadioWave. Ég þurfti því að halda mér vakandi til hálfþrjú, svo þær kæmust nú heim.

Svo á nýjársdag fækkaði í kotinu. Helmingurinn af liðinu fór til Íslands. Ekki er hægt að neita að hálftómlegt virkar hér núna. Við Rúnar Atli skutluðum öllum út á flugvöll. Hann er orðinn vanur þessu, því ég hef misst tölu á þeim skiptum sem við höfum keyrt fólk út á völl síðustu tvo mánuði.

En, reyndar má segja að ekki hafi fækkað jafnmikið og við héldum. Í gærkvöldi uppgötvaðist nefnilega að lítil og krúttaraleg húsamús hefur tekið sér bólfestu hér hjá okkur. Það var mikill handagangur í öskjunni hjá okkur Tinnu Rut þegar þetta uppgötvaðist. Ja, a.m.k. hjá mér, því Tinna Rut sat sem fastast uppi í sófa með hné undir höku. Á meðan var ég með ennisljósið mitt að lýsa undir sófann og gólfkústinn í hendinni að reyna að ná mýslu undan þessum sama sófa. Gekk þetta nú allt hálfbrösulega og um tíma játaði ég mig sigraðan. En svo glæddist leikurinn, því seint um kvöldið sé ég mýslu sitja við svaladyrnar. Tekst mér á mjög fimlegan, eigum við ekki að segja akróbatískan, hátt að opna svaladyrnar og viti menn, mýsla rölti sér út. Ég skellti í lás og greyið þeysti til baka, en lenti með andlitið á glerinu í hurðinni.

Ég vann því í bili. Nú er bara að vona að mýsla finni sér annan samastað.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...