31. maí 2008

Laugardagsmorgunn

Við feðgarnir sitjum nú a kaffihúsi med sjeik. Hávetur að nálgast, þ.a. ekki nema líklega 24 gráður. En við reynum ad harka af okkur...

28. maí 2008

Naglalökkun

Hér sést umrætt atvik þegar Doddi hálfmisþyrmdi litla frænda sínum, sem í mesta sakleysi kom í heimsókn.


Heyrt í búðinni...

Rúnar Atli: „Pabbi, ég vil fá varalit eins og mamma...“

Áhyggjuefni...?

Áhyggjuefni?

Var að koma heim í hádegismat eftir að sækja börnin. Þegar ég kom að sækja Rúnar Atla þá var hann að leika sér í einhverjum eldhúsleik.

„Ertu að baka?“ spurði ég.

„Nei, ég er að elda,“ var svarið. Svo hélt hann áfram: „Eli er pabbinn og ég er mamman...“

Áhyggjuefni...?

25. maí 2008

Þrek eða skortur á því

Þá er enn einu sinni fyrsti í rækt... Engin flottheit, sjóðheitir einkaþjálfarar eða neitt í þeim dúr. Nei, tónhlaðan (ipod fyrir íslenskufatlaða), skeiðklukkan og 18 þrepa útitröppur. Labbaði upp og niður tröppurnar í 20 mínútur.

Tók á.

Ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að sumir aðrir hafi skemmt sér frámunalega vel á evruvisjón kvöldi, svo vel að varla hefur verið mikil rækt á þeim bænum í dag.

Áreiðanlegum heimildum.

24. maí 2008

Atkvæðagreiðsla frá Namibíu

Jæja, mér tókst að fylla atkvæðakvótann frá smartsímanum í Namibíu. Tók smáþolinmæði, en náði þrisvar í gegn.

Fannst þetta einna best


En mér fannst eiginlega skelfilegt hvað viðlagið í þessu vandist vel...

23. maí 2008

Skelltu límonaði í sódastrímið...

Baggalútur...

...alveg stórkostlegt fyrirbæri.

Var að horfa á kappana í Kastljósi áðan að syngja Kósíkvöld í kvöld.

Textarnir hjá þessum gaurum eru alveg meiriháttar.

„Æ, viltu auka leti mína og sækja pínu meira sjokkólað?“

Frábærir.

Fréttatími

Jæja, búinn að horfa á íslenskar fréttir á sjónvarpsskjánum. Kom bara mjög vel út. Rúnar Atli horfði áðan á þátt með Skoppu og Skrýtlu, þáttur sem var um síðustu helgi. Eins horfði hann á Stundina okkar, en ósköp fannst mér það skrýtinn þáttur.

En þetta eru framfarir.

Svifið á vængjum hugans

Fyrir nokkru ákvað ég að sniðugt væri að tengja fartölvuna hennar Gullu við sjónvarpsskjáinn okkar því þá væri hægt að horfa á sjónvarp frá Íslandi á sjónvarpsskjá, en ekki á litlum tölvuskjá. Smávandamál að finna rétta snúru og þurfti að sérpanta hana. Snúran kom áðan og nú er hægt að horfa á tölvuna í sjónvarpinu.

En, þetta var nú ekki efni færslunnar. Ég keypti snúruna í namibísku Apple búðinni. Hvað annað? Svo spyr eigandinn mig hvort ég hafi séð nýju fartölvuna, MacBook Air. Nei, ég gat nú ekki sagt það, ja, nema jú á myndum.

Hann dregur upp eina tölvu og þvílíkt og annað eins. Ótrúlegt að þetta skuli vera tölva. Einu sinni þótti meiriháttar ef fartölvur væru undir 5 kílóum að þyngd. Þessi er 1 kíló og 36 grömm. Lygilegt. Sviftölva væri sjálfsagt rétta orðið.


En þetta er ástæðan fyrir því að ég hætti mér yfirleitt ekki í tölvubúðir að óþörfu. Hugurinn fer nefnilega á svif...

En eitt þótti mér merkilegt. Á Íslandi er ódýrasta sviftölvan á 209 þúsund krónur. Hérna var mér sagt tæpir 18 þúsund Namibíudalir, ca. 180 þúsund krónur.

En maður lætur sér nægja á setja hugann á svif. Þegar allt kemur til alls, þá getur tölvan hennar Gullu tengst við sjónvarpsskjá. Hvað þarf ég meira?

22. maí 2008

Portúgal reddar málum

Leist ekki alveg á þetta því evruvisjónið birtist hvorki á grísku né hollensku stöðinni í kvöld. En svo kom Portúgal sterkt inn og sýnir keppnina á sinni alþjóðastöð. En hversu lengi ég hangi yfir þessu...

Erfiður dagur fyrir litla menn

Skömmu fyrir ellefu var hringt frá leikskólanum. Alltaf fæ ég hnút í magann þegar símtal kemur þaðan. Sem betur fer gerist það ekki oft. Sem sagt, Rúnar Atli með skurð á kinn, var mér sagt, sem læknir þyrfi að líta á. Ég bruna því á staðinn og krakkarnir hópuðust í kringum mig þegar ég mætti: „Rúnar has a lot of blood,“ sögðu þau. Kallanginn sat inni að skoða bók með risaplástur á kinninni. Ég kíkti bakvið plásturinn og það hafði aðeins kubbast úr skinninu. Það var ekki ofsögum sagt að mikið blóð hafi flætt, því bolurinn hans var gegnsósa af blóði og eitthvað fór í buxurnar. Sem betur fer var hann með föt til skiptanna. Svo vildi hann auðvitað ekki fara til læknis, fór að hágráta þegar ég sagði honum að við yrðum að gera það.

En það sem hafði gerst var að róla hafði lent á honum. Ég er ekki alveg viss hvort einhver hafi verið í rólunni eða hvort einhver var að sveifla rólunni fram og til baka. Hann fékk að minnsta kosti róluhornið beint á kinnbeinið og greinilega af þó nokkru afli.

Svona leit hann út:


Ég fór beint á slysavarðstofuna og eins og yfirleitt var lítið um að vera þar. Komumst strax inn og þetta var skoðað og svo sett einhvers slags límkvoða í sárið. Rúnar Atli var ósköp duglegur, en var þó ekki sáttur að læknirinn var með hendina yfir andlitinu á honum á meðan hann þrýsti sárabörmunum saman. Síðan vorum við sendir í röntgenmyndatöku, því læknirinn vildi vera alveg viss að kinnbeinið væri óskaddað. Rúnar Atli var virkilega duglegur í myndatökunni, lá eins og skotinn og hreyfði sig ekki nokkurn skapaðan hlut. Við vorum búnir að ræða að hann fengi verðlaun ef hann yrði duglegur og hann stóð við sinn hluta samkomulagsins og vel það.

Við komum heim um hálftvöleytið, en mestur tíminn fór í bið á röntgenmyndastofunni.

Þegar ég kom síðan heim úr vinnu var kinnin mjög bólgin, en sárið sjálft lítur ekki illa út.


Í nærmynd:


En Rúnar Atli virðist ekki finna neitt til sem heitið getur. Reyndar vill hann ekki halda á síma í hægri hendi, því þá liggur síminn á sárinu.

Stórmerkilegt fyrirbrigði þessi límkvoða. Við feðgarnir erum alveg á því að þegar Emma var lítil, þá hefur ekki verið til svona kvoða úr því þurfti að sauma hana eftir að detta úr klifrutrénu. Fyrir þá sem ekki vita er Emma sögupersóna úr bókaflokknum um hana Emmu...

Svo má ekki setja mikla bleytu á sárið næstu fimm dagana, þ.a. hann fær ekki að mæta í sundtíma á morgun.

En merkilegt að sjá röntgenmyndirnar. Á þeim sjást greinilega fullorðinstennur og það engin smástykki. Greinilega verður nóg að gera fyrir tannálfinn á næstu árum.

Auðvitað stóð pabbinn við sinn hluta samkomulagsins og playmóbíll var keyptur. Blómasölu- og garðræktarbíll, og rekur playmókona það fyrirtæki.

20. maí 2008

„Öppdeit á feisbúkk“

Það verður að segjast að Facebook ævintýrið er að skila árangri. Fann einn samkennara minn frá árunum á Írlandi, bandarískur að uppruna, og hann svaraði eins og skot. Ekki slæmur árangur. Svo hefur einn og einn frá Ísland líka haft samband.

Svo Davíð, mörkin sem þú dregur eru bara á kolröngum stað. Vonandi stendur þú þig betur í markvörslunni...

Evruvisíón

Jæja, þá er söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva byrjuð. Hér í Afríku get ég horft á keppnina á tveimur rásum. Spurningin er bara hvort ég horfi á grísku útgáfuna eða þá hollensku...

Ætli maður sleppi þessu ekki í kvöld og kíki frekar á fimmtudagskvöldið.

19. maí 2008

Facebook

Öðru hverju hef ég heyrt um eitthvað sem kallast Facebook (http://www.facebook.com). Félagstengslanet einhvurslags á netinu og er víst langsamlega besta leiðin til að halda sambandi við vini og kunningja. Miklu betra en að hitta þá á kaffihúsum eða krám eða tala við þá í síma. Nei, Facebook er málið. Meira að segja var heilmikið um þetta fyrirbæri í Economist um daginn, og ekki skrökvar Economist. Ekki frekar en Mogginn.

Hins vegar hefur mér gengið frekar illa að átta mig á því hvað maður gerir á þessari Facebook. Ákvað að spyrja Tinnu Rut hvort hún væri á Facebook. Hún hélt það nú. Undarlegar og fáránlegar spurningar sem þessir foreldrar spurja stundum. Hún opnar víst Facebook á hverjum einum einasta degi og á einhver samskipti við vini sína. Ég fór að pumpa hana hvað maður geri eiginlega á þessari Facebook. Frekar fannst mér fátt um svör, nema þó að þetta væri alveg bráðnauðsynlegt tæki í lífsbaráttu fólks í dag.

Ókei.

Allt í einu nefnir hún þó við mig að fyrrum nágrannakona okkar af hjónagörðunum frá háskólanum í Kanada hefði fundið hana í gegnum þessa Facebook. Súsan heitir sú. Tinna Rut hafði alveg gleymt að segja okkur Gullu frá þessu, en þarna rifjaðist þetta upp. Ég varð alveg steinhissa - hvernig er hægt að hafa upp á dóttur nágranna sinna 12 árum síðar, dóttur sem þá var rétt fjögurra ára?

En þetta kveikti í mér og nú er ég sem sagt kominn í hóp félagstengslafólksins! Búinn að stofna mitt svæði á Facebook og bíð núna bara eftir því að fyrrum vinir hrannist inn að spjalla. Er a.m.k. búinn að hafa upp á þessari Súsan og bíð núna bara eftir að hún samþykki mig sem vin sinn.

Býð ég nú öllum þeim sem lesa þessar dagbókarfærslur mínar og eru með sitt Facebook svæði að bjóða mér að gerast vinur. Leitið að wiium á Facebook og ég mun líklega poppa upp á leitarsvæðinu.

Ja, ef fólk hefur áhuga að bjóða mér í sýndarkaffi.

18. maí 2008

Staðalímyndir

Í gegnum tíðina hef ég reynt að vera faðir sem er opinn fyrir ýmsu og sérstaklega hef ég reynt að forðast að beina syni mínum inn á leikföng sem eru sérstaklega fyrir stráka. Ég hef ekkert kippt mér upp við það að hann vilji bleika hluti, hvort sem eru skór eða annað. Hann fékk lánaðar dúkkur hjá systrum sínum án nokkurra athugasemda frá mér. Einhvern tímann spurði ég mína elskulegu eiginkonu hvort við ættum að kaupa dúkkukerru handa syninum. Svörin voru frekar fáleg...


Fyrr í dag var ég í kjörbúðinni með syni mínum og dóttur. Var ég að velja mér sturtusápu, DoppelDusch, og velti fyrir mér hvaða lit ætti að velja. Eins og oft áður leyfði ég Rúnar Atla að þefa til að fá hans álit. „Pabbi, ekki þessa, hún er græn. Strákar nota svarta.“

Og þá vissi ég það.

Klipping

Við feðgarnir létum klippa okkur á föstudaginn var. Höfum alltaf farið til sömu klippidömu, en nú er hún hætt störfum. Flutti til Bandaríkjana fyrir nokkrum vikum. Rúnar Atli hefur alltaf verið eins og engill hjá henni, en nú voru smávegis áhyggjur hvernig hann tæki nýjum klippara.

Áhyggjurnar voru ástæðulausar. Rúnar Atli var búinn að bíða spenntur í einhverja daga eftir klippingunni, sérstaklega vegna þess að klipparinn heitir Luigi, en einn bíllinn úr Bílamynd Disney heitir einmitt Luigi. Sjá mynd hér til hægri.

Guttinn sat grafkyrr allan tímann, þrátt fyrir að ýmislegt væri gert á annan hátt en hann er vanur. „Pabbi, hvaða hávaði er þetta?“ spurði hann mig, en þá var Luigi tekinn að snyrta hnakkann með litlum rafmagnsbartaskera. Þegar hann sá áhaldið fannst honum þetta flott, en ekki er ég viss um hann hefði samþykkt notkun bartaskerans hefði hann verið spurður fyrst.

En núna er drengurinn eins og klipptur út úr hárgreiðslublaði.

Morgunmatur

Dagurinn var tekinn svona mátulega snemma núna í dag. Við Rúnar Atli hrærðum kanadískrapönnukökudeig og Tinna Rut sá um beikonið. Tinna Rut dekkaði einnig á borðstofuborðið og þar sátum við að snæðingi.

13. maí 2008

Ferðalangur

Jæja, þá er hún Gulla mín lögð af stað til Íslands. Fimm vikna ferð í þetta sinn. Enda varla hægt að skreppa fyrir minna alla þessa leið.

Aldrei þessu vant þá sá ég hana ekki vigta töskuna sína. Var enda létt, taskan..., ekki nema 16 kíló. Enda þarf Gulla að skipta um flugvöll í Lundúnum, taka rútu milli Gatwick og Heathrow. Slæmt að BA sé hætt að fljúga til Íslands. Ég hef séð mikinn mun á flugmiðaverði til Íslands frá því að það gerðist.

Vonandi taka nú allir vel á móti henni Gullu á klakanum.

Við þrjú sem eftir erum teljum dagana þar til hún kemur til baka.

12. maí 2008

Hvert er fólkið?

Áskotnaðist fyrir nokkru síðan myndin sem hér sést að neðan. Hvaða myndarlega fólk skyldi þetta nú eiginlega vera?

8. maí 2008

Tæknifrík

Þessa dagana er ég í heimsókn hjá Himbunum. Í gær ferðaðist ég um til að skoða vatnsbrunna sem búið er að bora fyrir íslenska peninga. Í bílnum voru tveir Himbahöfðingjar ásamt túlki. Þarna er ferðast á svæðum sem eru eins útúr og hægt er að vera. Vegir hræðilegir og ekkert símasamband, hvorki landlína né farsímatenging.

Nema hvað, við erum búnir að hristast þarna vel á annan tíma, þegar annar höfðinginn hrópar upp yfir sig og biður um að bíllinn sé stöðvaður.

Sjáiði steininn í trénu þarna, spyr hann.

Við horfum, og jú, í mannhæðarháu tréi má sjá stein svona í rúmlega metra hæð frá jörðu.

Og hvað er merkilegt við þetta, spyrjum við.

Jú, segir höfðinginn, þessi steinn gefur til kynna að þarna sé farsímasamband!

Jahá.

Og mikið rétt, við fengum samband á símana okkar.

Einhverjum tímum seinna, biður höfðinginn að bíllinn sé stöðvaður upp á hæð einni. Hér er líka farsímasamband, segir hann hróðugur. Og svo klukkutíma síðar bendir hann á fjall, og viti menn þar er líka samband.

Greinilegt er að Himbarnir, þessi náttúrubörn, ganga greinilega um með gemsana sína leitandi að stöðum til að nota þá.

Frumbyggjar, hirðingjar eða tæknifrík?

5. maí 2008

Grobb


Var að ljúka við smíði á sjónvarps- og græjuskáp handa Tinnu Rut. Fannst því að ég þyrfti alveg endilega að segja frá því hér og skella mynd af gripnum hér inn. Takið eftir snúningshillu efst og einnig hallar sjónvarpið eilítið fram svo þægilegra sé að horfa ef legið er í bælinu.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...