28. mars 2006

Tungumál

Afrikaans er, þrátt fyrir að vera ekki opinbert tungumál, útbreiddasta
málið hér í Namibíu. Hljómar svolítið undarlega í eyrum, en engu að
síður á það ýmislegt sameiginlegt með íslensku. Sum orð hljóma mjög
lík, en í dag heyrði ég orð sem er bara nákvæmlega eins á báðum þessum
málum. Þannig var mál með vexti í dag, að ég var í könnunarferð í
Okahandja, sem er u.þ.b. 70 km. frá höfuðborginni. Ég var að skoða tvö
möguleg verkefni í vinnunni. Kem ég í frekar hrörlegan húskofa og er
þar að ræða málin við konu eina sem hefur það m.a. fyrir stafni að gefa
fátækum börnum hádegismat. Hún vill þá endilega sýna mér eitthvað bréf
sem hún hafði fengið og hleypur til að skáp einum og opnar hann til að
sækja möppu. Heyrist þá í henni: „!#&%$#! KAKKALAKKARRR!" Þarna kom
nefnilega lítil herdeild af þessum ófögnuði á móti henni og var hún
ekki alveg sátt við það.

En, þrátt fyrir að ég tali ekki afrikaans, þá skildi ég hana alveg
þarna.

26. mars 2006

Kippir i kynið?



Einhvern tímann var hún móðir hans Rúnars Atla uppvís að svolítilli tekíla smökkun. Ég var nú ekki viðstaddur, en Óli Siggi er víst mjög áreiðanleg heimild um þennan atburð. En eins og margir vita fylgir því oft með tekílanum að bragða á salti, kreista upp í sig sítrónusneið og sturta svo í sig guðaveigunum. Ég þekki þetta nú ekki mjög vel sjálfur, er frekar óreyndur á þessu sviði. Er samt ágætis náungi engu að síður.

Saga þessi af móður hans kom upp í huga mér í dag. Við vorum á einu af fínu hótelum bæjarins að kveðja samstarfkonu okkar, en hún er að flytja heim. Rúnar Atli og Víðir voru eitthvað að bardúsa saman, skoða fiska o.fl., og síðan fer Víðir að taka drenginn í kennslustund.

Í hverju fólst kennslustundin? Jú, í saltsmökkun...

Rúnari Atla virtist líka þetta vel - ánægja af saltinntöku er kannski í genunum.

Hvað með tekílað?

Vígalegur


Meðfylgjandi mynd þarfnast nú fárra orða, þ.a. ég leyfi henni bara að tala.

25. mars 2006

Óforskammaðar mæður

Hvenær í ósköpunum gerðist það að við börnin hættum að verða mæðrum
okkar til skammar og þær höfðu hlutverkaskipti við okkur börnin?

Var að fá sms frá mömmu frá Kanarí. Orðrétt:

„Heitasti dagur í ferðinni. Ólíft úti. Erum að fá okkur í glas úti á
svölum. Við stelpurnar erum bara á hálfu bikíni. Erum samt að deyja úr
hita. Kveðja frá okkur.“

Sko, ókey með að fá sér í glas úti á svölum. Ekkert við það að athuga.
En þarf blessuð móðir mín að tilkynna mér að hún sitji á almannafæri -
ásamt systur sinni geri ég ráð fyrir - aðeins klædd öðrum hluta
bikínisins? Gat hún ekki bara sleppt því að segja mér það? Hefði sms-ið
ekki alveg komið skilaboðunum jafnvel til skila með því að sleppa þessu
orði: „hálfu“?

Nei, ég bara spyr.

Svo er það annað:

Hvor helmingurinn skyldi þetta vera?

Drykkjurúturinn hann ég

Í gærkvöldi hringdi Doddi og á meðan við spjölluðum saman þá rifjaðist
upp fyrir mér að ég hafði ætlað að deila með ykkur drykkjusögu minni úr
ferðalaginu um síðustu helgi.

Er ég var að hafa mig til og setja í nýkeypt kæliboxið tók ég þá
fjóra bjóra sem ég átti inni í ísskáp og setti þá ofan í boxið. Var nú
að velta fyrir mér hvort þetta mundi duga í ferðalaginu. Hvort ég ætti
kannski að kaupa kippu til viðbótar. En lét nú ekki verða af því og fór
því klifjaður fjórum bjórum og einni hvítvínsflösku. Sú hafði líka
staðið inni í ísskáp.

Þegar við síðan komum til baka og ég fór að ganga frá úr kæliboxinu, þá
komu í ljós þrír bjórar og hvítvínsflaska sem fóru inn í ísskáp á nýjan
leik. Sem sagt, einn bjór var drukkinn á þessum þremur kvöldum sem ég
var í burtu.

Kallast þetta að þroskast.

Augnlæknafréttir

Tinna Rut fór til augnlæknisins aftur í morgun. Það var smábreyting frá
síðast. Þá var -0,75 á báðum augum, núna var -0,50. Læknirinn - kona í
þetta sinn - sagði að við skyldum ekki gera neitt að sinni, þetta væri
það lítið að gleraugu breyta litlu svona dags daglega. Hins vegar sagði
hún að þegar kæmi að bílprófsaldri, þá skyldum við láta skoða hana á
ný. Hún sagði að í næturakstri þá væri mikill munur á því að vera með
gleraugu eða ekki. En eins og er, engin ástæða til að gera neitt.

Prentari!

Lét minn loksins verða af því! Keypti prentara áðan. Fór í verslun sem
heitir Incredible Connection og sérhæfir sig í tölvubúnaði. Sá í
blaðinu í gær að þarna var HP prentari á tilboði og fór því og kíkti.
Hálftaugaóstyrkur eftir að lesa greinina í tölvublaðinu sem ég sagði
ykkur frá um daginn. Þarna var slæðingur af prenturum til, þ.á.m. sá
auglýsti. Náði svo í sölumann og fór að spurja um prenthylki og
eitthvað annað gáfulegt (úr tölvublaðinu auðvitað). Hann horfði á mig
og sagði síðan „þú vilt ekki þennan, heldur miklu frekar Canon
prentarann sem ég á hérna.“ Ókey, kannski var eitthvað við mig sem
sagði „Canon notandi“ en verð þó að viðurkenna að ég man ekki eftir að
hafa átt neitt merkt Canon, nema kannski reiknivél á síðustu öld. Hvað
um það, hann sýnir mér prentarann. Sá var miklu nettari en HPingurinn,
sem var reyndar svolítill hlunkur. Miklu hærri upplausn í þessum og
síðan prentar hann sjálfur báðum megin á pappírinn ef maður vill
svoleiðis. Og ég er einn af þeim sem vill svoleiðis. Þoli t.d. ekki
laserprentara sem geta ekki prentað á báðar hliðar. Ég féll sem sagt
fyrir þessu bragði sölumannsins og keypti bara það sem hann sagði að
mér væri fyrir bestu. Hefði sjálfsagt getað sleppt því að kaupa
tölvublaðið.

Ennnívei, heim fór ég með græjuna og byrjaði á því að tengjast netinu
og fletta þessum prentara upp á heimasíðu MacWorld tímaritsins. Flottur
prentari sögðu þeir, og getur prentað á geisladiska. Ég hafði nú ekki
áttað mig á því. Ég var nú orðinn spenntur að prófa græjuna og fór því
að opna kassann, lesa leiðbeiningar, setja prenthylkin í og hugbúnaðinn
inn á tölvuna. Prófaði síðan að prenta eina mynd af Rúnari Atla.

VÁ, var það eina sem mér datt í hug. Þvílík gæði á myndinni. Hún var
bara eins og beint frá framköllunarstofu. Ótrúlegt. Greinilega verið
mikil þróun síðan ég keypti síðast prentara. Ég er því hæstánægður með
gripinn. Nú er bara að fara að prenta myndir. Nóg er víst til af þeim.

23. mars 2006

Kirkjurækni

Á morgnana þegar ég er búinn að skutla Tinnu Rut og Rúnar Atla í skóla
og leikskóla þá liggur leið mín framhjá stórri kirkju. Hún heitir í
lauslegri þýðingu Alheimskirkja Jesús Krists Drottins vors - Konungdæmi
Guðs. Eða eitthvað í þá áttina.

Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu?

Jú, þegar ég er á ferðinni þarna, er klukkan rétt rúmlega sjö að
morgni, og iðulega er kraðak af fólki þarna inni. Dyrnar eru alltaf
opnar svo ég sé inn í þann mund sem ég tek vinstri beygju inn á
sjálfstæðisbreiðstrætið. Hvað er þetta fólk að gera þarna svona snemma?

Ekki nóg með það, þegar ég sæki Rúnar Atla í hádeginu, þá er fullt af
fólki þarna líka...

Hér er greinilegt að kirkjurækni fer eftir ríkidæmi. Þeim mun fátækari,
þeim mun meira talar fólk um Guð og þakkar fyrir það sem það á. Þeim
mun ríkari, þeim mun minna hugsað um Guð og þakklæti til hans...

Einhver hélt því fram að ég hefði átt að verða prestur.

21. mars 2006

Dularfulla töskuhvarfið!

Hjá okkur var mjög vísindalega pakkað niður fyrir ferðalagið. Hvert
okkar var með sína tösku, ja, svona að mestu leyti. Rúnar Atli fékk um
daginn bakpoka til að nota á leikskólanum og tók ég eiginlega öll föt
sem drengurinn á, þ.e. stuttbuxur og boli, og setti ofan í þennan
bakpoka. Fötin hans eru tiltölulega fyrirferðarlítil. Rakst svo á einar
aukabuxur og -bol og henti efst í mína tösku. Verður að hafa smá kaos í
þessu líka... Ok, ok, best að halda mér við efnið. En þetta var sem
sagt allt í góðum málum.

Þar til ... þar til í Tsaobis garðinum. Ég er eitthvað að dunda mér við
grillið og fer þá ekki hugurinn að hverfa að þessum bakpoka hans Rúnars
Atla - kom hann inn úr bílnum með hinum dótinu inn í kofann? Hvar setti
ég hann? Ef hann kom ekki inn, hvernig stóð á því? Getur verið að hann
hafi ekki komið með? Eitthvað á þessa lund voru hugsanir mínar á milli
þess sem ég velti fyrir mér hvort marineruðu lambasneiðarnar væru
tilbúnar. Þær voru reyndar mjög vel heppnaðar, ykkur að segja. Ha, já,
áfram með smjörið - það var þetta með bakpokann.

Ég fer síðan að svipast um eftir umræddum bakpoka og finn hann bara
ekki nokkurs staðar. Sama hvar ég leita. Nú voru góð ráð dýr - ein föt
til skiptana fyrir fjóra daga og þegar þarna er komið sögu var
drengurinn drullugur upp fyrir haus eftir að leika sér í aurnum og
drullunni sem fylgdu með rigningunni. Að ná sandinum úr hárinu hans tók
tvær baðferðir. Heppni að bleyjurnar, og annað tengt salernisferðum
drengsins, voru þó ekki í bakpokanum, heldur á öðrum vísum stað. Eins
gott!

Ég auðvitað skelli heilanum í fimmta gír og túrbó að reyna að muna hvað
hafi orðið um blessaðan bakpokann. Man síðast eftir honum á miðju gólfi
í hjónaherberginu ásamt öðru sem kom allt með. Sama hvað ég brýt
heilann, mér tekst ekki að muna eftir að hafa séð bakpokann eftir það.

Í Swakopmund var því arkað í hættulegu deildirnar og verslaðir gallar á
drenginn. Ég meina, gallabuxur fyrir 220 krónur, jogging galli fyrir
280 krónur... hver stenst svona verð?

Síðan þegar ferðin var að renna sitt skeið, þá vorum við Tinna Rut
mikið að spá í þetta með bakpokann. Hvort hann stæði þarna aleinn út á
miðju hjónaherbergisgólfi, eða hvað? Því var þetta það fyrsta sem gert
var þegar komið var heim, ja, eftir að búið var að slökkva á
þjófavörninnni, að æða inn í hjónaherbergið. En, viti menn, þar var
bakpokinn ekki. Ég fór í herbergið hans Rúnars Atla, ekki þar. Stofuna
- ekki þar, sjónvarpsherbergið - neibb, eldhúsið, ó-nei. Hvar er
bakpokinn?

Sem ég ríf hár mitt og skegg yfir þessu, þá dettur mér í hug að kíkja í
skápinn hans Rúnars Atla þar sem bakpokinn er venjulega geymdur þegar
hann er ekki í notkun. Og viti menn, þar inni í skápnum stendur
bakpokinn. Fullur af fötum. En, af hverju þar? Ekki tók ég mig til og
setti hann aftur þar inn? Er Alzheimer virkilega farinn að banka á
dyrnar?

Ég er búinn að finna skýringu sem ég sætti mig við. Hún er sú, að Rúnar
Atli, þessi elska, hafi séð bakpokann á gólfinu og, vitandi það að hann
á að vera inni í skápnum, hafi hreinlega tekið bakpokann þegar við
Tinna vorum að halda á öðru fram, og bara gengið frá honum aftur. Og
lokað skáphurðinni - það finnst honum gaman - svo ekki var nokkur leið
að sjá pokann þegar síðasta yfirlitsferðin var farinn áður en lagt var
í 'ann.

Ef þetta er ekki raunin... þá er Alzheimer boðið í bæinn...

Ökumeistarinn

Við héldum því af stað niður til Swakopmund á sunnudagsmorguninn. Mig
langaði ekki að fara aðalveginn niður eftir, heldur valdi að fara
malarveg. Hann er heldur styttri, en seinfarnari. Bar vegurinn merki
rigninga undanfarinna mánuða, sum staðar var hann bara í sundur. En það
gerði nú lítið til, við á Toyota Hilux með fjórhjóladrifi og ég veit
ekki hvað og hvað. Vegurinn var annars beinn og breiður og því nær sem
dró ströndinni batnaði hann. Tinna Rut spyr mig svo hvort hún megi
nokkuð keyra. Hún man enn eftir þegar ég leyfði Dagmar Ýr einhvern
tímann að taka í stýrið þegar hún var á Tinnu aldri. Þarna var engin
umferð og vegurinn eins og þrefaldur vegur á Íslandi á breiddina, þ.a.
ég lét eftir beiðninni hennar. Hún varð voðaroggin, syfjan sem hafði
verið að hrjá hana hvarf eins og dögg fyrir sólu, og hún settist undir
stýri. Kúplingin vafðist aðeins fyrir henni til að byrja með, en
reyndar var hún snögg að átta sig á þessu. Svo var farið í annan gír og
lullaðir svona þrír kílómetrar eða svo. Þá tók ég við. Svo einhverju
seinna spyr hún á nýjan leik og leyfði ég henni að prófa aftur. Nú fékk
hún að fara í þriðja gír undir ströngum fyrirmælum að fara ekki yfir 50
km hraða. Hélt hún nálinni negldri í 50 allan tímann. Í þetta sinn
keyrði hún tæpa 13 kílómetra og var mjög roggin. Hún ók því um 10% af
leiðinni þennan daginn.

Ferðalag

Þá erum við komin aftur í kotið eftir nokkura daga ferðalag. Allt er
eins og skilið var við það, enda fékk ég mann til að koma hér og kenna
mér almennilega á þjófavarnarkerfið í húsinu. Veitti ekki af, í fyrsta
lagi fann gaurinn tvær bilanir í kerfinu, og í öðru lagi er heilmikið
af tökkum sem hægt er að styða á og betra að gera þetta rétt. En ég er
nú hálflatur að nota þetta. Helst þegar farið er í langferðir.

Nóg um þetta. Við lögðum af stað skömmu fyrir eittleytið á laugardag.
U.þ.b. tveimur tímum á eftir áætlun, en lítið stress yfir því. Við
mættum síðan í Tsaobis hlébarðagarðinn upp úr klukkan þrjú og gekk
ferðin bara vel. Rúnar Atli varð upprifinn að sjá nautgripi á leiðinni.
Afleggjarinn að garðinum var ekki nema 11 km. langur og ekki hægt að
keyra hraðar en 30 og við ókum þarna fram á stóð og hann tapaði sér
alveg í mu-mu-inu drengurinn. Ég held grínlaust að þetta hafi verið
hápunktur ferðarinnar hjá honum. Við fengum svo úthlutuðum kofa þarna,
en flestir Íslendinganna sem þarna mættu gistu á tjaldstæðum. Eini
viðleguútbúnaðurinn sem við eigum hér eru þrír stólar, kælibox,
grillgrind og grilltöng. Allt þetta, fyrir utan stólinn hans Rúnars
Atla, var keypt fyrir þessa ferð. Við vorum því, eins og gefur að
skilja, ekki alveg tilbúin í að tjalda.

Fyrsta mál á dagskrá var að fylgjast með matargjöf sjíta (cheeta) - ég
hef nú bara ekki græna glóru hvað þessi kattardýr heita á íslensku, en
þau eru víst sneggstu dýr veraldar. Geta hlaupið langt á annað hundrað
km hraða. Þrír kettir eru þarna, en virka nú ósköp gæfir. Hafa verið
þarna frá barnæsku og okkur var meira að segja boðið að fara inn í
búrið til eins, ef við bara vildum. Ég var nú ekki voðalega spenntur.
Ekki alveg viss hvað Tinna Rut og Rúnar Atli myndu gera ef faðirinn
lenti í kjafti einhvers villikattar.

Síðan voru einhverjir apar þarna og svo auðvitað tveir hlébarðar. Þeir
voru nú ekkert voðalega spenntir yfir áhorfendum og létu varla sjá sig
nokkuð að heitið geti.

En um kvöldið var svo grillað. Setti strik í reikninginn að það gerði
hellirigningu. Slæmt því þarna er ekkert nema sandur og mold á jörðinni
og því varð jörðin frekar óskemmtileg. A.m.k. fyrir fullorðna fólkið -
börnunum virtist nokk sama. Tinna Rut hitti þarna nokkrar stelpur á
sínum aldri og skemmti sér vel. Svo stytti nú upp að lokum og
grillmaturinn bragðaðist vel. Var þetta víst í fyrsta sinn sem ég
grilla eftir að ég flutti, en ég hef ekki ennþá fjárfest í grilli
heima. Verð nú að fara að kippa því í liðinn held ég svei mér þá.

Hálfilla gekk að sofna. Í fyrsta lagi var kofinn fullur af flugum. Sem
betur fer ekki neinum sem bíta, en pirrandi var þetta engu að síður.
Við enduðum með að hafa kveikt á einu ljósi sem dró flugurnar að sér.
Síðan var ofboðslega heitt. Oft fylgir rigningunni hér mikill hiti að
nóttunni og það gerði það svo sannarlega þarna. En allt hafðist þetta
nú og að lokum kom morgunn.

Að loknum árbít, þá var borgað fyrir kofann og ekið af stað sem leið lá
til Swakopmund. Bæti því ferðalagi við á eftir.

Vesen...

Skilst að það sé búið að vera vesen á bloggsíðunum. Veit ekki meir -
búinn að vera tölvusambandslaus og þar með blissfully unaware. En vonum
að nú sé búið að kippa þessu í liðinn.

17. mars 2006

Frí framundan

Vinnuviku lokið. Enn einni. Framundan er löng helgi hjá mér og börnum.
Fjögurra daga helgi meira að segja. Á þriðjudaginn kemur er
þjóðhátíðardagur Namibíu, landið verður 16 ára gamalt 21. mars
næstkomandi. Skólarnir hér nota því tækifærið og gefa frí á mánudag og
fá þar með fjögurra daga helgi. St Paul's er engin undantekning þar á.

Við ætlum því að bregða undir okkur betri fætinum og fara í ferðalag. Á
morgun leggjum við í hann og förum í einhvern hlébarðagarð, svona 250
km frá Windhoek. Er þetta á að giska miðja vegu milli höfuðborgar og
strandar. Þarna ætlar einhver slæðingur af Íslendingum að koma saman og
grilla og njóta samverunnar á því ylhýra.

Á sunnudag höldum við svo aftur af stað og ökum til Swakopmund. Þar er
meiningin að gista í tvær nætur aðallega svo hún Tinna mín geti farið á
fjórhjól. Hún hefur eingöngu farið sem farþegi, en núna ætlar hún sko
að vera ein á tækinu. Það er mjög gaman að þeysa um sandöldurnar eins
og sumir lesenda minna geta borið vitni um.

Á mánudagsmorgun þarf ég aðeins að vinna. Fer á tvo fundi, en það er nú
lítið mál. Hún Tinna Rut sér bara um guttann á meðan. Svo verður haldið
til baka á þriðjudeginum.

14. mars 2006

Matarvenjur


Hef nú frá litlu að segja í dag. Er þreyttur eftir miklar setur í bíl í dag. Segi kannski frá því síðar. Hins vegar verð ég að sýna ykkur myndina hér til hliðar. Lenti drengurinn í slagsmálum? Tússpennaslag kannski? Nei, hann var að borða! Já, þennan daginn matbjó ég lærisneiðar í raspi og rauðrófur voru eitt meðlæti. Þannig er að rauðrófur eru eitt af því matarkyns sem piltur dýrkar og dáir. Hann tekur kipp þegar hann sér krukkuna. Hins vegar eru rauðrófur ekki voðalega fatavænar og því tók ég á það ráð að hátta drenginn úr öllu nema bleyjunni. Setti síðan á hann smekk - veit reyndar ekki alveg hvað ég hélt mig vinna með því - og svo hleypti ég honum á matinn sinn. Útkomuna sjáið þið hér, og þið skiljið áreiðanlega hvers vegna ég vildi ekki hafa hann í fötunum.

Rauðrófur eru, eins og gefur að skilja, ekki á borðum hér á hverjum degi.

12. mars 2006

Matvinnsluvélar

Matvinnsluvélar. Þessi undratæki sem gera eldhússtörfin - a.m.k. sum -
svo miklu þægilegri. Ég man þegar við fengum okkar fyrstu svona græju.
Í leiðbeiningunum stóð eitthvað á þá leið að nú væri engin þörf lengur
að hræra í kökur í ákveðinni röð - ekkert að hræra sykur og smjörlíki
létt og ljóst - heldur bara sturta öllu ofaní skálina og setja vélina
af stað. Og voilà, deigið tilbúið eftir örfáar sekúndur, ekkert vesen.

Í mörg, mörg ár hef ég keypt þetta sem heilaþveginn væri. Sem heilagt
sakramenti. Pönnukökur, kleinur, vöfflur, tertubotnar, nefnið hvaða
bakstur sem er, alltaf var öllu bara sturtað í vélina og ýtt á takkann.
Undanfarið hef ég hins vegar byrjað að sjá villur míns vegar. Kannski
er ekki gott að þjóta eftir beina og breiða veginum sem tekur
örskotsstund; getur verið að betra sé að taka tímann sem þarf til að
þræða hinn mjóa og grýtta veg og fylgja uppskriftunum? Getur það verið?

Nú í morgun var ég að baka vöfflur. Auðvitað er það ekki í frásögur
færandi, en eins og margt smálegt ratar það engu að síður hingað inn.
Málið er að hér í Namíbíu á ég ekki matvinnsluvél. Mér líst engan
veginn á þær sem ég hef skoðað í búðunum og til bráðabirgða fjárfesti
ég í litlum handþeytara. Nú, með þannig græju er ekki hægt að sturta
öllu í skálina og þeyta. Nei, þá endar maður jú með kekkjótt og
viðurstyggilegt deig. Gengur ekki. Sem sagt, þegar baka skal vöfflur
núna, þarf ég að spá í röðina. Ég hef því byrjað að þeyta saman eggjum
og sykri, leyft þessu að taka sig svolítið og set svo hveiti, súrmjólk
o.s.frv. þar til allt er komið. Og útkoman eru þær bestu og flottustu
vöfflur sem ég hef bakað svo árum skiptir. Fyrst datt mér í hug að nýja
vöfflujárninu væri um að þakka, en í morgun áttaði ég mig á því að það
voru vinnubrögðin sem gerðu þennan mikla gæfumun.

Lærdómurinn er þessi: Ekki stytta ykkur leið að markinu. Það kann
aldrei góðri lukku að stýra.

11. mars 2006

Skólamær

Henni Tinnu minni gengur mjög vel í skólanum. Hún þarf að taka svokölluð „hringapróf“ í hverri viku, og er fimm vikur verið að fara einn hring, þ.e. að taka eitt próf í hverju fagi. Fyrsta umferðin gekk mjög vel og voru einkunnir hennar eftirfarandi:


Enska 86%
Myndmennt 98%
Stærðfræði 75%
Franska 57%
Landafræði 80%
Saga 74%
Raungreinar 63%
Líffræði 71%
Bókfærsla 100%

Ekki slæmar einkunnir. Meðaltalið er 78,2%. Í frönsku er hún í aukatímum í frönsk-namibísku menningarmiðstöðinni, en hún er ári á eftir hinum nemendunum. Ég efast ekki um að frönskueinkunnin eigi eftir að batna þegar líður á árið. Pabbinn er voðastoltur af dóttur sinni. Báðar dæturnar hafa jú alltaf staðið sig vel í skóla, sem betur fer.

Hér er svo mynd af henni Tinnu Rut í skólabúningnum sem svo mikið mál var að kaupa. Myndin var tekin að morgni fyrsta skóladags.

Bíladella

Vægt er víst til orða tekið að hann Rúnar Atli sé með bíladellu. Alveg
er fastur liður í tilverunni að fara í bíltúr þegar ég kem heim úr
vinnunni. Hann fær þá lykilinn að bílnum og purrar og purrar, en brrr
er orðið hans yfir bíla. Svo löbbum við út að bíl og hann ýtir tvisvar
á takkann á lyklakippunni. Hann er svo klár hann sonur minn að hann er
fyrir löngu búinn að uppgötva að þegar á að opna bílinn þá á að ýta
tvisvar á takkann, en bara einu sinni þegar á að læsa bílnum. Gáfaður
ungur drengur. Síðan lyfti ég honum upp í bílinn bílstjóramegin og
hann stingur lyklinum í svissinn og ýtir svo á takkann á
fjarstýringunni sem opnar bílskúrshurðina. Að þessari seremóníu
lokinni, þá er hann tilbúinn að setjast í bílstólinn sinn.

Síðan rúntum við um bæinn, yfirleitt með gluggana opna og hann situr
stundum bjargnuminn að horfa á fólkið og annað sem fyrir augu ber. Það
er svolítið meiri traffík hérna heldur en á Skaganum verður að
viðurkennast, og Rúnari Atla finnst stórmerkilegt að skoða mannlífið.
Hann er farinn að þekkja umhverfið. Fer t.d. alltaf að úa og æja þegar
við ökum framhjá Wernhil verslanamiðstöðinni, en þar förum við oft,
t.d. leggjum við bílnum yfirleitt þar á laugardagsmorgnum þegar farið
er í morgunmatinn.

Síðan purrar Rúnar Atli alltaf ef hann sér bíla svipaða Toyotu
Hiluxinum sem við erum á. Áðan sá hann bílaauglýsingar í blaðinu og ég
mátti ekki fletta í góða stund á meðan hann var að segja mér heilmikið
um þessa bíla sem þar voru. Eins rekst ég stundum á kappakstur þegar ég
er að flippa milli stöðva á sjónvarpinu og svoleiðis nokkuð finnst
honum mjög merkilegt. Formúla 1 var áðan með hávaða og látum. Mjög
spennandi.



Rúnar Atli spáir svolítið í bílinn okkar. Hér er mynd af honum þar sem
hann var mikið að reyna að læsa mismunadrifinu á bílnum. Hafði séð mig
gera þetta og greinilegt að sú athöfn var mjög spennandi.


Ég verð að viðurkenna að ég man hvorki eftir að Dagmar Ýr eða Tinna Rut
hafi látið svona þegar þær voru á þessum aldri. Hvernig skyldi standa á
því?

Tímaritakaup

Í dag fjárfesti ég mér í tölvublaði - Heimur makkans heitir það í
lauslegri þýðingu. Er kannski ekki í frásögur færandi. Í gegnum tíðina
hef ég oft keypt mér þetta tímarit, var meira að segja áskrifandi um
tíma. Gullu finnst ég eiga fullauðvelt með að finna einhver tímarit til
að gerast áskrifandi að. Hmm., nú er ég að komast út fyrir efnið, leyfi
Gullu að tala um þetta síðar.

HVAÐ um það. Ég keypti mér sem sagt þetta blað, eiginlega vegna þessa
að mig langaði ekki í neitt annað blað, en langaði í blað. Svo þegar ég
var búinn að renna í gegnum það fór ég að velta því fyrir mér hvað ég
hefði nú grætt á þessu blaði. Ég veit núna að það er æðislegt að
fjárfesta í ferðaprentara fyrir ljósmyndir. Svona prentari þarf ekki
einu sinni tölvu, þú bara stingur minniskortinu úr myndavélinni í
græjuna og, prestó, myndirnar streyma út. Sérstaklega var nefnt hversu
meiriháttar gæti verið að fara með svona apparat í veislur. Ég sé alveg
fyrir mér að mæta í brúðkaupið hennar Jóhönnu vopnaður svona tæki, tæki
helling af myndum og sæti svo seinni hluta veislunnar að prenta út,
bara til að gestirnir geti tekið myndir með sér heim. Er þetta ekki
alveg ómissandi gripur?

Svo er stórkostlegt að eiga litla viðbót fyrir iPodinn sinn
(tónlistarhlöðu) sem gerir kleypt að hlusta á hann í gegnum hvaða
útvarp sem er. Viðbótin leyfir þér víst að velja FM rás sem er laus og
senda úr iPodinum í útvarpið, bara rétt eins og hver önnur útvarpsstöð.
Æðislegt. Ætli ég verði ekki að kaupa mér iPod til að geta keypt svona
græju.

Þráðlaust lyklaborð er líka alveg ómissandi. Hvað með þráðlaus
heyrnartól svo maður geti nú dansað almennilega við tónlistina í
tölvunni. Það er agalega að þurfa að dilla sér í skrifstofustólnum og
komast ekki til að hreyfa sig almennilega útaf einhverri snúru í
heyrnartólin. Að ég tala nú ekki um að kaupa sér hugbúnað sem í gegnum
einhverja vefsíðu leyfir þér að búa til þín eigin frímerki. Í
Bandaríkjunum miklu er víst ekkert mál að nota svona prívat frímerki.
Verst maður sendir aldrei bréf í pósti...

En aðalástæðan fyrir því að ég keypti þetta tímarit var grein sem
leiðbeinir manni við kaup á litaprentara - hvernig á að finna fullkomna
prentarann fyrir þig, nefnist þessi grein. Ég er nefnilega ekki með
prentara hér á von Eckenbrecher stræti og þykir það stundum miður. Ég
skellti mér því í að lesa þessa grein, og hugsaði mér nú gott til
glóðarinnar. Nú gæti ég nefnilega farið í tölvubúðir og sýnt þessum
afgreiðslumönnum hvar Davíð keypti ölið. Að hér væri kominn
viðskiptavinur sem vissi hvað hann vill og ekkert hægt að pranga
einhverju drasli inn á hann. Væri það ekki meiriháttar?

Ég skal stinga niður á einum stað í þessari grein, bara til að leyfa
ykkur að átta ykkur á því af hverju ég hef ekki fyllst þessu óbilandi
sjálfstrausti við prentarakaup sem ég vonaðist eftir. „Að skilja blek“
heitir kaflinn sem ég vil deila með ykkur. Það er víst hægt að kaupa
prentara sem eru með mörgum litlum prenthylkjum og síðan prentara sem
eru með einu stóru sem inniheldur alla litina. Í fyrra dæminu er
einfaldlega hægt að kaupa þann lit sem er að klárast, en í seinna
dæminu verður að kaupa allt stykkið, þótt einungis einn litur sé að
klárast. Hið fyrra hlýtur að vera betra, ekki satt? Jú, það hélt ég,
þar til kom síðasta setningin - athugaðu að ef þú notar suma liti
sjaldan þá þornar í þeim blekið. Ef þannig er ástatt, þá er best að
skipta um alla litina í einu. Úbbs, hvort er þá betra? Veit það ekki.

Svona var öll blessuð greinin. Við hvert atriði þá var maður að hallast
á eina skoðun, þegar allt í einu kom ein setning sem rústaði því sem
maður hélt. Ég er því engu nær og verð líklega bara ein taugahrúga
þegar ég fer að velja prentara.

Hvað ef ég skyldi nú velja rangan prentara?

Smá af henni Tinnu Rut

Tinna Rut fór á fyrstu fótboltaæfinguna í skólanum á miðvikudaginn var.
Hún skráði sig í kvennaknattspyrnulið skólans við upphaf annar, en
einhverra hluta vegna eru æfingar einungis nýbyrjaðar. Henni fannst
bara gaman, þ.a. við fórum áðan í fótboltaskóaleiðangur. Búðin sem búið
var að benda okkur á átti bara fótboltaskó í stærð 10! Við fórum því í
flotta íþróttabúð, sem selur flest sem þarf til íþróttaiðkunar. Þar
fékk hún skó, legghlífar og sokka. Voðafínir rauðir Nike skór. Kannski
verður hægt að koma mynd af fótabúnaðinum inn við tækifæri. Núna er hún
sem sagt til í allt, fótboltalega séð a.m.k.

Hún fór líka til augnlæknis í morgun. Hefur eitthvað verið að kvarta
undanfarið um að sjá ekki nógu vel og einnig verið með verki í augum.
Fékk hún bara að fara beint inn í próf, því ekkert var að gera í
búðinni. Niðurstaðan er að hún er nærsýn, bæði augun mælast -0,75. Hvað
sem það nú þýðir. Hann vildi ekkert gera núna læknirinn úr því hún
hefur nýlega fundið fyrir þessu, en bað Tinnu að koma eftir tvær vikur
í aðra mælingu. Sagði hann að úr því þetta væri nýtilkomið þá gæti
sjónin verið að breytast og því væri ekki ráðlegt að bregðast við alveg
strax.

10. mars 2006

Hjálparhellan

Við lentum í smáveseni hérna í gær. Þannig var að hún Flora fór með
Rúnar Atla í göngutúr í kerrunni sinni. Ekki í frásögur færandi, nema
fyrir þá staðreynd að þau týndu húslyklunum einhvers staðar á leiðinni.
Sama hvað leitað var þá fundust þeir ekki. Nú voru góð ráð dýr, því
klukkan var orðin það margt að byggingarvöruverslanir voru búnar að
loka og því ekki hægt að kaupa nýjar skrár. Mér fannst þetta frekar
óþægilegt, sérstaklega ef einhver hefði nú séð þegar þau týndu lyklunum
og elt þau til að sjá hvaða hús væri um að ræða. Ég hafði því svolítið
fyrir því að ganga þannig frá hnútum að ekki væri hægt að komast inn í
húsið nema með skarkala og látum. Svaf síðan bara mjög vel og ekkert
gerðist.

Svo í dag var skundað í járnvöruverslunina og keyptar nýjar skrár.
Þannig vill til hér að mjög auðvelt er að skipta um skrár - ef
lyklarnir eru fyrir hendi. Tekur kannski tvær eða þrjár mínútur. Svo
skemmir ekki fyrir þegar hjálparhella er til staðar. Meðfylgjandi
myndir segja allt sem þarf.









9. mars 2006

Umhyggja

Æ, mikið er gott að eiga svona umhyggjusöm systkini, sem bera velferð
mína fyrir brjósti. Já, Jóhanna mín, ég skal hugsa til þín í fyrramálið
á Café Schneider. Ég býð þér í morgunmat þegar þú kemur í heimsókn. Þú
getur þá fengið þér þitt rúnnstykki - brötchen eins og það kallast hér
- með einhverju fínu salati og appelsínusafa. Heyrðu, ég fékk mér jú
appelsínusafa á laugardagsmorguninn var. Mjög góður enda nýkreistur.
Fékk mér reyndar líka egg, beikon og te.

Já, hlaupaskór og líkamsræktarkort. Ég skoðaði nú hlaupaskó um daginn,
en það var nú Tinnu að kenna. Hana vantaði skó. Hægt að fá fína skó hér
fyrir 5 þúsund kall íslenskar. Er nú reyndar að skoða að kaupa mér
reiðhjól. Hjólreiðar eru eina líkamsræktin sem ég hef einhvern áhuga
fyrir þessa dagana. Við Rúnar Atli tókum hjólasætið hans með, svo ég
gæli við þá hugmynd að hjóla um götur bæjarins með soninn í
aftursætinu. Leyfi ykkur að fylgjast með ef fjárfest verður í svoleiðis
apparati.

8. mars 2006

Verðlag

Svo er nú þetta með blessað verðlagið hér í Windhoek. Bleyjur finnast
mér nokkuð dýrar. Pampers bleyjur nr 5 með 70 bleyjum eru á u.þ.b. 150
namibíudali. Sjálfsagt í kringum 1.600 kr. sem er nokkuð meira en heima
á klakanum. Enda kaupir fátæka fólkið ekki svona bleyjur, hefur nóg
annað við peningana að gera.

En allt aðra sögu má segja um mat, þar er verðlagið nú miklu mun
þægilegra hér en heima. Tökum kjúklingabringur sem dæmi - skinnlausar.
Ekki man ég nú hversu nálægt tvöþúsund kallinum kílóið af svoleiðis
gersemum kostar á Fróni, enda var nú ekkert verið að fá sér
kjúklingabringur á hverjum degi. Hér hins vegar erum við að tala um
kannski 450 krónur kílóið - sennilega aðeins lægra verð en það. Það er
eiginlega sama hvernig kjöt keypt er, kílóverðið er svona frá 350 til
500 krónur. Enda lifir maður á kjúklingabringum, nautasteikum og
reyktum hamborgarahryggjarsneiðum. Ekkert verið að spara þar.

Morgunmaturinn, ekki má gleyma honum. Ég fer oft á morgnana á lítið
kaffihús rétt hjá vinnunni og fæ mér namibískan morgunmat. Hann er nú
ekkert rosalega frumlegur eða afríkulegur, einfaldlega beikon og egg,
með ristuðu brauði og tei. En fyrir svona lagað er ég rukkaður um 23
dali og 20 sent, sem samsvarar kannski 250-260 krónum. Ég skil nú
yfirleitt 30 dali eftir á borðinu og er ekkert að biðja um afganginn. Enda
þekkja þær mig orðið vel þessar elskur sem vinna þarna og spyrja mig
einfaldlega: „sama og venjulega?“

Hvað get ég nefnt fleira? Jú, bjórinn, ekki má gleyma honum. Ég kaupi
kippu af bjór á sama verð og morgunmaturinn kostar, svona u.þ.b. 260
krónur. Fínn bjór sem er bruggaður hér, alveg í heimsklassa. Ekki
kostar rauðvínið mikið, flöskurnar svona frá 350 krónum og mjög gott
vín fæst fyrir 600 kallinn. Hvítvínið er síðan ódýrara.

Æ, já, life's a bitch.

Rúsínan...

Svona rétt til að fræða dóttur mína um íslenskt mál, þá er
eftirfarandi tekið af Vísindavef HÍ:

Orðasambandið „rúsínan í pylsuendanum“ á rætur að rekja til
dönsku, rosinen i pølseenden. Í Danmörku mun vera
gamall siður að setja rúsínu eða nokkrar rúsínur í endann á blóðpylsu
þegar troðið er í hana. Orðasambandið kemur fyrir í kvæði eftir
Christian Winther frá 1828 en um það bil hundrað árum eldri er heimild
um „þrjár rúsínur í pylsuendanum“ (tre rosiner i en pølseende).

6. mars 2006

Orð

Við Tinna Rut erum búin að vera að taka saman lista yfir orð sem Rúnar
Atli segir. Hún las nefnilega í barnamöppunni hans að á þessum aldri
ætti hann að vera kominn með 8-10 orð ef ég man rétt. Síðan skilja mun
fleiri. Skilningurinn er í góðu lagi hjá honum. Hann skilur nær allt
sem sagt er við hann, og virðist meira að segja vera farinn að leiða
hjá sér það sem hentar honum ekki að heyra. Mér finnst eiginlega
ótrúlegt hvað hægt er að biðja hann um að gera. Hvað um það,
orðalistinn hans er eftirfarandi: mamma, ís, rusl, já, jæja, nammi
(merkingin er matur), takk, bíll, kis-kis, vúff, ó-ó, datt og djús.
Hann notar þessi orð reyndar ekki alveg eins og við, hann segir jú brrr
þegar hann meinar bíll, en hann hefur engu að síður alveg ákveðið orð
yfir bíla. Hann segir TTA þegar hann þakkar fyrir sig. Gerir það
reyndar oft þegar honum eru réttir hlutir. Kurteis ungur piltur. Ís er
orð sem hann notar mikið, en honum finnst ís æðislega góður. Oft á
kvöldin hleypur hann að frystinum og hrópar, ÍSSHH, ÍSSHH, með mikla
áherslu á H hljóðið. Hann á það meira að segja til að opna frystinn
þegar ákafinn verður fullmikill.

Síðan í gær, þá sagði hann loksins pabbi á þann hátt að ekki fór neitt
á milli mála hvað var meint. Babba, babba, og mikið varð pabbinn
ánægður.

Því eru komin allavegana 14 orð, þ.a. ekki er drengurinn á eftir,
samkvæmt þessari möppu!

Síðan er það rúsínan í pylsuendanum. Við Tinna Rut tókum eftir því að
hann var öðru hverju að segja eitthvað sem hljómaði daddí, daddí. Gæti
verið pabbi á ensku, en okkur þótti það nú frekar ósennilegt, því hann
heyrir þetta orð ekki mjög oft. Síðan í dag þegar ég kem heim, þá fer
hún Flora barnfóstra að segja okkur að hann sé farinn að tala hennar
tungumál. Hún talar mál sem Íslendingar vitna stundum til sem
„klikkmálið“ því þeir sem það tala smella í góm á fjóra mismunandi vegu
og er oft bráðfyndið að heyra þetta. Það eru til ýmsar mállýskur sem
nota þessi hljóð, en yfirleitt er talað um þessi mál sem Nama. Nú, og
hvaða orð, spyrjið þið? Ekki neitt með smelli, en „daddí“ þýðir víst
„ekki,“ í merkingunni „ekki gera þetta.“

Þ.a. Rúnar Atli kominn af stað með sitt annað tungumál. Ekki segir
barnamappan neitt um svoleiðis lagað.

Ó, og þá vitum við hvaða orð hún Flora notar oftast þegar Rúnar Atli
heyrir til!!!

5. mars 2006

Bubbi byggir


Ein mynd segir meira en þúsund orð og þá á sennilega við hér. Skoðið vandlega rétt ofan buxnastrengs hjá honum Rúnari Atla og veltið því fyrir ykkur hvort hann verði akademíker eða iðnaðarmaður...

Myndaprufa


Mig langar nú bara til að prófa mynda-fídusinn sem er boðið upp á þessum bloggþjóni. Hér sést hann Rúnar Atli einn laugardags-morgun á Café Schneider - einn af okkar föstu liðum í tilverunni. Hann er dýrkaður bæði af þjónustustúlkunum sem og þýsku kellingunum sem mæta þarna. Ætli það séu ekki þessi risastóru bláu augu - frekar óalgengt hér - og eilífa brosið á drengnum.

Athugasemdir

Rétt smáathugasemdir vegna athugasemda.

Hún fröken - sennilega bráðum frú - blogglata á Suðureyri var
eitthvað að væla yfir að geta ekki sett inn athugasemdir á færslurnar
mínar. Ég er nú ekki alveg viss hversu spennandi er að fá misgáfulegar
athugasemdir - Davíð má taka þetta til sín; sjá hér eftir nokkrar línur
- en ég er þó búinn að opna fyrir athugasemdir. Áskil ég mér þó allan
rétt til þess á loka á svoleiðis ef fólk fer eitthvað að tapa sér í
einhverjum tittlingaskít.

Svo var það hann Davíð. Já, hans smávægilega athugasemd um tertuna sem
ég bakaði á Valentínusardaginn: „Bettý?“ spurði hann. Sko, þessir
heilaþvegnu heildsalasölumenn á Íslandi sem halda greinilega að Ísland
sé dæmigert fyrir allan heiminn, ættu nú aðeins að athuga staðreyndir
áður en farið er að sletta fram einhverjum misgáfulegum - kemur þetta
orð aftur - athugasemdum. Þannig er nefnilega mál með vexti - veit í raun ekki
hvort það er nokkuð slæmt - að hún Bettý þessi þekkist einfaldlega ekki
í betri búðum í Namibíu. Og svosem ekki í hinum búðunum heldur. Ef menn hafa áhuga á einhverju þess háttar fúski í bakstrinum, þá er reyndar
mikið úrval af Pillsbury vörum. Mér er sagt að þær komi ágætlega út. Ég
þekki það ekki af eigin raun, því ég baka mínar tertur frá grunni, og
athygli hefur vakið að marensarnir mínir eru heimabakaðir! Já, ég ætti
kannski að láta fylgja sögunni að á sprengidag mætti ég með aðra tertu
í vinnuna, í tilefni afmælis starfsfélaga. Á henni var líka marens...

Er hægt að kaupa marens frá henni Bettý? - held nú ekki.

Svo mörg voru þau orð.

Tónlistarpælingar

Kominn sunnudagur. Rúnar Atli vakti mig kortér fyrir sjö og réðst svo
til atlögu við Tinnu Rut þremur kortérum síðar. Skellti svo í
vöffludeig, enda kominn tími á að vígja vöfflujárnið sem Gulla keypti
sérstaklega til að nota í Namibíu. Einhverra hluta vegna eru vöfflujárn
ekki á hillum raftækjaverslana hér. A.m.k. hefur okkur ekki tekist að
finna svoleiðis hlut. En, í dag var sem sagt stundin runnin upp og
gæddum við okkur svikalaust á þessum gæðavöfflum. Reyndar fannst ekki
neitt sultutau í húsinu, sama hversu mikið var leitað. Bara næst -
strásykurinn stendur vel fyrir sínu á vöfflum.

En við fórum svo í búðarráp. Tinna Rut fékk nefnilega vasapeningana
sína fyrir mánuðinn í gær, svo hana var farið að klæja í fingurgómana
að kaupa sér eitthvað. Hún dró mig fyrst inn í tónlistarbúð, Musica
heitir hún, sem ég er nú frekar lítið hrifinn af, svo ekki sé meira
sagt. Eins og í öðrum tónlistarbúðum er jú alltaf einhver
graðhestatónlist í botni svo ekki heyrist mannsins mál. Maður þyrfti
eiginlega að kunna táknmál þegar maður álpast inn í svona verslun. Hvað
um það, engin breyting í þetta sinn, einhver alveg þvílík
hjartaáfallsvaldandi tónlist glumdi í eyrum manns þegar fæti var drepið
inn fyrir dyrnar. Tilfinningin er svona svipuð og að reyna að halda sér
í kafi lengi, maður dregur andann djúpt, stekkur á bólakaf og reynir að
leiða hjá sér köfnunartilfinninguna sem þrengir sífellt meira að. Ég
huggaði mig nú við það að Tinna Rut er nú nokkuð með á hreinu hvaða
tónlist hún vill eignast, svo yfirleitt tekur þetta nú ekki langan
tíma. En viti menn, eftir smátíma fer ég allt í einu að veita því
eftirtekt að búið er að skipta um plötu á fóninum og eitthvað alveg
nýtt og óvænt í gangi. Einhver undarleg en seiðandi útgáfa af Losing my
religion sem REM gerði frægt hér um árið. Ég fer nú að sperra eyrun og
velta þessari tónlist fyrir mér og rek síðan augun í stall á
afgreiðsluborðinu þar sem platan sem verið er að spila þá stundina er
sýnd. Þá voru þetta gregorísku munkarnir - veit reyndar ekki hvort
þessir náungar eru munkar í rauninni - og á þessum diski flytja þeir
ýmis þekkt rokklög. Ég lét síðan bara undan pressunni og keypti diskinn
á staðnum. Hann Ingólfur sparnaðargúrú hefði ekki verið ánægður með mig
þarna.

Nú sit ég því við tölvuna, pikka þetta inn, og hlusta á þessa undurværu
munkatónlist í gegnum heyrnartólin.

Og líður bara vel.

4. mars 2006

Heilsufar Tinnu Rutar

Hún Tinna Rut gaf mér smáinnspýtingu af adrenalíni í síðustu viku, á
föstudegi fyrir viku, nánar tiltekið. Ég var á leið til Katutura, sem
er fátækrahverfið hér í Windhoek, þegar gemsinn hringir allt í einu. Á
línunni - segir maður svoleiðis um gemsa? - var kona frá skólanum
hennar Tinnu og bað mig að koma hið snarasta því það hefði liðið yfir
hana dóttur mína í skólanum. Auðvitað var snúið við á punktinum og
brunað í skólann. Hún Tinna mín var þar ósköp óstyrk og föl, en virtist
í þokkalegu lagi engu að síður. Ég fór síðan með hana heim. Helst datt
mér í hug að þetta hefði gerst því hún borðaði engan morgunmat áður en
hún fór í skólann. Fær sér yfirleitt lítið í morgunmat, en þennan dag
voru próf, svo mér datt í hug að sambland af orkuleysi og stressi hefði
ollið þessu.

Nú það var farið af stað að plana morgunmatargjafir, hvað annað? Ekki
hægt að láta spyrjast út að „einstæði" faðirinn gefi ekki börnunum
sínum að borða. Því var keypt ný brauðrist og líka samlokugrill, og
alla þessa viku hefur eitthvað brauðmeti verið á boðstólunum. Síðan
bökuðum við kleinur á sunnudaginn, og hafa þær líka verið nýttar í
morgunmat og nesti. Hefur þetta virkað ágætlega, a.m.k. engin meiri
yfirlið.

Síðan fær hún Tinna mín einhverja magakveisu núna á föstudaginn. Er
nývöknuð þegar hún kastar upp og er hríðskjálfandi hér eldsnemma
morguns. Ég hafði verið slappur deginum áður, þ.a. ég var nú á því að
einhver flensa væri í gangi. Niðurstaðan verður því að hún fer ekki í
skólann. Auðvitað hringi ég hana inn veika og er sagt að einhver óværa
sé að ganga. Hins vegar er ég beðinn um að senda hana með læknisvottorð
þegar hún mæti næst í skólann, því á föstudögum eru alltaf próf og öll
forföll þarf að sannreyna.

Úff, eilíft vesen að eiga börn, segiði.

Ég fer því að reyna að hafa upp á gamla heimilislækninum okkar, þýskri
eldri konu, svona ein sem hlustaði ekki á neina vitleysu. Þá kemur úr
kafinu að hún er hætt störfum og búin að selja stofuna. Við fáum því
tíma á laugardagsmorgni hjá nýja lækninum. Sá reynist líka vera þýsk
kona, doktor Martína. Hún skoðar TInnu í bak og fyrir og kemst að því
að hún er með of lágan blóðþrýsting. Er þar víst komin orsök
yfirliðsins, að stundum sé þrýsingurinn það lítill að blóðflæði til
höfuðsins sé það lítið að fólk fái svima og jafnvel líði yfir það. Er
þetta víst algengt ástand hjá unglingsstúlkum.

Nú á Tinna Rut því að fá sér te - alvöru te, ekkert grænmetis- eða
ávaxtasull, heldur eitthvað eins og Earl Grey eða English Breakfast - á
morgnana. Te kemur víst þrýstingnum af stað í rólegheitum og heldur
honum uppi í góða stund. Svo á hún að þamba vökva og sér í lagi er
epladjús víst góður.

Móðir hennar sagði eftirfarandi þegar hún heyrði af tedrykkjunni, og ég
enda á þessari tilvitnun: „Ég sé hana í anda með tebolla og dreypa á
góðum vökvanum með litla putta útí loftið :-) "

3. mars 2006

Leikskóli

Rúnar Atli er byrjaður á leikskóla. Eftir nokkra leit fannst einn skóli
sem er tilbúinn að taka krakka undir tveggja ára aldri og með bleyju.
Þetta er þýskur skóli, Deutschen Höheren Privatschule heitir hann,
hvorki meira né minna og deildin hans Rúnars Atla heitir Krabbelgruppe,
sem útleggja má sem krasshópurinn. Þessi skóli nær frá ungabörnum til
og með framhaldsskóla. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta þýskur
skóli og þýska nýtur forgangs. Fóstrunar eru þýskar og tala þýsku sín á
milli og við börnin, nema þegar enska er á stundatöflunni. Er Rúnari
Atla virðist líka vel þarna. Er reyndar aðeins búinn að fara tvisvar,
en var til í að fara til fóstrunnar í morgun. Grét auðvitað, en hætti
víst um leið og ég fór. Þarna eru rúmlega 20 krakkar, geta mest orðið
26, og fjórar fóstrur. Reyndar tvær þýskar fóstrur, ein namibísk og
síðan er alltaf sjálfboðaliði frá Þýskalandi, sex mánuði í senn.

Nettenging!

Jæja, þá er maður loksins kominn í samband við umheiminn að heiman. Ja,
svona næstum því. Ég var búinn að bíða í a.m.k. fjórar vikur eftir
þráðlausri nettengingu, svona eitthvað svipað og boðið er upp á fyrir
bændur heima á Fróni, þegar mér var tjáð að því miður væri húsið mitt í
hvarfi við smáhól þannig að ég væri ekki í sjónmáli við eitthvað
útsendingarmastur og því ekki hægt að fá tenginguna heim. Fjórar vikur
tók að segja mér þetta! Eftir að hafa jafnað mig á þessu þá var næsta
skref að sækja um ISDN línu, en fram að því hef ég aðgang í gegnum
venjulega símalínu og innbyggða mótaldið í tölvunni. Dugar nú skammt ef
tengjast á vefsíðum en ágætt fyrir tölvupóst og msn. Ekki þó senda
mér viðhengi í tölvupósti... En kannski ég verði nú duglegri að uppfæra
þessar síður. Hver veit?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...