21. mars 2006

Ferðalag

Þá erum við komin aftur í kotið eftir nokkura daga ferðalag. Allt er
eins og skilið var við það, enda fékk ég mann til að koma hér og kenna
mér almennilega á þjófavarnarkerfið í húsinu. Veitti ekki af, í fyrsta
lagi fann gaurinn tvær bilanir í kerfinu, og í öðru lagi er heilmikið
af tökkum sem hægt er að styða á og betra að gera þetta rétt. En ég er
nú hálflatur að nota þetta. Helst þegar farið er í langferðir.

Nóg um þetta. Við lögðum af stað skömmu fyrir eittleytið á laugardag.
U.þ.b. tveimur tímum á eftir áætlun, en lítið stress yfir því. Við
mættum síðan í Tsaobis hlébarðagarðinn upp úr klukkan þrjú og gekk
ferðin bara vel. Rúnar Atli varð upprifinn að sjá nautgripi á leiðinni.
Afleggjarinn að garðinum var ekki nema 11 km. langur og ekki hægt að
keyra hraðar en 30 og við ókum þarna fram á stóð og hann tapaði sér
alveg í mu-mu-inu drengurinn. Ég held grínlaust að þetta hafi verið
hápunktur ferðarinnar hjá honum. Við fengum svo úthlutuðum kofa þarna,
en flestir Íslendinganna sem þarna mættu gistu á tjaldstæðum. Eini
viðleguútbúnaðurinn sem við eigum hér eru þrír stólar, kælibox,
grillgrind og grilltöng. Allt þetta, fyrir utan stólinn hans Rúnars
Atla, var keypt fyrir þessa ferð. Við vorum því, eins og gefur að
skilja, ekki alveg tilbúin í að tjalda.

Fyrsta mál á dagskrá var að fylgjast með matargjöf sjíta (cheeta) - ég
hef nú bara ekki græna glóru hvað þessi kattardýr heita á íslensku, en
þau eru víst sneggstu dýr veraldar. Geta hlaupið langt á annað hundrað
km hraða. Þrír kettir eru þarna, en virka nú ósköp gæfir. Hafa verið
þarna frá barnæsku og okkur var meira að segja boðið að fara inn í
búrið til eins, ef við bara vildum. Ég var nú ekki voðalega spenntur.
Ekki alveg viss hvað Tinna Rut og Rúnar Atli myndu gera ef faðirinn
lenti í kjafti einhvers villikattar.

Síðan voru einhverjir apar þarna og svo auðvitað tveir hlébarðar. Þeir
voru nú ekkert voðalega spenntir yfir áhorfendum og létu varla sjá sig
nokkuð að heitið geti.

En um kvöldið var svo grillað. Setti strik í reikninginn að það gerði
hellirigningu. Slæmt því þarna er ekkert nema sandur og mold á jörðinni
og því varð jörðin frekar óskemmtileg. A.m.k. fyrir fullorðna fólkið -
börnunum virtist nokk sama. Tinna Rut hitti þarna nokkrar stelpur á
sínum aldri og skemmti sér vel. Svo stytti nú upp að lokum og
grillmaturinn bragðaðist vel. Var þetta víst í fyrsta sinn sem ég
grilla eftir að ég flutti, en ég hef ekki ennþá fjárfest í grilli
heima. Verð nú að fara að kippa því í liðinn held ég svei mér þá.

Hálfilla gekk að sofna. Í fyrsta lagi var kofinn fullur af flugum. Sem
betur fer ekki neinum sem bíta, en pirrandi var þetta engu að síður.
Við enduðum með að hafa kveikt á einu ljósi sem dró flugurnar að sér.
Síðan var ofboðslega heitt. Oft fylgir rigningunni hér mikill hiti að
nóttunni og það gerði það svo sannarlega þarna. En allt hafðist þetta
nú og að lokum kom morgunn.

Að loknum árbít, þá var borgað fyrir kofann og ekið af stað sem leið lá
til Swakopmund. Bæti því ferðalagi við á eftir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Blettatígur

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...