21. mars 2006

Ökumeistarinn

Við héldum því af stað niður til Swakopmund á sunnudagsmorguninn. Mig
langaði ekki að fara aðalveginn niður eftir, heldur valdi að fara
malarveg. Hann er heldur styttri, en seinfarnari. Bar vegurinn merki
rigninga undanfarinna mánuða, sum staðar var hann bara í sundur. En það
gerði nú lítið til, við á Toyota Hilux með fjórhjóladrifi og ég veit
ekki hvað og hvað. Vegurinn var annars beinn og breiður og því nær sem
dró ströndinni batnaði hann. Tinna Rut spyr mig svo hvort hún megi
nokkuð keyra. Hún man enn eftir þegar ég leyfði Dagmar Ýr einhvern
tímann að taka í stýrið þegar hún var á Tinnu aldri. Þarna var engin
umferð og vegurinn eins og þrefaldur vegur á Íslandi á breiddina, þ.a.
ég lét eftir beiðninni hennar. Hún varð voðaroggin, syfjan sem hafði
verið að hrjá hana hvarf eins og dögg fyrir sólu, og hún settist undir
stýri. Kúplingin vafðist aðeins fyrir henni til að byrja með, en
reyndar var hún snögg að átta sig á þessu. Svo var farið í annan gír og
lullaðir svona þrír kílómetrar eða svo. Þá tók ég við. Svo einhverju
seinna spyr hún á nýjan leik og leyfði ég henni að prófa aftur. Nú fékk
hún að fara í þriðja gír undir ströngum fyrirmælum að fara ekki yfir 50
km hraða. Hélt hún nálinni negldri í 50 allan tímann. Í þetta sinn
keyrði hún tæpa 13 kílómetra og var mjög roggin. Hún ók því um 10% af
leiðinni þennan daginn.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sko, í fyrsta lagi, þá var Dagmar ekki 'á mínum aldri', heldur var hún eldri. Hún var orðin 14 ára, og er ég víst enn 13....Þannig að ég var yngri þegar ég fékk að keyra í fyrsta skipti :D

Tinna Rut

Nafnlaus sagði...

Emil keyrði bíl í fyrra þegar hann var bara 10 ára,en hann fékk bara keyra á 30km hraða.
Doddi

Nafnlaus sagði...

Hey Villi leyfði mér líka að keyra einu sinni. Mig minnir að ég hafi verðið 15-16 ára gömul.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...