12. mars 2006

Matvinnsluvélar

Matvinnsluvélar. Þessi undratæki sem gera eldhússtörfin - a.m.k. sum -
svo miklu þægilegri. Ég man þegar við fengum okkar fyrstu svona græju.
Í leiðbeiningunum stóð eitthvað á þá leið að nú væri engin þörf lengur
að hræra í kökur í ákveðinni röð - ekkert að hræra sykur og smjörlíki
létt og ljóst - heldur bara sturta öllu ofaní skálina og setja vélina
af stað. Og voilà, deigið tilbúið eftir örfáar sekúndur, ekkert vesen.

Í mörg, mörg ár hef ég keypt þetta sem heilaþveginn væri. Sem heilagt
sakramenti. Pönnukökur, kleinur, vöfflur, tertubotnar, nefnið hvaða
bakstur sem er, alltaf var öllu bara sturtað í vélina og ýtt á takkann.
Undanfarið hef ég hins vegar byrjað að sjá villur míns vegar. Kannski
er ekki gott að þjóta eftir beina og breiða veginum sem tekur
örskotsstund; getur verið að betra sé að taka tímann sem þarf til að
þræða hinn mjóa og grýtta veg og fylgja uppskriftunum? Getur það verið?

Nú í morgun var ég að baka vöfflur. Auðvitað er það ekki í frásögur
færandi, en eins og margt smálegt ratar það engu að síður hingað inn.
Málið er að hér í Namíbíu á ég ekki matvinnsluvél. Mér líst engan
veginn á þær sem ég hef skoðað í búðunum og til bráðabirgða fjárfesti
ég í litlum handþeytara. Nú, með þannig græju er ekki hægt að sturta
öllu í skálina og þeyta. Nei, þá endar maður jú með kekkjótt og
viðurstyggilegt deig. Gengur ekki. Sem sagt, þegar baka skal vöfflur
núna, þarf ég að spá í röðina. Ég hef því byrjað að þeyta saman eggjum
og sykri, leyft þessu að taka sig svolítið og set svo hveiti, súrmjólk
o.s.frv. þar til allt er komið. Og útkoman eru þær bestu og flottustu
vöfflur sem ég hef bakað svo árum skiptir. Fyrst datt mér í hug að nýja
vöfflujárninu væri um að þakka, en í morgun áttaði ég mig á því að það
voru vinnubrögðin sem gerðu þennan mikla gæfumun.

Lærdómurinn er þessi: Ekki stytta ykkur leið að markinu. Það kann
aldrei góðri lukku að stýra.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er gaman að þið feðgarnir náið að "bonda" svona vel saman þegar skellibjallan er ekki heima :-)

kk,
Gulla

Nafnlaus sagði...

Til að taka af allan vafa þá meinti ég að sjálfsögðu Tinnu Rut þegar ég var að tala um skellibjölluna :-)

Gulla

Nafnlaus sagði...

Frábært... ég væri alveg til í vöfflur í morgunmat einn daginn

Nafnlaus sagði...

Á ekkert að fara að blogga

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...