25. mars 2006

Prentari!

Lét minn loksins verða af því! Keypti prentara áðan. Fór í verslun sem
heitir Incredible Connection og sérhæfir sig í tölvubúnaði. Sá í
blaðinu í gær að þarna var HP prentari á tilboði og fór því og kíkti.
Hálftaugaóstyrkur eftir að lesa greinina í tölvublaðinu sem ég sagði
ykkur frá um daginn. Þarna var slæðingur af prenturum til, þ.á.m. sá
auglýsti. Náði svo í sölumann og fór að spurja um prenthylki og
eitthvað annað gáfulegt (úr tölvublaðinu auðvitað). Hann horfði á mig
og sagði síðan „þú vilt ekki þennan, heldur miklu frekar Canon
prentarann sem ég á hérna.“ Ókey, kannski var eitthvað við mig sem
sagði „Canon notandi“ en verð þó að viðurkenna að ég man ekki eftir að
hafa átt neitt merkt Canon, nema kannski reiknivél á síðustu öld. Hvað
um það, hann sýnir mér prentarann. Sá var miklu nettari en HPingurinn,
sem var reyndar svolítill hlunkur. Miklu hærri upplausn í þessum og
síðan prentar hann sjálfur báðum megin á pappírinn ef maður vill
svoleiðis. Og ég er einn af þeim sem vill svoleiðis. Þoli t.d. ekki
laserprentara sem geta ekki prentað á báðar hliðar. Ég féll sem sagt
fyrir þessu bragði sölumannsins og keypti bara það sem hann sagði að
mér væri fyrir bestu. Hefði sjálfsagt getað sleppt því að kaupa
tölvublaðið.

Ennnívei, heim fór ég með græjuna og byrjaði á því að tengjast netinu
og fletta þessum prentara upp á heimasíðu MacWorld tímaritsins. Flottur
prentari sögðu þeir, og getur prentað á geisladiska. Ég hafði nú ekki
áttað mig á því. Ég var nú orðinn spenntur að prófa græjuna og fór því
að opna kassann, lesa leiðbeiningar, setja prenthylkin í og hugbúnaðinn
inn á tölvuna. Prófaði síðan að prenta eina mynd af Rúnari Atla.

VÁ, var það eina sem mér datt í hug. Þvílík gæði á myndinni. Hún var
bara eins og beint frá framköllunarstofu. Ótrúlegt. Greinilega verið
mikil þróun síðan ég keypti síðast prentara. Ég er því hæstánægður með
gripinn. Nú er bara að fara að prenta myndir. Nóg er víst til af þeim.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...