Vægt er víst til orða tekið að hann Rúnar Atli sé með bíladellu. Alveg
er fastur liður í tilverunni að fara í bíltúr þegar ég kem heim úr
vinnunni. Hann fær þá lykilinn að bílnum og purrar og purrar, en brrr
er orðið hans yfir bíla. Svo löbbum við út að bíl og hann ýtir tvisvar
á takkann á lyklakippunni. Hann er svo klár hann sonur minn að hann er
fyrir löngu búinn að uppgötva að þegar á að opna bílinn þá á að ýta
tvisvar á takkann, en bara einu sinni þegar á að læsa bílnum. Gáfaður
ungur drengur. Síðan lyfti ég honum upp í bílinn bílstjóramegin og
hann stingur lyklinum í svissinn og ýtir svo á takkann á
fjarstýringunni sem opnar bílskúrshurðina. Að þessari seremóníu
lokinni, þá er hann tilbúinn að setjast í bílstólinn sinn.
Síðan rúntum við um bæinn, yfirleitt með gluggana opna og hann situr
stundum bjargnuminn að horfa á fólkið og annað sem fyrir augu ber. Það
er svolítið meiri traffík hérna heldur en á Skaganum verður að
viðurkennast, og Rúnari Atla finnst stórmerkilegt að skoða mannlífið.
Hann er farinn að þekkja umhverfið. Fer t.d. alltaf að úa og æja þegar
við ökum framhjá Wernhil verslanamiðstöðinni, en þar förum við oft,
t.d. leggjum við bílnum yfirleitt þar á laugardagsmorgnum þegar farið
er í morgunmatinn.
Síðan purrar Rúnar Atli alltaf ef hann sér bíla svipaða Toyotu
Hiluxinum sem við erum á. Áðan sá hann bílaauglýsingar í blaðinu og ég
mátti ekki fletta í góða stund á meðan hann var að segja mér heilmikið
um þessa bíla sem þar voru. Eins rekst ég stundum á kappakstur þegar ég
er að flippa milli stöðva á sjónvarpinu og svoleiðis nokkuð finnst
honum mjög merkilegt. Formúla 1 var áðan með hávaða og látum. Mjög
spennandi.
Rúnar Atli spáir svolítið í bílinn okkar. Hér er mynd af honum þar sem
hann var mikið að reyna að læsa mismunadrifinu á bílnum. Hafði séð mig
gera þetta og greinilegt að sú athöfn var mjög spennandi.
Ég verð að viðurkenna að ég man hvorki eftir að Dagmar Ýr eða Tinna Rut
hafi látið svona þegar þær voru á þessum aldri. Hvernig skyldi standa á
því?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli