30. apríl 2010

Langferðalangur

Í þessum skrifuðum orðum þá situr Tinna Rut í flugvél SA235 frá Suður-Afríku-flugleiðum og bíður eftir flugtaki. Skv. brottfararupplýsingum frá Heathrow er vélin að „taxa” að flugbrautinni.

Tinna Rut yfirgaf Ísland tuttugu mínútur fyrir átta í morgun. Lenti í Lundúnum um hádegi og hefur beðið á Heathrow síðan. Hún lendir í Jóhannesarborg sjö í fyrramálið að staðartíma - fimm að íslenskum tíma - og bíður þar í sex tíma eða svo. Síðan er tveggja tíma flug til Windhoek. Hér lendir hún rúmlega tvö að okkar tíma.

Við Rúnar Atli erum að undirbúa komu Tinnu Rutar. Bökuðum við dýrindis skúffuköku áðan.

Spurningin er bara hversu mikið af henni verður eftir þegar Tinna Rut mætir á svæðið.

29. apríl 2010

Sopnar hveljur í namibískri rigningu

Nú er veðrið skrýtið í Namibíu. Miðað við árstíma, það er. Um fimmleytið hófst þessi líka úrhellisrigning með tilheyrandi þrumum og eldingum. Lýsist himininn upp öðruhverju í látunum. Allajafna rignir ekki undir lok apríl. Næstu rigningar ættu að koma í október eða nóvember. En veðrið hefur verið undarlegt síðustu vikur.

Eins og ég hef nefnt áður komast allir hér í gott skap þegar rignir. Ég er orðinn það mikill Namibíumaður í mér að ég kætist líka þegar rigningin lætur á sér kræla. Rigningin hófst skömmu áður en ég lagði af stað heim eftir vinnu. Skrúfaði ég niður hliðarrúðuna í bílnum og söng hástöfum með sígildri íslenskri dægurtónlist og trommaði með fingrum utan á bílhurðina.

Þegar rignir hér, þá hafa niðurföllin ekki við að taka á móti öllu regnvatninu. Göturnar eru lagðar þvert yfir árfarvegi og lendir maður oft í skemmtilegum akstri í gegnum straumharðar ár (sjá myndir í færslu frá í fyrra).

Sem ég syng og tromma í rigningunni við opinn bílglugga, mæti ég bíl. Hittist þannig á að um leið og við mætumst ekur hinn ofan í poll. Veit ég ekki fyrr en stærðarinnar gusa hitti mig beint í andlitið!

Saup ég hveljur, að sjálfsögðu, en hló svo að þessu og hélt áfram að syngja og tromma.

Það er ekki hægt að vera fúll í namibískri rigningu.

Leiðarendi... ja... að hluta.

Í gærkvöldi, á slaginu ellefu, bárust þær fregnir að Tinna Rut væri lent í Keflavík. Ferðalagi sem átti að taka 19 klukkustundir, eða svo, lauk þar með. 36 tímum eftir að það hófst, ef mér reiknast rétt til. Plús aksturinn til Reykjavíkur.

Daman fær svo einn dag í Reykjavík áður en haldið verður í seinni hluta leiðangursins. Vonandi gengur sá betur. Við hér í Windhoek hlökkum til að fá hana til okkar á laugardaginn.

28. apríl 2010

Léttir!

Vorum að fá tölvupóst frá Tinnu Rut! Hún er í Glasgow - gott að fá staðfestingu á því - og er á leið um borð í vél sem stefnir til Keflavíkur. Skv. dömu sem ég ræddi við áðan hjá Flugleiðum er áætluð lending milli tíu og hálfellefu á eftir.

Léttir hjá foreldrunum. Ekki hægt að neita því.

Áhyggjufullir foreldrar

Úff, það er ekki gott að vita af „litla” barninu sínu einu einhvers staðar á flugvelli og geta ekki haft neitt samband. Jafnvel þótt „litla” barnið sé orðið 18 ára. Nú þarf að gera áætlun svo svona lagað gerist ekki aftur. Helst græða GPS-kubb einhvers staðar í krakkann. Maður veit þá allavegana hvar hann er...

Nei, kannski fullmiklar öfgar, en í það minnsta kaupa símakort sem hægt er að nota hvar sem er.

Þetta er agalegt að vita ekki neitt og hafa engin ráð til að hafa samband. En skv. Flugleiðum styttist í brottför vélarinnar frá Glasgow til Akureyrar.

Svo er bara að vona að „litla” barnið sé um borð í vélinni...

Fullfljótur að fagna

Æ, æ, nú er búið að beina vélinni hennar Tinnu Rutar til Glasgow. Svakalega fúlt. Síðan er haldið að Akureyri verði áfangastaðurinn á Íslandi. Alveg hrikalega svekkjandi að hanga marga tíma í Seattle til að geta lent á Íslandi og fá svo þetta í hausinn.

Arrggghhh.

Flug að koma til

Þá situr Tinna Rut í FI680 á leið frá Seattle og allt stefnir í lendingu í Keflavík rúmlega hálfeitt. Fimm tímum og fimmtíu mínútum á eftir áætlun. En, lendir þó á réttum stað. Í stað fjögurra og hálfs tíma stopps á flugvellinum í Seattle, þá varð biðin þar rúmir tíu klukkutímar. En það er þó betra en að fljúga framhjá landinu, þurfa að vesenast í Glasgow og síðan taka rútu annað hvort frá Egilsstöðum eða Akureyri.

Flugvöllurinn í Seattle er ágætur. Einna best er að þar er frítt þráðlaust net, í boði Google ef ég man rétt. Ef tölvan er með í för þá lætur vafrið tímann líða hraðar.

Það rættist sem sagt úr flugi á réttum tíma fyrir Tinnu Rut.

En viðbúið er að mín verði þreytt eftir hádegið í dag.

27. apríl 2010

Er Dohop að klikka?

Ég hef nokkrum sinnum keypt flugmiða í gegnum Dohop og líkað ágætlega. Man ég eftir að finna þar flugmiða milli Keflavíkur og Seattle nokkuð ódýrari en á Flugleiðasíðunni, þótt Dohop miðinn væri með Flugleiðum. Hef líka keypt miða hingað á suðurhvelið með aðstoð Dohop og þótt verðið gott. Ég hef ágætis samanburð því ég kaupi oft vinnutengda miða í gegnum ferðaskrifstofur og yfirleitt stendur Dohop sig betur.

En undanfarna daga hef ég leitað miða fyrir Dagmar Ýr milli Keflavíkur og Windhoek. Ég var ekki alveg sáttur við Dohop niðurstöðurnar. Þótti verðið í hærri kantinum og skrýtnar flugleiðir. Tók mig því til áðan og fór að púsla sjálfur saman flugferð með því að fara inn á síður ýmissa flugfélaga. Með þessu móti tókst mér að finna flugmiða næstum því 40.000 krónum ódýrari en sá ódýrasti á Dohop. Gerir það um 20% verðmun.

Munar um minna.

En hvað skyldi klikka hjá Dohop?

26. apríl 2010

Einn sit ég og ...

Sit þennan daginn heimavið. Þetta er samkvæmt ráðum hnykkjarans. Eða kannski vilja hnykkjarar kalla sig kírópraktora? Veit það ekki. Hvað um það, ég er búinn að vera með pirring í baki undanfarið. Líklega vegna löngu bíltúranna sem ég hef farið í síðustu vikur. Núna í morgun kíkti ég til hnykkjarans. Leist honum ekki vel á ástandið á mér. Stakk í mig tveimur nálum í þetta sinn. Merkileg tilfinning þegar verið er að stinga í mann nálum. Núna líður mér ágætlega. Síðan vill hann fá mig aftur seinna í vikunni og svo í þeirri næstu. Hann hlustar ekkert á nöldrið í mér að verið sé að hafa mig að peningaþúfu. Enda bara í nösunum á mér. Hnykkjarar eru einhver gagnlegasta starfsstétt sem ég þekki. Alveg með ólíkindum að geta tekið kengbogið fólk og rétt úr því með 15-20 mínútna meðferð.

En, nú sit ég semsagt heima við og glápi á tölvuna á milli þess sem ég rölti hring eða tvo um húsið. Verð að halda mér liðugum.

Aðaláhyggjuefnið þessa dagana er ferðalag Tinnu Rutar frá Prince George til Íslands. Ferðin, sem hefst snemma þriðjudagsmorguns að staðartíma í Prince George, liggur í gegnum Vancouver og Seattle. Svo núna virðist Glasgow-borg vera búin að bætast við ferðalagið. Ég krossleg fingur að hægt verði að fljúga til Keflavíkur frekar en Akureyrar. Ekki að Akureyri sé slæmur staður. En Tinna Rut á einungis tveggja daga stopp á Íslandi áður en hún heldur af stað til Namibíu. Fúlt að þurfa að eyða stórum hluta þess í rútuferð milli Akureyrar og Reykjavíkur, í ofanálag við miklu lengra flugferðalag en til stóð.

Nei, Akureyri er ágæt. En maður vill velja sjálfur hvenær maður fer þangað. Ekki satt?

25. apríl 2010

Veðrabrigði og lasleiki

Á sama tíma og Íslendingar fagna fyrsta degi sumars, þá líður að hausti hér á suðurhveli jarðar. Af einhverjum undarlegum orsökum erum við aldrei tilbúin þegar fyrsti kaldi gusturinn kemur. Þetta ár var engin undantekning.

Um miðja síðustu viku kom fyrsti næðingur haustsins. Vöknuðum við með glamrandi tennur og napurlegt var að koma sér framúr. Svo var farið að leita að rafmagnsofnum og fundust þeir undir þykku ryklagi. Í samband var nokkrum þeirra stungið, svo næsta nótt var ekki jafnslæm og sú fyrri. Þessar nætur fór hitastigið utandyra niður í sjö gráður. Innandyra kannski svona 14 gráður. Ég fæ hroll við að skrifa þessar tölur.

En versta var að Rúnar Atli fékk einhverja pest í kjölfarið. Á föstudagskvöldið var hann orðinn slappur og þá um nóttina kastaði hann tvisvar upp. Var heitur eins og kolamoli. Ekki var laust við hann væri með óráði, því það sem hann sagði við okkur um nóttina tengdist á engan hátt því sem var að gerast í kringum hann.

Núna, rétt eftir hádegi á sunnudegi, er hann loksins að hressast. Í sjónvarpinu er Tomma og Jenna maraþon, en honum finnast þeir fírar skemmtilegir. Reyndar erum við feðgarnir tveir einir heima því Gulla fór með gestina okkar til Omaruru, tæplega þriggja tíma akstur frá Windhoek. Þar verður næstu nótt eytt og stefnan er síðan Swakopmund á morgun. Við strákarnir þurfum því að hafa ofan af hvor fyrir öðrum. Það gengur örugglega vel, sér í lagi ef pestin er að lagast.

24. apríl 2010

Sjávarréttaspjót, par excellance

Í gærkvöldi gerðum við okkur dagamun og fórum út að borða. Kubata nefnist veitingastaðurinn. Þarna eru réttir portúgalskrar ættar í fyrirrúmi, en þar teljast með réttir frá Mósambík og Angólu.

Sjávarréttir eiga sinn sess á matseðlinum. Pantaði ég mér sjávarréttaspjót. Rækjur, smokkfiskur og kingklip voru uppistaðan á því. Ég vissi ekki alveg á hverju ég átti von, en framreiðslan sveik ekki. Var komið með stærðarinnar spjót sem stóð á borðinu fyrir framan mig. Undir spjótinu var síðan diskur með léttsoðnu grænmeti. Lak safi af sjávarréttunum ofan á diskinn og gaf grænmetinu einstakt bragð.

Smakkaðist þetta dásamlega vel og get ég hiklaust mælt með þessum stað. Þjónustan var líka góð og bið eftir matnum frekar stutt.

Aldrei þessu vant skolaði ég sjávarréttunum niður með rauðvíni, Beyerskloof Pinotage. Fór það bara vel með matnum.

Í kvöld hins vegar verðum við heimakær. Ætla ég að grilla spjóthafurssteik (e. oryx) sem núna liggur í bláberjalegi. Ég er strax farinn að hlakka til.

21. apríl 2010

Biðin vel þess virði...

Páskarnir komu og fóru.

Ekkert kom páskaeggið handa honum Rúnari Atla blessuðum.

En síðan kom frelsandi engill í gervi Beggu. 

Guttinn varð ánægður, svo ekki sé kveðið fastar að orði.


13. apríl 2010

Allt fram streymir...

Jæja, móðir mín bara orðin sjötug.

Takk fyrir.

DV klikkaði ekki og birti nafnið hennar á stórafmælisdagalista dagsins.

Já, tíminn líður. Það skrýtna við þetta er að þegar ég var tvítugur, sem mér finnst ekki svo langt síðan, þá var mamma á svipuðum aldri og ég er í dag. Já, það er undarleg tilhugsun. Og svo, til að bæta gráu ofan á svart, á ég tvær dætur rétt sitt hvoru megin við tvítugt.

Uss, ég get bara ekki farið að hugsa svona.

Nei, ég er alltaf jafnungur! Enda á líka fimm ára gutta.

Til hamingju með daginn, mamma.

10. apríl 2010

Áfallið mikla

Margir sem þekkja mig kannast við nöldur mitt út í Svía. Sjá t.d. bókmenntafærslu mína frá í fyrra. Þeir eru reyndar ágætir einn í einu, en saman í hóp eiga þeir til að fara í taugarnar á mér. Sérstaklega, sérstaklega þegar kemur að umræðu um hópíþróttir. Þeir eru jú alltaf bestir í þeim öllum - að eigin sögn...

Í morgun fór ég í verslunarleiðangur. Keypti mér Nike íþróttabol og var bara ánægður með gripinn. Fór í hann eftir hádegið.

Haldiði ekki að Gulla spyrji áðan: „Villi, er ekki bolurinn í sænsku fánalitunum?“

Og þar með fékk ég eitt mesta áfall mitt í langan tíma :-(

5. apríl 2010

Gauragangur, nei, mauragangur

Í suðlægum löndum er ekki hjá því komist að hafa nokkuð samneyti við skordýr. Líklega eru ekki mörg lönd þar sem eins lítið af skordýrum gera sig heimakomin inni á gafli hjá manni eins og á Fróni.

Hér í Namibíu er töluverður fjöldi af skordýrum. Með tímanum höfum við vanist þeim og kippum okkur lítið upp við einn og einn kakkalakka eða þessháttar kvikindi hlaupandi upp um veggi.

En undanfarið er okkur farið að þykja nóg um. Maurar nokkrir eru farnir að færa sig allmikið upp á skaftið, ja, svo hátt að við þurftum að bregðast við. Reyndar er ekki nýtt að maurar séu á vappi inni hjá okkur. Þetta eru ósköp lítil grey, kannski tveggja millimetra löng, og hafa lítið farið í taugarnar á okkur. En fyrir kannski tveimur vikum varð hálfgerð sprenging í fjölda þeirra. Voru heilar hersveitir komnar upp á eldhúsborð að sækja sér góðgæti. Ekkert þýddi að úða eitri á sveitirnar, jú, reyndar dugði það í nokkra klukkutíma, en svo fór allt í sama far. Í sjónvarpsherberginu okkar er ekki ofsögum sagt að maurarnir hafi skipt þúsundum.

Svo rammt hvað að þessu að ég átti fullt eins von á því að vakna einn daginn úti á hlaði - að maurarnir bæru okkur út í orðsins fyllstu merkingu. Þegar þeir voru svo farnir að narta í tærnar á mér þegar ég sat við tölvuna, þá var mér endanlega nóg boðið.

Á páskadag ákvað ég að snúa vörn í sókn. Eftir að ráðfæra mig við ýmsar netsíður, þá fór ég að sjóða vatn. Sauð tugi lítra af vatni og hellti vatninu þar sem mér leist á að maurabú væru. Mér er ekki vel við að hella einhverju eitri ofan í jörðina, en heitt vatn ætti að vera í lagi, svona umhverfislega séð. Sjóðandi vatnið olli auðvitað hamagangi hjá maurunum. Og miklu maurafalli. En svona er lífið.

Í morgun var lítið af maurum inni hjá okkur. Mér sýnist vatnið virka, en á von á að þurfa að halda baráttunni áfram einhvern tíma. Orrustan vannst, en stríðið er líklega enn í fullum gangi.

4. apríl 2010

Tímabreyting í Namibíu

Í nótt var klukkan færð til baka um einn tíma hér í Namibíu. GMT+1 er tíminn okkar núna. Tímabreyting til baka er þægileg, því þá sefur maður einum tíma lengur. Núna munar sem sagt einum tíma á Íslandi og okkur. Og ekki nema átta tímum á okkur og fröken Tinnu Rut í Prinsi Georgi. Þar til 5. september, þá færist klukkan fram á nýjan leik.

2. apríl 2010

Portkonur kljást

Vikublað eitt í Namibíu, informanté, birti nokkuð skondna frétt í gær. Þannig var að í Katima Mulilo, bæ í norðaustur hluta landins, bárust fréttir af fimm portkonum í hávaðarifrildi. Hnefaleikakeppni, var reyndar lýsing blaðsins. Virtust vandkvæði á að ná samkomulagi um skiptingu greiðslu frá einum viðskiptavini á milli kvennanna. Í viðtali við blaðið voru tvær konurnar hæstánægðar með að komast í blöðin. „Endilega auglýstu þá þjónustu sem við bjóðum upp á. Kannski lifnar yfir viðskiptunum í kjölfarið.“

Svo mörg voru þau orð.

Akstur, akstur og meiri akstur

Namibía er víðfemt land. Átta sinnum stærra en Ísland. Hins vegar er landið fámennt. Næst strjálbýlasta land í heimi, á eftir Mongólíu, með tvo íbúa á ferkílómetra. Ísland er víst í fimmta sæti yfir strjálbýlustu lönd með þrjá íbúa á hvern ferkílómetra. Nóg um þetta.

Eins og ég hef oft nefnt eru vegalengdir hér í Namibíu miklar. Ég hef undanfarna daga verið á ferðalagi um smáhluta landsins. Fyrst fór ég í fjögurra daga túr, einn af ellefu manna hópi. Ferðuðumst við þríbíla. Tilgangurinn var vettvangsskoðun og einhverjir fundir á Himba-svæðum.

Ferðin var skemmtileg, eins og alltaf. Ýmislegt kom uppá: púnkteríng hjá undirrituðum, matareitrun hjá hluta hópsins og svo þurfti að taka stuðaragrind af einum bílnum, en sú var farin að losna ískyggilega. Jú, einnig rigndi svo ógnarlega í einu hádegisstoppi að flæddi inn á gólf veitingastaðarins. Að ferð lokinni var tveggja daga „hvíld“ í Windhoek. Hvíld innan gæsalappa, því auðvitað þurfti að mæta til vinnu.

Í fyrradag ók ég síðan til Swakopmund og daginn eftir til Walvis Bay. Alltaf eitthvað að funda. Ók svo til baka í gærdag. Ekkert frí á skírdag hér.

Í dag er ég þreyttur. Enda er aksturinn á þessum fáu dögum kominn yfir 3.000 km. Aðeins. Væri kominn á þriðja hring umhverfis Ísland.

Bráðum fáum við gesti. Þá verður enn haldið af stað.

Endurnærður og til í tuskið á ný.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...