29. apríl 2010

Sopnar hveljur í namibískri rigningu

Nú er veðrið skrýtið í Namibíu. Miðað við árstíma, það er. Um fimmleytið hófst þessi líka úrhellisrigning með tilheyrandi þrumum og eldingum. Lýsist himininn upp öðruhverju í látunum. Allajafna rignir ekki undir lok apríl. Næstu rigningar ættu að koma í október eða nóvember. En veðrið hefur verið undarlegt síðustu vikur.

Eins og ég hef nefnt áður komast allir hér í gott skap þegar rignir. Ég er orðinn það mikill Namibíumaður í mér að ég kætist líka þegar rigningin lætur á sér kræla. Rigningin hófst skömmu áður en ég lagði af stað heim eftir vinnu. Skrúfaði ég niður hliðarrúðuna í bílnum og söng hástöfum með sígildri íslenskri dægurtónlist og trommaði með fingrum utan á bílhurðina.

Þegar rignir hér, þá hafa niðurföllin ekki við að taka á móti öllu regnvatninu. Göturnar eru lagðar þvert yfir árfarvegi og lendir maður oft í skemmtilegum akstri í gegnum straumharðar ár (sjá myndir í færslu frá í fyrra).

Sem ég syng og tromma í rigningunni við opinn bílglugga, mæti ég bíl. Hittist þannig á að um leið og við mætumst ekur hinn ofan í poll. Veit ég ekki fyrr en stærðarinnar gusa hitti mig beint í andlitið!

Saup ég hveljur, að sjálfsögðu, en hló svo að þessu og hélt áfram að syngja og tromma.

Það er ekki hægt að vera fúll í namibískri rigningu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...