25. febrúar 2007

Þessir pabbar

Fyrir einhverjum dögum vorum við í bíltúr, ég, Tinna Rut og Rúnar Atli. Álpuðumst við inn í hverfi eitt sem ég hef bara aldrei komið inn í. A.m.k. man ég ekki eftir því. Þetta er íbúðahverfi með kannski tveimur hverfismatvöruverslunum, svo það hefur aldrei gefist ástæða til.

Nema hvað, þarna eru götur skírðar eftir eyjum. Þarna er til dæmis Falklandseyjagata, og Kanaríeyjagata, Sandö gata - ætli þessi sandeyja sé ekki í Svíaríki? - Mæjorkagata og heilmikið af fleiri eyjanöfnum.

Auðvitað er þarna Íslandsvegur, hvað annað? Besta eyja í heimi, skárra væri það nú ef hún ætti ekki fulltrúa þarna. Ég vissi reyndar af þessu og þegar ég fattaði í hvaða hverfi ég var fór ég að svipast um eftir þessum vegi. Fann hann að lokum.

Tinnu Rut fannst fullmikið þegar ég stöðvaði við götuskiltið og skrúfaði niður rúðuna. Þegar ég síðan dró upp farsímann til að taka mynd, þá var henni allri lokið: „PABBI!!“ með þessum vantrúarásökunarhreimi sem einungis unglingar að tala við sína fáránlegu foreldra kunna að töfra fram. „Hvað er eiginlega að þér?“

Helst held ég hún hefði viljað sökkva niður í jörðina. Ég gat ekki skilið af hverju, þarna var ein manneskja á labbi, ekki einu sinni nálægt okkur.

En hér er sem sagt sönnunargagnið að Íslandsvegur sé til í Windhoek.

007

Það hefur nú verið þannig að Rúnari Atla er tamara að segja Atli (reyndar Aggli) frekar en Rúnar þegar hann er að tala um sjálfan sig. Atli gerir þetta og Atli vill hitt.

Nú kom svolítið nýtt hjá honum fyrir nokkrum dögum.

Einhverra hluta vegna spurði ég hann hvað hann heiti. Ekki stóð á svarinu:

Atli, Rúnar Atli

Lá við að ég spyrði hvort hann vildi martínikokkteilinn hrærðan eða hristan.

8. febrúar 2007

Þvílíkt og annað eins...

Datt í hug að fylgja fordæmi bróður míns og sjá hvaða fræga fólki maður líkist nú eiginlega.

Fyrsta vandamálið var að finna mynd af sér, en það fundust nú einar tvær myndir.

Hér kemur niðurstaðan úr þeirri fyrstu:



Ja, hvað skal segja. Mér finnst undarlegt hversu fínlegur og nettur ég greinilega er að líkjast öllum þessum konum. Marie Curie?? Auðvitað fræg kona, nóbelsverðlaunahafi, og sjálfsagt fínt að líkjast henni. Susan B. Anthony - kvenréttindafrömuður... ók...

Fæst orð um þessa Brody Dalle.

Æ, hvað skyldi þessari Leelee Sobieski finnast að líkjast mér á þessari mynd?

Svo er greinilegt að Beckham hefur einhver víum svip greinilega. Hann líkist báðum bræðrunum.

En svo ákvað ég að reyna aftur.

Önnur mynd.

Og þá gefur nú á að líta.




Jú, jú, Maggie Smith??? Gerið grín.

En sjáiði töffarana. Brúsinn sjálfur, ekki slæmt. Rúdí borgarstjóri - járnnaglinn sjálfur sem lætur fangelsa bófana vinstri-hægri. Steve McQueen - gerast ekki svakalegri kappaksturskallar. Virkilega vondi kallinn úr Terminator, sá sem rann alltaf úr greipum Schwarzeneggers. Síðan Hugo Chavez - úff þeir gerast nú ekki verri í dag.

En, hvað segir þetta um Maggie Smith?

4. febrúar 2007

Þvottadagur


Svolítið hefur verið rætt um þvotta hér á heimilinu undanfarið. Ekki það að ég sé mikið í uppvaski eða fataþvotti, heldur eru hér um að ræða áhrif frá honum Stubbi sjálfum. Hún mamma hans þarf nefnilega að þvo nýju fötin þeirra Péturs og Óla. Um þetta er heil blaðsíða í bókinni og þykir svolítið merkilegt.

Í kjölfarið á sér stundum stað umræða þegar skítugir hlutir verða á vegi okkar. Nú síðast uppgötvaðist að bíllinn hans Rúnars Atla er svolítið skítugur.

Ja, eiginlega er bíllinn drulluskítugur.

Nú voru góð ráð dýr. Eftir fundahöld og málefnalegar umræður var ákveðið að á sunnudag - í dag - yrði gripurinn þveginn. Við náðum okkur því í vaskafat og svamp og fórum síðan fyrir utan bílskúrinn, þar sem vatnsslanga er.

Nú var farið að þvo, eins og myndir bera með sér. Rúnar Atli þvoði og þvoði, en ólíkt mömmu Stubbs varð hann ekki þreyttur á að þvo.

Mikil var einbeitingin, en nú er bíllinn líka hreinn og fínn. Alveg glansandi flottur.

Spurning hvort hægt sé að virkja þessa þvottaorku í eitthvað annað...

Pyntingar eða nauðsynlegur sársauki?

Hún Dagmar Ýr hefur gengið vasklega fram í því að fjölga götum á líkama sínum. Fram að þessu hefur Tinna Rut blessunarlega verið laus við þetta, þótt hún sé með tvö göt í hvorum eyrnasnepli.

Á föstudaginn var þó farið í bæjarferð til að bæta upp þennan skort á götum. Frést hafði af skartgripabúð einni hér í bæ sem á víst þau götunarapparöt sem þarf. Móðirin var búin að gefa samþykki sitt, þ.a. öll vígi sem þurfti að brjóta niður voru komin.

Að þessu sinni var einungis um eitt gat að ræða á hægra eyra. Faðirinn reyndi að hafa áhrif á staðsetningu gatsins, en við lítin fögnuð. Lá við að hnussaði í starfsstúlkum skartgripabúðarinnar yfir því að karlmaður léti sér detta í hug að hafa skoðun á svona málum.

Svo er nú það.

En hér að neðan sést árangurinn.

Rúnar Atli kippti sér ekki mikið upp við þetta. Ja, reyndar þegar honum fannst götunardaman koma fullnálægt sér þá hvein í viðvörunarlúðrum, en annars fannst honum þetta ekki mjög merkilegt.

Drakk bara sinn mjólkurhristing með stóískri ró.


Skyldi hann einhvern tímann fá svona dillur eins og systurnar?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...