31. október 2006

Jóhanna að fitna?


Á sinni nýendurvöktu dagbókarsíðu er Jóhanna systir eitthvað að velta því fyrir sér hvort hún sé að fitna.

Þar sem ég á, í mínu myndasafni, myndir sem geta varpað ljósi á þessar vangaveltur þá þótti mér við hæfi - ja, annað hefði verið siðlaust - að birta þær hér. Hér er um að ræða mynd sem tekin var í Noregi í ágúst 2005. Varla hefur hún skánað síðan þá. Veit ekki meir.

En hér kemur sem sagt þessi mynd. Vil ég benda fólki á að horfa vel og vandlega neðarlega á myndina. Hún Jóhanna opinberar sig á mjög smekklegan hátt með því að láta skína í bert - sjást á milli laga.

Stundum er sagt að ein mynd segi meira en þúsund orð. Hvað segja tvær þá mikið? Fín spurning á stærðfræðiprófi. Hér kemur nefnilega önnur mynd, þar sem búið er að einangra meinið, ef svo má segja.



Dæmi nú hver fyrir sig.

29. október 2006

Íslandsför

Um miðjan nóvember þarf ég að fara á námskeið. Ekki styttra en til
Íslands, takk fyrir. Mæti ég til Íslands 16. nóvember ef spár
standast og fer aftur 27. sama mánaðar. Rúnar Atli kemur með, en
Tinna byrjar í prófum 15. nóvember og kemst því ekki í þessa ferð.

Ætli maður hitti ekki eitthvað af sínum tryggu dagbókarlesendum í
ferðinni.

Reikna með því.

Vonbrigði

Lögðum af stað til Etosha þjóðgarðsins á föstudaginn. Þar er verið að
betrumbæta gistiaðstöðu og þurftum við því að gista rétt utan garðs.
Þar var þessi fíni matsalur, þar sem þjónar og kokkar mættu við
upphaf máltíðar og tóku lagið fyrir gesti. Mjög sérstök upplifun, en
skemmtileg. Síðasta lagið af þremur var óður til hins ágæta suður-
afríska líkjörs, Amarúlla. Gaman.

Hins vegar var nokkuð af skorkvikindum þegar tók að skyggja. Vorum
við ósköp fegin því að sofa undir moskítóneti þá nóttina.

Síðan á laugardag var ekið inn í garðinn. Hófst dagurinn á rigningu,
sem vissi ekki á gott. Fór þannig að okkur gekk bölvanlega að finna
nokkur dýr og urðum við með miklum vonbrigðum með þessa ferð. Ekki
einn einasti fíll. Ekki einu sinni gíraffi sýndi á sér hálsinn. Að
vissu leyti endaði þetta því sem fýluferð.

En svona er víst lífið. Ekki alltaf eins og best verður á kosið.

24. október 2006

Útskrift

Þá er hún Gulla mín komin með meistaragráðu í félagsfræði!

Ég missti á útskriftinni sem haldin var 21. október, en fékk nokkrar myndir og hér er ein.

Til hamingju, Gulla.

23. október 2006

Mamman mætt

Þá er Gulla mætt á svæðið. Með fríðu föruneyti. Samanstendur það af
tveimur vinkonum Tinnu Rutar sem náðu að safna sér sjálfar fyrir
ferðalagi hingað.

Geri aðrir betur.

Ferðalagið gekk alveg ágætlega, ef frá skilið er vesen vegna
handfarangurs í London. Þau mál redduðust að lokum, en ekki þó fyrr er
tvisvar hafði verið staðið í sömu biðröðinni. Sagan segir að í fyrra
skiptið hafi röðin verið einn kílómetri að lengd, og í seinna skiptið
þrír kílómetrar. Hvorki meira né minna.

Við létum verða okkar fyrsta verk að kíkja á nýja húsið tilvonandi. Ég
hef nú ekkert rætt það í þessum dagbókarbrotum, en af ýmsum ástæðum var
húsið okkar ekki alveg nógu hentugt. Stendur það nú til bóta. Gullu
leist ljómandi vel á nýja húsið og efumst við ekki um að í því mun
okkur líða vel. Þangað flytjum við líklega 1. desember.

Rúnar Atli er virkilega ánægður með að hafa endurheimt mömmu sína.
Hoppar hann og skoppar um allt af gleði.

Mamman er víst alltaf best.

22. október 2006

Kona - halló!

Eins og gengur þá skreppum við oft í búðir. Rúnar Atli vill þá gjarnan
halda á einhverju sem á að kaupa. Stundum er hann t.d. að drekka djús í
búðinni sem þarf síðan að greiða við kassann. Þá segi ég oft við hann
að nú skuli hann láta konuna hafa hvað sem hann nú er með. Það þurfi að
borga. Gerir hann þetta yfirleitt möglunarlaust.

Í morgun kíktum við í bókabúð og fékk hann eina bók. Hélt hann á henni
á meðan við Tinna Rut vorum að skoða bækur og blöð fyrir okkur. Svo
komum við að kassanum og þurftum að bíða þar aðeins. Fer þá ekki
drengurinn að kalla, kona, kona! Enginn hér skilur þetta, þ.a. ég segi
svo við Rúnar Atla, afhverju segirðu ekki halló við konuna? Hann prófar
það, og viti menn, konan svarar hello til baka.

Flott fannst honum þetta. Síðan erum við aðeins á rúntinum og Rúnar
Atli með opinn glugga. Við staðnæmumst á rauðu ljósi þegar hann fer
allt í einu að gjamma út um gluggann: Kona, halló, kona!

Ég ýtti snöggt á bensínið og brunaði í burtu.

Mósambík

Skrapp í skottúr til Mósambíkur í vikunni. Var boðaður á fund þangað.
Fór á miðvikudagseftirmiðdegi héðan, flaug í tvo tíma til
Jóhannesarborgar, en þar er helsti skiptiflugvöllur svæðisins. Þurfti
að bíða nokkuð þar, en vélinni til Mapútó seinkaði um heilan
knattspyrnuleik. Flugið til Mapútó var síðan ekki nema þrjú kortér eða
svo. Þá tók við bið eftir vegabréfsáritun. Tók biðin annan
knattspyrnuleik. Kom svo á hótelið rúmlega 10 um kvöldið.

Sá lítið af landinu. Fór á milli hótels og fundarstaðar nokkrum sinnum,
kom á tvo matsölustaði og sá eina rannsóknastofu og
eftirlitsskrifstofu. Sú síðastnefnda er reyndar í rauða hverfi
borgarinnar. Ég var þar rétt eftir hádegi, þ.a. ég varð nú bara að taka
orð leiðsögumannsins trúanleg hvað þessa kvöldstarfsemi áhrærir. Svo í
gærmorgun var mætt út á völl í Mapútó klukkan fimm að morgni og komið
til Windhoek rétt eftir hádegi.

Frekar tíðindalítil ferð sem sagt. En þarna væri gaman að koma sem
ferðamaður. Hótelið var á ströndinni, Indlandshafsströnd, og greinilega
nokkuð af ferðamönnum sem koma þarna. Seinna.

17. október 2006

Áhyggjuefni?

Fór og lét klippa mig í dag.

Síðan ég kom hingað í byrjun árs þá hef ég tekið upp á þeim sið,
kannski ósið, að þegar ég er búinn í hárgreiðslunni, þá panta ég mér
alltaf tíma fjórum vikum síðar. Á sem sagt alltaf einn tíma í
hárgreiðslu útistandandi.

Flottur.

En í morgun tók fyrst steininn úr. Ég pantaði mér tíma um miðjan
nóvember, en lét ekki staðar numið þar. Nú á kappinn tíma 14. nóvember
og líka 16. desember.

Ástæða til að fá áhyggjur? Veit ekki. Hvað skyldi Gestur Einar segja um
svona lagað?

Er hins vegar alltaf flottur um hárið.

3. október 2006

Sterkur og stór og fleiri myndir



Jólin, jólin, jólin koma brátt...

Jæja, þá líður að jólum. Fór í búð áðan, Game, nánar tiltekið fyrir þá
sem til þekkja. Þar er allt á fullu við að setja upp jólatré... Hmm, 3.
október og allt komið í fullan gang fyrir jólin.

En ætli maður kaupi sér ekki gervitré að þessu sinni. Eitt stórt! Kom
með einn kassa af jólaskrauti með mér hingað út. Þarf maður ekki bara
að fara að opna hann og skoða?

Vonandi að maður nái að halda jólaskapinu fram yfir 24. desember...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...