15. febrúar 2009

Þrautaganga

Ekki hefur brauðgerðin gengið þrautalaust fyrir sig. Næturbökunin virkaði vel að því leytinu að græjan fór í gang. Brauðið hrundi hins vegar. Prófaði aðeins að breyta uppskriftinni. Sama sagan. Breytti aðeins meir, en útkoman alltaf sú sama.

Orðið slatti af hveiti sem hefur farið í þetta...

Í dag breytti ég uppskriftinni enn. Viti menn, út kom þetta fína brauð. Í sjöttu tilraun :-) Það smakkaðist virkilega vel. Helsti gallinn finnst mér vera að lagið á brauðum úr svona brauðvél er óhentugt. Sneiðarnar eru mjög stórar og erfitt að skera brauðið þegar það er nýtt.

Skýringin á bökunarvandræðunum virðist vera rakinn sem er hér nú. Það rignir dag eftir dag eftir dag. Í miklum raka þarf sem sagt að minnka aðeins vatnið sem sett er í deigið. Ég á nú alveg von á því að þurfa að bæta við vatni síðar meir, því rakinn núna telst til undantekninga.

En nú erum við komin í gang. Svo er bara að fikta sig áfram með mismunandi brauðtegundir.

12. febrúar 2009

Kanntu brauð að baka?

Eitt af því sem angrar okkur geðgóðu hjónin eru brauðmál í borginni. Ekkert mál er að skreppa út í búð og kaupa volg rúnnstykki eða splunkunýtt brauð. Gallinn er hins vegar sá að næsta morgun eru þessi sömu rúnnstykki orðin þvílíkt seig undir tönn að áhuginn fyrir að fá sér brauðmeti með morgunteinu er sára, sáralítill.

Um daginn vaknaði sú hugmynd hjónanna að fá sér brauðvél. Reyndar höfum við einu sinni átt þvílíkan grip. Var það í Vankúver fyrir mörgum, mörgum árum síðan. Þar var mikil samkeppni verslana á milli, sem lýsti sér meðal annars í því að innan mánaðar frá kaupum á heimilistækjum mátti skila þeim. Kvittunin þurfti að sjálfsögðu að fylgja með, og líka pakkningin. Engar útskýringar þurfti að gefa, bara mæta og skila og var endurgreitt möglunarlaust.

Brauðvélinni var skilað.

Við komumst aldrei upp á lagið með að nota hana. Í Vankúver var líka hægt að kaupa brauð með þvílíku magni af rotvarnarefnum að brauðið hélst sem nýtt væri í a.m.k. tvær vikur.

En nú eru hjónin orðin miklu reyndari og þroskaðri. Ákváðum við því að ráðast í kaup á gæðabrauðvél. Kenwood BM210 fyrir kunnáttufólk. Alls kyns stillingar sem hægt er að nota. Líka tímarofi, þ.a. hægt er að vakna við ilmandi brauð í morgunsárið.

Verður þó að viðurkennast að notkun vélarinnar er ekki alveg eins einföld og af er látið. Við fórum meira segja á Jútjúb og fundum þar heilmikið af kennslumyndum um notkun brauðvéla. Greinilegt er að bandarískum húsmæðrum leiðist mörgum hverjum á daginn. Virðast þær því stunda það að framleiða fræðsluefni úr sínu eigin eldhúsi og setja á netið. Okkur hinum til gagns og gamans.

Jæja, en í gær var fyrsta tilraun gerð. Hún tókst ekki vel. Einhverra hluta vegna setti ég of lítið af hráefnum í vélina. Deigið náði sér aldrei á strik og var bakað of lengi. Sem sagt, lítill samanþjappaður brauðkubbur með svakalega harðri skorpu var útkoman. Þó mátti með góðum vilja finna að brauðið var nokkuð gott á bragðið. Ja, svona inn við miðju. Svona svipað og þegar sagt er að fólk sé gott inn við beinið. Vitavonlaust, en einhvern ljósan punkt þarf að finna.

Ekki þýddi að gefast upp. Komst ég að því að það eru til ótrúlegustu afsakanir til að útskýra hvers vegna bökun í brauðvél klikkar. T.d. get ég haldið því fram að hafa gleymt því að vera í 1.600 metra hæð yfir sjávarmáli. Sá sem prófaði uppskriftina var örugglega niður við sjávarmál og þarf að taka tillit til þess. Nú svo hefur rignt mikið, þ.a. rakastig í Vindhúkkborg er nokkuð hátt. Það hefur örugglega haft sitt að segja.

En í hádeginu var hent í aðra uppskrift. Fyrstu tveir og hálfu klukkutímarnir lofuðu mjög góðu. Brauðið lyfti sér sem aldrei fyrr og spenningurinn var mikill. Þegar ég kom heim úr vinnunni, stökk ég inn og tók þrjú þrep í hverju skrefi. Aðeins þó til að sjá elsku konuna mína miður sín. Brauðið féll...

Of mikið hráefni í þetta sinn, hljóðaði Salómonsdómurinn.

Þegar þetta er ritað, er búið að setja í þriðju vél. Ekki þýðir að gefast upp. Fórum milliveg að þessu sinni. Nú mun það takast. Vélin byrjar að hnoða um tvöleytið í nótt, þ.a. þegar ég fer framúr, svona skömmu fyrir hálfsex, verður þetta líka gæðabrauð tilbúið.

Ég er strax farinn að sleikja útum...

7. febrúar 2009

Leti, en kannski ekki bara

Lítið hefur farið fyrir skrifum undanfarnar vikur. Leti hefur sjálfsagt sitt að segja þegar orsaka er leitað. Einnig hefur verið hálfgerð gúrkutíð í lífi okkar undanfarið. Já, frekar lítið í gangi.

Reyndar gerði bakið allhressilega vart við sig á föstudag fyrir viku síðan. Er búinn að vera skakkur og skældur síðan, en er smátt og smátt að réttast við á nýjan leik. Búinn að fara reglulega í hnykkingar og þær hjálpa til. Vegna bakverkja eyddi ég síðustu helgi að langmestu leyti í bælinu. Las líklega fimm bækur þá helgina. Las Ofsa og Auðnina og síðan tvær bækur eftir Paulo Cuelho. Síðan var ég orðinn svo langt leiddur að ég var kominn með námsbók frá Tinnu Rut í hendurnar. Reyndar skáldsaga sem hún las í ensku. Bók eftir höfund frá Nígeríu. Bara nokkuð góð.

Tinna Rut er komin á lokaár í skólanum. Svo blasir bara háskólanám við. Hún er að skoða ýmsa möguleika á ýmsum stöðum á hnettinum. Nei, Elli, hún er ekki farin að skoða Rússland enn...

Já, hún Tinna Rut stækkar. Fær stundum að keyra til að æfa sig fyrir bílprófið sem hún ætlar að taka á Íslandi um mánaðarmótin apríl maí. Henni gengur aksturinn ágætlega.

Rúnar Atli er algjörlega búinn að týna sér í Legókubbum. Við höfum keypt fyrir hann kubba öðru hverju. Hann liggur í þessu endalaust. Fer nákvæmlega eftir leiðbeiningunum. Þegar hluturinn er kominn saman, þá er hann rifinn sundur og byrjað upp á nýtt. Ótrúleg þolinmæði.

Svo uppgötvaði ég í gær að 25 ára stúdentsafmælið er núna í vor. Auðvitað er búið að koma á laggirnar fésbókarhópi. Þar rakst ég á svolítið af myndum frá menntaskólaárunum. Ég bara gapti. Þvílíkir krakkar... Ég man ekki betur en hafa fundist ég vera hokinn af reynslu og kunnáttu á þeim árum. Örugglega ekki einn um það. En, viðurkennast verður að útlitið benti ekki til reynslubolta og kunnáttumanna.

Svona er víst lífið.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...