29. ágúst 2006

Afmæli

Litli guttinn orðinn tveggja ára!

Afmælisdagurinn hefur verið frekar slappur það sem af er útaf
ferðalaginu í kvöld. Greinilega þótti Rúnari Atla þetta slæmt mál, því
hann heyrðist syngja: „...birthday to you...“

Sem sagt, þarf að syngja afmælissönginn sjálfur!

Styttist...

Þá styttist í brottför, u.þ.b. fjórir tímar þar til vélin fer af stað.
Ekki farið að setja ofan í töskur ennþá... En mun gerast á næsta
hálftíma eða svo. Auðvitað komin spenningur í liðið.

28. ágúst 2006

Ofurhugar!

Haldið var niður til strandar um helgina. Svíarnir sem voru hér í heimsókn fóru niðureftir á föstudeginum, með Tinnu Rut sem leiðsögumann. Auðvitað var farið á fjórhjól, hvað annað. Við Gulla og Rúnar Atli héldum síðan niðureftir á laugardeginum. Sá dagur, 26. ágúst, nefnist hetjudagurinn hér í Namibíu og er verið að minnast fallinna stríðhetja. Hvað um það, sum okkar strandarfara sýndum hetjuskap á þessum degi, enda ekki annað við hæfi.

Við fórum í svokallað „foefie“-brun (fbr. fúfí). Einhverjum manni í Swakopmund datt það snallræði í hug að tengja vírspotta á milli tveggja fjallstinda og bjóða fólki að renna sér eftir þessu. Auðvitað gegn greiðslu. Við fórum sem sagt af stað til að prófa þetta ævintýri. Doddi og Gulla reyndar gugnuðu á þessu. Jæja, þau sýndu reyndar aldrei neinn áhuga, verður að viðurkenna. Ég, Pía, Emil og Tinna héldum hins vegar á vit ævintýranna með bros á vör. Reyndar var brosað mismikið þegar verið var á leið upp fjallið. Þurftum við að feta einstigi með hyldýpi á aðra hönd, svo ekki mátti skrika fótur. Hafðist nú að komast á leiðarenda og þá gaf að líta. Þarna var vírinn vafinn utan um klett og síðan lá hann yfir að hinum tindinum, einn kílómetra í burtu. Ekki var stutt til jarðar, svo ekki sé meira sagt. Mun þetta vera lengsta svona strengjabrunbraut í allri veröldinni.

Mönnum leist þannig á að ég væri þyngstur... og átti því að fara fyrstur. Leiðsögumaðurinn sagði að það væri til að sjá hversu langt ég færi upp hinum megin, því þær upplýsingar kæmu sér vel fyrir samstarfsmenn hans sem höfðu þann starfa að hala okkur niður að ferð lokinni. Mig grunaði þó að hugmyndin væri sú að ef sá þyngsti kæmist á leiðarenda án þess að strengurinn gæfi sig þá væru hinir nokkuð öruggir.

Jæja, ég var beislaður upp og síðan látinn góssa af stað. Er skemmst frá að segja að eftir fyrstu metrana var þetta virkilega skemmtilegt. Þjóta þarna áfram á fleygiferð - frjáls eins og fuglinn. Nær maður víst 70-80 km hraða á klst. á þessari braut.

Tinnu Rut leist ekki á þetta, en lét sig engu að síður hafa það að fara niður. Myndin hér að neðan sýnir hana að ferð lokinni, með sólgleraugu að sjálfsögðu. Hún var ánægð að ferð lokinni, ekki síst þar sem Doddi frændi þorði ekki.

13. ágúst 2006

Breytingar

Kominn sunnudagsmorgunn. Við Rúnar Atli vöknuðum fyrstir, bökuðum vöfflur og hámuðum þær í okkur með sultutaui. Drukkum te með. Lítið af vöfflum eftir handa hinum ;-)

Annars er ég með hálfgerða strengi í framhandleggjunum. Þannig er að Tinna Rut hefur um nokkurt skeið akíderað fyrir því að skipta um herbergi. Hún hefur augastað á herbergi bróður síns. Auðvitað er hún búin að plana allt og sér fyrir sér að hann, kallanginn, lendi í minnsta herberginu í húsinu. Eftir eldhússkipulagið í gær, þá voru hönnunarsellurnar í fullum gangi hjá okkur öllum og ákveðið var að drífa bara í þessu. Helsta vandamálið var að Tinna Rut sankar að sér alls konar &#8222verðmætum&#8220 og því tók nokkurn tíma að vinna að þessu. Ég fór í að skrúfa í sundur barnarúmið og setja það aftur saman. Síðan þurfti að burðast með stærðarinnar skáp sem Tinna Rut vildi endilega fá með sér. Við drösluðum honum upp tröppurnar fimm í herberginu gamla, einungis til að uppgötva að hann komst ekki út um dyrnar. Góð ráð voru dýr, en sem betur fer eru dyr út í garðinn sem hægt var að nota. Skápurinn fór því aftur niður, út um garðdyrnar, upp tröppur á veröndina, þaðan inn í stofu, upp fleiri tröppur, inn ganginn og komst svo loksins á leiðarenda. Skýrast strengirnir í framhandleggnum af þessu.

En flutningarnir kláruðust að mestu leyti í gær. Einungis tölvuborðið eftir. Nú verður sem sagt skrifstofan okkar í gamla herberginu hennar Tinnu, Tinna komin í gamla herbergið hans Rúnars Atla og svo Rúnar Atli kominn í gömlu skrifstofuna. Hann svaf vært í nótt. Þegar við spurðum hann hvort hann hefði sofið vel, sagði hann: Jáhh.

12. ágúst 2006

Eldhúsmál

Skömmu eftir við fluttumst hingað, þá ræddi ég um eldhúsið við eiganda hússins sem við búum í. Mér þótti það alveg mega við smávegis upplyftingu, appelsínugular skáphurðir og gular veggflísar. Eitthvað frá fyrri hluta áttunda áratugarins, ef ekki eldra. Eigandinn, sem er ósköp almennileg kona, þrátt fyrir að vera fasteignasali :-) , melti þetta í einhverja mánuði og ákvað svo að láta skipta um skápahurðir og borðplötur. Skemmst er frá að segja að hún varð mjög óánægð með útkomuna, og eftir fundarhöld með mér og eiganda eldhúsinnréttingaverslunar þá var ákveðið að við Gulla færum að skoða eldhúsinnréttingar. Við eyddum tveimur tímum í morgun í versluninni og virðist allt stefna í gjörbyltingu í eldhúsmálum.

Þetta var nú svolítið merkileg lífsreynsla. Að ákveða hvernig maður vill hafa eldhúsið sitt, en þurfa ekki að borga neitt. Hafa engan snefil af tilfinningu fyrir verðum. En við ákváðum bara að njóta þess. Líklega ekki oft sem svona tækifæri gefst.

En svolítið er skondið með konuna sem á húsið. Hún rekur fasteignasölu, sem fyrr sagði, ásamt nokkrum sonum sínum. Hún er voðalega sparsöm, af gamla skólanum segir hún, og vill alltaf reyna að nýta það sem fyrir er. Synir hennar hins vegar, skilja ekkert í þessum nánasarhætti í móður sinni og reyna að telja henni trú um að best sé að henda út gömlu drasli og setja nýtt í staðinn. Þeir virðast hafa vinninginn sem stendur í eldhúsmálum, enda var móðirin mjög ósátt við eldhúsið eftir breytingarnar. Við njótum því góðs af sem stendur.

9. ágúst 2006

Merkisdagur

Gulla minnti mig á það í morgun að í dag eru nákvæmlega 15 ár síðan við
lögðumst í víking og fluttumst til Vancouver. Meiningin var að vera
eitt ár í námi þar og koma svo heim. Tólf ár liðu hins vegar áður en
haldið var heim og síðan eftir tvö og hálft ár heima var aftur lagst í
víking.

Einhverja skýringu hljóta sálfræðingar að eiga á svona löguðu.

Flakk

Sælt veri fólkið.

Undanfarið hef ég verið á endalausum þeytingi í vinnunni. Í síðustu
viku júlímánaðar þurfti ég að fara til Lüderitz, sem er eins mikið útúr
og hægt er hér í Namibíu. Ég þarf að fara þangað öðru hverju og flýg
yfirleitt. Í þetta sinn var ákveðið að keyra og nýta ferðina til
fundarhalds í bæ einum á leiðinni. Til að komast til Lüderitz frá
Windhoek þarf að aka 850 kílómetra. Aðeins. Þetta ferðalag tók þrjá
daga, einn dag í akstur suðureftir, einn til funda, og einn til aksturs
aftur heim. Kom heim undir kvöldmat á fimmtudegi. Síðan á sunnudeginum
var aftur lagt af stað. Nú var hins vegar stefnt norður á bóginn, til
bæjar sem heitir Oshakati. Þangað er nú styttra, ekki nema 750
kílómetrar u.þ.b. Þar eyddi ég fjórum nóttum og kom aftur heim á
fimmtudaginn í síðustu viku. Sýnist mér að aksturinn hjá mér hafi
slagað hátt í 4.000 kílómetra á þessum níu dögum.

Í dag þurfti ég svo á fund í Usakos. Þangað eru ekki nema 211
kílómetrar, svo ég skaust þangað bara eftir hádegið. Lagt af stað
rúmlega tvö, fundur hófst kortér fyrir fimm í rúman hálftíma og svo
brunað til baka. Kominn heim rétt eftir kvöldmat. Það tekur varla að
nefna svona ferðir.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...