24. febrúar 2011

Líður að heimför

Þá er síðasti dagurinn í þessari Namibíuferð runninn upp. Skýjað yfir eins og venjan er þessar vikurnar. Ég flýg af stað skömmu eftir hádegi til Jóhannesarborgar; bíð þar fram að kvöldmat. Þá legg ég af stað til Lundúna og kem þangað snemma föstudagsmorguns. Flugleiðir koma mér svo áfram síðasta spölinn. Ef allt fer eftir áætlun verð ég kominn til Keflavíkur um kaffileytið á morgun.

En núna bíð ég bara eftir að klukkan hreyfist svolítið meira. Finnsk dama skutlar mér út á flugvöll - ekki slæmt fyrir mig. Taskan löngu niðurpökkuð, þ.a. ég hangi bara á netinu til að drepa tímann.

En allt styttist þetta nú.

18. febrúar 2011

Of mikið vatn veldur vatnsskorti

Er staddur í Hvalaflóa - Walvis Bay. Kom hér á miðvikudag og fer aftur til Windhoek seinnipartinn í dag.

Þegar ég kom á gistiheimilið lá á rúminu blað með skilaboðum til mín. „Ef þú vilt fara í sturtu, skaltu gera það milli 19:00 og 20:00.”

Óvenjuleg skilaboð, þótti mér.

En, vandamálið er að mikill vatnsskortur er í Walvis Bay um þessar mundir. Líklega um tvær vikur síðan hann hófst. Þannig er að vatnsuppsprettur þær sem notaðar eru til að skaffa bænum vatn eru einhverja tugi kílómetra utan bæjarins undir stórum árfarvegi. Eins og er um flestar namibískar ár þá rennur næstum því aldrei vatn eftir árfarveginum. Stundum líða mörg ár á milli þess að vatn renni. En, eins og ég hef áður nefnt, þá hefur rignt óvenjulega mikið síðasta mánuðinn. Því fór svo að vatn fór að renna í þessari á. Skilst mér að á einhverjum hlutum hennar sé heilmikill vatnsflaumur. Gerðist þá, sem stundum gerist, að krafturinn í vatninu var svo mikill að eitthvað af vatnsleiðslunum sem flytja neysluvatn til bæjarins, eyðilögðust. Þar sem áin rennur enn á fullu, þá er mjög erfitt að finna hvar bilanirnar eru. Einhverjar leiðslur eru í lagi, en þær anna engan veginn vatnseftirspurninni. Því er vatn skammtað, tvo tíma á morgnana og einn til tvo tíma á kvöldin. Annars er skrúfað fyrir.

Það er merkilegt að of mikið vatn valdi vatnsskorti. En svona er lífið stundum öfugsnúið.

14. febrúar 2011

Söknuður

Í dag er Valentínusardagur. Dagur elskenda. Í gegnum tíðina hef ég ekkert misst mig yfir þessum degi. Engan veginn. En í dag... já, í dag sakna ég hennar Gullu. Við í sitthvorri heimsálfunni. Já, söknuður ríkir.

Ætli sjómenn og sjómannskonur hlægi ekki að þessu. Nokkrar vikur aðskilin og einhver meiriháttar söknuður í gangi.

Það er nú samt bara svoleiðis.

Meðfylgjandi lag heyrði ég í útvarpinu um helgina. Var nú alveg búinn að gleyma því, en mér finnst textinn lýsa ágætlega hvernig mér líður.

Gulla mín, njóttu dagsins - hlustaðu á textann.

Þetta styttist.

13. febrúar 2011

Auglýsingar, tilkynningar eða skilaboð? Örstutt...

Hvenær gerðist það að auglýsingar í sjónvarpi urðu „örstutt skilaboð”?

Einnig hef ég lengi undrast hvernig tilkynningar í útvarpi urðu auglýsingar. Hvernig getur útvarp tengst sjóninni?

Æ, bara smánöldur hjá mínum...

10. febrúar 2011

Bara einn laukur?

„Ha?” hváði stúlkan sem vigtar grænmetið í matvörubúðinni, „ætlar þú bara að kaupa einn lauk? Ertu viss?”

„Jú, jú, alveg viss. Ég get bara borðað einn lauk í einu,” svaraði ég henni.

Hún hristi höfuðið og hló dillandi hlátri að þessum skrítna manni.

Já, vandræði einstæðingsins halda áfram í matvörubúðinni.

8. febrúar 2011

Þetta var namibískur þjóðvegur

Rigningarnar hér í Namibíu láta ekki að sér hæða. Myndina hér að neðan fékk ég lánaða af vefsíðu Republikein, afríkönsku dagblaðs hér í borg.


Þarna var engin brú, heldur fór vegurinn hreinlega í sundur á þennan ótrúlega hátt. Er fólk varað við að aka á þjóðvegum syðst í landinu. Regnvatnið étur uppfyllinguna undan malbikinu, þ.a. þótt vegurinn virðist í lagi þá vantar uppfyllinguna. Eru dæmi um að bílar hafi pompað niður ofan í holrúm undir malbikinu.

7. febrúar 2011

Hæst bylur í tómri tunnu, eða hvað?

Keypti mér nýja græju um helgina.

ShoX smá-hátalara. Bleikan að sjálfsögðu, enda öruggur um mína karlmennsku...

Mér hefur gengið illa að hlusta á ísl. útvarpið undanfarið, því hátalarnir í tölvuruslinu sem ég er með eru vitagagnslausir. Því keypti ég mér þennan smá-hátalara.

Bjóst reyndar ekki við miklu.

En græjan kom mér sannarlega á óvart.

Dúndurhljómur í henni. Ég þarf að lækka alla hljóðstyrki í tölvunni niður í næstum ekki neitt til að fá ekki í eyrun.

Nú er gaman að hlusta á KK í morgunútvarpi Rásar eitt og Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Mæli með ShoX fyrir þá sem vilja hafa öflugan hátalara með í ferðalagið.

Matarinnkaup einstæðingsins

Ég er að átta mig á því að matvöruverslanir eru ekki mjög einstæðingsvænar. Undanfarnar vikur hef ég jú verið einstæðingur og þurft að kaupa matvörur handa mér einum. Áðan fór ég í matvörubúðina og keypti ýmislegt smálegt. Tvær kartöflur, minnsti pakki af smágulrótum, tvær svínakjötssneiðar - þ.a. það verður svínakjöt í matinn tvisvar þessa vikuna - og dós af gulum baunum. Gulu baunirnar munu ábyggilega skemmast hjá mér.

Vandamálið sem einstæðingurinn glímir við er að pakkningar á svo mörgu eru of stórar. Sumt er sem betur fer hægt að kaupa í lausu, en annað ekki. Hálft kíló af niðurskornu graskeri er bara allt of mikið, svo eitt dæmi sé tekið. Sex pulsubrauð eru fjórum of mörg. Ef ég kaupi mér það sem mig langar í, þá enda ég iðulega með að henda mat. Sem er fúlt.

Svo er nú annað. Að fara að kjötborðinu og biðja um eina kjúklingabringu, eða 200 grömm af nautakjötsstrimlum er greinilega undarleg hegðun. Þarf ég iðulega að endurtaka beiðnina og síðast í gær þurfti ég að stoppa afgreiðsludömuna af þegar hún hélt áfram að bæta í pokann þótt hún væri komin yfir 500 grömm. Ég bað um 250 grömm, en henni fannst það greinilega hljóta að vera 1.250 grömm.

Ég skal viðurkenna að þetta er skrýtin upplifun. Gott verður að komast aftur nálægt því að vera í vísitölufjölskyldu.

5. febrúar 2011

Flíspeysa og síðbuxur

Ég veit eiginlega ekki hvað er í gangi hér í Windhoek. Höfuðborg lands sem á tvo bæi á topp-tíu lista  sólríkustu staða í heimi. Hér, um hásumar, hefur varla séð til sólar í viku og núna í augnablikinu dembist rigningin niður með þvílíku offorsi að það er varla hægt að hlusta á útvarp.

Í morgun klæddi ég mig í stuttbuxur og stuttermaskyrtu eins og ég geri venjulega. En ekki leið langur tími þar til ég var kominn í síðar gallabuxur. Svo þurfti ég að skjótast út í búð, en klæddi mig þó fyrst í flíspeysu.

Já, ég veit bara ekki hvað er að gerast.

En auðvitað eru Namíbíumenn hæstánægðir eins og alltaf þegar rignir. Nú bætir hressilega í áveitulónin og eru sum orðin full og ríflega það. Vatnsbúskapur komandi árs lítur því vel út. Ekki er lengra síðan en í byrjun desember á síðasta ári þegar vatnsnotkun í Windhoek var takmörkuð. Bannað var að vökva garða, þvo bíla og þess háttar.

En nú þarf ekki að hafa áhyggjur af vatnsskorti á næstunni.

Sem er gott, þótt það þýði að ég þurfi að fara í síðbuxur og flíspeysu.

3. febrúar 2011

Svínaflensa, drómasýki og Finnar

Las með athygli blöðin í gær, sem endranær. Tók eftir fréttum í DV og Mogganum þar sem velt var fyrir sér möguleikanum á því að svínaflensubóluefni auki líkur á drómasýki. Fréttamenn frá báðum blöðum ræddu við sóttvarnalækni sem gerði lítið úr þessu. „Ólíkleg tengsl,” hafði Mogginn eftir honum og „engin tengsl” skv. viðtalinu í DV. Í Fréttablaðinu skrifaði sóttvarnalæknir grein, ásamt tveimur öðrum læknum, þar sem segir að „mjög ólíklegt” sé að bólusetning gegn svínaflensu tengist drómasýki og  að mikilvægt sé að sem flestir láti bólusetja sig gegn svínaflensunni.

En af hverju fór þessi umræða í gang?

Jú, Finnar voru að birta rannsókn þar sem þeir finna tölfræðilega marktæk tengsl milli bólusetningar gegn svínaflensu og drómasýki. Skv. fréttum hefur drómasýki aukist töluvert í Svíþjóð, á Íslandi og í Finnlandi frá því bólusetningar hófust. Hefur framkvæmdaráð ESB farið fram á rannsóknir á þessum tengslum, sjá m.a. frétt í Politiken fyrir nokkru.Því hafa einhverjar rannsóknir farið fram á því hvort tengsl séu á milli.

Nú fundu Finnar sem sagt tengsl. Sóttvarnalæknir segir að ekkert sé að marka þessa rannsókn því Finnum hafi tekist að bólusetja milli 70 og 80% íbúa Finnlands og því sé viðmiðunarhópurinn of lítill. Við svona rannsókn þarf að hafa bæði bólusetta og óbólusetta einstaklinga. Þeir óbólusettu séu of fáir til að hægt sé að taka mark á þessum niðurstöðum, skv. sóttvarnarlækni og hans tveimur kollegum.

Fyrr í kvöld fór ég út að borða með finnsku kunningjafólki mínu. Spurði ég þau hvort þau könnuðust eitthvað við þessa rannsókn. Jú, þau gerðu það. Skv. þeim er mikið um þetta rætt í Finnlandi. Sögðu þau mér að finnsk heilbrigðisstofnun, sem mér skilst sé landlæknisstofnun Finnlands, hefði beðist afsökunar á því að hafa lagt jafnmikla áherslu og gert var á að Finnar bólusettu sig gegn svínaflensu. Að yfirvöld hefðu farið offari í áróðri sínum fyrir bólusetningu.

Þessi afsökun kemur í kjölfar rannsóknarinnar á tengslum bóluefnisins og drómasýki.

Einhvern veginn held ég að ef hægt sé að draga niðurstöður rannsóknarinnar í efa vegna tölfræðilegra galla, t.d. vegna of lítils samanburðarhóps, þá hefði finnska landlæknisembættið gert það. Vill ekki verða rúið trausti. Hefði dregið í lengstu lög með að biðjast afsökunar. Hefði ekki beðist afsökunar nema vegna þess að engin vafi var um niðurstöðuna.

Ég hef enga ástæðu til að rengja finnsku kunningjana mína. Ef þeirra frásögn er rétt, þá þykja mér viðbrögð sóttvarnalæknis og hans kollega mjög vafasöm, svo ekki sé meira sagt.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...