Las með athygli blöðin í gær, sem endranær. Tók eftir fréttum í DV og Mogganum þar sem velt var fyrir sér möguleikanum á því að svínaflensubóluefni auki líkur á drómasýki. Fréttamenn frá báðum blöðum ræddu við sóttvarnalækni sem gerði lítið úr þessu. „Ólíkleg tengsl,” hafði Mogginn eftir honum og „engin tengsl” skv. viðtalinu í DV. Í Fréttablaðinu skrifaði sóttvarnalæknir grein, ásamt tveimur öðrum læknum, þar sem segir að „mjög ólíklegt” sé að bólusetning gegn svínaflensu tengist drómasýki og að mikilvægt sé að sem flestir láti bólusetja sig gegn svínaflensunni.
En af hverju fór þessi umræða í gang?
Jú, Finnar voru að birta rannsókn þar sem þeir finna tölfræðilega marktæk tengsl milli bólusetningar gegn svínaflensu og drómasýki. Skv. fréttum hefur drómasýki aukist töluvert í Svíþjóð, á Íslandi og í Finnlandi frá því bólusetningar hófust. Hefur framkvæmdaráð ESB farið fram á rannsóknir á þessum tengslum, sjá m.a. frétt í Politiken fyrir nokkru.Því hafa einhverjar rannsóknir farið fram á því hvort tengsl séu á milli.
Nú fundu Finnar sem sagt tengsl. Sóttvarnalæknir segir að ekkert sé að marka þessa rannsókn því Finnum hafi tekist að bólusetja milli 70 og 80% íbúa Finnlands og því sé viðmiðunarhópurinn of lítill. Við svona rannsókn þarf að hafa bæði bólusetta og óbólusetta einstaklinga. Þeir óbólusettu séu of fáir til að hægt sé að taka mark á þessum niðurstöðum, skv. sóttvarnarlækni og hans tveimur kollegum.
Fyrr í kvöld fór ég út að borða með finnsku kunningjafólki mínu. Spurði ég þau hvort þau könnuðust eitthvað við þessa rannsókn. Jú, þau gerðu það. Skv. þeim er mikið um þetta rætt í Finnlandi. Sögðu þau mér að finnsk heilbrigðisstofnun, sem mér skilst sé landlæknisstofnun Finnlands, hefði beðist afsökunar á því að hafa lagt jafnmikla áherslu og gert var á að Finnar bólusettu sig gegn svínaflensu. Að yfirvöld hefðu farið offari í áróðri sínum fyrir bólusetningu.
Þessi afsökun kemur í kjölfar rannsóknarinnar á tengslum bóluefnisins og drómasýki.
Einhvern veginn held ég að ef hægt sé að draga niðurstöður rannsóknarinnar í efa vegna tölfræðilegra galla, t.d. vegna of lítils samanburðarhóps, þá hefði finnska landlæknisembættið gert það. Vill ekki verða rúið trausti. Hefði dregið í lengstu lög með að biðjast afsökunar. Hefði ekki beðist afsökunar nema vegna þess að engin vafi var um niðurstöðuna.
Ég hef enga ástæðu til að rengja finnsku kunningjana mína. Ef þeirra frásögn er rétt, þá þykja mér viðbrögð sóttvarnalæknis og hans kollega mjög vafasöm, svo ekki sé meira sagt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli