18. febrúar 2011

Of mikið vatn veldur vatnsskorti

Er staddur í Hvalaflóa - Walvis Bay. Kom hér á miðvikudag og fer aftur til Windhoek seinnipartinn í dag.

Þegar ég kom á gistiheimilið lá á rúminu blað með skilaboðum til mín. „Ef þú vilt fara í sturtu, skaltu gera það milli 19:00 og 20:00.”

Óvenjuleg skilaboð, þótti mér.

En, vandamálið er að mikill vatnsskortur er í Walvis Bay um þessar mundir. Líklega um tvær vikur síðan hann hófst. Þannig er að vatnsuppsprettur þær sem notaðar eru til að skaffa bænum vatn eru einhverja tugi kílómetra utan bæjarins undir stórum árfarvegi. Eins og er um flestar namibískar ár þá rennur næstum því aldrei vatn eftir árfarveginum. Stundum líða mörg ár á milli þess að vatn renni. En, eins og ég hef áður nefnt, þá hefur rignt óvenjulega mikið síðasta mánuðinn. Því fór svo að vatn fór að renna í þessari á. Skilst mér að á einhverjum hlutum hennar sé heilmikill vatnsflaumur. Gerðist þá, sem stundum gerist, að krafturinn í vatninu var svo mikill að eitthvað af vatnsleiðslunum sem flytja neysluvatn til bæjarins, eyðilögðust. Þar sem áin rennur enn á fullu, þá er mjög erfitt að finna hvar bilanirnar eru. Einhverjar leiðslur eru í lagi, en þær anna engan veginn vatnseftirspurninni. Því er vatn skammtað, tvo tíma á morgnana og einn til tvo tíma á kvöldin. Annars er skrúfað fyrir.

Það er merkilegt að of mikið vatn valdi vatnsskorti. En svona er lífið stundum öfugsnúið.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...