5. febrúar 2011

Flíspeysa og síðbuxur

Ég veit eiginlega ekki hvað er í gangi hér í Windhoek. Höfuðborg lands sem á tvo bæi á topp-tíu lista  sólríkustu staða í heimi. Hér, um hásumar, hefur varla séð til sólar í viku og núna í augnablikinu dembist rigningin niður með þvílíku offorsi að það er varla hægt að hlusta á útvarp.

Í morgun klæddi ég mig í stuttbuxur og stuttermaskyrtu eins og ég geri venjulega. En ekki leið langur tími þar til ég var kominn í síðar gallabuxur. Svo þurfti ég að skjótast út í búð, en klæddi mig þó fyrst í flíspeysu.

Já, ég veit bara ekki hvað er að gerast.

En auðvitað eru Namíbíumenn hæstánægðir eins og alltaf þegar rignir. Nú bætir hressilega í áveitulónin og eru sum orðin full og ríflega það. Vatnsbúskapur komandi árs lítur því vel út. Ekki er lengra síðan en í byrjun desember á síðasta ári þegar vatnsnotkun í Windhoek var takmörkuð. Bannað var að vökva garða, þvo bíla og þess háttar.

En nú þarf ekki að hafa áhyggjur af vatnsskorti á næstunni.

Sem er gott, þótt það þýði að ég þurfi að fara í síðbuxur og flíspeysu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...