28. júlí 2013

Setið að kjötkötlum

Til eru fleiri snillingar heldur en Sigmund, Halldór og Henrý Þór sem gera málefnum, sem hátt ber hverju sinni, skil á teiknuðu formi. Í Malaví birtast teiknaðar myndir af þessu tagi í dagblaði, sem nefnist Þjóðin (The Nation), eftir mann sem heitir Ralph Mawera. Myndaflokk sinn nefnir hann „Point of order“ sem mætti útleggja sem „Þetta er vítavert!“ á því ylhýra, með tilvísun í hvað forseta alþingis ber að segja „[e]f þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu...“ (gr. 78 í lögum nr. 55 frá 1991 um þingsköp).

Undanfarið ár hafa launamál ríkisstarfsmanna í Malaví verið reglulega í fréttum. Malavíski kvakinn hefur fallið gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum, sem hefur ollið hárri og viðvarandi verðbólgu í landinu. Ríkisstarfsmenn hafa kvartað mikið yfir launum sínum, hótað aðgerðum, og fyrr á árinu lögðu þeir niður störf í rúma viku. Ýmis opinber fyrirtæki hafa glímt við verkföll. Ríkið hefur þrisvar undangengið ár hækkað laun ríkisstarfsmanna, en mun minna er kröfur hafa verið gerðar um.

Fyrir u.þ.b. viku gerðist það að þingmenn úrskurðuðu sjálfum sér dágóða hækkun á dagpeningum og ýmsum sporslum sem þeir eiga rétt á. Loguðu blöð og útvarpsstöðvar í vanþóknun á þessu. Og svo kom þessi mynd frá honum Ralph Mawera - „Þetta er vítavert!“ (smellið á myndina til að sjá hana stærri.)

Þar sjáum við horaðan og væskilslegan ríkisstarfsmann sitja að snæðingi yfir hálftómum diski. Á næsta borði situr búlduleitur þingmaður hámandi í sig mat og svignar borðið undan kræsingum. Þjónn frá þinginu ber honum síðan góða viðbót. Ríkisstarfsmaðurinn horfir á í forundran: „Allt þetta bara í eftirrétt?“ spyr hann.

Neðst á myndinni sjást tveir menn. Annar segir: „Þeim sem mikið hafa, þeim verður meira gefið,“ og hinn svarar: „Að sjálfsögðu.“


Ég er nú ekki frá því að þessa mynd mætti staðfæra yfir á íslenskar aðstæður. Eða hvað?

26. júlí 2013

Gáfað excel, eða hitt þó heldur

Í gær lenti ég í því að Excel hrundi á vinnutölvunni hjá mér. Gerist öðru hverju, enda er tölvan með Windows stýrikerfisrusli.

Hvað um það, excel reyndi að sýnast gáfað þegar ég endurræsti og bauð mér upp á val á milli þess að opna síðustu útgáfu sem ég vistaði, eða síðustu útgáfu sem excel sjálft setti einhvers staðar til hliðar. Sjálfsagt vitandi það að hrunið mun koma fyrr en seinna.

Nema hvað, mér þótti svolítð merkileg dagsetning á öðru skjalinu sem ég var með opið. Svo merkilegt að ég bað tölvuna að taka mynd af þessu fyrir mig.

Lítið á neðsta skjalið. Þessi útgáfa af skjalinu var búin til klukkan 2:00 að morgni 1. janúar árið - já haldið ykkur - árið 1601!

Það mætti halda að maður væri í einhverri skáldsögu Jules Verne.

En mikið er excel sem sagt heimskt.

13. júlí 2013

Ný dekk - loksins

Eins og tryggir lesendur muna, þá lenti ég í vandræðum í hjólreiðatúr um daginn. Ég lenti í kjölfarið í vandræðum með að finna dekk, en staðhættir í Lílongve eru þannig að þær hjólabúðir sem ég veit um eru í svokölluðu hverfi tvö. Til að komast þangað þarf að fara yfir Lílongve-ána, en brúin sú arna, er fara þarf yfir, er alræmdur flöskuháls í umferðinni. Ég skrökva ekki þegar ég segi að það sé biðröð yfir brúna allan liðlangan daginn.

En, ég fann slöngu í einni búð og gat því farið að hjóla aftur. Bar reyndar ekki fullkomið traust til dekksins, en lét mig hafa það. Þið þekkið þetta: „Ég hlýt að komast þessa ferð á leiðarenda.“ Svo kemst maður þá ferð og hugsar þá það sama um næstu ferð.

Auðvitað hlýtur svona að enda með ósköpum. Eða hvað?

Jú, auðvitað gerir það það.

Á miðvikudaginn var, þá var ég nýlagður af stað úr vinnunni þegar hvellsprakk. Og ég meina hvellsprakk. Þegar ég fór að skoða skaðann, þá varð mér strax ljóst að hann yrði ekki bættur á staðnum. Dekkið hafði hreinlega rifnað á 20 sm kafla. Síðar sá ég að yfir 10 sm langt gat var á nýju slöngunni. Ég hringdi því eftir aðstoð og lét keyra mig heim.

Svo í morgun, þá peppaði ég mig upp í að fara yfir brúna og kíkja í hjólabúð í hverfi tvö. Það tók kannski 15 mínútur að komast þessa 400 metra sem brúin líklega er. Þokkaleg hratt get ég sagt.

Keypti tvö dekk og tvær slöngur. Ákvað að skipta bæði að framan og aftan. Og nú er hjólið tilbúið í ævintýri næstu viku. Komin með þessi fínu kínversku dekk. Hjólið sjálft er svart og rautt á litinn. Því fannst mér flott að finna dekk með rauðri rönd.

Mjög lekkert.

 

1. júlí 2013

Tíu mismerkilegir staðreyndir um Kanada í tilefni Kanadadags

Í dag er Kanadadagur, sem er þjóðhátíðardagur Kanada. Þann dag fyrir 146 árum sameinuðust þrjár breskar nýlendur í N-Ameríku í eitt land, Kanada. Smátt og smátt bættust aðrar nýlendur í hópinn, sú síðasta, Nýfundnaland, árið 1949.

Við Gulla bjuggum í Kanada í fimm og hálft ár frá 1991 og þykir okkur vænt um landið. Enda býr Tinna Rut jú þar.

Það er ekki hægt að neita að Kanada er gott land að búa í og leið okkur vel þar. Stundum fáum við þá flugu í höfuðið að flytja þangað aftur, en hingað til hefur ekkert orðið úr svoleiðis pælingum.

En mér datt í hug að punkta niður nokkrar staðreyndir um landið, staðreyndir sem sumir kannski vita, en aðrir ekki. Allt til gamans gert.
  1. Í styrjöldinni 1812 börðust Bretar í N-Ameríku gegn Bandaríkjunum. Þótt Kanada væri ekki til þegar þetta var finnst Kanadabúum að þetta hafi verið þeirra stríð, enda urðu bresku nýlendurnar að Kanada seinna meir. Sumum finnst gaman að segja frá því að í þessu stríði þá náðu Bretar, nei, ég meina Kanadamenn, höfuðborg Bandaríkjanna, Wasington DC, á sitt vald og brenndu borgina. Þ.á.m. Hvíta húsið. Þetta kitlar aðeins.
  2. Tilvist Kanada má rekja til útrásarvíkinga. Hudson Bay félagið, sem í dag er verslanakeðja, svona eins og Hagkaup, var upphaflega í loðskinnaviðskiptum. Það sendi fólk út af örkinni út um allt á sínum tíma (við erum að tala um 16 hundruð og eitthvað og 17 hundruð og súrkál) til að kaupa loðskinn. Útsendarar þess voru upphafsmenn margra byggðakjarna sem seinna urðu borgir. Því má segja að Kanada hafi orðið til vegna þeirra sem vildu „græða á daginn og grilla á kvöldin.“
  3. Kanada tilheyrir enn breska samveldinu. Því er breska drottningin drottning Kanada. Öll lög sem kanadíska þingið setur þurfa samþykki landsstjórans, en hann er fulltrúi drottningar og skipaður af henni. Reyndar leggur forsætisráðherra Kanada til hver á að vera landsstjóri og drottningin samþykkir alltaf. En, engu að síður, svolítið skrýtið.
  4. Hlynsíróp er eitt af því sem Kanadabúar eru hvað hreyknastir af.
  5. Langar þig að taka þátt í róðrarkeppni í risastóru graskeri? Kanada er staðurinn!
  6. Við Íslendingar stærum okkur oft af súrsuðum hrútspungum. Sumsstaðar í Kanada eru nautspungar hnossgæti. Mér er sagt þegar nafni minn Bretaprins og frú heimsóttu veitingastað sem sérhæfir sig í svona löguðu, þá varð til nýr réttur: Krúnudjásnin!
  7. Viltu fara út á ystu nöf? Farðu þá í CN turninn í Tórontó og labbaðu hringinn á brún turnsins í 365 metra hæð, festur með einu snæri. Er ekki Hallgrímskirkja ríflega 75 metra há? Klikkaðir þessir Kanadabúar.
  8. Kanadabúar vita - kannski þó ekki allir - að Snorri Þórfinnsson var fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Kanada, þá þekkt sem Vínland. Árið var líklega 1004. Að hann hafi flust aftur til Íslands og orðið bóndi í Skagafirði vita líklega færri.
  9. Við eigum Lagarfljótsorminn (nema hann sé dauður úr mengun) og Kanadabúar eiga Ógópógó. Sex til 20 metra langur vatnaormur sem hefur margoft sést síðan 1872 er hann sást fyrst svo vitað sé.
  10. Svo að lokum eitt með Vestur-Íslendingana. Einhverra hluta vegna finnst þeim vínarterta vera það íslenskasta af öllu íslensku. Skrýtið.
Kanada - til hamingju með daginn!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...