5. desember 2013

Dragdrottning...

Jæja, alltaf bætist í reynslubankann. Dagmar Ýr stundar förðunarfræði þessa dagana og tókst á undraverðan hátt að fá föður sinn til að vera fyrirsæta í eitt kvöld - fyrirsæta í dragförðun!

Ég held að ágætlega hafi tekist til:

Hér er komin þessi glæsilega blondína, seiðandi augnaráð og lokkandi varir.

Svo er komin ein „Pink Lady“ úr Grease - Rizzo eat your heart out...

Litli fingurinn er alltaf svooo sexí...
„Au naturel“ hárgreiðsla dregur ekki úr þokkanum. Piltar, takið eftir giftingarhringnum... sorrí...
Algjörlega ný lífsreynsla. Skemmtileg.

Á ekki bara að panta strax Gleðigönguvagn fyrir næsta ár?

21. nóvember 2013

Ég 1.0.1 og smágrobb

Jæja, ætli sé ekki tími til að leyfa óþreyjufullum lesendum að frétta af vélbúnaðaruppfærslunni.

Í stuttu máli gekk aðgerðin, og endurhæfing það sem af er, eins og í sögu. Ja, eiginlega eins og í lygasögu, ef trúa á mér vitrari mönnum. Ég þýt eins og skopparakringla út um allt. Bara fyrr í dag, sem dæmi, rölti ég úr efra Breiðholti, niður í það neðra. Í Mjóddina, nánar tiltekið. Fékk mér kaffibolla í Bakarameistaranum og rölti svo aftur til baka. Ákvað að taka smákrók og kíkja í Þína verslun (eða á ég að segja Mína verslun?) á Seljabrautinni og kaupa fisk í kvöldmatinn. Krydduð blálanga. Mjög góð.

En, fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á endurhæfingarsögum þá er hér listi af helstu afrekum á leiðinni. Þeim sem finnst svona útlistun vera grobb - ja, þeir geta bara hætt að lesa hér.

Aðgerðin átti sér stað 21. október, klukkan 11 að morgni. Eitthvað gekk illa að mænudeyfa mig og var ég því svæfður. Vaknaði um tvöleytið, minnir mig. Fór í fyrsta göngutúrinn þá um kvöldið. Mjög stuttur var hann og ég hálfhékk í göngugrindinni. Spítalavistin er nú ekkert sérstaklega í frásögur færandi. Ég get ekkert kvartað yfir atlæti. Starfsmenn bæklunardeildar, B-5, í Fossvoginum reyndust mér allir mjög vel.

En nú að upptalningu:
  • 3. dagur eftir aðgerð: Fór heim uppúr hádegi. Dagmar Ýr sótti mig. Gekk þolanlega að komast inn í bílinn. Byrjaði í apótekinu að kaupa töflur og blóðþynnandi lyf. Mikið var gott að komast út undir ferskt loft.
  • 4. dagur: Fór í strætó niður í Mjódd. Keypti kaffibolla á Bakarameistaranum og kíkti í Eymundsson. Jóhanna systir, hjúkka með meiru, kom í Æsufellið á meðan ég var í strætó. Hún tapaði sér alveg. Leitaði að mér út um allt hús, meira að segja milli rúmstokks og glugga. Hljóp upp og niður stigaganginn, ef ske kynni að ég væri að æfa mig í stigamennsku. Henni fannst EKKI sniðugt að fara í strætó á hækjum fjórum dögum eftir mjaðmaskiptiaðgerð.
  • 5. dagur: Skrapp með Dagmar Ýr í Smáralind. Fékk mér ís - sjá mynd hér til hægri. Og líka kaffi.
  • 6. dagur: Lengri göngutúr. Kringlan að þessu sinni.
  • 8. dagur: Gekk niður Skólavörðustíg og til baka. Stór dagur því önnur hækjan var skilin eftir heima. Enda ómögulegt að kaupa sér kaffi í götumáli á tveimur hækjum. Maður þarf jú að geta haldið á kaffibollanum og gengið um leið.
  • 9. dagur: Tók strætó niður á Hlemm. Það var morgunkaffi í vinnunni og mér fannst ómögulegt að missa af því. Gekk svo niður Laugaveg að Friðriki V og hitti Dagmar Ýr og Jóhönnu þar. Fengum okkur hádegismat. Þetta var líka merkilegur dagur, því ég tók engar verkjatöflur. Var búinn að smáminnka dópið frá 5. degi. Hættur á lyfjum frá og með þessum degi.
  • 11. dagur: Lengsti göngutúr það sem af er. Fór á bókasafnið í Gerðubergi og tók mér tvær bækur að láni. Þetta ferðalag tók klukkutíma og 20 mínútur. Um kvöldið fórum við Dagmar Ýr á miðbæjarvöku og löbbuðum hring um miðbæinn. Komst að því að það er óþægilegt að nota hækjur í roki.
  • 12. dagur: Fór í bíó! Gravity í Egilshöll.
  • 14. dagur - tvær vikur: Gekk út á heilsugæslustöð í Gerðubergi. Þar voru hefti fjarlægð úr skurðinum, og var mér sagt að hann væri vel gróinn. Og, að ég mætti fara í sund frá og með morgundegi.
  • 15. dagur: Sat á jafnréttisnámskeiði í vinnunni frá níu til fimm. Maður er svo vel kynjaður. Strætó báðar leiðir.
  • 16. dagur: Gekk í Þína (mína?) verslun á Seljabraut og keypti í kvöldmatinn. Fór svo í sund. Synti 200 metra skriðsund. Lagði ekki í bringusund. Hvíldi eftir hverja 25 metra. Fótatökin voru ekki mjög öflug. En þetta gekk. Svo sest í pottinn. Þvílík tilfinning!
  • 17. dagur: Göngutúr í vinnuna hennar Dagmarar Ýrar. Synti 200 metra og endaði daginn á göngutúr og kaffi í Kringlunni.
  • 18. dagur: Hóf daginn á strætóferð til Háskóla Íslands. Átti þar erindi. Planið var að labba niður á Lækjartorg og taka strætó til baka þaðan. Veðrið var hins vegar svo gott að ég gekk upp Laugaveginn og tók strætó frá Hlemmi. Tók svo 250 metra sundsprett - ja, kannski ekki sprett. Þar af voru 25 metrar bringusund.
  • 19. dagur: 300 metrar í sundlauginni, þar af 75 metrar bringusund. Fór svo á Slippbarinn um kvöldið... segi ekki meir...
  • 21. dagur: Átti fund í Háskóla Íslands. Fór án hækju. Hef ekki notað hækjur síðan.
  • 27. dagur: Fór upp og niður tvær hæðir í stigaganginum án þess að styðast við handrið.
  • 28. dagur: 500 bringusund í striklotu.
  • 29. dagur: Ók bíl í fyrsta skipti eftir aðgerð. Gekk vel, en smátilfæringar að komast inn í bílinn.
Í dag er 31. dagur frá aðgerð. Allir verkir löngu farnir, einnig þeir sem hafa angrað mig meira og minna síðustu árin.

Ég lít því bjartsýnn fram á veginn.

20. október 2013

Viðhald

Þá er komið að því að ræða viðhaldið.

Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu.

Ja, a.m.k. veit ég ekki betur.

Viðhaldið sem um ræðir verður sjálfsagt einhvern tímann kallað uppfærsla vélbúnaðar. Míns eigin vélbúnaðar.

Komið er að fyrstu uppfærslu á honum Vilhjálmi. Útskiptingu á mjaðmarlið, hvorki meira né minna. Þá hætti ég að vera Vilhjálmur 1.0 og verð Vilhjálmur 1.0.1.

Ég hef átt í vandræðum með mjöðmina á mér í mörg ár. Hélt í upphafi að þetta væri einhver tognun í nára. Svona tognun sem hreinlega næði ekki að batna. Svo á miðju ári 2009 fórum við í heljarinnar ferðalag. Ókum til Simbabve ásamt Dodda. Mjög skemmtilegt ferðalag. Eitt af því sem við gerðum þar var að fara á fílsbak. Hér má lesa um þessa fílsreið. Ræði ég þar um miklar kvalir sem ég rakti á þeim tíma til stuttra lærvöðva. Ég man ennþá vel eftir kvalræðinu sem þessi reiðtúr olli mér.

Stuttu eftir þessa för fór ég að ræða við hnykkjarann minn um þetta. Sá sendi mig beint í röntgenmyndatöku og þá uppgötvaði ég í fyrsta sinn að hægri mjöðmin í mér væri í klessu. Ja, ef ekki í klessu, þá stefndi hún hraðbyri þangað.

Namibískir læknar sem skoðuðu þetta á þessum tíma vildu ólmir senda mig í mjaðmaskipti. „Í næstu viku,“ sögðu þeir.

Þeir áttuðu sig auðvitað ekki á íslenskum sjúkratryggingum, sem taka ekki vel í að maður sé að flækjast út um allar koppagrundir í aðgerðir af þessu tagi. Verðmiðinn þá var um ein og hálf milljón króna, minnir mig.

En, sem sagt, ég hef vitað af þessu í rúm fjögur ár. Smátt og smátt hefur mér versnað og síðasta ár hefur mér farið mikið aftur. Hlífi mér við alls konar hlutum og margt er ég hreinlega hættur að gera. Margt af því sem ég geri fylgir sársauki. Svo hreyfi ég mig eins og gamall maður. Synd og skömm.

En nú horfir allt til betri vegar. Þegar ég var á Íslandi í janúar var ákveðið að stefna að aðgerð í lok október. Það er allt að ganga upp. Á morgun - já, á morgun, mánudag - rennur stóri dagurinn upp. Mæting á Landspítalann í Fossvogi klukkan hálfátta í fyrramálið. Aðgerð skömmu síðar þann daginn.

Þá verður gömlu ónýtu kúlunni kippt úr og ný sett í staðinn. Ég fann mynd á netinu sem mér sýnist sýna þetta eins og mér hefur verið sagt.

Kúla og fleygur úr einhverju voðalega fínu efni. Svo grær fleygurinn við beinið á einhverjum tíma. Er mér sagt.

Ég hlakka ekkert sérstaklega til aðgerðarinnar. Og ekki heldur til endurhæfingarinnar. Hugsa reyndar lítið um þá hluti. Hugsa frekar til næsta árs og hlakka til þess. Þá verður nú gaman að lifa...

En, vegna þessa, verð ég á Íslandi eitthvað fram yfir áramót. Gulla og Rúnar Atli verða í Malaví til nóvemberloka, en þá koma þau í jólaferð. Ekki þótti okkur stætt á því að kippa drengnum úr skóla í tvo til þrjá mánuði út af þessu. Honum finnst alltof gaman þar sem hann er og gengur líka vel.

En, nú fæ ég að prófa íslenska heilbrigðiskerfið, beint í æð. Ég hef nú samanburð frá Malaví og þykir því það sem ég hef séð hingað til alveg meiri háttar fínt.

Meira síðar.

15. október 2013

Iðnó og Pisa

Ég hugsa að fæstir flokki mig sem listaspíru. Í gegnum tíðina hef ég lítinn áhuga sýnt á listum.

Ég hef líka tekið eftir að það sem mér finnst fallegt, t.d. í myndlist, þykir yfirleitt ekki mjög fínt hjá þeim sem vit hafa á.

Ég hef reyndar alltaf haft gaman af því að fara í leikhús. Alveg frá því ég var strákur.

En, þar er ég frekar í almúgaflokknum, þykir gaman að försum og grínleikritum. Í fyrra sá ég Macbeth í Þjóðleikhúsinu og það var eitthvað það versta sem ég hef lent í. Mér þótti það leikrit hræðilegt og það var kvöl og pína að sitja til enda.

Tónleikar finnast mér líka skemmtilegir. En þá þegar leikin er dægurtónlist. Vinsæl og sígild íslensk lög. Þau finnast mér skemmtileg. Helgi Björns er eitt dæmi um söngvara sem mér finnst gaman að sjá. Jólatónleikar Baggalúts voru líka skemmtilegir í fyrra. En sinfóníur og óperur... eiginlega ekki minn stíll.

En þrátt fyrir að vera engin listaspíra og hafa frekar dapran smekk, þá verður að segjast að eitt sem ég sakna, þegar ég er í Lílongve, er að komast á menningarviðburði.

Því reyni ég eftir fremsta megni, þegar ég er á Fróni, að sækja menningaratburði.

Í gær fórum við Dagmar Ýr á leiksýninguna Tenórinn, sem sýnd er í Iðnó. Guðmundur Ólafsson leikur brottfluttan tenór, sem undir lok ferils síns kemur til Íslands og heldur tónleika. Leikritið gerist í búningsherberginu, þar sem tenórinn og undirleikarinn ættu að vera að hita upp. Þeir hins vegar spjalla um alls konar hluti - ja, eiginlega er þetta nú mest eintal - svo við fræðumst um líf tenórsins og mörg vandamála hans.

Þetta var alveg bráðskemmtilegt leikrit. Guðmundur er flottur í rullunni og ég sá hann alveg sem frægan tenór. Sum atriðin voru drepfyndin svo ekki sé meira sagt. T.d. lýsti hann því listavel hvernig ríflega eitthundrað kílóa sópransöngkonur deyja alltaf í lok ópera og alltaf í fangi tenórsins. Og því ekki nema von að þeir séu bakveikir... Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hann sagði hneykslaður frá sópransöngkonu í óperu í Síngapúr sem var svo íturvaxinn að hún flæddi yfir hann og endaði hann pikkfastur á gólfinu undir henni, nær dauða en lífi.

Já, þetta er leikrit þess virði að horfa á.

Svo tók kallinn söngspretti inn á milli. Meira að segja rappaði hann eins og hann hefði aldrei annað gert.

Tilfinningin að vera í Iðnó var sérstök. Ég man eftir því sem strákur, kannski 10 ára, að fara á Fló á skinni í Iðnó. Salurinn hlýtur að vera sá sami, en í minningunni er hann miklu, miklu stærri. Ætli þetta sé ekki sama parketgólfið og ég missti einu sinni fullan perubrjóstsykurspoka niður á. Brjóstsykursmolarnir skullu með þvílíkum hávaða á gólfið að ég varð alveg miður mín. Ekki síst fyrir að hafa tapað namminu.

Fyrir sýninguna fórum við Dagmar Ýr og fengum okkur kvöldverð á ítölskum veitingastað sem heitir Pisa. Líklega eftir borginni sem skakki turninn er í. (Maður er þvílíkur Skerjalákur...). Þetta er notalegur staður, skemmtilega innréttaður og maturinn var fínn. Ég fékk mér spaghettí með sjávarfangi, sem smakkaðist vel. Rækjur, hörpudiskur og líklega kræklingur. Svo var þjónustan til fyrirmyndar.

Svo enduðum við á því að aka eftir Sæbrautinni og virða fyrir okkur friðarsúluna.

Kvöldið var gott.

6. október 2013

Ferðafár

Þessi orð eru skrifuð um borð í flugvél Loftleiða þeirra Suður-Afríkumanna. Flug SA 9234. Flugnúmerið var SA 234, en tölustafurinn 9 táknar að þetta er flug sem hefur seinkað. Ekki nóg með það, heldur hefur seinkunin teygt sig yfir á næsta dag og til að rugla ekki saman við flug 234 þess dags, er níunni skellt fyrir framan.

Forsagan er sú að ég er á leið til Íslands. Átti að yfirgefa Jóhannesarborg skömmu eftir klukkan átta að kvöldlagi. Á laugardagkvöldi. Meiningin var síðan að lenda á Heathrow flugvellinum í Lundúnum ríflega sex næsta morgun. Sunnudag. Drepa síðan tímann í sjö klukkustundir eða svo áður en ég tæki á loft með Flugleiðum. Lending heima klukkan þrjú á sunnudagseftirmiðdegi. Svo á mánudagsmorgni að mæta til vinnu á heimaskrifstofu, eins og við sem vinnum í útlöndum segjum.

Flott plan,ekki satt?

Jú, jú, nema það klikkaði.

Allt leit ósköp vel út í gærkvöldi. Ég kom út að hliði þremur korterum fyrir brottför og svo tíndust allir farþegarnir um borð. Meira og minna á réttum tíma tók vélin á loft. Sem hún hækkar flugið smátt og smátt, og yfirflugfreyjan var að segja okkur fyrirkomulag veitinga, þá greip flugstjórinn af henni orðið. Smávandamál með lendingarbúnaðinn, og hann þurfi að prófa eitthvað sem muni framkalla hávaða. ,,En ekkert til að hafa áhyggjur af," sagði hann.

Einhver hávaði heyrðist og einhverjum mínútum síðar tilkynnir flugstjórinn að fréttirnar séu slæmar. Lendingarbúnurinn standi á sér og lokist ekki. Því þurfi að snúa við og lenda aftur í Jóhannesaborg. Ekkert þurfi að óttast lendinguna því hjólin séu föst niðri og því bara venjuleg lending. Þó fylgdi sá böggull skammrifi að vélin sé of þung til að lenda henni og því þurfi fyrst að eyða bensíni með hringsóli.

Hringsólið varð klukkustundar langt og svo var lent. Flugstjórinn hafði rétt fyrir sér. Lendingin var eins og hver önnur.

Auðvitað er ég feginn að vandamálið var ekki alvarlegra. T.d. ef lendingarbúnaðurinn hefði fests uppi. Hvernig hefði þá verið lent?

Svo þurfti að bíða meðan flugvirkjar skoðuðu hvað væri bilað. Kannski væri hægt að gera við það, einn, tveir og þrír og fljúgja svo aftur af stað.

En, ekki var það svo gott. Sex til átta tíma viðgerð. Því var öllum skipað út úr vélinni, sagt að sækja töskur og síðan yrði gistingu reddað. Brottför ætti síðan að reyna klukkan níu, næsta morgun. Þegar þarna var komið sögu var klukkan farin að ganga ellefu um kvöldið.

Fyrst þurfti auðvitað að fara í gegnum vegabréfsskoðun. Við jú að fara aftur inn í landið. Svo finna töskur. Síðan að arka út að almenningssamgangasvæði flugvallarins, er þar komu litlar bílaskutlur til að koma okkur öllum á hótelið.

Já, það fannst sem sagt hótel, eitt stykki, sem gat tekið á móti heilum flugvélarfarmi af fólki. Hlýtur að hafa þurft 200 herbergi til þess arna.

Ég var heppinn. Taskan mín kom frekar hratt og ég var í skutlu númer tvö. Fékk strax herbergi og gat komið mér fyrir. Klukkan var farin að nálgast miðnætti þarna. Ég settist þá niður með tölvuna og fór að skoða flugáætlanir. Reiknaði út að ef brottför yrði ekki mikið seinna en 9, þá myndum við lenda skömmu fyrir sjö á sunnudagskvöldinu. Kvöldvél Flugleiða fer rúmlega níu, þannig að mögulega gæti þetta gengið.

Ég sendi einhverja tölvupósta, og elsku Gulla fékk það hlutverk að ganga í málið, þegar Flugleiðafólkið mætir til mætir til vinnu. Öllu þarf hún að redda blessunin.

Þegar ég fór inn á herbergi um hálfeitt, voru farþegar enn að koma frá flugvellinum. Búnir að standa í biðröð í lengri tíma að bíða eftir fari. Enda var ekki létt á þeim brúnin.

Morgunmatur klukkan fimm og fyrstu rútur áttu að leggja af stað hálfsex út á völl.

Ég náði að sofa í svona þrjá og hálfan tíma. Sturta og mætti svo með töskur og alles í morgunmatinn. Fullt af fólki mætt. Svo gekk nú ekki sérlega vel að koma okkur skipulega í bílana. Grunnt á því góða hjá sumum. Ég fékk á tilfinninguna að ekki þyrfti mikið útaf að bera til að sumir myndu missa stjórn á sér.

En ég komst á flugvöllinn. Þar tók við heljarinnar biðröð til að fá brottfaraspjald og koma töskunni af sér. Þetta hafðist nú. Einn farþeginn ætlaði hreinlega að hjóla í eina konu sem vinnur hjá flugfélaginu. Sú sagði eitthvað út af þyngd töskunnar, held ég. Kveikiþráðurinn var örstuttur hjá þessum. En hann sá nú að sér að lokum. En mikið var hann reiður.

Svo gat ég loksins slakað á og fengið mér kaffibolla. Vafrað á netinu og svoleiðis.

Svo hófst bið við hliðið. Loksins þegar klukkuna vantaði 25 mínútur í níu var hleypt um borð. Það gekk vel. Allir sestir inn þegar tilkynnt var að enn væri verið að setja matinn okkar um borð. Það virðist klárast, en samt leið og beið. Þá var tilkynnt að mat vantaði og verið væri að sækja viðbót.

Og alltaf leið klukkan. Maður stoppar hana jú ekkert.

Á endanum var ekki lagt af stað fyrr en klukkan farin að nálgast hálf ellefu.

Öll von, held ég, er úti um að ná kvöldvélinni. Áætlaður komutími 20:30. Allt útaf einhverju klúðri með matinn. Næstum því heill fótboltaleikur fór í hann.

Er von að maður sé fúll?

Þvílíkt getuleysi að geta ekki skipulagt svona nokkuð. Ekki er eins og flugfélög taki aldrei mat um borð... eða hvað?

Ég sé því fram á nótt í Lundúnum og heimför á mánudagseftirmiðdag.

Þar til annað kemur í ljós.

5. október 2013

Musteri Mammons

Fyrir nokkrum dögum las ég um hárgreiðslumeistara heima á Fróni sem voru í óða önn að safna gömlum skærum. Gera á þau upp og senda síðan til S-Afríku og gefa götubörnum sem kenna á hárgreiðslu.

Alls ekki slæm hugmynd.

Reyndar skal ég viðurkenna að það fyrsta sem í hugann kom var að kannski væri ekki sniðugt að gefa götubörnum eggvopn... en þetta var ljót hugsun.

Hvað um það, nú er ég staddur í Jóhannesarborg. Rúmlega sólarhringsstans á ferðalagi frá Malaví til Íslands. Eins og sumir vita er frekar fátt um fína drætti í Malaví þegar kaupa á föt. Því ákvað ég að fórna einum degi í Jóhannesarborg til að rölta milli verslana.

Ja, kannski er þetta ekki mikil fórn...

Ég get nú ekki sagst vera kunnugur í Jóhannesarborg, og ekki heldur í S-Afríku. En, þó hef ég farið nokkrum sinnum að helstu verslanamiðstöð borgarinnar, en í hraðlest er 15 mínútna ferðalag þangað frá alþjóðaflugvellinum. Ég gisti á hóteli sem er steinsnar frá verslanamiðstöðinni og get rölt á milli án vandkvæða eins oft og hugurinn girnist.

Þarf að fara yfir ein stór gatnamót sem mikil umferð liggur um. Ég þarf svona að selflytja sjálfan mig yfir gatnamótin til að komast á áfangastað. Ég dunda mér því við að horfa á bílaflotann á meðan á selflutningnum stendur.

Og sá er ekkert slor.

Audi-ar, Bensar, Porchar, Lexusar, BMWar, Range Roverar, Hummerar og ég veit ekki hvað og hvað. Endalaust bruna svona flottir bílar yfir gatnamótin. Ég sá spaugilega sjón í gærkvöldi. Þá var beygjuljós og splunkunýr Bens svínar fyrir blæju-Porche 911. Gaurinn á Porchinum - miðaldra maður - varð alveg hoppandi illur, öskraði ókvæðisorð (sem heyrðust vel því blæjan var niðri), og þandi svo kaggann í botn til að ná framúr Bensanum, með þvílíkum hávaða og gauragangi, og skella sér fram fyrir hann.

Æ, við karlmenn erum góðir...

Svo er ævintýri að koma inn í verslamiðstöðina. Endalausar búðir. Í gær eyddi ég ríflega klukkutíma þarna og rétt komst hálfan hring. Sem þýðir í raun bara einn fjórða úr hring, því það eru tvær hæðir. Svimandi hátt til lofts og engu til sparað að allt sé sem flottast.

Að koma á svona stað eftir að hafa eytt stórum hluta ársins í Malaví er svolítið súrrealískt. Óraunverulegt.

Musteri Mammons var það sem mér datt í hug.

Og þá komu mér hárskeraskærin í hug. S-Afríka er ótrúlegt samfélag. Þar er þvílík auðlegð og á sama tíma þvílík fátækt. Og allt þar á milli.

En þrátt fyrir þessar vandlætingarhugsanir, þá tilbað ég Mammon í þessari ferð.

30. september 2013

Fyrsti í rigningu!

Þá kom að því!

Rigning í Lílongve. Fyrsta skipti síðan um mán.mótin apríl og maí.

Missti reyndar af henni... en sé vegsummerkin.

Hér er afrit af veðrinu núna, skv. yr.no.

I dag og i natt, 30. september 2013
Tid Varsel Temp. Nedbør Vind
mandag kl 20 Regn 19° 1,3 mm Laber bris, 6 m/s fra sør-sørøstLaber bris, 6 m/s fra sør-sørøst
mandag kl 23 Regn 18° 0,8 mm Lett bris, 5 m/s fra sør-sørøstLett bris, 5 m/s fra sør-sørøst
tirsdag kl 2 Delvis skyet 17° 0 mm Lett bris, 6 m/s fra sør-sørøstLett bris, 6 m/s fra sør-sørøst
tirsdag kl 5 Delvis skyet 17° 0 mm Lett bris, 5 m/s fra sør-sørøstLett bris, 5 m/s fra sør-sørøst

Rigningunni fylgir svali - sem er meiriháttar.

21. september 2013

Hundasýning / Dog show

Í dag rann stóri dagurinn upp. Hundasýningin og undirritaður einn af þremur dómurum. Þvílík upphefð. Í fyrra fórum við Rúnar Atli og horfðum á sýninguna. Ég man mér fannst hún ekkert sérstök þá. Í ár var hún mun betur skipulögð. Náttúrulega miklu betri dómarar í ár...

Við Rúnar Atli fórum yfir sýningaratriðin yfir morgunmatnum og ákváðum að hann færi með einn hundinn okkar, Ríkó. Sýningin var í skólanum hans og því ekkert mál að skjótast með hundinn heim ef eitthvað gengi illa.

Today was the big day. The long awaited dog show and your's truly one of three judges. What an honour. Last year, Rúnar Atli and I went to that year's show. I can recall, that I wasn't very impressed. This year, the show was much better organised. For one thing, the judges were much better this time around...

During breakfast, Rúnar Atli and I went through the programme and decided that he would take one of our many dogs, Rico. The dog show was at Rúnar's school and therefore Rúnar could easily take the dog home if things did not work out smoothly.

Nýmættur á svæðið, ekki alveg viss hvernig þetta verður / Just arrived at the venue; a bit uncertain about the whole thing

Annar kynnirinn, væsti ekki um hann / One of the Master of Ceremonies; they couldn't complain about working conditions

Líka var hugsað um krakkana sem voru ekki með hunda / Kids without dogs were well catered for
Fyrstu þrjár keppnirnar voru á ábyrgð annars dómara. Fyrsta keppnin sem Rúnar Atli gat tekið þátt í var pylsudýfa, en þá hlupu þrír keppendur í einu yfir keppnisvöllinn og áttu hundarnir að veiða þrjá pylsubita upp úr hundadalli og éta þá. Svo sprettur til baka. Ég þurfti að beita smáfortölum til að fá guttann til að taka þátt, en hann og hundurinn stóðu sig vel. Þarna kveikti Rúnar Atli á því að þetta var allt til gamans gert og tók hann þátt í öllum keppnum sem hann gat.

The first three events were the responsibilities of another judge. The first event that Rúnar Atli could participate in was sausage bobbing. A few heats of three competitors each. They ran across the field and the dogs were to "fish" three sausage pieces from a dog bowl and eat. Then a quick return to the starting point. I needed to persuade Rúnar Atli to participate, but both him and Rico did well. During this event Rúnar Atli really understood that the whole thing was about having fun. From then on he participated in every possible event.

Á flugi / Really flying

Leitað að pulsubita / In search for a sausage piece
Því næst var komið að íslenska dómaranum. Hlaut góða kynningu, eitthvað á þá leið að ekki væri ég einungis snillingur í hundadómum, heldur tæki stundum að mér að dæma hvítabirni og þá hefði heyrst að ég hefði jafnvel lagt mat á einn og einn sel!

Þetta gekk bara vel. Ég valdi flottustu þrjár stóru hundana og svo þá flottustu litlu. Ég veitti Ríkó þriðju verðlaun í flokki lítilla hunda. Þótti hann eiginlega næstflottasti hundurinn, en vegna skyldleika þá ýtti ég honum niður um eitt sæti. Ekki gengur að vera sakaður um hlutdrægni. Miður þó að það virki öfugt. Síðan var ég dómari í hindrunarhlaupi. Það var skemmtilegt.

Following the sausage bobbing, it was the Icelandic judge's turn. I got a great introduction, along the lines that I was not only a world class dog judge, but I was also qualified for polar bear judging. Even that I occasionally was involved with seals!


The whole thing was quite fun. I had to select the three nicest big dogs and the three nicest small dogs. I awarded Rico third place in the small dog category. I really felt he deserved second place, but pushed him down one place. I cannot risk corruption charges! A bit sad though that it affected Rico and Rúnar. Following that I was in charge of an obstacle run. That was really enjoyable.

Guttinn gæðir sér á verðlaununum. Ríkó horfir á... / Gobbling down the prize while Rico watches...
Svo var gert hlé á keppni, því malavíska lögreglan kom og sýndi hversu vel þjálfaða lögregluhundasveitin hennar er. Það var virkilega skemmtilegt að fylgjast með þeim.

Next there was a break in the programme, because the Malawi Police came and showed how well trained its dog squad is. The preformed very well and it was enjoyable to watch their drills.

Hlýðnir hundar sitja og bíða / Obedient dogs sitting and waiting
Kyrr!  /  Stay!
Síðan setti lögreglan leikþátt á svið til að sýna okkur hvernig svona hundur hleypur uppi þjóf. Þvílíkur sprengikraftur. Ekki vildi ég lenda í svona hundi, svo mikið er víst.

Then the police staged a robbery to show us how a dog like this catches a thief. What explosive power! I would not want to be caught by such a dog. That's for sure.

Eltingarleikur í fullum gangi / The chase is on!

Góðir félagar / Good buddies
Svo hófst dagskráin á nýjan leik. Og haldiði ekki að Ríkó og Rúnar Atli hafi unnið eina grein! Fallegustu augun. Jamm, skrökva ekki. Og það voru milli 12 og 15 hundar sem kepptu í þessari grein. Mikið var sonur minn ánægður. Og svo það sé á hreinu, þá var ég ekki dómarinn.

Then the programme continued. And wouldn't you know it - Rico and Rúnar Atli won an event! The most awesome eyes. I'm not kidding you. There must have been about 12 and 15 dogs competing. I can't really describe how happy my son was. And for the record; I was not the judge.

Sigurvegarar!  /  Winners!

Og hér með húfuna sem voru í verðlaun - sigurvegari stendur á henni / And with the winner's cap
Ein grein til viðbótar gaf af sér þriðja sætið. „Slæmur hárdagur“ hét hún. Rúnar Atli lagði mikið á sig til að ýfa feldinn og tókst ágætlega upp.

One additional event provided a third place finish. Bad hairday. Rúnar Atli made considerable effort to mess up Rico's hair. And it paid off.

Feldurinn ýfður / Working up "bad hair"

Í heildina var þetta frábær skemmtun. Allt til gamans gert og allir skemmtu sér vel. Slatti af peningum safnaðist til samtaka sem reyna að koma yfirgefnum dýrum í góða vist. Málstaðurinn því góður. Við tökum örugglega þátt á næsta ári. Ekki veit ég hvort ég verð aftur dómari, en Rúnar Atli hefur háar hugmyndir um að þjálfa hundana sína næstu mánuði.

Overall this was a fantastic day. All done in a good spirit and everyone had a good time. Quite a lot of money was collected for the Lilongwe SPCA, which was the real purpose. I'm sure that we will take part next year. I don't know if I'll be judge again, but Rúnar Atli has grand plans for training his dogs during the next months.

8. september 2013

Feðgarnir fræsa / Routing away

Nú stöndum við feðgarnir í því að smíða borð fyrir tölvuna okkar. Gulla laumaðist til að smella af myndum þegar við vorum að fræsa.

Father and son are making a desk for our computer. Gulla snuck up on us as we were routing and took a few pics.
 

Samstarf / Cooperation

Full mikill hávaði / Perhaps the noise is a bit too much

„Gulla? Þú þarna?“ / "Gulla, what are you up to?"

6. september 2013

Rogginn piltur / A proud young man

Í gær var fyrsti fundur nýkjörins nemendaráðs í skólanum hans Rúnars Atla. Ákveðið var, meðal annars, að það yrði hrekkjavökudagur í skólanum og er það nemendaráðsins að skipuleggja þann viðburð.

Yesterday the Student Council in Rúnar Atli's school met for the first time this school year. Rúnar Atli was elected Class President of his class and this was his first ever meeting as a councillor. It was decided, among other things that Halloween would be celebrated and the Student Council will be responsible for the planning of the event. 

Í dag fór Rúnar Atli svo sérlega rogginn í skólann. Nemendaráðsfulltrúar bera nefnilega barmmerki þar sem fram kemur að þeir séu í nemendaráði.

Today, Rúnar Atli was especially proud when going to school. Student Councillers carry special badges where it says that they are, in fact, part of the Student Council.


Hér er svo nærmynd af barmmerkinu.

Here is a close-up of the badge.


Flott.

Cool.

31. ágúst 2013

Tilvonandi félagsmálatröll?

Einhvern tímann í fyrra átti að kjósa í nemendaráð, einhvers lags, í skólanum hans Rúnars Atla. Einn fulltrúi er valinn úr hverjum bekk og einn til vara. Rúnar Atli lagði töluvert á sig að útbúa framboðsræðuna, en ekki hlaut hann kosningu. Mér fannst svolítið merkilegt, og reyndar flott, að hann kaus ekki sjálfan sig heldur einhverja stúlku. „Ræðan hennar var betri en mín,“ sagði hann, „og þess vegna kaus ég hana.“

Núna í vikunni voru kosningar í nemendaráðið, enda komið nýtt skólaár. Rúnar Atli fór í framboð og útbjó aðra ræðu, sem hann flutti svo á miðvikudaginn var.

Aðspurður sagði hann að vel hefði gengið að flytja ræðuna.

„Og kaustu sjálfan þig?“ spurði ég.

„Nei,“ var svarið. „Mér finnst eigingjarnt að kjósa sjálfan sig.“

Þá veit maður það. Hversu margir pólitíkusar skyldu nú hugsa á þennan hátt?

Svo í gær voru niðurstöður kosninganna kynntar.

Rúnar Atli vann!

Bekkjarforseti, hvorki meira né minna.

Ég var alveg steinhissa, en auðvitað rígmontinn.

Nú þarf hann að fórna a.m.k. einum frímínútum í viku til að funda með öðrum bekkjarfulltrúum og tveimur kennurum sem stýra starfinu. Ég veit satt að segja ekki alveg hvað felst í starfi nemendaráðsins, en það kemur í ljós.

Ekki hefur drengur þennan félagsmálaáhuga frá mér, svo mikið er víst. Móðir hans var víst eitthvað í svona stússi í grunnskóla á sínum tíma, svo kannski kemur þetta þaðan.

Hver veit?

29. ágúst 2013

Níu ára klassapiltur

Stór dagur í dag.

Níu ára afmæli sonarins.

Lengi hefur verið beðið eftir þessum degi. En eins og aðrir dagar kom hann að lokum.

Að sönnum Afríkusið var dagurinn tekinn snemma, sest niður við morgunverðarborðið upp úr klukkan sex til að opna pakkana.

Móðir piltsins unga var búinn að hóta honum að hann fengi annað hvort nærbuxur eða sokka í pakkanum frá sér. Eins og góðra mæðra er siður stóð hún við loforðið og upp úr fyrsta pakkanum komu ... sokkar.


Piltur er búinn að skrá sig í þríþraut í eftir-hádegis-námskeiðum í skólanum. Ætlar sér greinilega að verða járnkarl. Þar sem góðan reiðhjólahjálm vantaði þá kom einn slíkur úr pakka.


Systur pilts brugðust ekki frekar en fyrri daginn. Í öðrum pakkanum sem frá þeim barst var hvorki meira né minna en hlaupabretti. Foreldrarnir krossuðu sig í bak og fyrir, en sem betur fer var líka hjálmur í pakkanum og olnboga- og hnéhlífar.

Eins gott.

Nú er semsagt hægt að „skeita“ og verða gegt góður „skeitari.“


Svo var síðasti pakkinn. Uppúr honum kom gítar! Drengur hefur sýnt áhuga á að glamra á svoleiðis hljóðfæri og er einmitt að læra gítargrip í tónmennt í skólanum.

Flottur er hann með gítarinn sinn nýja.


Í skólann var svo farið með helling af skúffukökum. Var víst gerður góður rómur að þeim og afmælisbarnið sjá til þess að ýmsir kennarar fengu köku líka. Eins gott að hafa kennarana með sér í liði.

Á morgun koma svo þrír góðir vinir og fá að gista eina nótt. Bíómaraþon og eitthvað álíka skemmtilegt. Það verður partíið þetta árið. Reyndar verður svo Íslendingaafmæliskaffi á laugardaginn. Þá hljóta að verða ástarpungar í boði.

Piltur er sáttur með daginn.

 

28. júlí 2013

Setið að kjötkötlum

Til eru fleiri snillingar heldur en Sigmund, Halldór og Henrý Þór sem gera málefnum, sem hátt ber hverju sinni, skil á teiknuðu formi. Í Malaví birtast teiknaðar myndir af þessu tagi í dagblaði, sem nefnist Þjóðin (The Nation), eftir mann sem heitir Ralph Mawera. Myndaflokk sinn nefnir hann „Point of order“ sem mætti útleggja sem „Þetta er vítavert!“ á því ylhýra, með tilvísun í hvað forseta alþingis ber að segja „[e]f þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu...“ (gr. 78 í lögum nr. 55 frá 1991 um þingsköp).

Undanfarið ár hafa launamál ríkisstarfsmanna í Malaví verið reglulega í fréttum. Malavíski kvakinn hefur fallið gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum, sem hefur ollið hárri og viðvarandi verðbólgu í landinu. Ríkisstarfsmenn hafa kvartað mikið yfir launum sínum, hótað aðgerðum, og fyrr á árinu lögðu þeir niður störf í rúma viku. Ýmis opinber fyrirtæki hafa glímt við verkföll. Ríkið hefur þrisvar undangengið ár hækkað laun ríkisstarfsmanna, en mun minna er kröfur hafa verið gerðar um.

Fyrir u.þ.b. viku gerðist það að þingmenn úrskurðuðu sjálfum sér dágóða hækkun á dagpeningum og ýmsum sporslum sem þeir eiga rétt á. Loguðu blöð og útvarpsstöðvar í vanþóknun á þessu. Og svo kom þessi mynd frá honum Ralph Mawera - „Þetta er vítavert!“ (smellið á myndina til að sjá hana stærri.)

Þar sjáum við horaðan og væskilslegan ríkisstarfsmann sitja að snæðingi yfir hálftómum diski. Á næsta borði situr búlduleitur þingmaður hámandi í sig mat og svignar borðið undan kræsingum. Þjónn frá þinginu ber honum síðan góða viðbót. Ríkisstarfsmaðurinn horfir á í forundran: „Allt þetta bara í eftirrétt?“ spyr hann.

Neðst á myndinni sjást tveir menn. Annar segir: „Þeim sem mikið hafa, þeim verður meira gefið,“ og hinn svarar: „Að sjálfsögðu.“


Ég er nú ekki frá því að þessa mynd mætti staðfæra yfir á íslenskar aðstæður. Eða hvað?

26. júlí 2013

Gáfað excel, eða hitt þó heldur

Í gær lenti ég í því að Excel hrundi á vinnutölvunni hjá mér. Gerist öðru hverju, enda er tölvan með Windows stýrikerfisrusli.

Hvað um það, excel reyndi að sýnast gáfað þegar ég endurræsti og bauð mér upp á val á milli þess að opna síðustu útgáfu sem ég vistaði, eða síðustu útgáfu sem excel sjálft setti einhvers staðar til hliðar. Sjálfsagt vitandi það að hrunið mun koma fyrr en seinna.

Nema hvað, mér þótti svolítð merkileg dagsetning á öðru skjalinu sem ég var með opið. Svo merkilegt að ég bað tölvuna að taka mynd af þessu fyrir mig.

Lítið á neðsta skjalið. Þessi útgáfa af skjalinu var búin til klukkan 2:00 að morgni 1. janúar árið - já haldið ykkur - árið 1601!

Það mætti halda að maður væri í einhverri skáldsögu Jules Verne.

En mikið er excel sem sagt heimskt.

13. júlí 2013

Ný dekk - loksins

Eins og tryggir lesendur muna, þá lenti ég í vandræðum í hjólreiðatúr um daginn. Ég lenti í kjölfarið í vandræðum með að finna dekk, en staðhættir í Lílongve eru þannig að þær hjólabúðir sem ég veit um eru í svokölluðu hverfi tvö. Til að komast þangað þarf að fara yfir Lílongve-ána, en brúin sú arna, er fara þarf yfir, er alræmdur flöskuháls í umferðinni. Ég skrökva ekki þegar ég segi að það sé biðröð yfir brúna allan liðlangan daginn.

En, ég fann slöngu í einni búð og gat því farið að hjóla aftur. Bar reyndar ekki fullkomið traust til dekksins, en lét mig hafa það. Þið þekkið þetta: „Ég hlýt að komast þessa ferð á leiðarenda.“ Svo kemst maður þá ferð og hugsar þá það sama um næstu ferð.

Auðvitað hlýtur svona að enda með ósköpum. Eða hvað?

Jú, auðvitað gerir það það.

Á miðvikudaginn var, þá var ég nýlagður af stað úr vinnunni þegar hvellsprakk. Og ég meina hvellsprakk. Þegar ég fór að skoða skaðann, þá varð mér strax ljóst að hann yrði ekki bættur á staðnum. Dekkið hafði hreinlega rifnað á 20 sm kafla. Síðar sá ég að yfir 10 sm langt gat var á nýju slöngunni. Ég hringdi því eftir aðstoð og lét keyra mig heim.

Svo í morgun, þá peppaði ég mig upp í að fara yfir brúna og kíkja í hjólabúð í hverfi tvö. Það tók kannski 15 mínútur að komast þessa 400 metra sem brúin líklega er. Þokkaleg hratt get ég sagt.

Keypti tvö dekk og tvær slöngur. Ákvað að skipta bæði að framan og aftan. Og nú er hjólið tilbúið í ævintýri næstu viku. Komin með þessi fínu kínversku dekk. Hjólið sjálft er svart og rautt á litinn. Því fannst mér flott að finna dekk með rauðri rönd.

Mjög lekkert.

 

1. júlí 2013

Tíu mismerkilegir staðreyndir um Kanada í tilefni Kanadadags

Í dag er Kanadadagur, sem er þjóðhátíðardagur Kanada. Þann dag fyrir 146 árum sameinuðust þrjár breskar nýlendur í N-Ameríku í eitt land, Kanada. Smátt og smátt bættust aðrar nýlendur í hópinn, sú síðasta, Nýfundnaland, árið 1949.

Við Gulla bjuggum í Kanada í fimm og hálft ár frá 1991 og þykir okkur vænt um landið. Enda býr Tinna Rut jú þar.

Það er ekki hægt að neita að Kanada er gott land að búa í og leið okkur vel þar. Stundum fáum við þá flugu í höfuðið að flytja þangað aftur, en hingað til hefur ekkert orðið úr svoleiðis pælingum.

En mér datt í hug að punkta niður nokkrar staðreyndir um landið, staðreyndir sem sumir kannski vita, en aðrir ekki. Allt til gamans gert.
  1. Í styrjöldinni 1812 börðust Bretar í N-Ameríku gegn Bandaríkjunum. Þótt Kanada væri ekki til þegar þetta var finnst Kanadabúum að þetta hafi verið þeirra stríð, enda urðu bresku nýlendurnar að Kanada seinna meir. Sumum finnst gaman að segja frá því að í þessu stríði þá náðu Bretar, nei, ég meina Kanadamenn, höfuðborg Bandaríkjanna, Wasington DC, á sitt vald og brenndu borgina. Þ.á.m. Hvíta húsið. Þetta kitlar aðeins.
  2. Tilvist Kanada má rekja til útrásarvíkinga. Hudson Bay félagið, sem í dag er verslanakeðja, svona eins og Hagkaup, var upphaflega í loðskinnaviðskiptum. Það sendi fólk út af örkinni út um allt á sínum tíma (við erum að tala um 16 hundruð og eitthvað og 17 hundruð og súrkál) til að kaupa loðskinn. Útsendarar þess voru upphafsmenn margra byggðakjarna sem seinna urðu borgir. Því má segja að Kanada hafi orðið til vegna þeirra sem vildu „græða á daginn og grilla á kvöldin.“
  3. Kanada tilheyrir enn breska samveldinu. Því er breska drottningin drottning Kanada. Öll lög sem kanadíska þingið setur þurfa samþykki landsstjórans, en hann er fulltrúi drottningar og skipaður af henni. Reyndar leggur forsætisráðherra Kanada til hver á að vera landsstjóri og drottningin samþykkir alltaf. En, engu að síður, svolítið skrýtið.
  4. Hlynsíróp er eitt af því sem Kanadabúar eru hvað hreyknastir af.
  5. Langar þig að taka þátt í róðrarkeppni í risastóru graskeri? Kanada er staðurinn!
  6. Við Íslendingar stærum okkur oft af súrsuðum hrútspungum. Sumsstaðar í Kanada eru nautspungar hnossgæti. Mér er sagt þegar nafni minn Bretaprins og frú heimsóttu veitingastað sem sérhæfir sig í svona löguðu, þá varð til nýr réttur: Krúnudjásnin!
  7. Viltu fara út á ystu nöf? Farðu þá í CN turninn í Tórontó og labbaðu hringinn á brún turnsins í 365 metra hæð, festur með einu snæri. Er ekki Hallgrímskirkja ríflega 75 metra há? Klikkaðir þessir Kanadabúar.
  8. Kanadabúar vita - kannski þó ekki allir - að Snorri Þórfinnsson var fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Kanada, þá þekkt sem Vínland. Árið var líklega 1004. Að hann hafi flust aftur til Íslands og orðið bóndi í Skagafirði vita líklega færri.
  9. Við eigum Lagarfljótsorminn (nema hann sé dauður úr mengun) og Kanadabúar eiga Ógópógó. Sex til 20 metra langur vatnaormur sem hefur margoft sést síðan 1872 er hann sást fyrst svo vitað sé.
  10. Svo að lokum eitt með Vestur-Íslendingana. Einhverra hluta vegna finnst þeim vínarterta vera það íslenskasta af öllu íslensku. Skrýtið.
Kanada - til hamingju með daginn!

30. júní 2013

Hjólatúrinn tók óvænta stefnu

Skömmu eftir hádegið lagði ég af stað í hjólatúr. Fór einn síðasta sunnudag og vildi ekki vera minni maður í dag. Þá hjólaði ég um sveitirnar hér í kringum borgina, en við búum í jaðri hennar. Í dag ákvað ég að hjóla innan borgarmarkanna. Var kominn með sirka leið í kollinn þegar ég lagði af stað. Markmiðið var að hjóla milli 20 og 25 kílómetra. Áætlaði ég sirka einn og hálfan tíma í þetta.

Í upphafi gekk vel. Á sunnudögum er frekar minni umferð en aðra daga, ja, a.m.k. fram að kaffileyti. Þá fara bílar að streyma inn í borgina í helgarlok. Því hef ég minni áhyggjur af umferð á þessum tíma sunnudags sem ég var á ferli.

Ætli ég hafi ekki verið kominn góða átta kílómetra þegar springur á hjólinu. Afturdekkið er orðið frekar vafasamt, en ég fresta alltaf fram í „næstu viku“ að kaupa nýtt dekk. Ég held ég hafi nuddast utaní beittan stein með þeim afleiðingum að gat kom á slönguna. En, ég reyni að vera við öllu búinn á þessum hjólaferðum, með bætur og einhver svona margfeldisreiðhjólaverkfæri. Svona verkfæri sem er einn hlutur, en hægt að umbreyta í allskonar sexkanta og ég veit ekki hvað og hvað. Margfeldisverkfæri. Gott orð.

Ég tek því afturhjólið af og fer að dunda mér í viðgerð. Hún gekk bara ágætlega og eftir kannski 15-20 mínútur var bótin komin á og bara eftir að pumpa í dekkið. Það gekk hins vegar ekki eins og í sögu. Ég er með einhverja svona handhægispumpu. Pumpu sem fer lítið fyrir og hægt að koma ofan í litla poka eða töskur. Hins vegar er ekkert handhægt við að pumpa með henni. Hún er svo stutt að hvert „pump“ hefur voða lítið að segja. Síðan ofhitnar hún hressilega þannig að erfitt er að halda utan um hana eftir 30-40 „pump“.

Ég sat því þarna við götukantinn, undir tré vel að merkja, og pumpaði og pumpaði. „Eitt hundrað pump í viðbót,“ hugsaði ég hvað eftir annað. Og pumpaði eitt hundrað „pump.“ Og svo eitt hundrað í viðbót. Og enn einu sinni eitt hundrað...

Þið fattið.

Þetta var farið að taka hressilega á. Svitinn bogaði af mér, enda þokkalegasti hiti svona um miðjan daginn. Örugglega 25 gráður á vin okkar Selsíus. Smátt og smátt varð dekkið aðeins stífara. Að lokum lagði ég af stað. Ætli viðgerðin, með öllu, hafi ekki tekið í kringum 40 mínútur.

Dekkið var nú engu að síður frekar lint, svo ég fór í hægara lagi. Vildi ekki eiga á hættu að skemma gjörðina, ef mikið högg kæmi á hana. Þetta er nefnilega einhver eðalgjörð, komst ég að um daginn. Ég hafði ekki hugmynd um það, en það eru til fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu reiðhjólagjarða. Þá vitið þið það.

Ætli það hafi ekki verið fimm kílómetrum síðar sem dekkið sprakk aftur. Kannski ofsögum sagt að það hafi hvellsprungið, en þó þannig að loftið hvarf úr því í einu vettfangi.

Barasta „PÚFF!“ Og allt loft úr dekkinu.

Ekki voru falleg orð sem þutu um kollinn á mér. Ekki þó blótsyrði, enda veit sonur minn ungur að ég blóta ekki. En það eru nú til nokkur kröftug orð sem skilgreinast ekki sem blót.

Fyrir þá sem þekkja til var ég rétt við Vegamótahótelið (Crossroads). Enn slatti eftir heim. Svo ég kippi hjólinu aftur af og fer að toga út slönguna. Uppgötva þá að ventillinn hafði hreinlega rifnað af slöngunni.

Takk fyrir! Maður gerir ekkert við svoleiðis.

$#!# kínverskt slöngudrasl!

Ég sá mína sæng upp reidda. Tróð slönguræflinum inn í dekkið, smokraði dekkinu upp á gjörðina, setti hana aftur á hjólið og gerði það sem Malavar gera alltaf.

Labbaði af stað.

Og labbaði og labbaði þar til ég kom heim. Fjórum kílómetrum síðar. Þá hafði ég verið, samkvæmt staðsetningartækinu mínu, einn klukkutíma og fjörutíu mínútur á ferð og ríflega fimmtíuogfimm mínútur í kyrrstöðu. Meðalhraði ríflega níu kílómetrar á klukkustund. Heildarvegalengd var 17 komma þrír kílómetrar.

Svosum ágætis dagsverk, líkamsræktarlega séð. Og öll pumpunin! Maður minn. Þessar 55 mínútur ekki-á-ferð, voru ekki afslöppunarmínútur. Engan veginn.

En núna er ég kominn heim. Sit bak við hús. Timbrið á grillinu búið að kolagerast og marineruð lambarif komin ofan á. Einhvers staðar á ég rauðvín.

Nú á ég skilið að gera vel við mig í mat og drykk.

23. júní 2013

Afraksturinn!

Þá er bakstri lokið þessa helgina. Svolítið moj í kringum þetta allt saman, en nú er þessu lokið. Og afraksturinn... jú, hann var fínn.

Svona litu rúllurnar út áður en þær fóru inn í ofninn.

Og hér eru tvö nýbökuð brauð komin á disk.

Þau smakkast betur en úr bakaríinu, svei mér þá.

Svo er að skella nokkrum í frystipoka og sjá hvernig þau smakkast síðar í vikunni. Ég held það sé víst að ég þurfi ekki að kaupa mér brauð næstu daga.

 

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...