20. október 2013

Viðhald

Þá er komið að því að ræða viðhaldið.

Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu.

Ja, a.m.k. veit ég ekki betur.

Viðhaldið sem um ræðir verður sjálfsagt einhvern tímann kallað uppfærsla vélbúnaðar. Míns eigin vélbúnaðar.

Komið er að fyrstu uppfærslu á honum Vilhjálmi. Útskiptingu á mjaðmarlið, hvorki meira né minna. Þá hætti ég að vera Vilhjálmur 1.0 og verð Vilhjálmur 1.0.1.

Ég hef átt í vandræðum með mjöðmina á mér í mörg ár. Hélt í upphafi að þetta væri einhver tognun í nára. Svona tognun sem hreinlega næði ekki að batna. Svo á miðju ári 2009 fórum við í heljarinnar ferðalag. Ókum til Simbabve ásamt Dodda. Mjög skemmtilegt ferðalag. Eitt af því sem við gerðum þar var að fara á fílsbak. Hér má lesa um þessa fílsreið. Ræði ég þar um miklar kvalir sem ég rakti á þeim tíma til stuttra lærvöðva. Ég man ennþá vel eftir kvalræðinu sem þessi reiðtúr olli mér.

Stuttu eftir þessa för fór ég að ræða við hnykkjarann minn um þetta. Sá sendi mig beint í röntgenmyndatöku og þá uppgötvaði ég í fyrsta sinn að hægri mjöðmin í mér væri í klessu. Ja, ef ekki í klessu, þá stefndi hún hraðbyri þangað.

Namibískir læknar sem skoðuðu þetta á þessum tíma vildu ólmir senda mig í mjaðmaskipti. „Í næstu viku,“ sögðu þeir.

Þeir áttuðu sig auðvitað ekki á íslenskum sjúkratryggingum, sem taka ekki vel í að maður sé að flækjast út um allar koppagrundir í aðgerðir af þessu tagi. Verðmiðinn þá var um ein og hálf milljón króna, minnir mig.

En, sem sagt, ég hef vitað af þessu í rúm fjögur ár. Smátt og smátt hefur mér versnað og síðasta ár hefur mér farið mikið aftur. Hlífi mér við alls konar hlutum og margt er ég hreinlega hættur að gera. Margt af því sem ég geri fylgir sársauki. Svo hreyfi ég mig eins og gamall maður. Synd og skömm.

En nú horfir allt til betri vegar. Þegar ég var á Íslandi í janúar var ákveðið að stefna að aðgerð í lok október. Það er allt að ganga upp. Á morgun - já, á morgun, mánudag - rennur stóri dagurinn upp. Mæting á Landspítalann í Fossvogi klukkan hálfátta í fyrramálið. Aðgerð skömmu síðar þann daginn.

Þá verður gömlu ónýtu kúlunni kippt úr og ný sett í staðinn. Ég fann mynd á netinu sem mér sýnist sýna þetta eins og mér hefur verið sagt.

Kúla og fleygur úr einhverju voðalega fínu efni. Svo grær fleygurinn við beinið á einhverjum tíma. Er mér sagt.

Ég hlakka ekkert sérstaklega til aðgerðarinnar. Og ekki heldur til endurhæfingarinnar. Hugsa reyndar lítið um þá hluti. Hugsa frekar til næsta árs og hlakka til þess. Þá verður nú gaman að lifa...

En, vegna þessa, verð ég á Íslandi eitthvað fram yfir áramót. Gulla og Rúnar Atli verða í Malaví til nóvemberloka, en þá koma þau í jólaferð. Ekki þótti okkur stætt á því að kippa drengnum úr skóla í tvo til þrjá mánuði út af þessu. Honum finnst alltof gaman þar sem hann er og gengur líka vel.

En, nú fæ ég að prófa íslenska heilbrigðiskerfið, beint í æð. Ég hef nú samanburð frá Malaví og þykir því það sem ég hef séð hingað til alveg meiri háttar fínt.

Meira síðar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...