27. janúar 2011

Ýmislegt dettur inn af götunni

Rétt í þessu sat ég í rólegheitum að snæða kvöldverð og hlusta á Reykjavík síðdegis í gegnum tölvuna. Úti var úrhellisrigning og þrumur og eldingar. Vindhviður miklar öðru hverju.

Allt í einu sá ég að útidyrnar hjá mér byrja að opnast. Voðaleg læti í vindinum, var það fyrsta sem mér datt í hug. En svo vissi ég ekki fyrr en lítið stúlkubarn dettur bara inn um dyrnar hjá mér. Hágrátandi.

Þetta var á að giska þriggja ára stúlka, klædd í náttföt. Ósköp falleg lítil stúlka með fléttur í hárinu. Hún hágrét og ekkasogin svakaleg.

Ég stökk auðvitað til, tók barnið upp og reyndi að róa það. Kíkti út en sá ekki nokkurn mann á ferli, enda ekki beint veður til þess að sóla sig.

Íbúðin sem ég bý í er hluti af litlum íbúðakjarna, sex útleiguíbúðir á sömu lóðinni. Allar með sér inngang og maður verður lítið var við aðra gesti. En þó er sameiginlegt hlað og bara eitt hlið til að komast út af svæðinu.

En ég fór að spjalla við stúlkuna, og hún róaðist aðeins. En ég fékk þá tilfinningu að hún skildi ekki ensku. Var að reyna að segja mér eitthvað en ég skildi ekki neitt. Ég náði mér í skó og rölti svo út með stúlkuna í fanginu. Fannst að einhver hlyti að vera að leita að þessu fallega barni.

Rakst á fólk sem var að bera töskur út í bíl. „Þekkið þið þetta barn?” spurði ég. Kona þar horfði á mig og spurði hvað ég meini. Jú, þessi stúlka hafi bara dottið inn um dyrnar hjá mér og ég sé að leita að fjölskyldunni. Konan hristi hausinn. „Þú ert að grínast,” staðhæfði hún. „Þú þekkir þessa stúlku. Annars myndi hún grenja í fanginu á þér.”

Þetta þótti mér skrýtið. Ókei, stúlkan grét ekki lengur. Hefur líklega fundið á sér að ég var að reyna að hjálpa henni. En hvers konar grín væri það að labba út með lítið barn, klætt í náttföt, í grenjandi rigningu og þykjast vera að leita að ættingjum barnsins? Ég bara spyr.

Ég sneri mér frá þessu fólki og fór að kíkja á aðrar íbúðir. Allt í einu heyrði ég hratt fótatak. Einhver á opnum sandölum. Kom eldri kona á fullri ferð, og með mikinn áhyggjusvip, niður tröppur frá íbúð nr. 5. Stúlkan litla þekkti konuna greinilega og teygði hendurnar til hennar. Ég lét barnið fúslega af hendi. Gamla konan var greinilega í mikilli geðshræringu. „Obrigadas,” sagði hún við mig. Portúgalska. Hún er þá líklega frá Angólu og þar með komin skýring á því af hverju stúlkan skildi ekki ensku. Ég klappaði konunni á öxlina og sagði henni að allt væri í lagi. Hún skildi mig örugglega ekki.

Ég var léttstígur upp tröppurnar heim að minni íbúð.

Leið vel.

26. janúar 2011

Hvað leynist í frystihólfi líffræðingsins?

Öðru hverju í gegnum tíðina hef ég starfa minna vegna átt samskipti við ýmis konar líffræðinga. Margir þeirra sem ég hef kynnst eru sérstakar týpur. Ég veit ekki hvort sérstakar týpur verða líffræðingar, eða hvort líffræðingar verða sérstakar týpur. Þetta er kannski rannsóknarefni.

Í síðustu viku var ég tvær nætur í Lúderits. Fyrra kvöldið fór ég út að borða. Einn hagfræðingur með fjórum líffræðingum. Er skemmst frá að segja að umræðurnar við borðið voru um önnur málefni en ég á að venjast.

Eitt umræðuefnið voru skjaldbökur. Tvær tegundir bárust í tal. Þá segir einn líffræðingurinn við hina: „Fljót svo, hvað nefnist þessi skjaldbökutegund? Og bannað að segja á latínu, það er of létt!”

Ókei, einmitt, latínan svo létt að hún gildir ekki í trivíal pörsjút fyrir líffræðinga...

Ýmislegt annað skondið kom til umræðu, en sérstaklega þótti mér ein staðreynd merkileg.

Ég nefndi eitthvað að ýmis umræðuefni líffræðinga yfir kvöldmatarborðinu væru svolítið fjarlæg mér.

„Blessaður, það er ekkert,” sagði einn. „Til að vita hvort líffræðingar séu raunverulega líffræðingar þá spyrðu þá hvað þeir geyma í frystinum!”

Allir hinir fóru að hlæja og vissu greinilega hvað þessi var að tala um.

En ég var auðvitað alveg út á þekju. En fór þó að spurja þetta lið hvað væri í frystinum hjá þeim.

Jú, einhverjir fuglar voru þar. Einn var með mörð í frystinum. Annar var með moldvörpu.

Er ekki í lagi með þetta lið? Geyma moldvörpu í frystinum heima hjá sér. Eitthvað segði hún Gulla mín ef ég tæki upp á einhverju svona.

En aðallinn var þó eftir. Einn líffræðingurinn, kona, virtist voða önnum kafinn. „Og hvað er í frystinum hjá þér?” spurði ég.

„Ha, mér?” sagði hún, „ekkert merkilegt svosem. Ekki nema tvær mörgæsir.”

Nebbnilega...

Ekki bara ein mörgæs, heldur tvær. Kannski er rétt að útskýra að í kringum Lúderits og á eyjum þar rétt fyrir utan er mikið af mörgæsum. Kona þessi vinnur að rannsóknum á þeim og alltaf ef slösuð mörgæs finnst þá er hringt í hana. Hér er meira að segja mynd af henni sem ég fann á netinu. Þarna er hún að bjarga mörgæsum sem lentu í olíu, en þið getið lesið meira um það hér.


Svo í þessari viku var ég í Walvis Bay. Ég hitti þar einn líffræðing til viðbótar. Fuglafræðingur af einhverju tagi og virðist líf hans algjörlega snúast um fugla. Hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að komast að því hvort þessi væri „raunverulegur” líffræðingur skv. skilgreiningunni frá Lúderits.

Svo ég spurði hann:

„Ef ég kíkti í frystinn hjá þér, sæi ég eitthvað sem mér þætti óvenjulegt?”

Gaurinn glotti.

„Ekki mikið,” sagði hann, „frystirinn hjá mér er hálftómur. Þar er ekki núna nema einn ... albatross!”


Einmitt! Albatross. Lengsta vænghaf fugls er hjá einhverri albatross tegund ef ég man rétt.

Það er bara ekki í lagi með þetta fólk.

En hann sá sér leik á borði. „Hvað er í frystinum hjá hagfræðinginum?”

„Ha, ö-ö, kjötbollur og rjómaís...”

Hver lifir tilbreytingalausa lífinu?

14. janúar 2011

Leikfimi hefst á ný

Í dag mætti ég í leikfimi í fyrsta sinn á nýju ári.

Átti nú von á frekar rólegum tíma, svona eftir langt hlé vegna jóla.

En, nei, því var ekki að heilsa.

Leggjast á bakið, fætur á boltann, lyfta mjöðmum, draga fætur inn, síðan lyfta mjöðmum enn hærra, svo niður, þá ýta fótum út. Þá mátti ég telja EINN og halda stöðunni. Ekki setja mjaðmir niður í gólf á milli. Fimmtán skipti. Þrisvar sinnum. Var aðeins farinn að skjálfa í kálfum í síðustu skiptin.

En mikið var gott að vera kominn í gang aftur.

13. janúar 2011

Sektir við umferðarlagabrotum

Sá einhvers staðar í morgun að ef maður talar í farsíma undir stýri þá er sektin 5.000 krónur.

Þegar ég kom til Windhoek í gær, þá var ég sóttur út á flugvöll af manni sem tengist á einhvern hátt gistiheimilinu sem ég er á. Ég fór að spurja hann út í umferðarbrotasektir, en ég vissi að rétt fyrir jólin hækkuðu þær allsvakalega.

Hann var alveg með þær á hreinu.

Ef þú ert gripinn við að tala í farsíma undir stýri þá er sektin 2.000 Namibíudalir. Það er í kringum 36.000 krónur.

Að aka yfir á rauðu ljósi kostar 2.500 dali. Fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu þá þarf að borga 1.500 dali.

Að gleyma að spenna á sig öryggisbeltið kostar 1.000 dali.

Ógætilegur akstur leiðir til 4.000 dala sektar.

Og ýmislegt fleira.

Greinilega þótti bílstjóranum mínum þetta svívirðilega háar upphæðir. Hann trúði mér síðan fyrir því að mánaðarlaun hans væru 2.000 dalir.

Í þessu ljósi velti ég því fyrir sér hvort 5 þúsund kallinn íslenski sé ekki alltof lág sekt fyrir að tala í farsíma.

Hvernig í ósköpunum ætti ég að borga svona sekt? spurði hann.

Ég svaraði að líklega myndi hann passa sig á því að brjóta ekki umferðarreglunar.

Jú, það er rétt, sagði hann.

Í því hringdi farsíminn hans.

Hann svaraði ekki.

9. janúar 2011

Íþróttaklúbbur

Þá er búið að skrá Rúnar Atla í íþróttaklúbb í fyrsta sinn á ævinni. Karatedeild Leiknis hlaut þann heiður. Drengurinn er búinn að fara á tvær æfingar og líkar vel. Nú er að sjá hvort hann heldur þetta út. Æft þrisvar í viku, klukkutíma í senn.

Ég sat á báðum æfingum og fylgdist með. Líst mér vel á þetta. Mikið af styrktar- og liðleikaæfingum, en margar gerðar þannig að krakkarnir hafa gaman af. Slatti af armbeygjum.

Nú er bara að átta sig á hvernig þetta frístundakort virkar.

En, mér finnst magnað hversu boðið er upp á allflest sem þurfa þykir hér í Breiðholtinu. Karateæfingarnar eru í skólanum hans Rúnars Atla. Þ.a. ekki er langt að fara. Ef labbað er hér um hverfið, þá leynast merkilega mörg fyrirtæki og stofnanir hér. Svo er stutt í Mjóddina og ekki er langt í Smárann.

4. janúar 2011

Tæknivæðing eiginkonunnar

Gulla hefur ætíð óttast farangursvigtir á flugvöllum. Ekki veit ég hvaðan þessi ótti kemur, en hef stundum velt fyrir mér hvort sé ekki til eitthvað flott fræðiheiti, helst á latínu, yfir svona tilfinningu.

Í hvert skipti sem einhver úr fjölskyldunni ferðast, þá er náð í baðvigtina og allar töskur vigtaðar. Þetta er oft töluvert vandaverk, því baðvigtir eru jú ekki gerðar til að vigta töskur. Gæta þarf að taskan snerti hvergi gólf og síðan þarf auðvitað að vera hægt að lesa á vigtina. Stundum gengur þetta illa.

En, alltaf þarf að gera þetta. Breytir engu þótt ég segist einfaldlega borga þá yfirvigt sem komið gæti. Nei, töskur skulu vigtaðar, og síðan er velt fyrir sér hvort vigtin sýni nú örugglega rétta tölu.

Doddi mágur hefur lent í svona meðferð hjá systur sinni. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Því kom í sjálfu sér ekki á óvart einn jólapakkinn frá honum.

Farangursvigt.

Sú lítur svona út.


Þetta er alveg brillíant tæki. Taskan hangir á króknum og svo er henni lyft frá gólfi. Bíður maður síðan eftir að græjan pípi, en þá er kominn álestur. Á apparatinu er þessi fíni stafræni gluggi, sem gefur einn aukastaf eftir kíló.

Núna fyrr í dag þá reyndi í fyrsta sinn á tækið. Tinna Rut var á leið til Kanada.

Taskan vigtuð.

En hún elsku Gulla mín var ekki alveg sátt. Nei, eitthvað þótti henni talan lág.

Hvað gerði frúin?

Jú, náði í baðvigtina.

Svo var farið í gegnum alla seremóníuna. Taskan vóg salt á vigtinni og svo var reynt að lesa á tölurnar. Það gekk ekki vel, því baðvigtin er ekki neitt sérstaklega nákvæm.

Aftur var farangursvigtin prófuð. 21,9 kg sýndi hún.

Í Keflavík fór svo taskan á vigt eins og lög gera ráð fyrir. Ekki var laust við að sumir héldu niðri í sér andanum.

21,9 kg.

Ætli baðvigtin fái frí næst?

Merkilegur dagur

Þá rann merkilegur dagur upp í lífi Rúnars Atla. Hann fór í fyrsta skipti í skóla á Íslandi. Í Fellaskóla, bekk 1-BH.

Í gær keyptum við skólatösku og ýmis ritföng sem þarf þegar svona tímamót renna upp í lífi manns. Auðvitað þurfti líka nesti og nýja skó.

Menn voru aðeins syfjaðir í morgun, enda komnir upp á lagið með að vakna seint og vaka frameftir. En þó hafðist að fara framúr og klæða sig án nokkura vandræða. Aðeins meira af fötum sem þarf á Íslandi heldur en Namibíu.

En svona leit piltur út rétt rúmlega kl. 8 í morgun.

Fyrsti skóladagurinn gekk vel. Kennarinn, sem heitir Bjarni, virðist fínn náungi. Rúnar Atli var reyndar ekki alveg sáttur við að bekkurinn er iðulega kallaður Bjarnabófarnir. Rúnar Atli segist nefnilega ekki vera glæpamaður... En að því undanskildu leist dreng vel á allt saman. Hann er núna að dunda sér við fyrsta heimaverkefnið.

Þetta lítur vel út.

1. janúar 2011

Kraftur í stuttum strák

Milli jóla og nýárs var skroppið í IKEA og kommóða keypt. Þegar samsetning hófst, þá tók sonurinn yfirráðin. Undir leiðsögn föðursins þá sá hann nær alveg um samsetninguna. Þetta var í raun bara eins og Legó í hans huga. Leiðbeiningabæklingur og svo „kubbar” sem þurfti að setja saman.

Fór drengurinn létt með þetta.


Fjölskyldan saman

Enn laumast nýtt ár í garð. Síðasta ár var gott að mörgu leyti fyrir okkur, en nokkur óvissa ríkir um framtíðina hjá okkur á þessum tímamótum. En, óvissa eða ekki, tíminn líður.

Eins og hefð hefur myndast fyrir þá komu ýmsir ættingjar hingað í mat á gamlárskvöld. Að venju eldaði Gulla kalkún og saltkjöt og baunir. Allir eru ánægðir með þetta matarframboð.

Líklega var þetta stærsta áramótaboðið fram að þessu. Voru 17 matargestir að þessu sinni. Hér sátu allir afkomendur mömmu, ásamt henni, en sjaldgæft er að við hittumst öll.

Ekki eru margar myndir af okkur systkinunum þremur saman, en hér er þó ein.


Við Gulla vorum ásamt okkar þremur börnum, Davíð og Sigga ásamt sínum þremur sonum og síðan voru Jóhanna og Elli og tveir drengir þeirra. Að auki mættu svo tveir samleigendur Dagmarar Ýrar.

Allir skemmtu sér vel. Síðan nýttum við okkur það að hafa „utanaðkomandi” fólk sem gat tekið að sér ljósmyndun. Stilltu allir sér upp og hér sést mamma ásamt sínum afkomendum.


Flott lið.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...