26. janúar 2011

Hvað leynist í frystihólfi líffræðingsins?

Öðru hverju í gegnum tíðina hef ég starfa minna vegna átt samskipti við ýmis konar líffræðinga. Margir þeirra sem ég hef kynnst eru sérstakar týpur. Ég veit ekki hvort sérstakar týpur verða líffræðingar, eða hvort líffræðingar verða sérstakar týpur. Þetta er kannski rannsóknarefni.

Í síðustu viku var ég tvær nætur í Lúderits. Fyrra kvöldið fór ég út að borða. Einn hagfræðingur með fjórum líffræðingum. Er skemmst frá að segja að umræðurnar við borðið voru um önnur málefni en ég á að venjast.

Eitt umræðuefnið voru skjaldbökur. Tvær tegundir bárust í tal. Þá segir einn líffræðingurinn við hina: „Fljót svo, hvað nefnist þessi skjaldbökutegund? Og bannað að segja á latínu, það er of létt!”

Ókei, einmitt, latínan svo létt að hún gildir ekki í trivíal pörsjút fyrir líffræðinga...

Ýmislegt annað skondið kom til umræðu, en sérstaklega þótti mér ein staðreynd merkileg.

Ég nefndi eitthvað að ýmis umræðuefni líffræðinga yfir kvöldmatarborðinu væru svolítið fjarlæg mér.

„Blessaður, það er ekkert,” sagði einn. „Til að vita hvort líffræðingar séu raunverulega líffræðingar þá spyrðu þá hvað þeir geyma í frystinum!”

Allir hinir fóru að hlæja og vissu greinilega hvað þessi var að tala um.

En ég var auðvitað alveg út á þekju. En fór þó að spurja þetta lið hvað væri í frystinum hjá þeim.

Jú, einhverjir fuglar voru þar. Einn var með mörð í frystinum. Annar var með moldvörpu.

Er ekki í lagi með þetta lið? Geyma moldvörpu í frystinum heima hjá sér. Eitthvað segði hún Gulla mín ef ég tæki upp á einhverju svona.

En aðallinn var þó eftir. Einn líffræðingurinn, kona, virtist voða önnum kafinn. „Og hvað er í frystinum hjá þér?” spurði ég.

„Ha, mér?” sagði hún, „ekkert merkilegt svosem. Ekki nema tvær mörgæsir.”

Nebbnilega...

Ekki bara ein mörgæs, heldur tvær. Kannski er rétt að útskýra að í kringum Lúderits og á eyjum þar rétt fyrir utan er mikið af mörgæsum. Kona þessi vinnur að rannsóknum á þeim og alltaf ef slösuð mörgæs finnst þá er hringt í hana. Hér er meira að segja mynd af henni sem ég fann á netinu. Þarna er hún að bjarga mörgæsum sem lentu í olíu, en þið getið lesið meira um það hér.


Svo í þessari viku var ég í Walvis Bay. Ég hitti þar einn líffræðing til viðbótar. Fuglafræðingur af einhverju tagi og virðist líf hans algjörlega snúast um fugla. Hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að komast að því hvort þessi væri „raunverulegur” líffræðingur skv. skilgreiningunni frá Lúderits.

Svo ég spurði hann:

„Ef ég kíkti í frystinn hjá þér, sæi ég eitthvað sem mér þætti óvenjulegt?”

Gaurinn glotti.

„Ekki mikið,” sagði hann, „frystirinn hjá mér er hálftómur. Þar er ekki núna nema einn ... albatross!”


Einmitt! Albatross. Lengsta vænghaf fugls er hjá einhverri albatross tegund ef ég man rétt.

Það er bara ekki í lagi með þetta fólk.

En hann sá sér leik á borði. „Hvað er í frystinum hjá hagfræðinginum?”

„Ha, ö-ö, kjötbollur og rjómaís...”

Hver lifir tilbreytingalausa lífinu?

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...