29. júní 2009

Mætt til Opuwo

Átta tíma akstri lokið og 750 km að baki. Sitjum nú úti á verönd á fína hótelinu og höfum það gott. Hlýrra en í Windhoek. Útilega annað kvöld...

Útilega

Þá erum við að undirbúa lítið ferðalag. Ég þarf að fara til norðvestur Namibíu og skoða vatnsból þar sem íslenskir þróunarpeningar hafa verið notaðir til vatnsborana. Ætla Gulla og Rúnar Atli að koma með. Tvær nætur gistum við í tjaldi, sem er líklega fyrsta útilegan okkar í fjórtán ár eða svo. Útivistarfólk par excellance!

Fyrsta verk morgunsins er að fara í tjaldaleigu og fá tjald ofan á bílinn. Síðan verður lagt af stað.

Fréttir koma í lok ferðar.

27. júní 2009

Flottur forseti

Hér í Windhoek-borg eru til samtök er nefnast Samtök maka diplómata. Samtök af þessu tagi eru til í flestum ríkjum þar sem eitthvað er af sendiráðum erlendra ríkja. Þegar Gulla fluttist hingað alflutt 2007 þá gekk hún fljótt í þessi samtök. Eftir því sem ég get best séð eru tvö meginmarkmið með samtökunum. Annars vegar reyna meðlimirnir að styðja við bakið á hver öðrum, enda oft erfitt að koma á nýjan stað þar sem þú þekkir engan. Oft bætir ekki úr skák að makinn er önnum kafinn. Því funda samtökin reglulega. Hins vegar stunda samtökin ýmis konar góðgerðarstarfsemi. Beinist stuðningurinn einkum að konum og börnum. Er af nógu að taka þar.

Gulla hefur verið aktíf innan samtakanna. Varð fljótlega ritari þeirra og núna fyrir skömmu síðan var hún kosinn forseti samtakanna. Þetta er nokkur heiður og er maki hennar stoltur yfir frúnni.

Í síðustu viku stóðu samtökin fyrir fjáröflunarhádegisverði. Ekki er laust við að síðustu vikur hafi algjörlega snúist um undirbúninginn. Tinna Rut spurði fyrir nokkrum dögum: „Eruð þið alveg hætt að versla í matinn?“ Æ, stelpugreyið.

En í mörg horn þurfti að líta og var titringur í undirbúningsnefndinni þegar stóri dagurinn rann upp. Margar hendur voru lagðar á plóginn. Nær allur matur var útbúin af meðlimunum og var reynt að koma með þjóðlega rétti frá sem flestum löndum. Frá Íslandi var graflax. Öllu þurfti að raða á borð, en ekkert mátti fara úrskeiðis. Heiðursgesturinn var nefnilega ekki af lakari kantinum, sjálf forsetafrú Namibíu. Síðan mætti eiginkona forsætisráðherrans, en hún er verndari samtakanna.

Hér sjást Gulla, forsetafrúin, forsætisráðherrafrúin og eiginkona indónesíska sendiherrans, en boðið fór fram á heimili indónesísku sendiherrahjónanna.

Auðvitað þurfti forseti samtakanna að halda ræðu og fórst henni Gullu það vel úr hendi. Virtist hún þaulvön í ræðuhaldi og lét ekkert á sig fá að þarna voru sjónvarpsupptökuvélar og blaðaljósmyndarar. Að ógleymdum rúmlega 100 gestum. Var ég að rifna úr stolti.

Starfmenn indónesíska sendiráðsins, og makar þeirra, spiluðu síðan nokkur lög á stórfurðuleg hljóðfæri. Eru hljóðfærin úr leggjum bambusviðar og hef ég aldrei áður séð svona hljóðfæri. Lögin voru velþekkt og skemmtu gestirnir sér vel við tónlistina og sönginn.


Síðan stilltu fyrirmennin sér upp til ljósmyndatöku.

Ekki er ofsögum sagt að borð hafi svignað undan veitingunum. Verst var að ómögulegt var að smakka á öllu, þótt maður fengi sér bara lítið af hverju. Þvílíkt var úrvalið.


Allir namibískir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar mættu að sjálfsögðu, enda „þeirra manneskja“ í forsvari fyrir makasamtökunum.

Ötullega var gengið fram í því að safna verðlaunum í hlutaveltu. Voru nær 20 vinningar í boði, hver öðrum glæsilegri. Fór aldrei svo að forseti samtakanna dytti ekki í lukkupottinn og vann nuddtíma, eða eitthvað svoleiðis. Hér sést hún taka fagnandi á móti umslaginu.

Málsverðurinn tókst frábærlega. Ekki er búið að birta tölur ennþá, en ég skýt á að hátt í 20.000 Namibíudalir hafi safnast, en það jafngildir 320.000 krónum. Nú byrjar alvaran, því koma þarf peningunum þangað sem þörfin er mest. En undir styrkri stjórn Gullu efast ég ekki um að það takist.

Til hamingju Gulla með frábæra samkomu.

13. júní 2009

Ferð til Kaprivi-sýslu

Á fimmtudaginn var þurfti ég að funda í Katima Mulilo, en sá bær er í u.þ.b. 1.200 km fjarlægð frá Windhoek. Frekar en að taka fjóra daga í akstur, ákvað ég að taka áætlunarflug þangað, fljúga að morgni og koma til baka að kveldi. Flogið er til Katima tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum. Ekki beint staður í alfaraleið. Bærinn er staðsettur í strípunni svokölluðu, rananum sem varð hluti af Namibíu, því Þjóðverjar þurftu að geta komist milli nýlendnanna sinna í den. Önnur var Suðvestur Afríka, sem í dag nefnist Namibía, og hin var Sambía.

En ég mætti snemma út á völl, því flugið lagði af stað sjö að morgni. Flugvélin nefnist Beechcraft 1900, tveggja hreyfla og tekur 19 farþega. Vélin er stundum kölluð rörið, því þegar setið er í sætinu sínu, þá kemur yfir mann tilfinning að setið sé í röri. Eitt sæti hvoru megin við ganginn. Farþegar norður voru ekki nema átta, þ.a. ég gat látið fara vel um mig. Flugið gekk vel, var með tvo RÚV hádegisfréttatíma í spiladósinni minni mér til dægradvalar. Ég var aðeins undrandi hvað mikil skýjahula lá yfir Namibíu, líklega meira en helmingur af leiðinni. En töluverður munur var á gróðri í kringum Windhoek og Katima Mulilo. Allt brúnt í kringum höfuðborgina, en grænt og búsældarlegt í Kaprívi-sýslunni.

Kapríví-sýslan hefur sérstöðu að einu leyti. Þar er klukkunni nefnilega ekki breytt að vetrinum. Því munar núna klukkutíma þar og annars staðar í Namibíu. Sýslan er auðvitað nokkru austar heldur en ,,meginlandið'' sem gerir það að verkum að tímabreytingin væri líklega undarleg þar.

Á vellinum beið mín maður frá bílaleigunni og ók hann mér inn í bæ. Hann sagði mér merkilega sögu. Þannig er að þarna sem annars staðar í Namibíu eru mikil skil milli regn- og þurrktíma. Fyrstu regn gera yfirleitt vart við í nóvember og svo rignir fram til mánaðarmóta apríl og maí. Síðustu rigningar eru yfirleitt úrhelli, og segir þá gamla fólkið að regnið sé að kveðja. Kveðjan er sem sagt sú að fylla allar tjarnir þ.a. fólk hafi nægt vatn. Á þessu ári var gamla fólkið ekki alveg sátt, því kveðjurigningin kom aldrei. Hins vegar tók allt í einu upp á því að rigna í síðustu viku. Mjög óvanalegt í júní. Rigndi látlaust í tvo daga og tók nú gamla fólkið gleði sína á ný. Kveðjurigningin kom þá loksins.

Ég fór síðan á mitt fundastúss. Settist síðan ásamt öðrum á veitingahús á bökkum Sambesi-árinnar. Minnti þetta mig á Kunene-ána, þar sem við sátum um páskana. Heljarinnar breið á, og mikil reisn yfir henni. Örugglega þónokkur straumur, en hann sést ekki. Þarna sá ég í fyrsta skipti yfir til Sambíu, en á þessum stað myndar áin landamæri milli Sambíu og Namibíu.

Eitt vakti strax athygli mína þarna uppfrá. Það var þögnin. Hún var þó ekki alger, langt í frá. Fullt var af krökkum og fólki á ferð, og því hróp, hlátrasköll og ýmis fyrirgangur í fólki. Þögnin sem ég tók svona eftir átti hins vegar upptök sín í lítilli bílaumferð. Þarna var ekki þessi stöðugi umferðarniður sem er alltaf í kringum mann, nær sama hvar ég er. Einn og einn bíll ók þarna um, en bílaþögn annars. Þetta var næstum því óþægilegt í byrjun, en svo þótti mér þetta mikill léttir.

Ég ók síðan aðeins um götur bæjarins á meðan ég beið þess að fara út á flugvöll á ný. Í Katima Mulilo búa einhverjir tugir þúsunda manns. Hins vegar þótti mér bærinn frekar lítill miðað við þann mannfjölda. Spurðist ég fyrir um þetta, ef vera skyldi að ég hreinlega væri að missa af einhverjum skemmtilegum götum. Nei, hinn vestræni hluti bæjarins er víst mjög lítill. Fólk býr hins vegar flest í svokölluðum hefðbundnum húsum. Dreifast þessi hús, sem eru búin til úr leir og drullu, á stærðarinnar svæði út frá verslunarsvæðinu. Var mér sagt að byggðin næði líklega um 60 km til suðurs og heillangt til vesturs. Byggingarstíllinn er aðeins öðrum vísi en annars staðar sem ég hef séð. Þarna er mikið um ferköntuð hús, en hringlaga hús eru alsráðandi á öðrum svæðum.

Nokkuð fleiri farþegar voru á leiðinni til baka, en flugið tók góða tvo tíma. Myrkur skall fljótlega á svo ég las mína bók og hlustaði á spiladósina. Tinna Rut sá auðvitað um að koma mér út á flugvöll og sækja mig Windhoek-megin.

Við erum alveg ákveðin í því að fara þarna uppeftir þegar Dagmar Ýr kemur í frí til okkar. Í leiðinni að fara að Viktoríufossum sem eru aðeins steinsnar frá Katima Mulilo. Verður ábyggilega meiriháttar ferð.

1. júní 2009

Annar í hvað?

Skrýtnir þessir ,,annar í" dagar. Merkilegt að okkur skuli ekki hafa tekist að nefna þessa ,,b-hliðar" daga einhverjum almennilegum nöfnum. T.d. er annar í jólum nefndur fjölskyldudagurinn hér í Namibíu. Mér finnst það nú nokkuð smellið nafn á þeim degi.

En, ég fór nú að hugsa um ,,annar í" dagana vegna þess að annar í hvítasunnu er ekki frídagur hér í Namibíu. Rúnar Atli fór til læknisins, en komið hefur upp úr kafinu að drengurinn er með miklar birgðir af merg í eyrunum sínum. Því höfum við tekið eyrnadropaskorpur, en ekki með miklum árangri. Á föstudaginn var mættum við til læknisins og var þá dregin upp sú stærsta sprauta sem ég hef lengi séð og vatni dælt inn í eyrun á drengnum. Tilgangurinn var að losa um merginn og helst að hann sprautaðist úr. Árangurinn þá var ekki mikill og var því sammælst um að nota dropa stíft um helgina og mæta aftur í dag.

Rúnar Atli var þægðin uppmáluð, eins og hans er von og vísa. Hann varð geysilega hvekktur á læknum eftir allar sprauturnar sem hann fékk í desember 2005, rétt áður en við fluttum til Namibíu. Tíminn hefur þó læknað þau sár og í dag er hann mjög rogginn þegar farið er til læknis. Býður góðan daginn og spjallar ef sá er gállinn á honum. En þessi vatnsaustur í eyrun fannst honum skrýtinn. Hann sat þó alveg grafkyrr, en í eitthvert skiptið sem læknirinn var að fylla á sprautuna, leit drengurinn til mín og sagði:

,,Pabbi, þessi læknir er alveg kolvitlaus!"

Átti ég erfitt með að halda aftur af hlátrinum. Tókst það þó. Ekki langaði mig að þýða fyrir lækninn að drengurinn hefði talað um þennan ,,crazy doctor" - lái mér hver sem vill.

Í dag fórum við aftur og nú gekk miklu betur. Úr öðru eyranum kom heill hellingur af mergflyksum, en ekki gekk alveg eins vel í hinu eyranu. En allt lofar þetta góðu. Næsta helgi verður önnur helgi í dropum og síðan til læknisins á mánudaginn. Vonandi næst þá restin af þessum hryllingi. Örugglega munar þetta miklu fyrir heyrn Rúnars Atla, annað getur bara ekki verið.

Kolvitlausi læknirinn... dásamlegt það sem stundum veltur upp úr börnunum manns.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...