31. október 2007

Úgandaferð

Í síðustu viku lögðum við hjónin land undir fót og skruppum til Úganda. Ekki förum við nú oft tvö ein í ferðalög, síðast fórum við til Sossusvlei, sem er túristastaður hér í Namibíu. Það var á tvítugsbrúðkaupsafmælinu. Þar á undan. Ja, ég man nú bara ekki hvenær svona lagað gerðist.

Á mánudagsmorgninum í síðustu viku lögðum við af stað. Tinna Rut og Rúnar Atli skilin eftir heima, og Flora leit eftir guttanum. Tinna sá víst mikið til um eldamennskuna. Við Gulla flugum í tvo tíma til Jóhannesarborgar, biðum þar í einhverja klukkutíma og síðan áfram til Entebbe í Úganda. Lentum þar um kvöldmatarleytið.

Frá Entebbe eru góðir 30 km til Kampala, höfuðborgarinnar. Sú leið tók um klukkutíma, enda mikið af fólki, bílum, reiðhjólum og skellinöðrum. Smávegis munur frá Namibíu þar sem 42 km frá höfuðborginni út á flugvöll taka tæpar 25 mínútur.

Gistum á golfvallarhóteli borgarinnar, ekki það að við séum mikið í höggleik. Splunkunýtt hótel og fín þægindi. Ginið og tónikkið smakkaðist vel.

Lentum reyndar í því að vakna eina nóttina við óeinkennileg hljóð. Kom í ljós eftir smáeftirgrennslan að vatn lak niður af hæðinni fyrir ofan og dropaði á skrifborð sem var í herberginu. Næsta dag vorum við flutt tveimur hæðum neðar. Sváfum vært þar.

En næsta morgun kom í ljós að heilmikið vatn hafið lekið að ofan inn á baðherbergið okkar! Gert var síðan við, svo við þurftum ekki að flytja aftur.

Ég var svo í endalausu fundastússi frá þriðjudagsmorgni fram til hádegis á föstudegi. Komst þá aðeins í búðir. Gulla hins vegar var í túristahlutum. Ferðaðist eitthvað um borgina. Fór að miðbaug þar sem hún sá vatnið renna réttsælis, rangsælis og beint niður eftir því hvorumegin við miðbaug hún staðsetti sig. Svo komst hún líka að upptökum Nílar og sigldi á báti út á Viktoríuvatn.

Á laugardagsmorgni var vaknað eldsnemma og lagt af stað út á flugvöll á nýjan leik. Fjögurra tíma flug til Jóhannesarborgar, smábið og síðan tveggja tíma flug til Windhoek. Bíllinn var enn á bílastæðinu, sem betur fer.

Síðan voru fagnaðarfundir þegar heim var komið. Ja, sonurinn fagnaði okkur, en Tinna Rut var á einhverri októberhátíð...

7. október 2007

Partípollur

Við Rúnar Atli stungum okkur aðeins til sunds áðan. Í fyrsta skipti á þessu vori.

Undanfarið höfum við staðið í stórræðum og unnið hörðum höndum að undirbúningi. Mælt klórmagn og sýrustig og hreinsað ruslasíur í hreinsikerfinu. Nýlega fjárfestum við í ryksugu sem nefnist barrakúða, eða pílugedda á því ylhýra. Þessi gedda þýtur eins og píla um botn laugarinnar og fjarlægir óæskilega hluti sem safnast þar fyrir.

En það verður nú að segjast að varla er hægt að kalla þetta sundlaug. A.m.k. ekki í þeim skilningi sem Íslendingar leggja í það orð. Partípollur væri kannski betra orð. Ef maður væri með uppblásið barborð fljótandi þarna, þá væri þetta orð að sönnu. Rétt undir yfirborði laugarinnar er þetta líka fínerís ljós sem skiptir litum og skapar partístemmingu þegar skyggja tekur.

En ég dembdi mér sem sagt á bólakaf áðan. Rúnar Atli var ekki alveg eins brattur, því honum fannst laugin fullköld. Hitamælirinn sagði 26 gráður, en ekki veit ég hversu nákvæmur hann er. En ég sé alveg fyrir mér að stinga mér þarna ofaní þegar sumarið kemur.

Eina spurningin hvort tekst að herða Rúnar Atla upp í þetta.

6. október 2007

Knattleikur karlmanna

Nú er heimsmeistaramótið í rúbbí u.þ.b. hálfnað. Eftir standa átta lið og fellur helmingur þeirra út núna um helgina.

Ég hef fylgst nokkuð með mótinu og er smátt og smátt að læra reglurnar. Hér er sko íþrótt karlmennskunnar. Er ekki nokkur vafi í mínum hug að knattleikur sá sem getið er um í Íslendingasögunum hefur líkst rúbbí.

Sjáiði bara hann Sebastian Chabal, tæplega tveggja metra jötunn í franska liðinu, fúlskeggjaður og með hár niður á herðar. Augnaráðið eitt og sér gæti rotað meðalmann. Þegar hann ryðst áfram með knöttinn þá skilur hann eftir sig blóði drifna slóð, og vita menn sem lenda fyrir honum varla í þennan heim né annan.


Kappinn hlýtur bara að vera afsprengi íslenskra víkinga, annað getur bara ekki átt sér stað.

Blóðið flýtur í stríðum straumum, en öfugt við knattspyrnu, þar sem smáhnjask skilur menn eftir sem skotna, þá í rúbbíi halda menn bara áfram blóði drifnir.


Enda er til máltæki: Gefðu meira blóð, spilaðu rúbbí.

5. október 2007

Fréttapistill

Eitthvað hefur gengið illa hjá mér að „dagbókast“ undanfarið. Datt mér því í hug að skella saman smápistli um hitt og þetta, nú þar sem ég sit við eldhúsborðið og hlusta á rás 2 úr tölvunni.

Húsmæðraorlof

Í gær lagði hún Gulla mín land undir fór. Fór ásamt Arndísi, sem er starfsnemi á skrifstofunni hjá mér, til Höfðaborgar (Keip tán fyrir þá sem dýrka og dá enska tungu). Á eftir fara héðan Júlía táknmálskennari og Eyrún táknmálstúlkur og ætla að reyna að finna Gullu og Arndísi í stóru borginni. Þær ætla að vera þarna fram á sunnudagskvöld, Gulla þó til mánudagsmorguns, og skemmta sér vel og mikið.

Er mikið búið að hlakka til þessarar ferðar og miklir verslunarleiðangrar skipulagðir. Það vill þannig til að hótelið sem þær gista á er inni í stærstu verslunarmiðstöð í allri heimsálfunni! Hægt víst að labba þar um svo klukkutímum skiptir án þess að fara tvisvar í sömu búðina.

Bleyjumál

Skemmst er frá að segja að hann Rúnar Atli hefur tekið bleyjuleysið með trompi. Eitt og eitt slys hefur gerst, en langt er á milli. Við vorum eins og þeytispjöld með drenginn á salernið um og eftir síðustu helgi, þar til mér var sagt á leikskólanum: „hann segir okkur ekki þegar honum er mál, hann bara fer á klósettið sjálfur!“

Góður með sig að láta foreldrana snúast í kringum afturendann á sér að óþörfu.

Við fórum, öll nema Tinna Rut, á Ratatoille í bíó sl. sunnudag. Pilturinn að sjálfsögðu bleyjulaus. Svo, þremur mínútum fyrir lok myndarinnar kom: „pabbi, þarf að pissa...“ og þar með misstum við af endinum.

Kannski var þetta leikflétta til að komast aftur í bíó á sömu myndina, veit það ekki.

Síminn íslenski

Það fór sem mig grunaði. Strax eftir helgi var miklu betra að tala í smarta símann með íslenska númerinu. Við höfum talað þó nokkuð til Íslands og síðan líka við Dodda í Svíþjóð og Maju í Noregi. Gengur þetta bara mjög vel. Svíþjóð og Noregur eru þó með svolitla töf, en ekkert sem ekki má sætta sig við. Íslandssamtölin ganga bara mjög vel og þegar hugsað er um vegalengdina, þá er þetta alveg glimrandi.

Endilega látið heyra frá ykkur. Fyrir þá sem nenna ekki að fletta í gömlu færsluna, 496 1991 er síminn.

Táknmál

Eins og athugulir lesendur tóku án efa eftir, voru tvær af „húsmæðrunum“ táknmálseitthvað. Eyrún verður hér í mánuð, en Júlía út nóvember. Rætt hefur verið um að taka Íslendingana hér í borginni í táknmálsnámskeið - táknmál 1 - og hófst kennslan á miðvikudaginn var. Mætti hópur fólks heim til okkar og hóf að læra stafrófið á táknmáli og spyrja hvað fólk heitir og eitthvað á þeim nótunum. Eftir um sjötíu mínútna kennslu var ekki laust við að fólk væri farið að finna fyrir verkjum í fingrum og jafnvel smáseiðing af sinaskeiðabólgu.

Síðan var pantaður kínamatur, og auðvitað hélt lærdómurinn áfram. Ýmis orð sem tengjast áfengi voru kirfilega skoðuð og eins orð eins og tískugallabuxur, því ekki veitir af fyrir kráa- og verslunarleiðangurinn í Höfðaborg.

Stendur til að endurtaka leikinn í næstu viku, en ekki er þó vitað hvaða slangur og soraorð hafa lærst í húsmæðraorlofinu.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...