7. október 2007

Partípollur

Við Rúnar Atli stungum okkur aðeins til sunds áðan. Í fyrsta skipti á þessu vori.

Undanfarið höfum við staðið í stórræðum og unnið hörðum höndum að undirbúningi. Mælt klórmagn og sýrustig og hreinsað ruslasíur í hreinsikerfinu. Nýlega fjárfestum við í ryksugu sem nefnist barrakúða, eða pílugedda á því ylhýra. Þessi gedda þýtur eins og píla um botn laugarinnar og fjarlægir óæskilega hluti sem safnast þar fyrir.

En það verður nú að segjast að varla er hægt að kalla þetta sundlaug. A.m.k. ekki í þeim skilningi sem Íslendingar leggja í það orð. Partípollur væri kannski betra orð. Ef maður væri með uppblásið barborð fljótandi þarna, þá væri þetta orð að sönnu. Rétt undir yfirborði laugarinnar er þetta líka fínerís ljós sem skiptir litum og skapar partístemmingu þegar skyggja tekur.

En ég dembdi mér sem sagt á bólakaf áðan. Rúnar Atli var ekki alveg eins brattur, því honum fannst laugin fullköld. Hitamælirinn sagði 26 gráður, en ekki veit ég hversu nákvæmur hann er. En ég sé alveg fyrir mér að stinga mér þarna ofaní þegar sumarið kemur.

Eina spurningin hvort tekst að herða Rúnar Atla upp í þetta.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl öll,
rakst á þetta blogg á flakki mínu um netið.
Kærar kveðjur ofan af klakanum.
Gerða og Siggi
swium@heima.is

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...