29. júlí 2012

Reiðhjólafatnaður og ný verzlun

Ég hef í mínum dagbókarfærslum einstaka sinnum minnst á hjólabuxurnar mínar. Þessar með púða á besta stað. Púðinn er ástæða þess að ég eignaðist þessar buxur. Almennt finnst mér hjólreiðafatnaður ekki fara miðaldra karlmönnum, eins og mér, neitt sérstaklega vel. Klæðist þessum margumræddu buxum yfirleitt undir einhverju öðru. Í þessu ljósi fannst mér merkilegt að sjá fyrir viku eða tveimur að ný reiðhjólaverslun væri búin að opna í Reykjavík. Reiðhjólaverzlunin Berlin, heitir hún.

Mér hefur nú ekki tekist að finna heimasíðu þessarar verzlunar (frískandi að sjá zetuna), en auðvitað er hún á Facebook. Nema hvað, þessi búð selur gamaldagsútlítandi reiðhjól og reiðhjólafatnað sem lítur ekki út fyrir að vera reiðhjólafatnaður. Venjulega útlítandi föt, en með púða á besta stað og þar frameftir götunum. T.d. finnst mér hjálmarnir þeirra meiriháttar flottir. Hér er eitt dæmi:

Mér finnst þetta frábær hjálmur. Örugglega hlýrri fyrir eyrun en þessir hefðbundnu.

Skilst mér að þeir sem standi að þessari verzlun hafi verið í forsvari fyrir tvídd-daginn (Tweed Run) í Reykavík í júní þar sem hjólreiðamenn og -konur klæddust snyrtilegum klæðnaði í anda breskra hefðarmanna. Svona uppákomur eru skemmtilegar og krydda tilveruna. En, öllu gamni fylgir einhver alvara; maður þarf ekkert að vera í einhverjum glansandi aðskornum latexfatnaði til að hjóla út í búð.

Næst þegar ég kem á Klakann, þá mun ég örugglega kíkja í þessa verzlun á Snorrabraut 56, bakdyramegin og upp stigann.

 

28. júlí 2012

Hvatningaráhrif ólympíufara

Ekki horfði ég á setningarathöfn ólympíuleikanna í gærkvöldi. Verð víst að viðurkenna það. Hef sjaldan haft gaman af að fylgjast með svona hátíðum. Heyri þó að hún hafi verið góð; hátíðin í gær. Gott mál.

Annað skammarlegt verð ég að viðurkenna. Að einhverjum handboltakempum undanskildum held ég að ég geti ekki nefnt neinn ólympíufara Íslands þetta árið með fullu nafni. Hvað þá að vita í hvaða íþróttum þeir keppi. Svei mér þá, ég las ábyggilega í morgun að einhver Íslendingur keppi í skammbyssuskotfimi. Ég vissi nú ekki að svoleiðis skotfimi væri keppnisgrein.

En, þrátt fyrir þessa vanþekkingu mína (sem auðvitað skrifast bara á leti mína við að fylgjast með íslenskum íþróttafréttum) þá fyllti einn ólympíukappi mig eldmóði áðan og dró mig útúr húsi til að hreyfa mig.

Ekki var þetta nú Íslendingur. Því miður.

Þetta var sjálfur Bradley Wiggins. Maður sem ég hafði ekki hugmynd um hver væri fyrr en fyrir tveimur vikum eða svo. Þetta er víst fyrsti Bretinn sem nær því að vinna frönsku hjólreiðakeppnina, Tour de France. Þeirri keppni er nýlokið þetta árið og ég átti það til sum kvöld að fylgjast með yfirlitsþætti á einni íþróttarásinni þar sem farið var yfir framgang hjólreiðakeppninnar þann daginn. Þar komst ég að því að þessi Bradley Wiggins væri til og að hann væri svakalega góður hjólreiðamaður.

Skilst mér að þessi náungi sé í guðatölu í Bretlandi þessa dagana. Þrátt fyrir sína hræðilegu barta. Bretum finnst afrek hans vera á sama stalli og sigurinn í heimsmeistarakeppninni í fótbolta 1966. Kalla þeir hann ástúðlega Wiggo, eða bara Viggó, því Bretar eru jú svo kammó.

En, sem ég sat utandyra fyrr í dag og naut veðurblíðunar í Malaví og flæktist um á internetinu, þá rakst ég á grein um hann Viggó. Hann var í viðtali hjá einhverjum breskum fréttamönnum, sem höfðu áhuga á að vita hvort hann væri of þreyttur eftir frönsku keppnina til að geta eitthvað á ólympíuleikunum. Viggó hélt nú ekki. Hann stefnir á að vinna ólympíuleikana og segir að níu daga hvíld sé feykinóg.

Eitthvað varð hann þreyttur á blaðamönnunum og sagðist þurfa að skreppa í afslöppunarhjólatúr. „Ætli ég hjóli ekki núna í svona klukkutíma,“ á hann að hafa sagt, „og hjóla þá svona 30 km í þeirri afslöppun.“

Vá.

Ekki var til setunnar boðið fyrir mig. Þetta viðtal hafði einhverra hluta þau áhrif á mig að ég æddi inn, fann hjólabuxurnar (þessar með púðanum á besta stað) og greip hjólið mitt og hjólaði af stað. Ef hann getur hjólað 30 km á klukkutíma, þá hlýt ég að geta það líka.

Ég ætti að nefna að ég var á ferðalagi fyrir stuttu og fann hraðamæli á hjólið mitt í búð nokkuri í Jóhannesarborg. Ekkert svona gps-dæmi, heldur bara venjulegan hraðamæli, sem gefur mér upp tímann sem ég hjóla, meðalhraða og mesta hraða og eitthvað meira. Ég gat því alveg mælt mig við hann Viggó.

Ég hjólaði og hjólaði sem mest ég mátti. Upp-í-móti, niðr'í-móti og á jafnsléttu. Ég hef átt í vandræðum með gírskiptinguna á hjólinu mínu en er loksins búinn að finna út úr því og hef því 27 gíra til að velja úr. Enda þegar einhver deli ætlaði fram úr mér á gíralausum svörtum jálki, þá skipti ég úr upp-í-móti gírnum í jafnsléttugírinn og skildi delann eftir í reykjar- og rykmekki. Jæja, kannski frekar í svitamekki. Gott ef hann rann ekki til í svitapollinum eftir mig...

Þetta var skemmtilegur túr. Ég misreiknaði mig nú aðeins. Leiðina sem ég valdi kláraði ég á 33 mínútum og 16 sekúndum. Náði ekki alveg 30 km/klst meðalhraðanum sem Viggó ætlaði að ná í afslöppunartúrnum sínum. Hjólaði 11,3 km á þessum ríflega hálftíma, og hraðamælirinn segir að meðalhraðinn hafi því verið 20 og hálfur km á klukkustund. Nokkuð gott fannst mér. Nokkuð gott. Náði mest 46 km/klst hraða niður eina brekkuna. Eins gott að forðast holurnar í malbikinu á þeirri siglingu.

Núna, svona einum og hálfum tíma síðar líður mér vel. Smáfiðringur í lærum og gott væri að hafa einhvern til að nudda þau. En annars hress. Já, svo gleymdi ég að nefna að þetta var seinni hjólatúrinn minn í dag... tók 5,6 km í morgun á 25 mínútum. En mikið á malartroðningi.

En svona geta ólympíuhetjurnar haft góð áhrif á okkur venjulega fólkið. Svo er bara að sjá hvað ég geri á morgun.

14. júlí 2012

Það sem fyrir augu ber, 1. hluti

Eitthvað hafa dagbókarskrif setið á hakanum undanfarnar vikur. Veit ekki alveg hvernig á því stendur.

Jú, kannski veit ég það. Ég þarf nú allt í einu, aleinn, að hugsa um karl á fimmtugsaldri (mig sjálfan) og það tekur á skal ég segja ykkur. Í fyrsta lagi þarf ég að ákveða hvað eigi að vera í matinn. Það krefst mikilla pælinga og flettinga í kokkabókum. Enda er um að ræða morgunmat, hádegismat og kvöldmat, að ógleymdum tveimur kaffitímum og kvöldkaffi. Í öðru lagi, þegar ákvörðun er tekin, þá þarf að tryggja að allt hráefni sé til staðar. Á íslensku þýðir það að versla í matinn. Auðvitað tekur það tímann sinn. Í þriðja lagi þarf síðan að elda alla þá gómsætu rétti sem á matseðlinum eru. Og tryggja að vínið sé við rétt hitastig og þar fram eftir götunum.

Hver heilvita maður sér að ekki gefst mikill tími til dagbókarskrifa þegar svona stendur á. Eða hvað?

En, ég ákvað þó að taka mig á. Kvöldmaturinn sem ég fékk mér rétt í þessu var nefnilega af einfaldara taginu. Tvö rúnnstykki með niðursneiddri nautasteik (afgangi frá kræsingum gærdagsins) og tvær mandarínur í eftirrétt. Þessu skolaði ég niður með vatni, svo áhyggjum af hitastigi vínsins var forðað.

Hvað á svo að skrifa um í kvöld?

Jú, undanfarna daga hef ég spáð í hversu fljót mannskepnan er að aðlagast umhverfinu. Að verða samdauna því. Á hverjum degi ferðast ég um borg í Afríkuríki, stundum keyrandi og stundum á reiðhjóli, og tek varla eftir því sem fyrir augu ber. En það sem fyrir augu ber í Lílongve er allt, allt öðrum vísi en í henni blessuðu njólaríku Reykjavík.

Því hef ég tekið upp hjá sjálfum mér að taka betur eftir því sem fyrir augu ber og leggja á minnið. Svo ætla ég að gera tilraun til að lýsa þessu fyrir þér, lesandi kær, í nýjum greinaflokki, sem ber hið frumlega nafn: Það sem fyrir augu ber.

Ég á von á að þetta verði frekar stuttar lýsingar af athyglisverðum hlutum sem fyrir augu mín ber. Athyglisverðar fyrir Íslendinginn, en daglegt brauð fyrir Malavann.

Einhvern tímann spurði Namibíumaður mig hvers vegna við Evrópubúarnir værum svona hrifnir af fílum. „Þetta eru mestu skaðræðisskepnur sem til eru og ætti með réttu að slátra þeim öllum! Svo komið þið hingað frá Evrópu og borgið morð fjár fyrir að sjá þá í tíu mínútur.“

Þessi maður var alinn upp í namibísku sveitasamfélagi sem stóð mest ógn af fílahjörðum sem í vatnsleit ruddust yfir hvað sem á vegi þeirra varð. „Mestu skaðræðisskepnur sem til eru!“ í hans augum, en í augum okkar frá Evrópu einhver stórmerkilegustu dýr sem við getum séð á okkar lífsleið. Svo merkileg að við leyfum ekki einu sinni fátækum þjóðum að hagnast af sölu fílabeins... Nei, nei, stans! Ég ætla nú ekkert að hætta mér út í umræðu um dýr í útrýmingarhættu og svoleiðis.

Að pistli dagsins.

Í fyrradag sá ég merkilega sjón. Að mínu mati. Hér sitja sölumenn, iðulega konur, á víð og dreif að selja áfyllingu á gemsa. Áfyllingu á frelsi, köllum við þetta heima á Fróni. Oft selur þetta fólk fleira, t.d. ódýra gemsa, hleðslutæki og sitthvað smálegt. Annað farsímafyrirtækjanna tveggja sem hér eru einkennir sig með rauðum lit. Frelsissölufólkinu skaffar það rautt plastborð, svipað og við Íslendingar erum oft með í hvítum, bláum eða grænum lit á okkar sólpöllum, og rauða sólhlíf merkta fyrirtækinu. Airtel nefnist það. Stundum sitja konurnar á plaststólum og stundum á trébekkjum. Þarna er komið allt sem þarf til að reka litla götuverslun.

Ein spurning sem ég er viss um að vaknar nú í þínum huga er hvar þessir hlutir séu geymdir á nóttunni. Ekki satt?

Jú, fólk hefur aðgang að einhverjum geymslum fyrir þetta. En þá er vandamálið að koma borðinu, trébekknum, sólhlífinni og kassanum með söluvörunum þangað. Ef þú skilur eitthvað af þessu eftir á meðan þú ert að ganga frá hinu, þá er viðbúið að eitthvað hverfi. Hvað er til ráða?

Og þá er komið að því merkilega sem fyrir augu mín bar. En það var ein af þessum sölukonum á leið í geymsluna. Hún hafði snúið borðinu á hvolf (stærðin er nóg til að tveir geti setið við hvora langhlið borðsins) og þar ofan á lagði hún trébekkinn, líka á hvolf. Við hlið bekkjarins lá samantekin sólhlífin og ofan á bekknum var kassi, líklega með söluvörunum.

Öllu þessu skellti hún síðan á höfuð sér og gekk hnarreist sína leið. Með hendur niður með síðum.

Í Lílongve er þetta eitt af því sem fyrir augu ber.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...