14. júlí 2012

Það sem fyrir augu ber, 1. hluti

Eitthvað hafa dagbókarskrif setið á hakanum undanfarnar vikur. Veit ekki alveg hvernig á því stendur.

Jú, kannski veit ég það. Ég þarf nú allt í einu, aleinn, að hugsa um karl á fimmtugsaldri (mig sjálfan) og það tekur á skal ég segja ykkur. Í fyrsta lagi þarf ég að ákveða hvað eigi að vera í matinn. Það krefst mikilla pælinga og flettinga í kokkabókum. Enda er um að ræða morgunmat, hádegismat og kvöldmat, að ógleymdum tveimur kaffitímum og kvöldkaffi. Í öðru lagi, þegar ákvörðun er tekin, þá þarf að tryggja að allt hráefni sé til staðar. Á íslensku þýðir það að versla í matinn. Auðvitað tekur það tímann sinn. Í þriðja lagi þarf síðan að elda alla þá gómsætu rétti sem á matseðlinum eru. Og tryggja að vínið sé við rétt hitastig og þar fram eftir götunum.

Hver heilvita maður sér að ekki gefst mikill tími til dagbókarskrifa þegar svona stendur á. Eða hvað?

En, ég ákvað þó að taka mig á. Kvöldmaturinn sem ég fékk mér rétt í þessu var nefnilega af einfaldara taginu. Tvö rúnnstykki með niðursneiddri nautasteik (afgangi frá kræsingum gærdagsins) og tvær mandarínur í eftirrétt. Þessu skolaði ég niður með vatni, svo áhyggjum af hitastigi vínsins var forðað.

Hvað á svo að skrifa um í kvöld?

Jú, undanfarna daga hef ég spáð í hversu fljót mannskepnan er að aðlagast umhverfinu. Að verða samdauna því. Á hverjum degi ferðast ég um borg í Afríkuríki, stundum keyrandi og stundum á reiðhjóli, og tek varla eftir því sem fyrir augu ber. En það sem fyrir augu ber í Lílongve er allt, allt öðrum vísi en í henni blessuðu njólaríku Reykjavík.

Því hef ég tekið upp hjá sjálfum mér að taka betur eftir því sem fyrir augu ber og leggja á minnið. Svo ætla ég að gera tilraun til að lýsa þessu fyrir þér, lesandi kær, í nýjum greinaflokki, sem ber hið frumlega nafn: Það sem fyrir augu ber.

Ég á von á að þetta verði frekar stuttar lýsingar af athyglisverðum hlutum sem fyrir augu mín ber. Athyglisverðar fyrir Íslendinginn, en daglegt brauð fyrir Malavann.

Einhvern tímann spurði Namibíumaður mig hvers vegna við Evrópubúarnir værum svona hrifnir af fílum. „Þetta eru mestu skaðræðisskepnur sem til eru og ætti með réttu að slátra þeim öllum! Svo komið þið hingað frá Evrópu og borgið morð fjár fyrir að sjá þá í tíu mínútur.“

Þessi maður var alinn upp í namibísku sveitasamfélagi sem stóð mest ógn af fílahjörðum sem í vatnsleit ruddust yfir hvað sem á vegi þeirra varð. „Mestu skaðræðisskepnur sem til eru!“ í hans augum, en í augum okkar frá Evrópu einhver stórmerkilegustu dýr sem við getum séð á okkar lífsleið. Svo merkileg að við leyfum ekki einu sinni fátækum þjóðum að hagnast af sölu fílabeins... Nei, nei, stans! Ég ætla nú ekkert að hætta mér út í umræðu um dýr í útrýmingarhættu og svoleiðis.

Að pistli dagsins.

Í fyrradag sá ég merkilega sjón. Að mínu mati. Hér sitja sölumenn, iðulega konur, á víð og dreif að selja áfyllingu á gemsa. Áfyllingu á frelsi, köllum við þetta heima á Fróni. Oft selur þetta fólk fleira, t.d. ódýra gemsa, hleðslutæki og sitthvað smálegt. Annað farsímafyrirtækjanna tveggja sem hér eru einkennir sig með rauðum lit. Frelsissölufólkinu skaffar það rautt plastborð, svipað og við Íslendingar erum oft með í hvítum, bláum eða grænum lit á okkar sólpöllum, og rauða sólhlíf merkta fyrirtækinu. Airtel nefnist það. Stundum sitja konurnar á plaststólum og stundum á trébekkjum. Þarna er komið allt sem þarf til að reka litla götuverslun.

Ein spurning sem ég er viss um að vaknar nú í þínum huga er hvar þessir hlutir séu geymdir á nóttunni. Ekki satt?

Jú, fólk hefur aðgang að einhverjum geymslum fyrir þetta. En þá er vandamálið að koma borðinu, trébekknum, sólhlífinni og kassanum með söluvörunum þangað. Ef þú skilur eitthvað af þessu eftir á meðan þú ert að ganga frá hinu, þá er viðbúið að eitthvað hverfi. Hvað er til ráða?

Og þá er komið að því merkilega sem fyrir augu mín bar. En það var ein af þessum sölukonum á leið í geymsluna. Hún hafði snúið borðinu á hvolf (stærðin er nóg til að tveir geti setið við hvora langhlið borðsins) og þar ofan á lagði hún trébekkinn, líka á hvolf. Við hlið bekkjarins lá samantekin sólhlífin og ofan á bekknum var kassi, líklega með söluvörunum.

Öllu þessu skellti hún síðan á höfuð sér og gekk hnarreist sína leið. Með hendur niður með síðum.

Í Lílongve er þetta eitt af því sem fyrir augu ber.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...