29. júlí 2012

Reiðhjólafatnaður og ný verzlun

Ég hef í mínum dagbókarfærslum einstaka sinnum minnst á hjólabuxurnar mínar. Þessar með púða á besta stað. Púðinn er ástæða þess að ég eignaðist þessar buxur. Almennt finnst mér hjólreiðafatnaður ekki fara miðaldra karlmönnum, eins og mér, neitt sérstaklega vel. Klæðist þessum margumræddu buxum yfirleitt undir einhverju öðru. Í þessu ljósi fannst mér merkilegt að sjá fyrir viku eða tveimur að ný reiðhjólaverslun væri búin að opna í Reykjavík. Reiðhjólaverzlunin Berlin, heitir hún.

Mér hefur nú ekki tekist að finna heimasíðu þessarar verzlunar (frískandi að sjá zetuna), en auðvitað er hún á Facebook. Nema hvað, þessi búð selur gamaldagsútlítandi reiðhjól og reiðhjólafatnað sem lítur ekki út fyrir að vera reiðhjólafatnaður. Venjulega útlítandi föt, en með púða á besta stað og þar frameftir götunum. T.d. finnst mér hjálmarnir þeirra meiriháttar flottir. Hér er eitt dæmi:

Mér finnst þetta frábær hjálmur. Örugglega hlýrri fyrir eyrun en þessir hefðbundnu.

Skilst mér að þeir sem standi að þessari verzlun hafi verið í forsvari fyrir tvídd-daginn (Tweed Run) í Reykavík í júní þar sem hjólreiðamenn og -konur klæddust snyrtilegum klæðnaði í anda breskra hefðarmanna. Svona uppákomur eru skemmtilegar og krydda tilveruna. En, öllu gamni fylgir einhver alvara; maður þarf ekkert að vera í einhverjum glansandi aðskornum latexfatnaði til að hjóla út í búð.

Næst þegar ég kem á Klakann, þá mun ég örugglega kíkja í þessa verzlun á Snorrabraut 56, bakdyramegin og upp stigann.

 

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...