24. janúar 2006

Matarboð

Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. Toppurinn var þó ostakaka sem ég eyddi góðum hluta morgunsins í að útbúa. Tókst alveg glettilega vel, þótt ég segi sjálfur frá. Grillaði svo skötusel eftir einhverri uppskrift úr Gestgjafanum. Tandori kjúkling líka og eitthvað fleira.

Svo var setið við nýja borðið frameftir kvöldi og kjaftað og svoleiðis. Nýju garðhúsgögnin reyndust vel, ekki síst vínvagninn...

Setti gemsann svo á hljótt áður en farið var í rúmið. Fékk nefnilega einhver sms sem bentu til þess að ákveðnir „vinir“ væru að skemmta sér í sumarbústað einhvers staðar á Fróni. Ég er af reynslu farinn að vita hvað klukkan slær, enda sá ég í morgun að einhver hafði hringt kortér fyrir eitt um morguninn að namibískum tíma.

Þá var ég löngu sofnaður.

Og svaf vært.

13. janúar 2006

Skólafötin

Þannig er nú í Namibíu að skólakrakkar þurfa að vera í skólabúningum. St Paul's - skólinn hennar Tinnu - en engin undantekning þar á. Nú þegar Tinna Rut var búin að taka inntökuprófið og við vissum að hún væri pottþétt inni, þá þurfti að fara með langan fatalista í búð sem heitir Karseboom til að versla föt. Var það nú meira ævintýrið, skal ég segja ykkur. Við mættum fyrir utan búðina og þá var biðröð fyrir utan. Orðið allt fullt inni og hleypt inn í hollum. Þetta minnti mann á skemmtistaði einhvern tímann eftir miðnætti hérna í den... Svo komumst við inn og þar var kraðak af fólki. Mér tókst þó að ná í afgreiðsludömu og þegar hún áttaði sig á að okkur vantaði allan pakkann þá vék hún ekki frá okkur fyrr en allt var komið. Við keyptum 3 skyrtur,
2 pils, bindi, jakka, íþróttagalla, æfingagalla og skó. Síðan þegar þetta var allt komið þá tók við biðröðin til að borga. Þar leið góð stund, en að lokum hafðist þetta. Við vorum alveg gjörsamlega búin þegar þetta var yfirstaðið.

Ekki tók betra við næsta dag þegar við gerðum atlögu að ritföngum. Eins og með fötin þá fær maður langan lista, mjög nákvæman. Svona marga HB blýanta og H3 og hvað þeir nú heita allir. Ekki dugir að kaupa bara einhverjar skjalamöppur, heldur þarf framleiðandinn að vera Bantex. Hvað um það, við inn í búð sem heitir EduMeds, rétt hjá sjávarútvegsráðuneytinu þar sem ég vann einu sinni. Þar var í fyrsta lagi vandamál að fá körfu til að setja vörurnar í, en Tinnu Rut tókst það þó með lagni þegar ég var kominn með svo fullar hendur af blýöntum, áherslupennum, heftara og heftum, gatara, plastmöppum - þið áttið ykkur á þessu - að ég gat varla hreyft mig úr stað án þess að missa nokkuð. Og svo þegar búið var að tína allt til í körfuna, þá tók við biðröð á kassann. Hún hreyfðist hægt. Og voðalega fannst mér heimildin á kortið lengi að koma í gegn - og alltaf lengdist röðin... Því miður fékkst ekki allt sem þurfti í EduMeds, svo við þurftum að fara í aðra ritfangaverslun, og þar beið önnur biðröð. Ég skaust þó í hraðbankann í millitíðinni til að þurfa ekki að bíða aftur eftir heimildarnúmeri. Gott að þetta er bara einu sinni á ári. Við Tinna Rut höfum heitið því að gera þetta næst í nóvember, eða strax þegar hún fær ritfangalistann sinn!

Ferðalagið

Ferðalagið frá Íslandi til Namibíu gekk bara alveg þokkalega - a.m.k. í minningunni. Flugið frá Íslandi var lítið mál og svo fórum á hótel á flugvellinum í Frankfurt. Keyptum okkur fyrst drykki og smotterí til að maula, m.a.s. vínber frá Namibíu! Við létum svo fara vel um okkur og sofnuðum í góða stund. Þ.a. þegar við yfirgáfum hótelið vorum við í fínu formi. Eftir þetta var auðvitað farið á McDonalds - síðasta skipti Tinnu Rutar í langan, langan tíma.

Svo settumst við í vélina til Jóhannesarborgar og vorum bara ánægð með allt þar. Gott pláss milli sæta og hvert okkar með sitt sjónvarp. Rúnar Atli gat meira að segja setið og horft í smástund á einhverjar teiknimyndir, jafnvel þótt hann heyrði ekkert - ekki viðlit að setja heyrnatól á drenginn :-)

Hann svaf svo tvær lotur, sú fyrri um fimm tímar og síðan hátt í tvo. En undir restina á flugferðinni var hann orðinn svolítið erfiður greyið. Barðist stundum um og gargaði. Svo ef ég hreyði mig of snöggt þá tók hann alveg kipp og allt byrjaði upp á nýtt. En þetta var nú ekki mjög lengi, reyndar. Svo komum við til Jóhannesarborgar, fundum okkur sæti þar á kaffihúsi á flugvellinum og biðum þar í rólegheitum. Síðan í rútunni á leið út í flugvél steinsofnaði guttinn - orðinn dauðþreyttur.

9. janúar 2006

Kominnáleiðarenda

Eftir langa og stranga ferð komumst við loksins í nýja/gamla húsið okkar á Von Eckenbrecher Strasse laust eftir hádegi á föstudaginn var. Ferðin gekk nú glettilega vel miðað við að hafa gutta eins og Rúnar Atla með. Hann var stundum pirraður á að geta ekki hreyft sig, en svo svaf hann inn á milli. En núna sig ég á internetkaffihúsi og hripa þetta niður. Tölvan mín ekki komin og eitthvað internetvesen í vinnunni. Hérna er búið að rigna gríðarlega og því eitthvað af símalínum ekki í lagi vegna þess. Aðalfréttirnar kannski eru að Tinna Rut er kominn inn í skólann og er kynningardagur á morgun og síðan á miðvikudag hefst skólinn. Stundvíslega klukkan 6:55! Já, það er ekkert verið að eyða tímanum í svefn í henni Namibíu. Hinar meginfréttirnar eru að Rúnar Atli er komin með barnfóstru, Florence að nafni. Guttinn var ekki alveg sáttur í morgun, en við sjáum hvort þetta gangi ekki þokkalega.

Svo er maður búinn að vera á snatti í dag, sækja um pósthólf - fáum ekki vita um það fyrr en í febrúar - og svo tók lengri tíma að sækja um síma - kannski 7-10 daga bið þar. Svo þarf að kaupa skólaföt á hana Tinnu og að redda gervihnattarsjónvarpinu og setja saman rúmið hans Rúnars Atla (hefur sofið á dýnu á gólfinu, greyið) og örugglega eitthvað meira sem ég er að gleyma. En þessi vika fer í snatt að mestu, vinnan byrjar ekki af alvöru fyrr en í næstu viku. Sumarfríum er nefnilega að ljúka hér og því er allt að hrökkva í gang í þessari viku.

Læt þetta duga í bili. Skrifa meira um ferðalagið þegar ég kemst i betra samband.

4. janúar 2006

Stóra stundin nálgast

Þá er fjórði dagur janúarmánaðar á því herrans ári tvöþúsundogsex eftir Krist langt kominn. Stóra stundin að renna upp eftir nokkra klukkutíma - brottför til Namibíu hálfátta í fyrramálið. Ég held við þurfum að vakna rúmlega fjögur ef mér reiknast rétt til. Ætli maður verði nokkuð sofnaður... Mér hefur gengið bölvanlega að sofna undanfarin þrjú kvöld, eitthvað stress sjálfsagt í gangi. En þetta er allt að smella saman. Kláraði allt endanlega í gömlu vinnunni í gærkvöldi - fór yfir tvö sjúkrapróf og losaði mig við tölvu og lykla. Nú fer maður ekki aftur í HR sem starfsmaður, bara sem gestur. Skrítinn tilfinning, verður að viðurkennast.

Mætti á nýja vinnustaðinn í gærmorgun, ja, skrifstofuna í Þverholtinu. Spjallaði við fólk og las mér aðeins til um verkefnin sem í gangi eru í Namibíu. Eftir hádegi í dag settist ég á skólabekk ásamt kollega sem er að fara til Sri Lanka og lærðum við grunnatriði í skjalavistunarkerfi því sem allt þarf að skrá í. Ég hlakka orðið töluvert til að takast á við nýtt starf - verður örugglega spennandi. Svo í morgun klambraði ég saman trékössum ofan á pallettur tvær sem eiga að vernda þá fáu persónulegu muni sem við sendum til Windhoek. Var ánægður með handverkið, held það þurfi mikið til að rústa þeim. Var reyndar pláss fyrir meira en búið var að setja í pappakassana, en ég nennti ómögulega að leita að fleiri hlutum til að taka með...

Ætli sé ekki best að hætta þessu og fara að setja í ferðatöskur, ekki seinna vænna, segðu. Læt næst í mér heyra frá Windhoek, ekki nema ég komist í tölvu einhvers staðar á flugvelli.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...