4. janúar 2006

Stóra stundin nálgast

Þá er fjórði dagur janúarmánaðar á því herrans ári tvöþúsundogsex eftir Krist langt kominn. Stóra stundin að renna upp eftir nokkra klukkutíma - brottför til Namibíu hálfátta í fyrramálið. Ég held við þurfum að vakna rúmlega fjögur ef mér reiknast rétt til. Ætli maður verði nokkuð sofnaður... Mér hefur gengið bölvanlega að sofna undanfarin þrjú kvöld, eitthvað stress sjálfsagt í gangi. En þetta er allt að smella saman. Kláraði allt endanlega í gömlu vinnunni í gærkvöldi - fór yfir tvö sjúkrapróf og losaði mig við tölvu og lykla. Nú fer maður ekki aftur í HR sem starfsmaður, bara sem gestur. Skrítinn tilfinning, verður að viðurkennast.

Mætti á nýja vinnustaðinn í gærmorgun, ja, skrifstofuna í Þverholtinu. Spjallaði við fólk og las mér aðeins til um verkefnin sem í gangi eru í Namibíu. Eftir hádegi í dag settist ég á skólabekk ásamt kollega sem er að fara til Sri Lanka og lærðum við grunnatriði í skjalavistunarkerfi því sem allt þarf að skrá í. Ég hlakka orðið töluvert til að takast á við nýtt starf - verður örugglega spennandi. Svo í morgun klambraði ég saman trékössum ofan á pallettur tvær sem eiga að vernda þá fáu persónulegu muni sem við sendum til Windhoek. Var ánægður með handverkið, held það þurfi mikið til að rústa þeim. Var reyndar pláss fyrir meira en búið var að setja í pappakassana, en ég nennti ómögulega að leita að fleiri hlutum til að taka með...

Ætli sé ekki best að hætta þessu og fara að setja í ferðatöskur, ekki seinna vænna, segðu. Læt næst í mér heyra frá Windhoek, ekki nema ég komist í tölvu einhvers staðar á flugvelli.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...