28. desember 2005

Spítalagleði

Nú þurfti ég að eyða hluta morgunsins úti á heilsugæslustöð. Forsagan
er sú að fyrir 2-3 dögum var Rúnar Atli farinn að fá einhvern roða bak
við annað eyrað. Tóku foreldrarnir exemkremneyðarkipp og fóru að maka
kremi á pilt. Enda ekki nema von þar sem hann var jú nokkuð slæmur af
exemi á yngri árum sínum - yngri mánuðum ætti ég kannski að segja. Nema
hvað í gær þá var engin breyting, a.m.k. ekki til batnaðar, og síðan
var hann orðinn eldrauður í kringum annað augað. Ég hringi því út á
spítala og spyr kurteislega hvort hægt sé að ná tali af barnalækni.
„Jú, hann er með símatíma á morgun milli hálfeitt og eitt,“ er mér
tjáð. Hmm, ókey, eins gott að neyðartilfellin gerist í hádeginu,
hugsaði ég, og spurði síðan, enn kurteislega, hvort það væri nú ekki
hægt að panta viðtalstíma. „Jú, auðvitað, það eru lausir tímar í
janúar!" Við þetta kvaddi ég þessa viðmótslipru símamær, og vonaði að
Rúnari Atla myndi bara skána í nótt - þá væru allar áhyggjur á bak og
burt. En, svo auðvelt var þetta nú ekki. Kallanginn með djúpt sokkið
auga þegar hann vaknaði í morgun og nú var eitthvað farið að vessa útúr
eyranu. Nú voru góð ráð dýr - átti ég að bíða eftir símatímanum?

Ég ætti kannski að skjóta inn í að eftir að ég flutti hingað á Skagann
hef ég einu sinni reynt að ná sambandi við lækni í símatíma. Það gekk
þannig fyrir sig að u.þ.b. fimm mínútum fyrir auglýstan tíma fór ég að
hringja. Fékk ætíð skilaboð að símatími læknis væri ekki byrjaður. Svo
fimm mínútum eftir að símatíminn átti að hefjast - ég búinn að vera með
hraðvalið í stanslausri vinnslu í tíu mínútur - þá varð skyndilega á
tali. Mikið bölvaði ég þessu sekúndubroti sem ég var of seinn - en á
tali var síðan þar til aftur fóru að koma skilaboð um að símatími væri
ekki byrjaður - ég var sem sagt farinn að bíða eftir símatíma næsta
dags!

Minnugur þessarar fyrri reynslu, þá ákvað ég að beita djarfari
strategíu í þetta sinn. Klæddi ég mig í mitt fínasta púss og fór með
Rúnar Atla beina leið út á spítala. Hitti ég þar afgreiðsludömur þrjár
og bar ég mig ekki vel. Gráti nær tjáði ég þeim að ég þyrfti að hitta
lækni því ég væri í öngum mínum út af veikindum sonar míns. Sýndi ég
þeim þrútið auga hans og að ég væri alveg ráðþrota yfir þessu. Sá ein
þeirra aumur á mér og bauðst til að stinga mér inn í röðina löngu sem
væri eftir viðtalstíma læknis. Beið ég síðan í hálftíma en komst svo
að. Fannst mér þetta hafa tekist vonum framar og er þetta greinilega
aðferðin sem beita skal.

Læknirinn hlóð síðan lyfjum á okkur, dropum í auga og eyra og innvortis
sýklalyf. Rúnar Atli er nú ekki sáttur við þessi meðul, en ekki þýðir
að deila við dómarann - þ.e. foreldrana. Nú vonar maður bara það besta
og að þetta hverfi á allra næstu dögum. Ég gef ekki mikið í það að
reyna að troða augndropum í drenginn í flugvél einhvers staðar í 30.000
feta hæð yfir Afríku...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...