19. janúar 2012

Ef aðeins...

Rúnar Atli fór í gær á sínu fyrstu karate-æfingu í Malaví. Hann var jú í karate á Íslandi í fyrra, en var ekki spenntur fyrir því í haust eftir að við komum hingað.

Ég skal alveg viðurkenna að hafa ýtt svolítið á hann núna að byrja aftur. Mér finnst karate fínt fyrir stráka og stelpur á hans aldri. Þau læra aga og svo er jú heilmikið af alvöru æfingum í karate. Og góðar teygjuæfingar líka. Gott að venjast ungur á að styrkja skrokkinn.

Þegar ég kom heim í gær þá vildi ég auðvitað vita hvernig hefði gengið. Jú, gaman. Ég spurði hann síðan hvort hann hefði gert einhverjar magaæfingar. Ekki vildi hann meina. Teygjur? Nei, hann kannaðist ekki við svoleiðis.

Hmm, mér þótti þetta skrýtið og fór að spurja nánar. Eitthvað varð minn elskulegi sonur þreyttur á pabba sínum. „Sko, pabbi, það getur vel verið að við höfum gert svona æfingar. Ég tók þá bara ekki eftir því!“

Ef aðeins... ef aðeins maður gæti gert maga- og teygjuæfingar án þess að taka eftir því.

Ef aðeins...

18. janúar 2012

Þekkir sitt heimafólk

Fyrir einhverjum dögum vorum við Gulla að stússa eitthvað í eldhúsinu. Þá dæsti frúin allt í einu:

„Æ, stundum er nú gólið í honum Jónatan svolítið þreytandi.” 

Jónatan er auðvitað annar haninn okkar. Hinn ber nafnið Kjartan. Veit ekki alveg af hverju. Kannski eitthvað Strumpadæmi.

En Jónatan er nefnilega svolítið ánægður með að geta galað. Rígmontinn, eiginlega. Galar hann linnulítið liðlangan daginn og byrjar snemma. Mjög snemma.

Þessi yfirlýsing undraði mig þó aðeins, því ég er eiginlega hættur að taka eftir þessu. Spurði ég Gullu hvort hún væri ekki eins. „Jú, yfirleitt,” svaraði hún, „en stundum getur maður bara ekki annað en heyrt.”

Í þeim töluðum orðum var svo enn galað.

Gulla snarhætti því sem hún var að gera, leit upp með undrunarsvip, og sagði síðan ákveðnum rómi: „Þetta var Kjartan!”

Þarf ég að fara að hafa áhyggjur?

15. janúar 2012

Golfáhugi

Eins og dyggir lesendur mínir vita þá tók sonurinn upp á því að fara í golf í skólanum á haustönninni. Auðvitað langaði hann í sínar eigin golfkylfur. Getur nokkur láð honum það? Einhverjir skólafélagarnir eiga jú sitt eigið golfsett. Ég samdi því við hann. Ef hann væri duglegur að mæta og ef hann myndi skrá sig í golf á vorönninni, þá fengi hann sitt eigið golfsett.

Hann var duglegur að mæta alla síðustu önn. Er víst mjög áhugasamur, eftir því sem golfkennarinn segir. Og svo skráði hann sig í golf þegar skólinn hófst að loknu jólafríi.

Skilyrði uppfyllt.

Í gær kom því að skuldadögum. 

Við Gulla fórum með hann í búð sem selur golfsett fyrir krakka og keyptum eitt. Sonurinn var himinlifandi, verður að segjast. Áðan skutumst við svo út í garð, milli skúra, og hann sýndi okkur nokkur högg.

Auðvitað var myndavélin með í för.

Fyrst þarf að halda á settinu út á völl...

... svo stilla því upp, ná í kúlur og svoleiðis.

Því næst koma kúlunni fyrir á réttan stað.

Draga djúpt andann. Taka þann tíma sem þarf.

Sveifla kylfunni langt upp fyrir haus...

... og láta vaða!

 

5. janúar 2012

Bensínstöð í Afríku

Var að skoða myndir sem ég tók á sl. ári og rakst á meðfylgjandi mynd frá ferð okkar í gegnum Sambíu. Þarna voru við búin að aka eitthvað yfir 500 km án þess að sjá bensínstöð og eitthvað á annað hundrað km í þá næstu. Sem betur fer vorum við tilbúin fyrir svona nokkuð.


Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...