18. janúar 2012

Þekkir sitt heimafólk

Fyrir einhverjum dögum vorum við Gulla að stússa eitthvað í eldhúsinu. Þá dæsti frúin allt í einu:

„Æ, stundum er nú gólið í honum Jónatan svolítið þreytandi.” 

Jónatan er auðvitað annar haninn okkar. Hinn ber nafnið Kjartan. Veit ekki alveg af hverju. Kannski eitthvað Strumpadæmi.

En Jónatan er nefnilega svolítið ánægður með að geta galað. Rígmontinn, eiginlega. Galar hann linnulítið liðlangan daginn og byrjar snemma. Mjög snemma.

Þessi yfirlýsing undraði mig þó aðeins, því ég er eiginlega hættur að taka eftir þessu. Spurði ég Gullu hvort hún væri ekki eins. „Jú, yfirleitt,” svaraði hún, „en stundum getur maður bara ekki annað en heyrt.”

Í þeim töluðum orðum var svo enn galað.

Gulla snarhætti því sem hún var að gera, leit upp með undrunarsvip, og sagði síðan ákveðnum rómi: „Þetta var Kjartan!”

Þarf ég að fara að hafa áhyggjur?

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...