26. október 2008

Stjórnmálin

Æ, hann Doddi útlagi gefst ekki upp á sínu framsóknarrausi. Mig langar að benda honum á skoðanakönnun sem gerð var núna fyrir helgina af Fréttablaðinu. Hér má lesa niðurstöðurnar.

Ef marka má þessa könnun, fengi framsókn fjóra þingmenn. Gerist þetta í könnun þar sem stjórnin hríðtapar. Meira að segja Björn Ingi, fyrrum innsti koppur í búri hjá framsókn segir:
Þeim mun markverðara er það afrek Framsóknarflokksins að vera við þessar aðstæður í frjálsu falli sem stjórnarandstöðuflokkur. Það er eiginlega alveg magnaður árangur.
Eiginlega er bara engu hægt að bæta við þessi orð.

Tilbúinn í allt

Á þessum síðustu og verstu er nauðsynlegt að vera tilbúinn undir hvað sem er. Hér eru tvær myndir af syninum sem sýna að hann skilur þetta mætavel.



24. október 2008

Hverjir eru þeir seku?

Í þeim ósköpum sem yfir Ísland hafa dunið síðustu vikur hef ég reynt að fylgjast vel með íslenskum fréttum. Hvort sem er í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi. Síðustu daga hefur verið mikið spurt um sök. „Geir, er þetta ekki ykkur að kenna?“ „Jón Ásgeir, hvaða ábyrgð takið þið?“ „En þú Björgvin, hvað með Davíð, nú en Ingibjörg Sólrún..?“ o.s.frv.

Þegar öll lætin voru að byrja var ég staddur í landamærabænum Rúndú. Nokkuð stór bær á bökkum Kavangó árinnar. Er horft beint yfir til Angólu. Einn eftirmiðdag var ég á rölti í bænum. Rakst ég á fyrirtæki nokkurt, sem án efa getur hjálpað okkur að leysa úr ofangreindum spurningum.


Á skiltinu stendur nafn fyrirtækisins: „ABTRAC, Absolute Tracing, Debt Collecting & Claim Consultancy.“ Á því ylhýra má nefna fyrirtækið, „Fullkomin eftirgrennslan, skuldainnheimta og kröfuráðgjöf.“ Hvorki meira né minna.

Takið eftir að ekki eru þessir menn að eyða hagnaði hluthafana í óþarfa íburð. Leigubílar greinilega notaðir til að komast á milli staða. Engir tíu milljóna jeppar hér.

Væri ekki lag að biðja namibísk stjórnvöld um aðstoð við að (i) komast að því hvert í ósköpunum peningarnir okkar fóru, (ii) ná útistandandi skuldum heim, og (iii) krefjast réttar okkar gegn árans Bretunum? Í leiðinni hljótum við að komast að því hverjum þetta var allt saman að kenna.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Fataskortur?

Í Morgunblaðinu var sagt frá því að íshokkímamman, frú Palin, hefði verið fötuð upp fyrir 150.000 bandaríkjadali.

Vá.

Mér reiknast til í fljótheitum að ég gæti byggt u.þ.b. 11 leikskóla hér í Namibíu fyrir þennan pening. Fína leikskóla með flestu sem þarf. Í þessa leikskóla gætu líklega 550 börn gengið.

Skyldi frú Palin hugsa um þetta á morgnana þegar hún klæðir sig í dýrðina.

Já, dýr myndi Hafliði allur...

23. október 2008

Brosmildir Namibíumenn

Þá kom að því. Fyrsta rigning vorsins í Windhoek. Enda voru allir, og ég meina allir, Namibíumenn kátir og brosandi. Rigningardagur í Windhoek er eins og sólardagur að sumri í Reykjavík.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...