1. janúar 2014

Nýársdagur bjartur og fagur

Þá er nýársdagur við að renna sitt skeið. Komið árið 2014, takk fyrir.

Heyrði í útvarpinu fyrr í dag ekki góða frétt af manni á sextugsaldri. Hann hafði kveikt á flugeldi en láðst að sleppa takinu á honum. Með fyrirséðum afleiðingum.

En hegðun mannsins var nú ekki það sem vakti athygli mína, heldur datt mér í hug að um næstu áramót - skyldi ég gera einhvern skandal af mér - verður hægt að vísa til mín á sama hátt...

... sem manns á sextugsaldri.

Þvílík firra.

En látum þetta liggja á milli hluta að sinni. Dagurinn hefur verið ósköp notalegur og rólegur. Uppþvottavélin hefur reyndar staðið í ströngu. Tók þrjár vélar að ná stjórn á óhreina leirtauinu frá síðasta ári. Gærkvöldinu þ.e.a.s.

Það var nefnilega hinn hefðbundni gamlárskvöldverður hér í gær. Fimmtán manns voru í mat, enda var borðstofuborðið lengt hressilegra. Ágætt væri að eiga plankastrekkjarann sem Siggi Sigurjóns auglýsti fyrir Bykó hér á árum áður. En úr því ég á ekki svoleiðis græju, þá var púslað saman borðum og gömlu borðplötum.


Útkoman varð hið myndarlegasta langborð. Í bakgrunni, við hlið jólatrésins, má sjá „sörveringsborðið“ en það er plata sem stendur á smíðabúkkum.

Eins og hefð er fyrir var kalkúnn á boðstólunum - gæti maður sagt á boðbúkkunum? - sem og baunasúpa og saltkjöt. Reyndar leist Gullu ekkert á kalkúnaframboðið í Nóatúni - allir of litlir - og voru því keyptir tveir kalkúnar að þessu sinni. Sjálfsagt nærri tíu kílóum samtals.

Gulla og mamma stóðu í ströngu í matseldinni megnið af þessum síðasta degi ársins. Við Rúnar Atli fórum hins vegar í bæjarferð og létum „nauðugir viljugir“ pranga inn á okkur flugelda hjá Hjálparsveit skáta. Við tókum síðan smáforskot á sæluna um fimmleytið og grisjuðum hitt og þetta smádrasl úr pakkanum Trausta.


Guttinn er orðinn aðalmaður í sprengingum og uppskotum. Pabbinn sér fyrst og fremst um eftirlit með stöðugleika fírverksins og að tendra stjörnuljósin. Sá stutti ber síðan eld að kveiki og þýtur í burtu eins og eldibrandur áður en sprengingar og læti hefjast. Við erum orðnir þokkalega samæfðir í þessu. Auðvitað er öryggið í fyrirrúmi. Öryggisgleraugu á sínum stað og pabbinn drekkur bara malt og appelsín fram yfir sprengingar.

Fyrir utan mat og fírverkerí þurfti eitthvað að fegra kvenfólkið. Að þeirra eigin mati...

Dagmar Ýr, förðunarfræðingur, var í stífri vinnu að bera hin og þessi efni á hinar og þessar kinnar og enni. Gerði það vel eins og hennar er von og vísa.


Útkoman var flott, eins og þetta augnalok hjúkkunnar ber vitni um:


Ungdómurinn skemmti sér við ýmsa leiki, s.s. stórfiskaleik, fallna spýtu, snú-snú og svoleiðis gæðaskemmtanir ...

... nei, hvaða þvæla.

Aðalgræja kvöldsins var, eins og Daði Steinn sagði svo skemmtilega, Æpoddurinn...

Já, það var öðrum vísi í mínu ungdæmi.


Drengirnir snapptjöttuðu og eitthvað ýmislegt annað sem ég veit ekkert um.

Enda verð kominn á sextugsaldur þegar næsti gamlársdagur rennur í hlað...

Hvað um það, hvað um það.

Maturinn tókst mjög vel. Hvað annað. Fólk gat fengið nægju sína og vel það af kalkúni, saltkjöti og baunum og svo heimatilbúnum Toblerón-ís og Amarúla-ís í eftirrétt. Síðan voru snakk og ostar og ég veit ekki hvað og hvað. Hér sjást nokkrir matargestanna. Missettlegir, eins og gengur.


Svo voru systkinin þrjú


Ha? Gísli, Eiríkur, Helga hvað? Enga þvælu, takk fyrir.

Svo var horft á skaupið, sem var nokkuð gott. Ég er búinn að „dánlóda“ því svo hægt sé að horfa á það aftur og aftur í Malaví...

Svo flugeldar.


Glæsilegt útsýni úr Æsufellinu.

Heilt yfir virkilega fínt kvöld. Við þökkum öllum gestunum samneytið og svo óska ég öllum lesendum gleðilegs nýs árs og þakka kærlega fyrir þau liðnu.

Lifið heil.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...