21. ágúst 2008

Verðbólga

Var norður í landi á þriðjudag á fundastússi, í bæ sem heitir Ondangwa. Flaug síðan til Windhoek á miðvikudagsmorguninn. Bað hótelið að redda mér fari út á flugvöll og hringt var á leigubíl. Hvað skyldi það nú kosta? vildi ég fá að vita. Hér eru jú engir gjaldmælar í leigubílum. Tíu dali kostar farið, var mér sagt, u.þ.b. 100 krónur.

Svo kom bíllinn. Eins og langflestir leigubílar hér var þetta hálfgert skrapatól og átti ég von á að bíllinn dræpi á sér við hver gatnamót, gangurinn í vélinni benti til þess. Einhvern veginn hökti hann þó áfram. Ég held reyndar að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek leigubíl í Namibíu.

Hvað um það. Á leiðinni út á völl er ég að hugsa að tíkall sé nú frekar lítið, en er nú ekkert að spyrja bílstjórann neitt um þetta. Hann hækkaði nefnilega útvarpið í botn um leið og ég settist inn í bílinn - óshívambó rásin - og hafði greinilega takmarkaðan áhuga á að spjalla.

Svo komum við út á völl og ég spyr hversu mikið ég skuldi fyrir farið. Tuttugu dali, tjáði bílstjórinn mér.

100% verðhækkun á fimm mínútum. Nú veit ég hvernig Simbabvebúum líður.

En ekki fékk bílstjórinn neitt þjórfé.

18. ágúst 2008

Stuðkvöld

Mánudagskvöld.

Sit við tölvuna og reyni að treina hvert einasta músarklikk og hvern einasta slátt á lyklaborðið.

Það er nefnilega partý í húsinu. Og mér er ekki boðið...

Vinkona hennar Tinnu Rutar er að skreppa í burtu í nokkra daga, og þá varð endilega að kveðja hana almennilega og halda grillveislu. Átta eða tíu unglingar mættu á staðinn og flestir eru hér enn. Mér var plantað í tölvuhornið og með vissu millibili kíkir Tinna til mín og spyr hvort mig vanti eitthvað. Ég á víst ekki að sjást, sem þýðir ekki inn í eldhús. En hún man þó eftir mér þessi elska.

Gulla hefur það litlu betra. Hún fékk að sitja fyrir framan sjónvarpið í svefnherberginu. Öðru hverju reynir hún flótta og ryðst fram og út að grilli til að minna krakkana á að súpa varlega á bjórnum. Ekki veit ég hversu mikinn árangur það ber.

Ég sit jú fyrir framan tölvuna og einbeiti mér að skjánum.

Foreldri unglings.

17. ágúst 2008

Ólympíuleikarnir

Við höfum eytt meiri og meiri tíma í að horfa á ólympíuleikana. Hér eru líklega sjö sjónvarpsrásir sem sýna efni frá leikunum allan sólarhringinn. Meira að segja verður sýndur í nótt leikur Íslands og Egyptalands í beinni útsendingu.

Ég hef dottið inn í tvær íþróttagreinar sem ég alla jafna fylgist ekkert með. Annars vegar bogfimi, og hins vegar borðtennis. Reglur í bogfimi er mjög auðvelt að skilja og sumar viðureignir eru mjög spennandi. Verður að viðurkennast að ekki eru allir keppendur íþróttamannslega vaxnir, en það virðist skipta litlu máli. Taugarnar virðast vera aðalmálið.

En ég hef nú meira gaman að borðtennis. Núna er ég að horfa á úrslitaleik í liðakeppni kvenna. Kína gegn Singapúr. Kínverjar ættu að vinna, enda hafa þeir verið yfirburðaland í þessari íþrótt síðan, ja, síðan hún var fyrst spiluð. Kannski ekki nema von. Þjóðaríþrótt landsins. Í liðinu keppa þrjár konur. Þrjár. Skv. upplýsingabók bandarísku leyniþjónustunnar voru íbúar Kína í júlí sl. einn milljarður þrjú hundruð og þrjátíu milljónir fjörutíu og fjögur þúsund sex hundruð og fimm. Aðeins. Af þeim eru 645 milljónir 793 þúsund og áttatíu og tvær konur. Af þeim komast þrjár í landsliðið í borðtennis.

Kannski ekki skrýtið að þær séu þokkalega góðar.

Rokrass

Ein útskýring á heiti Windhoekborgar er vegna mikilla vinda sem mæta stundum hingað. Vindasama hornið mætti þýða nafnið. Rokrass væri sjálfsagt önnur þýðing.

Undanfarið hefur borgin staðið undir nafni. Eins og venjan er í ágústmánuði þá hefur hvesst hressilega hér undanfarið. Stundum er varla hægt að sjá fjöllin umhverfis borgina fyrir mistri. Ekki mengunarmistri eins og á ólympíuleikunum í Pekíngborg heldur mistur vegna moldroks.

Aðfaranótt laugardags var nokkuð hvasst. Svo um morguninn ætlum við Rúnar Atli að skjótast í verslunarferð, en rekum í rogastans, því innkeyrslan að húsinu var þakin múrsteinum og ófær sætum svörtum Gullubíl. Við nánari skoðun þá hafði múrsteinshlaðinn veggur milli okkar og nágrannans hreinlega fokið um koll og stráðust múrsteinar yfir innkeyrsluna. Kom í ljós að það sem eftir stóð af veggnum hékk saman á einhverjum minningum af steypu.

Synir nágrannans mættu á svæðið og hjálpumst við að og hreinsuðum innkeyrsluna. Sá svarti sæti komst því í gegn.

Til allar lukku fauk veggurinn um koll þegar enginn var á ferð, því ekki hefði verið gæfulegt að vera á vappi þarna þegar þetta gerðist.

En, enginn tók eftir þegar þetta gerðist. Ekki einu sinni líf- og öryggisverðir ráðherra öryggismála í landinu, en nágranni okkar er einmitt téður ráðherra.

10. ágúst 2008

„Bak við lokuð gluggatjöld...“

...sungu Brimkló hér um árið.

En erfitt hefur verið fyrir okkur Gullu að gera eitthvað bak við lokuð gluggatjöld, a.m.k. í sjónvarpsherberginu, en þar hefur verið gluggatjaldalaust.

Kallast þetta ekki minímalísmi á einhverri bóhemmáli?

Held það.

En reyndar er nú mjög erfitt fyrir utanaðkomandi að sjá inn um þá glugga sem um ræðir. Þarf einhverjar fínar sjónaukagræjur fyrir þann sem áhuga hefur að sjá okkur fyrir framan sjónvarpið.

En gallinn hefur verið að á sumum tímum dags er gersamlega ómögulegt að horfa á sjónvarpið því birtan veldur því að allt speglast í sjónvarpsskjánum. Í dag var okkur nóg boðið og stukkum í áklæði og gluggatjöld þeirra Namibíumanna. Áklæðastræti heitir verslunin sú, hvorki meira né minna. Ég dró síðan fram höggborvélina og steinbor og setti upp þessar fínu gluggatjaldastangir á meðan Gulla setti gardínuhringi á nýju gluggatjöldin.

Niðurstaða okkar er að minímalísminn sökkar stórt, því gluggatjöldin gjörbreyttu ásýnd sjónvarpsherbergisins. Miklu heimilislegra og meira kósí en áður.

Kannski okkur Gullu líði svo vel þarna núna að ástæða verði til að draga tjöld fyrir glugga...

Hver veit?

7. ágúst 2008

Andsk... Svíar

Á morgun er merkisdagur. Svarti Dæinn hennar Gullu verður eins árs. Og það á föstudegi. Hún Gulla sér ekki sólina fyrir kagganum sínum og því kemur svolítið á óvart sú sjón sem mætir manni þegar sest er inn í gripinn:


...og af hverju er þetta svona?

Jú, andsk. Svíarnir sem voru hérna fyrir nokkru. Þeir ganga um eins og svín.

5. ágúst 2008

Fótbolti

Rúnar Atli fór á sína fyrstu fótboltaæfingu í gær. Þýskur klúbbur sem heitir SKW - Sport Klub Windhoek. Gulla fór með hann, en sonur vinahjóna okkar æfir þarna og ákváðum við að prófa. Drengurinn skemmti sér vel framan af æfingu, var að rekja bolta og hlaupa og eitthvað skemmtilegt. Síðan var spilaður leikur og þá tapaði hann víst alveg áttum og vissi varla hvað var að gerast.

„Ég ætla næst í fótbolta þegar ég verð stærri,“ tilkynnti hann mér og ekkert nema gott um það að segja.

Nú er bara að kaupa bolta, mark og fleiri græjur og fara að þjálfa drenginn.

4. ágúst 2008

Skera um...

Fékk fundarboð í pósti í dag. Ég skal ekki neita að ég las heiti fundarins tvisvar eða þrisvar:

Umskurður karlmanna: stöðugreining...

og hverjir mæta á fundinn:

hagsmunaaðilar um umskurð karla...

Háalvarlegt mál reyndar í landi þar sem eyðni er í hæstu hæðum, en ég neita ekki að hafa brosað út í annað.

Á ekki von á að mæta á fundinn.

3. ágúst 2008

Nú tókst það

Þá tókst okkur að komast í bíó að sjá kúngfú pönduna. Nú var bíósalurinn eins og maður kannast við hann hér í Windhoek, svona kannski 20 manns í salnum.

Myndin var nú ekkert sérstök að mínu viti. Rúnar Atli hélst ekki límdur yfir þessari myndinni. Ég fór síðan að velta fyrir mér hvaða skilaboð þessi mynd gefur krökkunum. Jú, nefnilega að það er ekkert vit í því að æfa sig og æfa til að ná árangri, heldur bara að mæta á staðinn án undirbúnings og þú rúllar bara öllum upp.

Hmm, hvað skyldu sundþjálfarar segja um svona visku?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...