17. ágúst 2008

Ólympíuleikarnir

Við höfum eytt meiri og meiri tíma í að horfa á ólympíuleikana. Hér eru líklega sjö sjónvarpsrásir sem sýna efni frá leikunum allan sólarhringinn. Meira að segja verður sýndur í nótt leikur Íslands og Egyptalands í beinni útsendingu.

Ég hef dottið inn í tvær íþróttagreinar sem ég alla jafna fylgist ekkert með. Annars vegar bogfimi, og hins vegar borðtennis. Reglur í bogfimi er mjög auðvelt að skilja og sumar viðureignir eru mjög spennandi. Verður að viðurkennast að ekki eru allir keppendur íþróttamannslega vaxnir, en það virðist skipta litlu máli. Taugarnar virðast vera aðalmálið.

En ég hef nú meira gaman að borðtennis. Núna er ég að horfa á úrslitaleik í liðakeppni kvenna. Kína gegn Singapúr. Kínverjar ættu að vinna, enda hafa þeir verið yfirburðaland í þessari íþrótt síðan, ja, síðan hún var fyrst spiluð. Kannski ekki nema von. Þjóðaríþrótt landsins. Í liðinu keppa þrjár konur. Þrjár. Skv. upplýsingabók bandarísku leyniþjónustunnar voru íbúar Kína í júlí sl. einn milljarður þrjú hundruð og þrjátíu milljónir fjörutíu og fjögur þúsund sex hundruð og fimm. Aðeins. Af þeim eru 645 milljónir 793 þúsund og áttatíu og tvær konur. Af þeim komast þrjár í landsliðið í borðtennis.

Kannski ekki skrýtið að þær séu þokkalega góðar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...